fbpx
Mánudagur 18.janúar 2021
Fréttir

Helgi Hrafn ræðir dauðarefsingar vegna orða Helga í Góu

Jón Þór Stefánsson
Þriðjudaginn 19. maí 2020 19:17

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Helgi Hrafn Gunnarsson, þingmaður Pírata, birti í kvöld færslu á Facebook-síðu sinni þar sem hann ræðir dauðarefsingar. Helgi Hrafn tengir færslu sína við mál Gunnars Rúnars sem myrti Hannes Þór Helgason árið 2010 og viðtal við föður fórnarlambsins, Helga Vilhjálmsson (Helgi í Góu) á Stöð 2 frá því í gærkvöldi.

Sjá nánar: Helgi í Góu með skýr skilaboð til Gunnars Rúnars:„Reyndu bara að koma þér eitthvað í burtu“

Í viðtalinu í gær sagðist Helgi í Góu vera hlynntur dauðarefsingum og að refsingin sem að Gunnar Rúnar hafi fengið hafi verið óréttlát og skrýtin, en hann afplánar nú dóm sinn utan fangelsis. Helgi Hrafn segir.

„Enginn sem ekki hefur misst barn getur ímyndað sér missinn sem Helgi Vilhjálmsson hefur þurft að þola, og enginn á þann sársauka skilið sem hann og fjölskylda hans hafa gengið í gegnum. Ég ætla ekki að þykjast hafa lágmarksskilning á honum eða hvernig mér liði í þeirra sporum.

En ég hef hins vegar rúmlega smávægilegt vit á refsinga- og fangelsismálum. Dauðarefsing er ekki lausnin. Þegar Gunnar myrti fórnarlamb sitt hafði hann bersýnilega ekki í huga að lenda í fangelsi fyrir það og engin ástæða er til að ætla að dauðarefsing hefði fælt hann eitthvað meira frá því. Enn fremur styðja gögn ekki það að dauðarefsing virki til að koma í veg fyrir glæpi. Enda kemur í ljós að hún snýst ekki um það, um leið og fólk fer að ræða hugmyndina af alvöru, heldur snýst hún um að fullnægja hefnd. Fólk vill trúa því að bara ef fangelsismálakerfið hefði verið öðruvísi eða bara ef refsingin hefði verið nógu þung, að þá hefði þetta ekki gerst. En það er mjög áberandi skortur á gögnum til að styðja þá sýn.“

„Ekkert foreldri á að þurfa að einu sinni hugsa þá hugsun til enda“

Helgi segir að dauðarefsing feli í sér gríðarlega galla, til að mynda komi það oft í ljós að fólk sem dæmt hefur verið til dauða hafi verið saklaust. Hann segir einnig að vist á dauðadeild sé jafnvel ómannúðlegasti hluti refsingarinnar.

„Það er líka auðvelt að ímynda sér dauðarefsingu þar sem fólk telur sig algerlega visst um hver morðinginn hafi verið og hvernig morðið hafi átt sér stað og hvers vegna. Í Bandaríkjunum gerist það hinvegar reglulega að fangar sem hafa setið á „dauðadeild“ árum saman séu látnir lausir í ljósi nýrra upplýsinga sem ekki voru til staðar þegar þeir fóru fyrir dóm. Þá hafa þeir setið saklausir í búri með þá vitneskju eina um framtíðina að það sé lögformlegt ferli í gangi til að enda líf þeirra. Hvernig skyldi foreldrum þeirra fórnarlamba líða, ýmist á þeim tíma eða að honum loknum? Þá er ekki vitfirrtur morðingi úti í bæ að myrða barnið manns, heldur samfélagið sem maður býr í. Ekkert foreldri á að þurfa að einu sinni hugsa þá hugsun til enda, hvað þá upplifa hana.

Af þessum ástæðum þarf að hýsa dauðadæmda fanga óralengi á svokölluðum „dauðadeildum“, því að allt í kringum þær þarf að vera skothelt – sem það verður síðan aldrei. Sá hluti refsingarinnar hinsvegar, vist á dauðadeild, er að mínu mati sjálf ómannúðleg; vel hugsanlega verri en aftakan sjálf. Hvet fólk til að velta því aðeins fyrir sér hvernig sé að sitja í búri vitandi að sín bíði ekkert nema dauðinn. Síðan má ímynda sér að maður sé saklaus – sem gerist reglulega og engin leið er að fyrirbyggja með öllu. Af einmitt þeirri ástæðu er þessi ómannúðlegi hluti refsingarinnar óaðskiljanlegur hluti dauðarefsingar.“

„Vilja jafnan hafa hana ómannúðlega vegna hryllingsins“

Hann spyr einnig hvernig hægt sé að taka manneskju af lífi á mannúðlegan hátt. Helgi bendir á að gjarnan vilji stuðningsmenn refsingarinnar að aftakan sjálf sé ómannúðleg.

„Þetta er fyrir utan vandamálið við hvernig eigi að taka manneskju af lífi mannúðlega yfirhöfuð. Um það hefur nokkuð verið fjallað, en til að gera langa sögu stutta kemur í ljós að það er vægast sagt erfitt, en jafnframt verður fyrst fyrir alvöru skýrt það sem áður var nefnt, að ef við viljum dauðarefsingu yfirhöfuð, þá fylgir að mannúðin mætir afgangi. Stuðningsmenn dauðarefsingar vilja jafnan hafa hana ómannúðlega vegna hryllingsins í glæpnum sem var framinn. Og skyldi engan undra, en það er nákvæmlega punkturinn.“

Helgi segir að með dauðarefsingu missi annað foreldri líka barnið sitt, nema þá af höndum samfélagsins. Hann lokar færslunni á því að segjast ekki getað ímyndað sér hvernig það sé að missa ástvin sem fellur af hendi annarrar manneskju og vottar öllum þeim sem lenda í slíku samúð sína.

„Og þar stendur hnífurinn í kúnni. Það er ekki hægt að framkvæma dauðarefsingu mannúðlega. Það er ekki heldur hægt að framkvæma hana einungis á þeim sem eru sekir, því af og til munu saklausir einstaklingar vera dæmdir, og þá er ekki hægt að hleypa þeim út og reyna að bæta þeim tjónið með neinum hætti. Og þá hefur annað foreldri misst barn sitt af ástæðulausu, en ekki af höndum fársjúks einstaklings eða illmennis sem er þó hægt að hata, heldur af hendi samfélagsins sem foreldrið sjálft er hluti af. Í siðmenntuðu samfélagi á sú staða að vera óhugsandi, og er sem betur fer að mestu.

Að því sögðu votta ég öllum samúð mína sem misst hafa ástvin af hendi annarrar manneskju. Ég get ekki einu sinni byrjað á því að ímynda mér það sem þau hafa gengið í gegnum.

En ég veit að manneskjur eiga ekki að drepa hvorar aðrar.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Lögregla heimsótti spjaldtölvuþjóf

Lögregla heimsótti spjaldtölvuþjóf
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Pappakassar fullir af ógreindum leghálssýnum í Hamraborg

Pappakassar fullir af ógreindum leghálssýnum í Hamraborg