„Almennt á að gefa mönnum nýtt tækifæri eftir afplánun dóma,” segir Helgi Gunnlaugsson, afbrotafræðingur og prófessor í félagsfræði við Háskóla Íslands. „Eðli brotanna og mannanna sjálfra hefur þó alltaf einhver áhrif á hvað þeir geta tekið sér fyrir hendur. Mat á því hverju sinni liggur hjá þeim sem ráða í störf og borgurunum sjálfum. Útskúfun er ekki farsæl,” segir Helgi.
DV greindi frá því í dag að Guðmundur Jónsson, fyrrverandi forstöðumaður Byrgisins, hafi verið metinn hæfastur umsækjenda af sveitarstjórn Grímsnes- og Grafningshrepps um stöðu rekstraraðila tjaldsvæðis á Borg í Grímsnesi. Sveitastjóri neitaði að svara því til hvað Guðmundur hefði haft framyfir aðra umsækjendur með orðunum: „Það skiptir bara engu máli, þetta var niðurstaða sveitarfélagsins.“
Í auglýsingu nú í febrúar var m.a. tekið fram að rekstraraðilinn þyrfti að hafa reynslu af rekstri, vera reglusamur og vera í skilum með opinber gjöld. Guðmundur var þá endurráðinn en hann tók upphaflega við stöðunni árið 2017. Byrgismálið svokallaða vakti mikla athygli á sínum tíma og var Guðmundur dæmdur fyrir kynferðisbrot. Hann var þá ennfremur dæmdur fyrir fjárdrátt, skattalaga- og bókhaldsbrot.
Helgi getur ekki tjáð sig um þetta einstaka mál en segir mikla hættu á því fyrir marga brotamenn að þeir fái ekki tækifæri til að verða nýtir borgarar þegar þeir snúa til baka úr fangelsi í samfélagið. „Því miður,” segir Helgi og spyr: „Hvar eiga óhreinu börnin hennar Evu að vera? Og hvar lifa og starfa og vera nýtir borgarar án þess að vera byrði á skattborgurunum?” Þá segir hann fjölmörg dæmi um einstaklinga sem hafa snúið aftur út í samfélagið sem nýtir borgarar eftir langa fangelsisvist fyrir jafnvel alvarleg brot. „Að því eigum við hiklaust að stefna,” segir hann.
Í samtali við DV sem kom út í dag segir Guðmundur að bakgrunnur hans fæli fólk alls ekki frá tjaldsvæðinu. „Yfirleitt er þetta fólk sem hingað kemur í eldri kantinum. Ekki ungar stúlkur sem þyrftu að óttast það að ég myndi ráðast á þær. Enda nauðgaði ég engum konum.”