„Ég stóð í flutningum á þessum tíma og taldi mig fyrst hafa týnt símanum. Það virðist ekki hafa verið raunin og líklega hefur honum verið stolið af mér,“ segir Gunnar Birgisson, íþróttafréttamaður hjá RÚV og knattspyrnuþjálfari, í samtali við DV. Á dögunum fann hann mynd af ókunnugum manni á icloud-reikningi sínum, sem greinilega hefur símann glataða undir höndum. Gunnar deildi myndunum á Twitter reikningi sínum með skilaboðunum. „Stórmeistara alert … Þessi stal símanum mínum en var ekki alveg að nenna því að búa sér til nýtt AppleID þannig hann fleygði bara mínum myndum út og notaði mitt. What a man!“
Í samtali við DV segir Gunnar að þetta hafi ekki verið eina myndin af manninum en líklega sú besta„ Það voru líka fullt af myndum af börnum hans og honum í ýmsum hversdagslegum athöfnum,“ segir Gunnar sem hefur því getað fylgst grannt með daglegu lífi hins meinta þjófs undanfarið.
Talsvert er síðan að Gunnar tapaði símanum. „Við vorum að flytja í árslok 2016 þegar síminn gufaði upp. Ég er ekki vanur að týna hlutum og því skyldi ég ekkert í því hvað varð af tækinu. Ég leitaði út um allt og fann hann hvergi,“ segir Gunnar.
Síminn var mikilvægt vinnutæki en ekki síður var hann dýrmætur út af persónulegum myndum sem á honum voru. „Ég fékk mér fljótlega nýjan síma en það voru myndirnar sem ég saknaði mest. Ég er eiginlega tækniheftur og það var því bara nýlega sem ég hafði rænu á að skrá mig inn á icloud-reikninginn minn til þess að kanna hvort myndirnar væru aðgengilegar þar,“ segir Gunnar.
Þegar að hann var kominn inn á reikninginn sinn blöstu við honum úrval mynda af manninum sem mögulega stal símanum hans. „Ég er bara búinn að vera að skemmta mér að fylgjast með þessum meistara. Ef maður ætlar að standa í svona þjófnaði á tækniöld þá verður maður að vera svolítið snjall. Þessi er að falla á því prófi,“ segir Gunnar og hlær.
Hann segist ekki hafa hug á því að kæra málið til lögreglu. „Ég nenni ekki að standa í því að kæra þetta, verði honum bara að góðu.“
Stórmeistara alert…
Þessi stal símanum mínum en var ekki alveg að nenna því að búa sér til nýtt AppleID þannig hann fleygði bara mínum myndum út og notaði mitt. What a man!
Vonandi sáttur með símann samt! pic.twitter.com/C53J7rIf5c
— Gunnar Birgisson (@grjotze) April 13, 2018