fbpx
Miðvikudagur 20.október 2021
Fréttir

Nærmynd af Þorsteini Má – Dýrasti hjónaskilnaður sögunnar – Skapið helsti veikleikinn – „Hann var gjörsamlega snældubrjálaður“

Ritstjórn DV
Miðvikudaginn 13. nóvember 2019 20:10

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Þorsteinn Már er ekki maður uppgjafar. Ef hann sér að hann gæti gert einhverja hluti sem koma þessu á réttan kjöl aftur verður hann þarna áfram.“ Svona lýsti Konráð Alfreðsson, fyrrverandi formaður Sjómannafélags Eyjafjarðar, Þorsteini Má Baldvinssyni, forstjóra Samherja, í grein í DV árið 2008 sem unnin var um Þorstein Má í tengslum við stjórnarformennsku sem hann sinnti í Glitni þegar að bankinn var þjóðnýttur.

Það ber flestum saman um það sem Þorstein Má þekkja að hann er ekki maður uppgjafar. Hann hugsar hratt og er fljótur að taka ákvarðanir. Hann er skapmaður sem veit nánast allt um sjávarútveginn, skipar sér ávallt á lista yfir tekjuhæstu Íslendingana og elskar að fylgjast með handbolta. Í ljósi nýútkominna ásakana á hendur Samherja um meintar mútugreiðslur og spillingu í Namibíu ákvað DV að stikla á stóru í lífshlaupi Þorsteins Más, sem öll spjót beinast að þessa dagana og næstu vikur.

Þorsteinn Már og Samherji á Akureyri.

Elti dómarann út á flugvöll

Þorsteinn Már, eða Mái eins og hann er kallaður í heimabæ sínum Akureyri, fæddist þann 7. október árið 1952 og er því vog. Hann fagnaði nýverið 67 ára afmæli sínu. Hann er sonur hjónanna Baldvins Þorvalds Þorsteinssonar, skipstjóra og hafnarvarðar á Akureyri, og Bjargar Finnbogadóttur húsmóður. Mái er Akureyringur í húð og hár og varð stúdent frá Menntaskólanum á Akureyri árið 1973. Því næst lá leiðin til höfuðstaðarins þar sem hann nældi sér í skipstjórnarréttindi frá Stýrimannaskólanum í Reykjavík árið 1974. Næsti áfangastaður og Mái útskrifaðist sem skipaverkfræðingur frá Norges Tekniske Högskole árið 1980.

Mái var ungur þegar að hafið kallaði. Hann var aðeins sex til sjö ára gamall þegar að hann fór fyrst á sjó með föður sínum, Baldvini. Sjómennskan þurfti hins vegar að lúta í lægra haldi fyrir skíðaiðkun sem Mái stundaði grimmt á yngri árum. Þótti hann mjög efnilegur og var altalað að hér væri á ferð drengur sem gæti náð langt í skíðaíþróttum. Hann hætti hins vegar að æfa skíði þegar hann komst til vits og ára því engin framtíð væri í skíðamennsku á Íslandi.

Þó hann hafi ekki verið talinn sterkur á velli þegar kom að handboltanum hefur hann unun að því að fylgjast með íþróttinni. Hann er það sem menn kalla „handboltabulla“ og hefur stutt dyggilega við bakið á sínu heimafélagi KA. Á KA-leikjum kemur mikla skap Máa bersýnilega í ljós og getur hann gjörsamlega misst stjórn á sér í hita leiksins. Ein frægasta sagan af slíku atviki var þegarh ann stökk úr stúkunni niður á gólf í íþróttahöllinni, um þrjá metra, til að tala við dómara í miðjum leik. Að sögn kunnugra elti Mái dómarann heim eftir leikinn, alla leið út á flugvöll, til að taka hann á beinið. Í seinni tíð hefur hann einnig tengst íþróttafélaginu Val böndum sökum þess að sonur hans, Baldvin, æfði með liðinu.

„Það eru allir reknir!“

Þeir sem þekkja Máa ber saman um að hann sé harður stjórnandi og samningamaður. Hann beygir sig samt sem áður ef rökin eru góð og þrjóskast ekki við ef hann er sannfærður um að hið gagnstæða sé betra. Mái er alltaf á ferðinni. Hann er sanngjarn en kröfuharður, bæði á sig og aðra. Helsti galli hans er skapofsinn og stuttur kveikiþráður. Margir viðmælanda DV kannast við þá hlið á honum. Fyrrnefndur Konráð Alfreðsson sagði eina sögu af Máa í DV fyrir nokkrum árum sem lýsir skapinu einna best.

„Þorsteinn vildi einu sinni að Akureyrin færi strax aftur út eftir að hún var búin að landa úr einum túrnum. Þá kom upp ágreiningur um hvort þetta væri löglegt samkvæmt túlkun á kjarasamningi, en þetta var í raun ólöglegt samkvæmt hljóðan samningsins. Ég var staddur uppi í brú skipsins ásamt áhöfninni, þar á meðal Þorsteini Vilhelmssyni skipstjóra. Þá kom Þorsteinn Már inn og sagði: „Það eru allir reknir!“ Hann var gjörsamlega snældubrjálaður. Það tók smá tíma að settla þetta en að lokum fengu allir plássið aftur nema einn. Honum leið betur með að láta ekki einn fá pláss. En hann fékk plássið nokkrum mánuðum seinna,“ sagði Konráð og hló.

Brúðkaupsveisla á Skalla

Mái kvæntist Helgu Steinunni Guðmundsdóttur, uppeldisráðgjafa og sérkennara, í apríl árið 1983. Helga Steinunn er ættuð frá Fáskrúðsfirði, uppalin á Eskifirði en býr nú í miðbæ Reykjavíkur. Þau eiga tvö börn saman; Kötlu sem fædd er árið 1982 og fyrrnefndan Baldvin sem er ári yngri. Brúðkaupsveislan var ekki sú rómantískasta, eins og Mái sagði frá í viðtali við DV árið 2003.

„Við bjuggum saman i Reykjavík og áttum saman íbúð en höfðum um hana kaupmála því við áttum ekki jafnstóran hlut í henni. Við veðsettum íbúðina fyrir þrefoldu verði hennar þegar við vorum að kaupa Samherja og það var svo mikið pappírsfargan með veðsetningarnar að við drifum okkur til borgarfógeta og giftum okkur til að einfalda málið. Á eftir fór ég með hana niður á Skalla í Lækjargötu og keypti handa henni einn ís. Svo keyrði ég hana heim en Kristján frændi hafði passað dóttur okkar á meðan. Við Kristján fórum síðan suður í Fjörð að vinna i togaranum.“

Á tuttugu ára brúðkaupsafmælinu var Helgu aftur boðið upp á ís.

„Ég er ekki góður í hátíðahöldum en mér fannst rétt að Helga Steinunn fengi is í tilefni dagsins. Ég splæsti Bragðaref á hana en það er vandaður ís í dýrari kantinum!“

Sagt frá skilnaði Máa og Helgu.

Dýrasti skilnaður sögunnar

Helga og Mái skildu árið 2007 og leitaði skilnaðurinn að sjálfsögðu á síður dagblaða og tímarita, þar á meðal á síður Séð og Heyrt þar sem talað var um dýrasta hjónaskilnað Íslandssögunnar. Í sömu umfjöllun var því haldið fram að skilnaðurinn hafi komið eins og þruma úr heiðskíru lofti fyrir alla Akureyringa. Eins og áður segir er Helga nú skráð til heimilis í miðbæ Reykjavíkur en Mái er skráður til heimilis að Barðtúni 7 á Akureyri. Um er að ræða rúmlega 370 fermetra einbýlishús sem Mái keypti af Höldur ehf., sem rekur Bílaleigu Akureyrar, árið 1997. Þá var fasteignamat eignarinnar tæplega 13,8 milljónir króna og var kaupverðið að fullu greitt. Mái á því húsið skuldlaust en fasteignamat næsta árs eru tæpar níutíu milljónir króna.

Efnilegasti frumkvöðull Íslands

Sama ár og Helga og Mái gengu í það heilaga eignaðist Mái Samherja hf. ásamt frændum sínum Þorsteini og Kristjáni Vilhelmssyni. Upphafið að þessu útgerðarveldi má rekja til þess að Mái sá ryðkláf liggja í höfninni í Hafnarfirði, toagarann Guðstein GK sem gerður hafði verið út frá Grindavík með lélegum árangri. Mái hugsaði sér gott til glóðarinnar og taldi tilvalið að breyta Guðsteini í frystitogara, enda hafði hann sérhæft sig í að frystivæða togara. Mái sannfærði Þorstein, sem þá var skipstjóri, og Kristján, sem þá var vélstjóri, að taka þátt í ævintýrinu og svo fór að þremenningarnir náðu samkomulagi við Landsbankann um að kaupa útgerðina og Samherji hf. varð til. Þorsteinn varð skipstjóri á togaranum, Kristján varð yfirvélstjóri og Mái sá um útgerðina í landi. Allt gekk þetta eins ogí sögu og árið 1985 keypti Samherji helming Hvaleyrar í Hafnarfirði, fyrirtæki sem stundaði alhliða fiskvinnslu og útgerð togarins Víðis.

Samherjafrændurnir.

Útgerðarævintýrið var hafið. Þremenningarnir græddu á tá og fingri og var samspil þeirra þriggja það sem öllu máli skipti. Mái stýrði búinu með harðri hendi og kynnti sér allt sem kynna mætti um sjávarútveg, ekki bara hér heima heldur um heiminn allan. Í dag er hann sagður þekkja flestöll stærri fiskiskip í smáatriðum, svo mikill er áhuginn. Þremenningarnir voru kallaðir sægreifar, Samherji „norðlenska spútnikfyrirtækið“ og Mái taldur „efnilegasti frumkvöðull Íslands.“ Árið 1999 var Mái síðan tilnefndur Forstjóri aldarinnar í blaðinu Degi. Árið 1986 var Samherji í 170. sæti Frjálsrar verslunar yfir stærstu fyrirtæki landsins með 250 milljón króna veltu, 7% raunaukningu frá árinu á undan. Árið 1987 var Samherji kominn í 113. sæti með 510 milljón króna veltu og árið 1988 var fyrirtækið í 100. sæti með 735 milljón króna veltu. Árið 1998 var fyrirtækið orðið það 15. stærsta með 9,5 milljarða króna veltu.

Þeir Mái, Kristján og Þorsteinn voru kjörnir menn ársins í atvinnulífinu árið 1989. Við það tilefni fór Kristján Ragnarsson, fyrrverandi formaður LÍÚ, fögrum orðum um frændurnar.

„Þeir hafa sýnt í verki að útgerðin er ekki lokaður klúbbur. Þeir hafa sannað að nýir menn eigi möguleika í þessari mikilvægu atvinnugrein. Þeir frændur hafa athyglisverða verkaskiptingu, þar sem einn er framkvæmdastjóri, annar skipstjóri og sá þriðji sér um viðhald á skipunum. Því er ekki að neita að nokkur fyrirferð er í þeim frændum, sem sumir leggja út sem ágengni. Ég veit þó ekki til að þeir hafi brotið rétt á nokkrum manni.“

Frændur berjast

Árið 2000 kom babb í bátinn. Þorsteinn Vilhelmsson og fjölskylda hans seldi 21,6 prósenta hlut sinn í Samherja hf. til Kaupþings á rúma þrjá milljarða króna. Þetta var stórfrétt á sínum tíma og fullyrt að engin hlutabréfaviðskipt hefðu valdið eins miklum titringi í þjóðfélaginu og þingheimi. Árið áður hafði Þorsteinn óvænt sagt sig úr stjórn félagsins og var sáttur við að klippa alveg á strenginn.

„Ég get ekki sagt að mér sé eftirsjá að því að yfirgefa Samherja,“ sagði Þorsteinn í viðtölum á sínum tíma. „Þessi ákvörðun er tekin án eftirsjár, að öðru leyti en því, að þarna er mikið af góðum starfsmönnum, sem eru vinir mínir og ég átti dagleg samskipti við.“

Því var velt upp í Degi að ástæða fyrir brotthvarfi Þorsteins hafi verið ósætti á milli hans og Máa. Að samstarfið hafi gengið vel þegar að Þorsteinn var á sjó og Mái í landi en þegar að báðir hafi verið með fast land undir fótum hafi Kristján þurftu að ganga á milli þeirra og í hlutverk sáttasemjara. Mái og Þorsteinn deildu um ákvarðanir sem voru teknar án vitund hins og upp úr sauð endanlega haustið 1999 þegar að Þorsteinn ákvað einhliða breytingar í brú á nýju fjölveiðiskipi Samherja, án samráðs eða vitneskju Máa. Deilurnar héldu áfram eftir að Mái seldi hlut sinn. Nýtt skip Samherja átti nefnilega að bera nafn föðurs Þorsteins og Kristjáns, Vilhelm Þorsteinsson. Eftir að Þorsteinn hætti ákvað hann að sækja um einkaleyfi á nafninu til að klekkja á Máa. Kristján komst að þessu ráðabruggi og svo fór að móðir bræðranna fór á milli og sannfærði alla að nýja skipið ætti að bera nafn Vilhelms til að heiðra minningu hans.

Hús Máa á Akureyri.

„Guggan verður áfram gul og gerð út frá Ísafirði“

Rúmir tveir áratugir eru síðan Samherji sameinaðist hlutafélaginu Hrönn hf. sem gerði út Guðbjörgina, sem oftast var kölluð Guggan. Gerði Ásgeir heitinn Guðbjartsson, skipstjóri og stofnandi Hrannar hf., skriflegt samkomulag við Máa um að Guðbjörgin yrði áfram gerð út frá Ísafirði þó Samherji tæki hana yfir.

„Guggan verður áfram gul og gerð út frá Ísafirði,“ sagði Mái þegar að Guðbjörgin var tekin yfir. Skömmu seinna var hún hins vegar flutt til Akureyrar og máluð í öðrum lit og loks seld til Þýskalands. Ásgeir sagði í viðtali við DV árið 2000 að hann bæri engan kala til Máa út af þessu. Mái sagði að ástæða fyrir því að hann hefði gengið á bak orða sinna væru einfaldlega rekstrarlegs eðlis.

„Ég sagði eina setningu sem loðir við mig alla tíð. Það verður að fara í mína mistakabók. Maður verður að bregðast við samdrætti og aðstæðum á hverjum tíma. Fyrirtæki verða að hugsa um sig sjálf, það kemur enginn þeim til hjálpar. Þegar við fengum Guðbjörgina var helmingur áhafnarinnar kominn með lögheimili á suðvesturhorninu. Hjá útgerðinni starfa enn þá sjómenn sem voru á Guðbjörginni. Vestfirðingar eru alltaf velkomnir í vinnu hjá okkur.“

Aðvörun frá líkamanum

Það er mál manna að Mái sé vakinn og sofinn yfir sjávarútvegi – fylgist með hverjum einasta fiski í sjó. Sofi varla neitt heilu dagana. Á tíunda áratug síðustu aldar fékk hann heilsufarslega „viðvörun“, eins og það var orðað í DV, sem hægði aðeins á forstjóranum, en hann hefur fengið endurtekin brjósklos í baki.

Ný stjórn Samherja árið 1997. Við hlið Máa stendur Kristján Þór Júlíusson, núverandi sjávar­útvegs- og land­búnaðar­ráðherra. Hann var formaður stjórnar.

„Það gerist ekkert af sjálfu sér og ég hef unnið langan dag í tuttugu ár. Mitt lán er að hafa haft gaman af því sem ég geri og hef verið heppinn með samstarfsmenn. Það er rétt að ég fékk smáviðvörun fyrir tveimur árum, ég hef sjálfsagt verið orðinn langþreyttur. Ég tók þá viðvörun alvarlega. Ég reyni að vera skynsamur og við skulum segja að ég hafi breytt örlítið vinnulaginu.”

Rasisti og svikari

Samherji fékk Útflutningsverðlaun forseta Íslands árið 2003. Sama ár var Mái dreginn inn í harðvítuga kosningabaráttu þar sem kvótakerfið varð að miklu hitamáli. Á þessum tíma litu Íslendingar á að samasemmerki væri á milli Samherja og kvótakerfisins, og líta kannski enn svo á. Og það er bara eitt andlit á bak við Samherja og það er forstjórinn Þorsteinn Már. Í kosningabaráttunni skrifuðu þingmenn greinar í blöðin um Máa og kvótakerfið og kölluðu hann meðal annars rasista og fláráðan svikara. Gekk Samfylkingin einna harðast fram sem Mái gagnrýndi í viðtali við DV.

„Hin ranga ímynd sjávarútvegsins er sægreifinn á sólarströnd sem lifir á kvótaleigu. Það auglýsir Samfylkingin og það er hennar vopn. Ég hef lengi verið sammála því að minnka framsalið og auka veiðiskylduna, þannig að umræðan um sægreifa á sólarströnd minnki og vonandi hverfi,“ sagði hann og skaut síðan hart á frambjóðendur Frjálslynda flokksins.

Fast skotið í viðtali við DV.

„Margt af því sem er sagt er bara þvaður. […] „Einn frambjóðenda þeirra, Magnús Þór Hafsteinsson, hafði lengi óheftan aðgang að rikisfjölmiðlunum og fór oft með rangt mál og gaf þá ímynd af okkur að við færum illa með auðlindina. Margrét Sverrisdóttir fer með rangt mál og ruglar líka saman dönskum krónum og islenskum og þau segja einn daginn að það eigi ekki að hrófla við þeim sem fyrir eru en hinn daginn annað. Svo er verið að draga fram í þessum málum einstaklinga sem hafa misjafna fortíð svo ekki sé fastar aö orði kveðið. Ég skil ekki flokk sem byggir allan sinn málflutning á umræðu um brottkast og því að sverta sjómenn og útgerðarmenn fram í rauðan dauðann en það er það sem Frjálslyndi flokkurinn gerir og það svíður mér því ég held að við séum í mörgum tilvikum að gera frábæra hluti og á heimsmælikvarða.“

Feigðarför Þorsteins

Mái hefur ávallt verið gallharður Sjálfstæðismaður en var ekki par sáttur við að Davíð Oddsson væri ráðinn ritstjóri Morgunblaðsins árið 2009, blaði sem Mái átti hlut í. Helgast því af deilum þeirra Máa og Davíðs þegar að Glitnir var þjóðnýttur. Í febrúar árið 2008 varð Mái stjórnarformaður Glitnis, var ráðinn faglegur stjórnarformaður að ósk stærsta hluthafans FL Group og Jóns Ásgeirs Jóhannessonar. Miðvikudaginn 24. September árið 2008 hafði Mái samband við Davíð Oddsson, þáverandi seðlabankastjóra, til að ræða lausafjárvanda Glitnis. Þeir mæltu sér mót um hádegisbil daginn eftir. Í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis um fall bankanna kemur fram að Þorsteinn hafi upplýst á fundinum að jafnvel þótt Glitnir fengi fyrirgreiðslu „myndi hún tæpast duga til þess að fleyta bankanum nema fram undir áramót, hugsanlega fram í janúar.“

Davíð Oddsson

Í stuttu máli vildi Mái lán frá Seðlabankanum því hann taldi að bankinn ætti góð veð sem hægt væri að lána út á. Glitnir fékk ekki lánið og farið var í að undirbúa hlutafjáraukningu í Glitni og kaup ríkisins á 75 prósenta hlut í bankanum. Mánudaginn 29. september 2008 voru sú tíðindi kynnt.

„Það var þessi tiltekni banki sem leitaði til Seðlabankans. Seðlabankinn varð að bregðast við því erindi sem upp var komið og fá botn í það. Það gerði hann í samráði við ríkisstjórnina á tiltölulega skömmum tíma yfir helgi,“ sagði Davíð Oddsson á blaðamannafundi. Stjórnendur og hluthafar Glitnis voru mjög ósáttir með þessa ákvörðun.

„Það er engin launung að við vorum ósáttir. Það er bara eins og maður segir, menn geta haft mismunandi skoðanir. Á þessum tíma höfðu starfsmenn bankans aðra skoðun á málinu og ég fylgdi þeim,“ sagði Mái í samtali við Vísi á tíu ára afmæli hrunsins. Jón Ásgeir Jóhannesson sagði í viðtali við Hringbraut hafa mælst gegn því að Mái færi á fund Davíðs.

„Ég varaði hann við áður en hann fór niður í Seðlabanka,“ sagði hann og hélt áfram. „Ég vil halda því fram að þetta hafi verið feigðarför sem Þorsteinn Már fór í. Ég varaði hann við áður en hann fór niður í Seðlabanka, hann yrði að gera sér í hugarlund hvaða ástand var þar á bæ. Menn myndu vilja knésetja Glitni og ef þeir myndu fá tækifæri til þess, þá yrði það gert. Og það gekk eftir.“

Í viðtalinu bætti Jón Ásgeir við að þessi aðgerð Seðlabankans hefði verið óþörf á þessum tímapunkti að hans mati.

„Það lá ekkert á, það voru tvær vikur til stefnu. Í eðlilegu umhverfi hefðir þú farið í Seðlabankann og farið yfir stöðuna og reynt að leysa þau,“ sagði hann og bætti við: „Það var ótrúlegt að sjá það, að menn áttuðu sig ekki á hvað það myndi þýða fyrir heildarkerfið. […] Ef Seðlabankinn myndi lýsa því yfir (í dag) að einn bankinn væri ónýtur, þá myndi markaðurinn taka því sem slíku að allir bankarnir væru ónýtir, sem gerðist 24 tímum síðar.“

Mái setti sinn svip á stjórn Glitnis. Hann lækkaði laun allra í stjórninni, þar með talin sín eigin, og tilkynnti að starfslokasamningar heyrðu sögunni til. Hann hefur látið hafa eftir sér í síðari tíð að það hafi verið stærstu mistök hans á ferlinum að fara á fund Davíðs.

„Ruddaleg“ húsleit

Mái hefur einnig staðið í stappi við Má Guðmundsson, fyrrverandi Seðlabankastjóra, og Seðlabankann síðustu ár, eða allar götur síðan húsleit var framkvæmd í Samherja árið 2012 vegna meintra brota fyrirtækisins á gjaldeyrislögum. Fyrirtækið var aldrei ákært. Samherji hefur höfðað skaðabótamál á hendur Seðlabankanum en stuttu fyrir umfjöllun Kveiks um meintar mútugreiðslur og spillingu beindi Mái spjótum sínum einnig að RÚV og Helga Seljan og telur ljóst að um gagnaleka úr Seðlabanka til RÚV hafi átt sér stað. Fullyrti hann að Helgi Seljan og RÚV væru einnig gerendur í málinu.

Helgi Seljan sagði það 20. jan­úar [2012] austur á fjörðum að hann ætl­aði að taka mig. Ég fékk hring­ingu um það 22. jan­úar að hann hafi sagst ætla að taka mig fyrir fisk­verð. Þannig að Helgi Seljan og RÚV eru ger­endur í þessu ásamt Seðla­bank­anum og má segja þaul­skipu­lögð árás á Sam­herja og starfs­fólk Sam­herj­a,“ sagði hann í fréttum Stöðvar 2 ekki alls fyrir löngu Í Bítinu á Bylgjunni í lok október síðastliðnum sagði Mái að húsleitin hafi verið „rudda­leg­asta hús­leit sem hefur verið fram­kvæmd á Íslandi og hún var gerð í sam­starfi við RÚV, þeir voru mættir á undan og greini­lega allt þaul­skipu­lagt, það hefur aldrei farið á milli mála.“

Baldvin stjakar við Má Guðmundssyni.

Sakaði hann RÚV um glæpsamlegt athæfi.

„Er eðli­legt að rík­is­fjöl­mið­ill sé að reyna að búa til glæp með með stofnun sem á að vera mesta virð­ing­ar­stofnun lands­ins?“

Það vakti svo mikla athygli þegar að Baldvin Þorsteinsson, sonur Máa, veittist að Má Guðmundssyni eftir fund stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar í lok mars á þessu ári.

„Hafðu smá sómakennd og drullaðu þér burtu,“ sagði Baldvin orðrétt við þáverandi Seðlabankastjóra.

Mái og Eyþór

Eins og áður segir var Mái lengi vel einn af aðaleigendum Árvakurs, útgáfufélags Morgunblaðsins. Í apríl árið 2017 var tilkynnt að Eyþór Arnalds, nú oddviti Sjálfstæðismanna í borgarstjórn Reykjavíkur, hefði keypt hlut Samherja í Árvakri.

Eyþór er eigandi félagsins Ramses II ehf. sem er stærsti eigandi Þórsmerkur ehf. sem er stærsti eigandi Árvakurs hf. sem gefur út Morgunblaðið. Félag Eyþórs var fjármagnað óbeint af Esju Seafood sem skráð er á Kýpur. Esja Seafood er í eigu Samherja. Það er félagið sem tók við peningunum sem Samherji er sagður hafa komið undan í Namibíu og er miðpunktur Samherjaskjalanna sem opinberuð voru af Stundinni, Kveik og Wikileaks í gær. Esja Seafood var einnig notað til þess að greiða stjórnmálamönnum í Namibíu mútur, til að fá aðgang að kvóta þar í landi, samkvæmt frétt Stundarinnar. Samkvæmt Stundinni er félag Eyþórs fjármagnað óbeint af Esju Seafood, sem lánaði Kaldbaki tveggja milljarða króna lán. Kaldbakur er í eigu Samherja. Lánið var veitt í gegnum fjárfestingaleið Seðlabanka Íslands árið 2012, en Samherji fékk þannig 20% afslátt af íslenskum krónum með því að láta Kaldbak gefa út skuldabréf. Esja Seafood fjárfesti síðan í skuldabréfinu. Samherji á líka félag sem heitir Kattarnef ehf. Kaldbakur lánaði Kattarnefi síðan yfir 300 milljónir til að fjárfesta í Morgunblaðinu, fyrir hönd Samherja. Kattarnef skuldar Kaldbaki ennþá þessa upphæð en Kaldbakur skuldar Esju Seafood yfir tvo milljarða króna.

Eyþór og Mái.

Árið 2017 keypti félag Eyþórs, Ramses II, hlutabréf Kattarnefs í Morgunblaðinu fyrir 325 milljónir. Þetta var gert þrátt fyrir að Kattarnef hafi metið þessi sömu hlutabréf verðlaus í árslok 2016. Kattarnef (Samherji) lánaði auk þess Eyþóri 225 milljónir til að kaupa hlutabréfin. Ekki er vitað hvar Eyþór fékk hinar 100 milljónirnar fyrir kaupunum. Félag Eyþórs þarf að greiða upp lánið á næsta ári, en Samherji hefur þegar afskrifað helming lánsins til Eyþórs.

„Auðvitað er hann ekki einn í þessu“

Óljóst er hvert framhald uppljóstrana Kveiks, Stundarinnar og Wikileaks verður. Kristinn Hrafnsson, ritstjóri Wikileaks, hefur gefið það út að þetta sé bara byrjunin að stærri umfjöllun og afhjúpunum. Mikill þrýstingur er frá almenningi að rannsókn málsins verði sett í forgang og hefur þingmaður Helga Vala Helgadóttir til að mynda krafist þess að eignir Samherja verði frystar á meðan á rannsókn stendur. Ljóst er að Mái hefur hagnast gríðarlega á sjónum, eins og kemur fram í nýlegri frétt Stundarinnar. Í henni segir:

„Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri og stærsti eigandi Samherja, hefur á undanförnum árum safnað gríðarlegum auði. Þorsteinn Már á um 24 milljarða króna eignir í gegnum félag sitt, og má áætla að hann hafi persónulega hagnast um tæplega 1,8 milljarða króna af veiðum Samherja við Namibíu, sem byggðu á stórfelldum mútugreiðslum til þeirra sem hafa vald til að úthluta kvóta í landinu. Opinberar tekjur Þorsteins segja lítið um raunverulega eignasöfnun hans. Þannig gáfu tekjuskrár Ríkisskattstjóra til kynna að í fyrra hafi Þorsteinn fengið 3,9 milljónir króna í launatekjur á mánuði og rúmar fjórar milljónir króna á mánuði í fjármagnstekjur. Þessar tekjur segja aðeins litla sögu, þar sem raunveruleg eignasöfnun á sér stað inni í eignarhaldsfélagi hans. Einungis á síðasta ári jukust eignir Eignarhaldsfélagsins Steins ehf. um níu milljarða króna. Þorsteinn Már á 51 prósent í eignarhaldsfélaginu og fyrrverandi eiginkona hans, Helga S. Guðmundsdóttir, á 49 prósent. Af 48 milljarða króna eignum félagsins á Þorsteinn því persónulega tilkall til ríflega 24 milljarða króna.“

Mái hefur fríað sig ábyrgð þegar kemur að meintum mútugreiðslum og spillingu. Skuldinni er skellt á uppljóstrarann. Viðmælendum DV eru hins vegar sammála um að hann sé ávallt við stjórnvölinn. Það rímar við það sem Margrét Ólafsdóttir, sem lengi hefur unnið fyrir Máa, sagði í viðtali við DV fyrir nokkrum árum:

„Auðvitað er hann ekki einn í þessu, en hann er í ökumannssætinu. Hann hefur yfirburðaþekkingu í sjávarútvegi og þor til að gera hluti.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Innkalla núðlutegund útaf glerbroti sem fannst

Innkalla núðlutegund útaf glerbroti sem fannst
Fréttir
Í gær

Páll kippir sér lítið upp við gagnrýnina og segir Helga Seljan „mæta í settið hjá Gísla Marteini að leika fórnarlamb”

Páll kippir sér lítið upp við gagnrýnina og segir Helga Seljan „mæta í settið hjá Gísla Marteini að leika fórnarlamb”
Fréttir
Í gær

Andlitslyfting Kolaportsins klýfur þjóðina í tvennt – „Kolaportið dó þegar lyktin fór“

Andlitslyfting Kolaportsins klýfur þjóðina í tvennt – „Kolaportið dó þegar lyktin fór“
Fréttir
Í gær

Hömlum ekki aflétt – Djammið áfram takmarkað

Hömlum ekki aflétt – Djammið áfram takmarkað
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Hnífsstunga við Breiðholtslaug: Sérsveitin á svæðinu og búið að handtaka árásarmanninn

Hnífsstunga við Breiðholtslaug: Sérsveitin á svæðinu og búið að handtaka árásarmanninn
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Sævar var útilokaður frá eigin fjölskyldu – Þurfti að „læðast í felum“ í jarðarför föður síns

Sævar var útilokaður frá eigin fjölskyldu – Þurfti að „læðast í felum“ í jarðarför föður síns