Fjöldi foreldra í neyð og sjá fram á launaleysi og óvissu með framtíðina – Lítið um svör hjá bæjarfélögunum – „Það er ekkert hægt að plana fram í tímann“
Móðir sem ekki fær dagvistun fyrir barn sitt var ráðlagt að fara að vinna á leikskóla og fá þannig undanþágu fyrir barnið þó svo að það kæmist ekki inn fyrr en eftir hálft ár. Gríðarlega stór hópur foreldra fær hvergi daggæslu að loknu fæðingarorlofi og standa uppi launalausir og í óvissu. Anna Sjöfn Skagfjörð fer fyrir hópi foreldra sem kynntist í gegnum umræðuhóp sem stofnaður var þann 10. janúar síðastliðinn. Að sögn Önnu eiga þau öll við sameiginlegt vandamál að stríða: Vegna skorts á dagmömmum og álagi á leikskólum, þá fá þau ekki daggæslu eftir að fæðingaorlofi lýkur.
„Þegar greiddu fæðingaorlofi lýkur, sem venjulega er eftir 9 mánuði ef báðir foreldrar nýta það að fullu og fara ekki í orlof á sama tíma, þá eru þessir foreldrar að standa uppi launalausir og án daggæslu. Þessir foreldrar eiga ekki rétt á atvinnuleysisbótum, þar sem skilyrði fyrir þeim er að þú hafir daggæslu fyrir barn/börn. Flest ef ekki öll bæjarfélög eru búin að leggja niður styrki, oft kallaðir ömmustyrki, þar sem ættingjar eða vinir fá greitt fyrir pössun á börnum sem hafa ekki pláss hjá dagmömmu eða leikskóla.
Anna segir þær lausnir sem bæjarfélögin benda á alls ekki vera raunhæfar.
„Nokkur úr hópnum hafa leitað til sinna bæjarfélaga en svör þeirra hafa ekki verið hjálpleg. Ein móðir fundaði með bæjarstjóra og fulltrúa þjónustusviðs í Hafnarfirði. Þeirra lausn var að hún mundi byrja að vinna á leikskóla og fá þannig undanþágu fyrir sitt barn, barnið kæmist samt ekki inn fyrr en eftir hálft ár. Ekki veit ég hvað þau vildu gera við barnið hennar á meðan. Annarri konu var bent á að sækja um atvinnuleysisbætur, sem hún á ekki rétt á vegna þess að hún er heima með barn, eða fá styrk frá Féló. Annari var bent á að gerast dagmamma, það væri skortur á þeim.“
Þá bendir Anna á að vegna þess sé stór hópur af launalausum foreldrum þarna úti, sem vita ekki hvernig framtíðin verður og hversu lengi þau verða launalaus. „Nokkrir foreldrar hafa athugað hvort hægt væri að fá greidda niðurgreiðslu sem færi annars til dagforeldris, til að koma upp á móti tekjumissi en það kom ekki til mála.“
Sævar Þór Halldórsson, faðir 15 mánaða drengs er einn af þeim sem á reynslusögu innan hópsins en hann segir erfitt að gera ekki gert neinar ráðstafanir varðandi framtíðina.
„Við fluttum á Akureyri vegna þess að kærastan fékk vinnu við akkurat það sem hún hafði verið búin að læra. Við vorum komin með staðfest pláss á leikskóla þar sem við bjuggum og vissum að það væri ekki gefið að við kæmumst inn á leikskóla eða hjá dagforeldri strax hér á Akureyri en við vissum þó að bærinn hafði talað mikið fyrir því að fá störf í bæinn og væri að reyna að laða að sér ungt menntað fólk og því ákváðum við að slá til.
Sóttum strax um leikskóla og hringdum í alla dagforeldra, en allstaðar var fullt og ekkert hægt að segja okkur hvort eða hvenær við kæmumst að. Skráðum drenginn einnig á lista hjá bænum, sem nýjir dagforeldrar hafa aðgang að sem og ef losnar pláss annarsstaðar og dagforeldrið ekki með sér lista.
Sonurinn var akkurat eins árs þegar við flytjum og við áttum tvo sameiginlega mánuði eftir af fæðingarorlofinu og ákváðum að dreifa þeim tveimur mánuðum yfir á fjóra í 50% hvern mánuð. Nú í desember höfðum við fregnir af tveimur dagforeldrum sem voru að byrja og höfðum strax samband og vorum sett á lista. Það var þó ekki öll pláss full hjá þeim, en þær ætluðu að sjá hvernig eftirspurnin væri og ákveða þá hverjir fengju pláss.
Í kringum jólin fæ ég svo hringingu frá fulltrúa á fjölskyldusviði Akureyrar. þar sem hún var að kortleggja stöðuna. Röbbuðum við saman og var þetta símtal ágætlega skemmtileg jólagjöf og nefndi hún að fyrst ég væri „fastur“ heima og ekki með tekjur, þá væri þetta ekki gott og það þyrfti eitthvað að gera. Það væru 4 dagforeldrar að byrja eftir áramót og vonaðist hún til að við fengjum þar inni.
Síðan hefur maður ekki heyrt meira, Nú er strákurinn 15 og hálfs mánaða og það er alveg yndislegt að vera með honum heima, en það er ekkert hægt að plana fram í tímann. Ég get ekki tekið að mér verkefni sem taka lengri tíma því ég veit ekkert hvenær hann kemst að og ég þyrfti þá að fara að finna mér vinnu.
Erfitt er að lifa á Íslandi á einum launum, því 50% fæðingarorlof er ekki mikill peningur því sonurinn er fæddur fyrir 15. okt 2016, s.s. fyrir hækkunina. Það væri þó minni óvissa ef maður vissi t.d. að hann kæmist að eftir sumarið, þá væri hægt að plana þannig og ég gæti sótt um vinnur þar sem ég gæti sagst byrja eftir sumarið.“
Guðbjörg Þrastardóttir á von á sér í apríl næstkomandi og sér fram á að þurfa að vera heima með barnið til 18 mánaða aldurs.
„Ég átti barn í nóvember 2015 en fyrir átti ég stelpu 2008. Við höfðum ekki efni á að skipta greiðslunum svo ég tók hámarks 6 mánuði og maðurinn minn var svo heima í 3 mánuði. Ég bý á Ísafirði og hér er engin starfandi dagmamma, engin ungbarnaleikskóli eða ungbarnadeild en bærinn miðar við að taka börn inn 18 mánaða. Stundum hafa foreldrar þurft að bíða lengur, en ég var heppin að mín komst inn 15 mánaða. Þarna var s.s. 6 mánaða gat þar sem ég þurfti að vera heima með barnið tekjulaus. Ég tók upp á því að skrá mig í fullt háskólanám og nýtti mér námslán til framfærslu á meðan. Mér fannst þetta snilldarlausn fyrst en þetta var mikið erfiðara en ég hafði gert ráð fyrir. Ég var s.s. heima með hana 9-15 mánaða og í fullu háskólanámi, hún svaf lítið og þurfti mikla athygli (eðlilega).
Svo varð ég óvænt aftur ófrísk og á von á mér í apríl á þessu ári. Ég á ekki rétt á fæðingarorlofi í þetta skipti (því ég er búin að vera í námi) en á rétt á fæðingarstyrk, sem er rúmlega 160.000 á mánuði. Við erum að borga 150.000 í leigu, með tvö önnur börn og nokkuð augljóst að ég hef ekki efni á að dreifa þessum greiðslum neitt. En samt sé ég fram á að þurfa að vera heima með barnið til 18 mánaða aldurs. Ég hef enn ekki ákveðið mig hvað ég ætla að gera, þ.e. hvort ég ætla að halda áfram í náminu og vona að ég finni einhverstaðar tíma í sólahringnum til að sinna því. Í rauninni sé ég ekki neina aðra lausn – en ég veit að það verður erfitt að vera með ungabarn heima allan sólahringinn og svo tvö í viðbót eftir kl. 14-15.
Ég vildi óska þess að fæðingarorlofið yrði lengt svo ég gæti bara notið þess að vera heima með barnið mitt þar til það kemst í dagvistun. Svo myndi auðvitað hjálpa mikið ef vistun væri í boði fyrir börn yngri en 18 mánaða hjá okkur fyrir vestan, ég veit að það eru margir aðrir foreldrar hér í vandræðum en blessunarlega geta sumir leyft sér að dreifa greiðslunum í meira en 6 mánuði.“
*„Þegar kominn er tími til að sækja um daggæslupláss í Danmörku ( hef reynslu frá Álaborg) þá er einfaldlega fyllt út form á heimasíðu bæjarfélagsins og þeir sjá um að finna viðeigandi pláss fyrir barnið. Það er hægt að setja inn óskir hvar maður vill helst fá pláss og reynt er að koma til móts við þær óskir en það gengur eflaust ekki alltaf. Í boði eru dagforeldri eða vöggustofur/ungbarnaleikskólar. Þar er stefnan sú að þegar þig vantar pláss þá færð þú pláss, kannski ekki hjá þeim sem þú kaust en þú færð pláss. Það þarf ekki að sækja um plássið um leið og barnið fæðist eða nánast við getnað eins og virðist vera hér og það er ekki í höndum foreldra að hringja út um allan bæ og jafnvel á milli bæjarfélaga í dagforeldra sem mögulega gætu haft laust pláss.
Það sem er kannski örlítið betra hér á Íslandi er að börnin fara fyrr á leikskóla. Í Danmörku/Álaborg þá fara börnin á leikskóla 3gja ára. Ekki um haustið árið sem þau verða 3gja ára heldur á afmælisdaginn sinn eða þar um kring. Álagið á haustin við að aðlaga ný börn er því mun minna en hér á landi. Leikskólinn er hinsvegar komin að þolmörkum í lok sumars rétt áður en elstu börnin fara í skóla en þá hafa leikskólakennarar meiri tök á að setja börnin út í góða veðrið og nýta sumarstarfsfólk til að brúa þennan álagspunkt. Ég myndi halda að það að aðlaga
nokkur börn í hverjum mánuði sé mun heilbrigðara heldur en að fá alla gommuna til sín á haustin. En það eru eflaust kostir og gallar.
Dagforeldrakerfið í Danmörku er einnig þannig að ef þitt dagforeldri veikist þá þarft þú ekki að taka þér frí. Dagforeldrar vinna saman í fimm manna grúppum sem hittast einu sinni í viku. Þau hittast í húsi sem er skaffað af bænum og borða saman og leika allan daginn. Þegar sú staða kemur upp að eitt dagforeldrið veikist þá deilast börnin á hina dagforeldrana eða fara á svokallað gestahús sem er notað þegar ekkert annað úrræði er til boða. Barnið þekkir vel hina dagforeldrana svo þetta er ekki mikið mál. Ástandið lendir þar af leiðandi ekki á foreldrinu sjálfu né vinnuveitanda þess.“
Innan hópsins má einnig finna reynslusögu Kolbrúnar Hildar Gunnarsdóttir, dagmömmu:
„Í haust var staðan sú að dagforeldrar hreinlega hurfu úr starfi. Engin samvinna við borgina. Þeim er ögrað með:
Við stofnum fleiri ungbarnaleikskóla . Það setti reyndar inn spurningamerki: Þið mannið ekki þá leikskóla sem fyrir eru. Hvernig ætlið þið að manna leikskóla með litlum börnum þar sem búið er fyrir löngu að taka í burt plássrými“ 3.5 fm2 fyri hvert barn og ætlast til að þar sé starfsfólk sem höndlar slíkt? Hávaðamengun með eindæmum þar sem í rými eru t.d. 15 börn og 3 starfsmenn? Rýmið, þrátt fyrir 3 starfsmenn mun innihalda sem dæmi 15 lítil óörugg börn sem höndla ekki mikinn grát og óöryggi. Hvað þá í upp undir 9 tíma. Engin svör. Enda brennur starfsfólk mjög hratt út við slíkar aðstæður.Fátækleg hækkun á niðurgreiðslu fyrir foreldra barna með gæslu í heimahúsum. Eins og verið sé að kreista túpu sem hefur verið opnuð of oft. Þú kreistir túpuna og upp kemur smá arða.
Ég hef í gegnum áraraðir bent á þessa mismunun gagnvart foreldrum. Fátt er um svör. Hvers vegna er ekki alúð og natni ásamt metnaði lögð til grundvallar góðu starfi og það eflt? Okkar sjónarhorn. Það var engin metnaðarfullur starfsmaður sem var okkur við hlið í gegnum árin. Meira var lagt uppúr að nappa“ dagforeldri með of mörg börn. Dagforeldri sem var að reyna að ná endum saman og sjá til þess að hafa allavega 11 mánuða tekjur en fara í gott starf með góðu
upplýsingaflæði á milli sem myndi skila sér í öryggi og góðum aðbúnaði ásamt opnu flæði upplýsinga beggja vegna.
Ég hef aldrei skilið metnaðarleysi borgarinnar gagnvart daggæslu í heimahúsi. Þar dvelja 5 börn/ 10 börn. Heimilislegt umhverfi og minna áreiti skilar sér í glaðari börnum.
Borgin hefur því miður í gegnum tíðina frekar verið á skjön, jafnvel sami aðili sem hlúir að dagforeldrum er einnig hinum meginn við borðið gagnvart foreldrum ef eitthvað kemur uppá. Dagforeldrar fá ekki það hrós sem þeir eiga skilið. Verktakastétt sem sér um sig, fær ekki mannsæmandi þjónustusamning við borgina en stendur plikt sína með langflestann kostnað á sínum herðum. Að halda úti fullbúnum vögnum, svefnkerrum/ rúmum, Fullum leikfangakostnaði, matævlum, bleyjum og tilheyrandi en fá ekki einu sinni augnsamband við kerfisbatteríið, vekur marga til umhugsunar.
Slíkt kerfi gæti gert svo vel við börnin og foreldra. Það eru alls staðar veikindadagar. Við erum mannleg. Mannekla, veikindi starfsfólks leikskólanna, veikindi barna allra setja strik í reikninginn, en kæra fólk. Allir sem eru mannlegir, eru mannlegir. Börn allra og við sjálf veikjumst. Starfsdagar, veikindi starfsfólks ofl. er meira en flestir dagforeldrar almennt leyfa sér. Get auðvitað ekki talað fyrir alla, en þekki marga innan minnar stéttar og get með sanni sagt að við reynum okkar besta.
Slysatíðni minnar stéttar telst vart mælanleg. Svo skrýtið, miðað við að talið sé hæpið að dagforeldri geti í dag, skyndilega, séð um 5 börn. Slysatíðni leikskólanna er vel mælanleg á flesta mælikvarða.
Fátækleg framfærsla leiksólanna gerir það að verkum að íhlutir til vinnu eru skornir við nögl. Engin mæling á pláss per barn og börn aðlöguð í fremur þröngum kostum, oft á tíðum.
Við dagforeldrar erum mæld í bak og fyrir, hvort sem það eru sakavottorð, læknisvottorð , starfið okkar eða allt það sem viðkemur okkar vinnu. Við / foreldrar, sem giftir eru eða í sambúð, fáum hæstu niðurgreiðslu fyrir 8 tíma. Umframvinna er á okkar kostnað.
Þegar fátækleg samvinna við borgina og aum úrræði gagnvart okkur sem höfum mátt þola uppsagnir mánuð fyrir launalaust sumarfrí og tekjutap mikið, fær sjaldan meðbyr. Það vantar metnaðarfullt starfsfólk hjá borginni sem ætti að vera lyftitöng okkar dekurkerfis sem nostrar við börnin, þá er hætta á að fólki vaxi fiskur um hrygg og hugsi sér til hreyfings.
Í 5 barna starfi á að vera hægt að nostra við krílin. Leyfa þeim að taka hin fyrstu skref sem hægust. Fyrir mörgum árum fór teymi starfsmanna borgarinnar að skoða daggæslu í heimahúsi á Jótlandi/ Danmörku. Þar auglýstu kommúnurnar starfið sem: En deijligt start“.. Hin ljúfa byrjun. Ég man ég gat ekki beðið eftir útkomu þessarar ferðar…. Leið og beið… Það varð engin útkoma. Það vantaði metnað og blússandi flott starfsfólk borgarinnar sem sá ekki hagkvæmnina við: samhliða niðurgreiðslu á við leikskólaverð. Huggulegheitin fyrir svo ung börn í hlýlegu umhverfi og samstyrkja dagforeldra á allan hátt með samvinnu sem myndi skila sér í góðu starfi með opnu flæði upplýsinga og samvinnu á allan hátt.“