fbpx
Mánudagur 21.september 2020
Fréttir

Guðmundur Ingi kominn með ökklaband – Gagnrýnir fjölmiðla fyrir umfjöllun um afplánun utan fangelsis

Ágúst Borgþór Sverrisson
Fimmtudaginn 15. ágúst 2019 08:46

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Guðmundur Ingi Þóroddsson, formaður Afstöðu, félags fanga og annarra áhugamanna um bætt fangelsismál og betrun, greinir frá því að í fyrsta skipti í langan tíma hafi hann fengið að sofa nótt í eigin rúmi. Guðmundur Ingi hefur í nokkurn tíma afplánað hluta af fangelsisdómi sínum utan fangelsis og hefur búið á áfangaheimili Verndar við Laugateig. Í fyrra opnaði hann veitingastað og sportbar í Árbænum og rekur þessa staði með miklum myndarskap.

Guðmundur hefur hlotið mjög þunga dóma fyrir fíkniefnabrot og hefur setið 14 ár í fangelsi. Hann fer yfir breytingar á lögum um fullnustu refsinga í löngum pistli á Facebook. Skrif Guðmundar birtast gjarnan í Fréttablaðinu og má vera að þessi grein rati þangað. Í upphafi hennar skrifar Guðmundur:

„Fyrir fáeinum dögum fékk ég að sofa yfir nótt í mínu eigin rúmi. Það er auðvitað eitthvað sem flestir taka sem sjálfsögðum hlut en fyrir þá sem farið hafa í gegnum fangelsiskerfið getur það markað stórkostleg tímamót. Hvað mig varðar er það ómetanlegt að geta loksins á ný vaknað í eigin rúmi.

En þrátt fyrir að vera kominn heim er ekki þar með sagt að afplánun minni sé lokið. Ég þarf að lúta ströngum skilyrðum Fangelsismálastofnunar til þess að fá halda bandinu um ökklann næstu tólf mánuði. Takist það ekki er mér vísað á ný í fangaklefa.“

Guðmundur fer síðan yfir þrepaskiptingu afplánunar, en það felur í sér að eftir nokkurn tíma fá fangar dagsleyfi, næsta skref er búseta á áfangaheimili og frelsi til að vinna og vera á ferli utan þess á daginn og loks búseta á eigin heimili undir eftirliti og með ökklaband:

„Með breytingum sem urðu á lögum um fullnustu refsinga fyrir nokkrum árum var þrepaskiptingu afplánunar í þessari mynd komið á. Eftir að hafa afplánað í fangaklefa tekur við opið fangelsi, vinna fyrir utan fangelsi, áfangaheimili og að lokum rafrænt eftirlit. Svo framarlega sem öll skilyrði eru uppfyllt. Þetta kerfi er það sem kemst næst betrun í íslensku fangelsiskerfi, gulrótin er til staðar fyrir fanga og eftirsóknarvert að komast á næsta skref.

Guðmundur gagnrýnir fjölmiðla fyrir umfjöllun undanfarið um þessa þrepaskiptingu afplánunar og segir þá umfjöllun hafa verið neikvæða:

„Fjölmiðlar hafa að undanförnu fjallað um þessa þrepaskiptingu afplánunar og því miður á frekar neikvæðan hátt. Reynsla nágrannaþjóða okkar er sú að kerfi sem þetta lækkar endurkomutíðni og skilar betri mönnum út í samfélagið á ný, eftir að þeir taka út sína refsingu. Eðlilega getur verið sárt fyrir fjölskyldur brotaþola að sjá gerendur á stjá en þetta er engu að síður besta leiðin til þess að fækka glæpum, samfélaginu til heilla. Aðlögun út í samfélagið er af hinu góða og kannski það besta er að það fækkar brotaþolendum, sem hlýtur að vera markmiðið með þessu öllu.

Þess má geta að Afstaða hefur kært DV fyrir umfjöllun miðilsins um Gunnar Rúnar Sigurþórsson, sem býr núna á Vernd, til Siðanefndar blaðamanna, og telur félagið að DV hafi brotið gegn friðhelgi einkalífs Gunnars Rúnars með umfjölluninni. Fréttirnar voru í sjálfu sér ekki gagnrýni en margir lesendur hafa gagnrýnt að menn sem orðið hafa öðrum að bana njóti afplánunarúrræða utan fangelsis auk þess sem fjölskyldu Hannesar Helgasonar sem Gunnar Rúnar varð að bana er misboðið og margir lesendur hafa gagnrýnt hvað Gunnar Rúnar hefur fengið að koma snemma út í samfélagið. Vitað er um dagleyfi honum til handa allt frá árinu 2017 en morðið var framið árið 2010. – Þess má einnig geta að Guðmundur sjálfur hefur aldrei verið dæmdur fyrir ofbeldisglæpi og ekki er vitað til að afplánunarúrræði honum til handa hafi nokkurn tíma verið gagnrýnd.

Þrátt fyrir þessi afplánunarúrræði er Guðmundur ekki sáttur við fangelsiskerfið, enda hefur hann til dæmis ekki fengið leyfi til að stunda nám utan fangelsis:

„Ég get aftur á móti ekki eingöngu verið jákvæður í garð kerfisins. Þannig er það með hreinum ólíkindum að þetta séu fyrstu næturnar heima hjá mér og sýnir svart á hvítu að ákvæði um fjölskylduleyfi voru sett inn í lögin til málamynda. Til þess að öðlast fjölskylduleyfi, þ.e. vera utan fangelsis yfir í 48 klukkustundir, þarf viðkomandi fangi að hafa afplánað í sex ár í fangelsi. Eftir þennan tíma er langt í frá sjálfgefið að nokkur fjölskylda sé til staðar, hvað þá maki. Ég er í þetta skiptið búinn með 7 ár og fékk aldrei fjölskylduleyfi. Ég fékk heldur ekki leyfi til að stunda nám fyrir utan fangelsið á sínum tíma og því náði ég ekki öllum þeim markmiðum sem ég setti mér þó að ég hafi vissulega náð einhverjum þeirra. Allir vita að lyklarnir að betrun eru; menntun og styrking fjölskyldubanda.

Í lok greinar sinnar hvetur Guðmundur löggjafarvaldið til að taka fangelsismál til endurskoðunar:

„Á þessum tímapunkti er mér efst í huga hvatning til þeirra sem fara með löggjafavaldið, að þau taki fangelsismál til gagngerrar endurskoðunar, veiti almennilegu fjármagni í málaflokkinn og horfi til Noregs þegar kemur að betrunarstefnu. Þetta er allt til og við þurfum ekki að finna upp hjólið og þurfum heldur ekki að vera feimin að óska eftir aðstoð þegar við erum bara ekki að ráða við þetta sjálf. Tími fræðslu og betrunar hér á landi hlýtur að renna upp en til þess þurfum við yfirvald sem hefur virkilegan áhuga á þessum málaflokki. Ég trúi að það munu gerast en látum það ekki dragast mikið lengur.

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Í vikunni

Fréttir
Í gær

Siggi missti móður sína í sumar – „Ég öskraði og vissi ekki hvað ég átti við mig að gera“

Siggi missti móður sína í sumar – „Ég öskraði og vissi ekki hvað ég átti við mig að gera“
Fréttir
Í gær

76 manns smituðust í gær – Lang stærsti dagurinn til þessa

76 manns smituðust í gær – Lang stærsti dagurinn til þessa
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Ákæra gefin út vegna brunans á Bræðraborgarstíg

Ákæra gefin út vegna brunans á Bræðraborgarstíg
Fréttir
Fyrir 2 dögum

21 smit í gær, þar af aðeins 7 í sóttkví – 2 eru nú á sjúkrahúsi

21 smit í gær, þar af aðeins 7 í sóttkví – 2 eru nú á sjúkrahúsi
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Alvarlegt spennuslys í Önundarfirði – Maður á leið til Reykjavíkur með sjúkraflugi

Alvarlegt spennuslys í Önundarfirði – Maður á leið til Reykjavíkur með sjúkraflugi
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Kýldi og hótaði eiginkonu sinni ítrekað og fékk skilorð – „Einlæg iðrun“ metin til refsilækkunar

Kýldi og hótaði eiginkonu sinni ítrekað og fékk skilorð – „Einlæg iðrun“ metin til refsilækkunar