Forráðamenn Easyfitness líkamsræktarstöðvarinnar í Güstrow í Mecklenburg í Þýskalandi komust nýverið í fréttirnar eftir að þeir ákváðu að neita ákveðnum þjóðernishópum um aðgang að líkamsræktarstöðinni.
Die Welt segir að á miðvikudaginn í síðust viku hafi þrír grunaðir íslamskir öfgamenn verið handteknir í Güstrow. Fljótlega eftir að það spurðist út í bænum var sett upp tilkynning í glugga Easyfitness í bænum um að fólk úr minnihlutaþjóðernishópum væri ekki lengur velkomið.
Þremenningarnir sem voru handteknir á miðvikudaginn eru grunaðir um að hafa verið að undirbúa „ofbeldisaðgerð sem ógnar öryggi ríkisins“ að sögn saksóknara. Þeim var þó sleppt fljótlega úr haldi því dómari neitaði að fallast á gæsluvarðhaldskröfu yfir þeim.
Talsmenn líkamsræktarstöðvarinnar sögðu að handtökurnar hefðu hvatt þá til að banna minnihlutaþjóðernishópum aðgang. Það væri gert til að tryggja öryggi annarra gesta. Þeir sögðu að bannið næði til allra sem væru innflytjendur.
En málið vakti að sjálfsögðu mikla athygli og miklar umræður spunnust um það á samfélagsmiðlum og voru forráðamenn líkamsræktarstöðvarinnar sakaðir um rasisma.