fbpx
Laugardagur 20.apríl 2024
Fréttir

Nýstofnaður Málfrelsissjóður hluti af stærri byltingu: „Versti óvinur þolenda er þögnin“

Aníta Estíva Harðardóttir
Mánudaginn 8. júlí 2019 18:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Á dögunum stofnuðu þær Anna Lotta Michaelsdóttir, Elísabet Ýr Atladóttir, Helga Þórey Jónsdóttir og Sóley Tómasdóttir málfrelsissjóð með það að markmiði að geta staðið við bakið á þeim konum sem dæmdar verða fyrir ærumeiðingar vegna baráttu sinnar gegn kynbundnu ofbeldi. Tímasetning sjóðsins er ekki handahófskennd og stofnuðu þær hann í kjölfar dóms sem Hildur Lilliendahl Viggósdóttir og Oddný Arnardóttir hlutu vegna ummæla sem þær létu falla um tvo menn í Hlíðamálinu.

Augljóst að verið er að þagga niður í þolendum

Blaðakona hafði samband við þær Önnu, Elísabetu og Sóleyju og ræddi við þær um ástæðu sjóðsins, baráttu þeirra í femínískum málefnum, þöggun þolenda og aktívista og hvaða breytingu þær vilja sjá í samfélaginu.

Anna Lotta Michaelsdóttir / Mynd: Aðsend

„Mér misbauð og misbýður enn svo hrapallega hvernig þessi dómur fór. Maður hefur bæði fylgst með þessu lengi og alist upp sem kona á þessu landi, vaxað hér og þroskast. Maður hefur alveg séð hversu lítið vægi við erum að fá og ef það er dæmt í ofbeldismálum, sem er aðeins gert í brotabroti af málum, þá er það yfirleitt skilorðsbundið eða fangelsi í einhverja örfáa mánuði og svo að borga einhverja örfáa þúsundkalla. Þetta er svo rosalega stórt dæmi og svo fordæmisgefandi.

Ég túlka þetta þannig að ég megi ekki tjá mig og tek því sem algjörri þöggun. Það gefur augaleið að verið er að þagga niður í þolendum og tók ég þessu tvímælalaust þannig af því að hingað til hefur ekki verið svona borðleggjandi fordæmi fyrir því að réttarkerfið ætlaði að refsa einhverjum fyrir það eitt að trúa því sem fram kemur. Og í þessu máli er ekki einu sinni verið að reyna á það að trúa því sem fram kemur þegar einhver sakar einhvern annan um ofbeldi á netinu heldur bókstaflega bannað að hafa það eftir fréttaflutningi um atvikið. Hvernig er hægt að túlka það öðruvísi en þöggun? Hvar má maður þá tala um þetta? Ef það er einungis á bak við lokaðar dyr við sína allra nánustu og yfirvaldið má aldrei heyra þig tala um þetta þá fáum við ekki neinu breytt. Þetta er eina almennilega andsvarið við því sem gerðist,“ segir Anna Lotta, aðspurð um ástæðu þess að hún ákvað að taka málefnið að sér.

Kom ekki annað til greina en að taka skýra afstöðu

Elísabet Ýr tekur undir orð Önnu og segir hún að á meðan konur megi ekki tala um það ofbeldi sem þær séu beittar þá sé það eitt mikilvægasta málefnið til þess að tækla.

Elísabet Ýr Atladóttir / Mynd: Aðsend

„Málefni þolenda eru ein stærsta hagsmuna- og réttindabarátta kvenna. Fyrir mér segir það sig sjálft að svo lengi sem konur hafa ekki frelsi til þess að lifa án ofbeldis og fá ekki einu sinni að tala um ofbeldið sem þær eru beittar, þá hlýtur það að vera eitthvert mikilvægasta málefnið sem við þurfum að tækla. Svo lengi sem samfélagið telur það í lagi að beita konur ofbeldi, sama hvernig ofbeldið er afsakað eða „útskýrt“, þá eru konur ekki frjálsar. Dómarnir í málum Hildar og Oddnýjar staðfestu enn frekar hvað við erum í raun komin stutt þrátt fyrir allt. Það kom ekki annað til greina en að taka skýra afstöðu og gera eitthvað í málunum,“ segir Elísabet.

Sóley Tómasdóttir / Mynd: DV

„Eftir að dómarnir féllu gegn Hildi og Oddnýju þá spratt þessi hugmynd einu sinni sem oftar upp. Auðvitað eru konur og jaðarsett fólk orðið langþreytt á því að vera þaggað niður og að tilraunir fólks til þess að beita sér fyrir aukinni sanngirni í samfélaginu séu þaggaðar niður með öllum tilteknum ráðum. Núna undanfarið hefur það færst í aukana að réttarkerfinu sjálfu sé beitt sem kúgunartæki gegn fólki sem er að reyna að breyta. Það á ekki bara við um kynferðisofbeldi. Við sjáum þetta líka í máli Þórhildar Sunnu og Báru. Við sjáum þetta aftur og aftur. Þetta er kerfislæg aðför að fólki sem gagnrýnir kerfið. Við vildum stofna þennan sjóð þar sem það er nóg álag á konum sem eru að beita sér gegn kynbundnu ofbeldi í samfélaginu án þess að við bætist fjárhagsleg kúgun. Upphæðin sem konurnar þurfa að borga eru þannig að fæst fólk ræður við að borga þær. Við reynum því að taka þá pressu af konum að þær geti talað frjálsar án þess að eiga á hættu að þurfa að verða gjaldþrota,“ segir Sóley og augljóst er að konurnar eru allar komnar með nóg af þeirri þöggun sem þær telja þolendur verða fyrir.

Vilja að þolendur njóti sama málfrelsis og aðrir

Þær segja miklar breytingar þurfa að eiga sér stað og að málfrelsissjóðurinn sé aðeins hluti af stærri byltingu. Segist Elísabet vonast til þess að þolendur geti notið sama málfrelsis og aðrir svo að þær þurfi ekki að lifa lífi sínu í þögn vegna þeirra brota sem þær hafi lent í.

„ Að fólk hafi frelsi til að tala um ofbeldið sem það var beitt, og að almenningur allur hafi þann rétt að ræða þessi málefni án þess að eiga á hættu á að vera hótað málsóknum. Við vonumst til þess að æra gerenda hætti að teljast dýrmætari en málfrelsi þolenda. Það er margt rangt í núverandi kerfi en í stuttu máli er vandamál hvernig komið er fram við þolendur eins og vitni og vettvang glæps frekar en aðila að eigin málum. Þetta er eitthvað sem er verið að vinna markvisst að því að breyta. En eftir stendur að þöggunin gegn þolendum er sterk og fléttuð inn í réttarkerfi okkar og menningu. Við sem samfélag erum hrædd við það sem þolendur hafa að segja en það er kominn tími til þess að horfast í augu við það og gefa þeim orðið,“ segir hún.

Telur Sóley mikla vitundarvakningu þurfa að verða til þess að réttarkerfinu verði ekki beitt gegn þeim konum sem gagnrýna það.

„Þetta er eitt skref í áttina að því. Við mótmælum því að réttarkerfi sem var sett á fót fyrir forréttindakarla af forréttindakörlum viðhaldi sér. Samfélagið hefur breyst og réttarkerfið verður að taka mið af því. Það hefði auðvitað átt að gera það fyrir lifandis löngu síðan.“

Anna Lotta segist reyna að leggja sitt af mörkum fyrir stóru heildarmyndina og að hún sé að geta búið í samfélagi sem tekur alla þegna sína jafn alvarlega.

„Ef þú horfir á einn dag á Alþingi og ég er alls ekki að gera lítið úr þeim störfum, en þá sérðu alveg hversu hægt þetta gengur fyrir sig. Bara það að fá einni klausu í einum lagadálki breytt. Þetta kerfi er svo þunglamalegt og það er svo erfitt að komast eitthvað áfram til þess að fá hlutum breytt. Svo er hægt að rífast fram og til baka um orðalagið í hverri setningu fyrir sig þannig að það er ekkert skrítið að við getum ekki breytt meiru í einu en það er það sem ég vil sjá gerast. Þetta eru svo ótrúlega stórir hlutir sem við viljum sjá breytt,“ segir Anna.

Teljið þið að vísvitandi sé verið að þagga niður í konum/þolendum?

Elísabet: „Já. Hiklaust. Ekki bara er þetta þöggun gegn þolendum heldur er þetta líka ógnvænleg opinberun á því hvernig dómarar eru ekki jafn hlutlausir og fólk hefur haldið fram. Dómari dæmdi út frá skoðunum sínum og fordómum, mér þykir það skýrt. Hann tekur málfrelsi fólks og traðkar á því, en vandinn liggur ekki bara hjá honum. Hann fæðist inn í sömu menningu og við hin og því er dómurinn merki um stærra samfélagsvandamál.“

Anna Lotta: „Ég túlka þetta þannig að ég megi ekki tjá mig og ég tek því sem algjörri þöggun.“

Þegar mál eins og þessi koma upp segir Sóley framkvæmdagleði fólks virkjast og að það sé einmitt tilfellið hér.

„Vandamálið er þaggað með þessum hætti og versti óvinur þolenda er þögnin. Ef það væri ekkert mótlæti í lífinu þá væri ekki þörf fyrir okkur, þá værum við bara heima að baka. Þetta er eitt af þessum verkefnum sem verður að taka akkúrat þegar það er að gerast. Alls konar tilfinningar leysast úr læðingi sem eru kraftmiklar og verður að virkja.“

Þakklátar fyrir þann stuðning sem þeim er sýndur

Síðan málfrelsissjóðurinn var stofnaður hefur hann gengið vonum framar og segja þær allar mikinn samhljóm vera til staðar. Segist Sóley vona að pólitísku skilaboðin komist til síns heima um að ekki verði liðið að fjárhagslegu öryggi kvenna sé ógnað til viðbótar við allt annað í samfélagi sem sé gegnsýrt af nauðgunarmenningu.

„Við leggjum mikinn metnað í þetta og sama hvað þá er þetta bara fyrsta skrefið í byltingu,“ segir Elísabet Ýr og má greinilega finna baráttuvilja kvennanna.

Stefnt er að því að ná að safna 20.000 evrum, sem eru tæplega þrjár milljónir íslenskra króna. Nú þegar hafa um 90% af upphæðinni safnast og er því greinilegt að fólk telji málefnið mikilvægt. Söfnunin hófst þann 21. júní síðastliðinn og lýkur þann 21. júlí næstkomandi. Konurnar eru þakklátar fyrir þann stuðning sem þeim er sýndur og hvetja fólk til þess að leggja málefninu lið. Einnig hvetja þær fólk til þess að leita til þeirra óski það eftir stuðningi vegna einhvers sem það er að glíma við.

Sat í stjórn fyrsta málfrelsissjóðsins árið 1977 – Styður nýja sjóðinn

Blaðamaður hafði einnig samband við Silju Aðalsteinsdóttur sem er íslensku- og bókmenntafræðingur. Silja sat í stjórn fyrsta málfrelsissjóðs sem stofnaður var hérlendis árið 1977, sem varð til í kjölfar undirskriftasöfnunarinnar Varið land. Sjóðurinn var stofnaður til þess að standa straum af kostnaði vegna dóma sem upp komu vegna umræðu um stuðning landsmanna við veru varnarliðsins á Íslandi.

Silja Aðalsteinsdóttir / Mynd: Jóhann Páll Valdimarsson.

Blaðamaður forvitnaðist um það hvort sá málfrelsissjóður hafi borgað sig og hvað Silju sjálfri finnist um sjóðinn sem stofnaður var á dögunum.

Tókst ykkur ætlunarverk ykkar þegar þú varst í stjórn fyrsta málfrelsissjóðsins?

„Hann var náttúrlega stofnaður í ákveðnu skyni og við gátum borgað skuldir þessara manna sem voru dæmdir fyrir að tala illa um herinn. En öll smáatriði varðandi hann eru mér bara gleymd, hann borgaði sig þó í þeim tilgangi sem við stofnuðum hann. En þetta var afmarkað verkefni og ég man ekki til þess að við höfum fengið neina beiðni eftir að það mál var útkljáð en samt þori ég ekki að hengja mig upp á það.“

Hefur þú heyrt af nýja málfrelsissjóðnum sem hefur verið stofnaður?

„Jú, jú, ég er búin að leggja minn skerf fram alla vega.“

Hvað finnst þér um nýja málfrelsissjóðinn?

„Ég er mjög hlynnt honum. Mér finnst alveg hræðilegt að fólk fari á hausinn fyrir að segja meiningu sína.“

Ekki missa af nýjasta DV.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Stöð 2 lækkar verð
Fréttir
Í gær

Segist enga tengingu hafa við heimalandið en verður samt að sitja í fangelsi þar

Segist enga tengingu hafa við heimalandið en verður samt að sitja í fangelsi þar
Fréttir
Í gær

Kíghósti greinist hjá nokkrum ótengdum einstaklingum á höfuðborgarsvæðinu

Kíghósti greinist hjá nokkrum ótengdum einstaklingum á höfuðborgarsvæðinu