fbpx
Fimmtudagur 13.ágúst 2020
Fréttir

Tyrkir senda Evu morðhótanir – „Ef ég væri smekklaus myndi ég segja ykkur að serða svín en ég hef enga ástæðu til að móðga svínið“

Ritstjórn DV
Mánudaginn 9. júlí 2018 13:26

Eva Hauksdóttir

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Eva Hauksdóttir, móðir Hauks Hilmarssonar, sem talið er hafi fallið í loftárásum Tyrkja á búðir Kúrda í Sýrlandi, segist á bloggi sínu hafa fengið morðhótanir frá Tyrkjum. Hún ávarpar þá sem hafa sent henni haturspóst í færslunni og segist ekkert hrædd við þá.

„Kæru Erdoğandýrkendur sem hafið sent mér haturspósta. Haldið þið virkilega að ég sé svo grunnhyggin að drulluléleg samklippt mynd af íslenska fánanum með skítahaug geti komið mér í uppnám? Sjáið til, það eruð þið vesalingar, sem tilbiðjið stjórnmálamenn og fána, ekki ég. Fyrir nokkrum áratugum var íslenski fáninn tákn sjálfstæðisbaráttunnar. Núorðið er hann aðeins tákn illkynja þjóðernishyggju og þeir sem helst hampa honum eru múslímahatarar, þar á meðal fyrirlitlegir rasistar sem ráðast á Tyrki fyrir það eitt að vera tyrkneskir. Fyrir alla muni drullið yfir íslenska fánann hvenær sem ykkur lystir. Ég mun gera það líka þegar ég verð uppiskroppa með myndir af Erdoğan,“ skrifar Eva.

Brenndi tyrkneska fánann

Hún segist ekkert móðgast þegar þessir Tyrkir sendi henni skilaboð þar sem þeir bölvi kristni. „Og hvers vegna í ósköpunum haldið þið að það angri mig þótt þið bölvið kristindómnum og hrópið eitthvað jafn aumkunarvert og „fari Jesús kristur til fjandans“? Jesús var stórmerkilegur maður en ég er ekki kristin og þótt ég væri það þá er þetta bara ekki nógu hugvitsamleg móðgun til þess að misbjóða mér. Ég játa engin trúarbrögð en ég trúi sannarlega á tjáningarfrelsið og ég virði rétt ykkar til að segja Jesú að fara til fjandans. Alveg eins og ég virði rétt ykkar til að teikna myndir af Múhammed spámanni ef ykkur langar að teikna,“ segir Eva.

Eva brenndi tyrkneska fánann á dögunum við Utanríkisráðuneytið á dögunum og svo virðist sem það sé helsta ástæðan fyrir hótunum Tyrkja. „Þið, hinsvegar, eruð augljóslega að fara á límingunum vegna reiði einnar konu yfir því að einveldi skuli þrífast. Ég vissi svosem að það þarf lítið til að koma hópi hálfvita úr jafnvægi en ég átti nú samt ekki von á því að einföld fánabrenna gæti haft svo mikil áhrif. Það er mér sönn ánægja að sjá aðdáendur Erdoğans froðufellandi af reiði vegna aðgerðar sem útheimti ekki meiri metnað,“ segir Eva.

Lætur ekki þagga niður í sér

Hún segir að hótanir Tyrkja muni ekki þagga niður í sér. „Svo virðist sem einhverjir ykkar séu nógu heimskir til að halda að aumkunarverðar árásir ykkar muni þagga niður í mér. Aðrir halda að það sé hægt að stinga upp í mig með morðhótunum. Látið ykkur bara dreyma, ég læt ekkert þagga niður í mér. Á sama tíma og íslenski fáninn er orðinn tákn þjóðernishyggju er tyrkneski fáninn orðinn táknmynd fasismans. Og hver sá Tyrki sem styður fasistastjórn Erdoğans ber ábyrgð á því. Allir gera mistök og ég mun ekki ásaka ykkur þegar að því kemur að þið áttið ykkur á því hvað þið hafið gert en ég mun tjá skoðanir mínar á fasisma á hvern þann hátt sem mér bara sýnist, þar með talið með fánabrennum, hvenær sem mér sýnist og hvar sem mér sýnist. Og ég mun segja frá slíkum aðgerðum á internetinu aftur og aftur. Þið ættuð bara að reyna að venjast því,“ segir Eva.

Eva segir að þó viðkomandi myndu drepa hana þá myndi það ekki þagga niður í henni: „Við þá ykkar sem hafið sent mér morðhótanir hef ég þetta að segja: Ég er ekkert hrædd við ykkur. Ef ég væri smekklaus myndi ég segja ykkur að serða svín en ég hef enga ástæðu til að móðga svínið. Það er sjálfsagt illskiljanlegt þeim sem ólust upp við fasisma Erdoğans – en það er ekki hægt að ritskoða internetið. Jafnvel þótt þið hefðuð kjark til að drepa mig gætuð þið samt ekki þaggað niður í mér. Skilaboð mín eru enn á netinu og ef ofstækismenn yrðu mér að bana yrði þeim sennilega dreift um víða veröld. Aukinheldur bý ég í réttarríki þar sem fólk kemst yfirleitt ekki upp með pólitísk morð.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Í vikunni