Miðvikudagur 26.febrúar 2020
Fréttir

Hjörtur Smári: Ferð þú á mis við 180 þúsund krónur á ári? Svona gætirðu eignast 45 milljónir við starfslok

Ritstjórn DV
Miðvikudaginn 21. ágúst 2019 14:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Rúmlega helmingur launþega á Íslandi greiðir mánaðarlega í viðbótarlífeyrissparnað. Hinn helmingurinn fer á mis við 2% launahækkun frá vinnuveitanda í formi mótframlags. Það eru næstum því 15.000 kr. í hverjum mánuði eða 180.000 kr. á ári sé miðað við meðaltal heildarlauna samkvæmt nýlegum upplýsingum frá Hagstofu Íslands, það munar um minna.“

Þetta segir Hjörtur Smári Vestfjörð, sérfræðingur í eignastýringu hjá Arion banka, í athyglisverðri grein í ViðskiptaMogganum í dag. Þar skrifar Hjörtur um viðbótarlífeyrissparnað og ýmsa kosti þess að nýta sér hann.

Hjörtur segir að þeir sem fara á mis við viðbótarlífeyrissparnaðinn fari líklega einnig á mis við hagkvæmasta möguleikann sem þeim býðst í fjármögnun á húsnæði hérlendis. Bendir hann á að bæði megi nýta viðbótarlífeyrissparnaðinn sem útborgun við kaup á húsnæði og til að greiða niður fasteignalán hraðar og auk þess skattfrjálst.

Hjörtur segir:

„Tökum dæmi um tvo aðila, A og B, sem tóku báðir 20 milljóna króna óverðtryggt húsnæðislán með jöfnum afborgunum í júní 2014 til 40 ára, á 6% föstum vöxtum út lánstímann. Aðili A ákvað að greiða í viðbótarlífeyrissparnað og nýta hann til að greiða inn á höfuðstól lánsins í hverjum mánuði síðustu 5 ár. Á hinn bóginn ákvað Aðili B að greiða ekki í viðbótarlífeyrissparnað. Á þessu 5 ára tímabili hefur aðili A greitt 2,5 milljónir skattfrjálst inn á höfuðstól lánsins sem stendur nú í rétt rúmum 15 milljónum. Lánið hjá aðila B stendur hinsvegar í 17,5 milljónum. Ef aðili A myndi hætta að greiða inn á lánið á þessum tímapunkti, myndi aðili B samt koma til með að greiða tæpum 3 milljónum meira en aðili A í vexti yfir lánstímann. Ef aðili A gæti hinsvegar haldið áfram sama fyrirkomulagi út lánstímann myndi hann greiða rúmum 10 milljónum minna í vaxtagreiðslur en aðili B.“

Mikilvægt að staðfesta þátttöku

Hjörtur bendir einnig á að stjórnvöld hafi ákveðið að framlengja heimildir einstaklinga til að nýta viðbótarlífeyrissparnað skattfrjálst inn á lán um tvö ár, eða til og með 30. júní 2021. Þeir sem hafa ekki nýtt sér þessa leið geta því enn gert það og notið góðs af ávinningnum. Einfalt er að skrá sig en það er gert á vefnum leidretting.is.

„Sé áframhaldandi þátttaka staðfest fyrir 30. september 2019 verður uppsöfnuð inneign frá 30. júní 2019 greidd inn á lán viðkomandi. Eftir 30. september nk. virkjast ráðstöfunin einungis aftur frá þeim mánuði sem umsókn berst og uppsöfnuð inneign því ekki greidd inn á lán viðkomandi. Það er því mikilvægt að staðfesta áframhaldandi þátttöku sem fyrst. Athugið að þau sem nýta sér úrræði vegna fyrstu íbúðar þurfa ekki að aðhafast neitt vegna þessa.

Gætir átt 45 milljónir við starfslok

Hjörtur segir að það séu þó ekki allir sem kjósa að nýta viðbótarlífeyrissparnað til að fjármagna húsnæði. Bendir hann á að við starfslok lækki ráðstöfunartekjur almennt og því geti viðbótarlífeyrissparnaður verið hagkvæm leið til að brúa bilið, enda þarf ekki að greiða fjármagnstekjuskatt af ávöxtun né tekjuskattur við innborgun.

„Þrjátíu ára einstaklingur með 721.000 kr. í mánaðarlaun út 40 ára starfsævi (meðtal heildarlauna skv. Hagstofu Íslands) gæti hugsanlega átt um 45 milljónir við starfslok. Eigið framlag viðkomandi væri aðeins um 14 milljónir en ávöxtun og framlag vinnuveitanda væri um 30 milljónir sé t.d. miðað við 3,5% ávöxtun. Viðbótarlífeyrissparnaður er laus til útgreiðslu við 60 ára aldur eftir hentisemi hvers og eins og erfist að fullu ef viðkomandi fellur frá. Það má því einnig líta á sparnaðinn sem einskonar líftryggingu fyrir aðstandendur.“

Hjörtur endar grein sína á þeim orðum að margir kostir séu við viðbótarlífeyrissparnað, en því miður njóti aðeins um helmingur launþega þeirra.

„Þau sem lesa þessa grein eru hvött til að skoða hvort viðbótarlífeyrissparnaður henti sér og sínum, hvort heldur sem markmiðið er að safna í sjóð til að eiga við starfslok eða til fjármögnunar á húsnæði, nú eða hvort tveggja. Á vef RSK eru nánari upplýsingar um þau úrræði sem standa til boða og á vef helstu fjármálastofnana er hægt að setja sínar forsendur í reiknivél viðbótarlífeyrissparnaðar.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af

Fréttir
Í gær

Vilt þú verða borgarritari? Sjáðu hverjar hæfniskröfurnar eru

Vilt þú verða borgarritari? Sjáðu hverjar hæfniskröfurnar eru
Fréttir
Í gær

Eymundur hefur fylgt nokkrum til grafar: „Félagsfælni er dauðans alvara og ekkert til að leika sér með“

Eymundur hefur fylgt nokkrum til grafar: „Félagsfælni er dauðans alvara og ekkert til að leika sér með“