fbpx
Föstudagur 19.apríl 2024
Fréttir

Sólveig: Er þetta eðlileg staða á Íslandi? „Þvílíkur staður sem við erum stödd á“

Ritstjórn DV
Mánudaginn 11. mars 2019 12:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Það má segja að láglaunafólk á höfuðborgarsvæðinu sé fast á efnahagslegu hamfarasvæði,“ segir Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, á Facebook-síðu sinni.

Þar deilir hún frétt RÚV í gærkvöldi þar sem rætt var við Viðar Þorsteinsson, framkvæmdastjóra Eflingar, um stöðuna í kjaraviðræðum. Viðar sagði að Efling hefði slegið af kröfum sínum áður en slitnaði upp úr kjaraviðræðum en það sé vilji allra að landa samningi.

„Það vilja auðvitað allir hér landa samningi en hann þarf að vera boðlegur fyrir fólk og fólkið á lægstu launum hér, á okkar félagssvæði, verður að geta lifað af laununum sínum,“ sagði Viðar.

Ómögulegt að komast í eigið húsnæði

Sólveig bendir á nokkra hluti sem þarf að bæta úr og nefnir til dæmis stöðna á fasteignamarkaði.

„Launin eru svo lág að þegar skattar og gjöld hafa verið greidd standa kannski eftir 260-280.000 krónur á meðan að 65 fermetra, tveggja herbergja kjallaraíbúð, er til leigu á 180 þúsund krónur á mánuði. Aldrei hafa fleiri félagsmenn Eflingar verið á leigumarkaði sem þýðir að aldrei hafa fleiri félagsmenn Eflingar verið án þess möguleika að komast í eigið húsnæði, sama hvað unnið er mikið og lengi.“

Sólveig segir að á meðan efnahagslegar aðstæður séu svona í lífi fólks sé ógerlegt að leggja fyrir með það fyrir augum að kaupa húsnæði.

„Eignastéttinni hefur verið veittur aðgangur að lágtekjufólki og hefur fengið að fara sínu fram; hefur fengið að auðgast á kostnað hinna eignalausu. Og þegar fólk sýnir að það sættir sig ekki við þennan samfélagslega ósóma, sýnir að það er tilbúið til að berjast fyrir betri og réttlátari tilveru, þarf það að sitja undir ásökunum um að vilja valda hamförum. Þvílíkur staður sem við erum stödd á í þessu samfélagi,“ segir Sólveig.

Í viðtalinu í gærkvöldi var Viðari bent á að verkalýðsforystan hefði verið sökuð um að valda hamförum í ferðaþjónustunni. Spurður um viðbrögð við því, svaraði Viðar:

„Ég tel að það sé íslenska auðstéttin sem að hafi valdið hamförum í íslensku efnahagslífi á síðustu áratugum. Ég tel ekki að verkalýðshreyfingin beri ábyrgð á því. Ég held að líf fólks á lægstu launum sem hefur þurft að búa við óðaverðbólgu í langstærsta einstaka útgjaldalið heimilanna sem er húsnæðiskostnaður á síðustu árum hafi verið að upplifa hægfara hamfarir í sínu lífi, því miður. Ég held að áhrifin af þessum verkfallsaðgerðum séu dropi í hafið í samanburði við það.“

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 13 klukkutímum

Hvað má barnið heita? – Herkúles en ekki Boom

Hvað má barnið heita? – Herkúles en ekki Boom
Fréttir
Fyrir 13 klukkutímum

Stefnir í miklar úrbætur á stöðu leigjenda á Íslandi – Þetta eru helstu skyldurnar sem munu falla á herðar leigusala

Stefnir í miklar úrbætur á stöðu leigjenda á Íslandi – Þetta eru helstu skyldurnar sem munu falla á herðar leigusala