fbpx
Laugardagur 20.apríl 2024
Fréttir

Dublin og Joyce

Ódysseifur og fleiri góðir

Ritstjórn DV
Föstudaginn 21. október 2016 12:52

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Ég var fyrir rúmri viku í Dublin, höfuðborg Írska lýðveldisins, staðnum sem víkingar stofnuðu á sinni tíð við ósa árinnar Liffey og kölluðu Dyflinni – var bara í fárra daga lystireisu með Wow til þessarar nágrannaborgar – flugið er rétt um tveir tímar. Ég var að koma þangað í annað sinn, hafði áður verið þar árið 1990 og þá í tengslum við væntanlega útgáfu einnar frægustu, eða kannski allra frægustu, skáldsögu 20 aldarinnar, Ulysses eftir James Joyce, sem kom út ekki löngu síðar í tveimur bindum í íslenskri þýðingu Sigurðar A. Magnússonar: Ódysseifur. Það var eftirminnileg heimsókn; ég var í för með Sigurði þýðanda og útgefandanum Halldóri Guðmundssyni hjá Máli og menningu; sjálfur var ég með sem nokkurskonar skrásetjari fararinnar sem ég sagði svo frá nokkru síðar í myndskreyttri grein í tímariti. Gestgjafi okkar og leiðsögumaður í umræddri heimsókn var ekki af verri endanum, Ken Monaghan, systursonur skáldsins James Joyce og helsti talsmaður hans arfleifðar.

Ken þessi var frábærlega skemmtilegur maður, en hann lést í hárri elli fyrir nokkrum árum. Þegar við hittum hann hér á árunum var þetta svona roskinn Íri með mikinn húmor og kómískt auga fyrir lífinu; hann þekkti allar helstu krár borgarinnar og kynnti margar þeirra fyrir okkur þremenningunum frá Íslandi, ekki síst þær sem nefndar eru í skáldsögunni frægu Ódysseifi. Bókin sú gerist öll á einum sólarhring í Dublin, nánar tiltekið 16. júní 1904, en þessi dagsetning hefur fengið heitið Bloomsday eftir helstu söguhetjunni, Leopold Bloom, sem fer víða um borgina eins og lýst er af mikilli nákvæmni. Ken Monaghan var hress með okkur Íslendingana því að við vorum ekkert feimnir við að panta okkur veigar á írsku kránum, hann fylgdist ánægður með okkur kneyfa úr glösum og sagði að gestir sem kæmu til borgarinnar til að kynna sér sögusvið skáldsögunnar frægu væru misteprulegir í þessum efnum; engir hefðu þó verið jafn leiðinlegir og hópur amerískra bókmenntafræðinga sem hann lóssaði eitt sinn um þessar sömu slóðir; hann hefði farið með þá frá einni knæpu til annarrar án þess að þeir fengju sér nokkuð bragðmeira en vatn, fyrr en kannski á sjöundu kránni að þeir ákváðu að panta Guinness-bjór, en í hvítvínsglas! „Þá yfirgaf ég þau!“ sagði Ken okkur; hann var dálítið nefmæltur og gaman að heyra hann segja þetta á sinni tungu: „Then I abandoned them!“

Setið á írskum pöbbum

Guinness er eins og menn vita helsti bjór þeirra Íra og með höfuðstöðvar þarna í Dyflinni; dökkur og dálítið rjómakenndur drykkur og sé hann rétt skenktur þarf að bíða um hríð meðan allar litlu loftbólurnar setjast til; þannig drykkir heita „stout“, og er Guinness þeirra frægastur. Við vinirnir og jafnaldrarnir, ég og Halldór Guðmundsson, vorum ákaflega hlynntir þessum veigum, en ferðafélagi vor Sigurður A. var gagnrýninn á umræddan mjöð, taldi eins víst að hann fengi ofnæmisviðbrögð ef hann léti þetta oní sig, svo hann pantaði sér bara vodka í kók á kránum sem við heimsóttum. Leiðsögumaður vor, Ken Monaghan, fékk sér hinsvegar eingöngu óáfenga drykki, sat með glært spræt í glasi, og þessu tók Sigurður A. ekki eftir lengi vel, ekki fyrr en við höfðum setið lengi dags á einu af frægustu vertshúsunum sem sagt er frá í Ulysses; gott ef það var ekki Davy Byrnes pöbb, þar sem Leopold Bloom fékk sér samkvæmt bókinni samloku með gorgonzola-osti. Þá var kominn skógur af tómum bjórglösum fyrir framan okkur Halldór og tómum vodkaglösum hjá Sigurði A., en Ken var enn að sötra á sama litla sprætskammtinum. „Heyrðu, þú drekkur ekkert!“ sagði þá Sigurður með sinni kröftugu rödd og þeim ákafa sem hann er kunnur fyrir.

„Nei, ég er búinn með minn skammt,“ sagði Ken, „nú er ég AA-maður.“

Sigurður A. lyftist allur við að heyra þetta, hann er jafnan jákvæður í garð sinna viðmælenda og tekur undir og hrósar mönnum fyrir orð sín, auk þess sem honum fannst kannski mikilvægt að fram kæmi að við hinir brygðum okkur ekki við þessa yfirlýsingu Ken, teldum hann ekki ómerkari mann fyrir vikið, svo hann sagði á sinn flaumósa hátt að við Íslendingar þekktum vel AA, það væru alkunn samtök á Íslandi og að fjölmargir Íslendingar hefðu þurrkast upp fyrir þeirra tilverknað, og næstum mætti segja að við Íslendingar værum hreinlega að verða heimsmeistarar í AA-mennsku og bindindissemi!

Við hefðum getað blekkt Írann

Þessum fréttum tók Ken Monaghan af írskri gamansemi, hann leit yfir borðið sem við sátum við og var fullt af tómum bjór- og vínglösum eftir okkur Íslendingana og sagði: „Oh is that so? You could have fooled me!“

Þegar við þremenningar vorum í Dublin hér á árunum sýndi Ken, systursonur skáldsins, okkur allniðurnítt hús á nokkrum hæðum sem hann hafði komist yfir og vildi gera í stand og koma þar upp „James Joyce miðstöð“. Húsið kemur fyrir í Ulysses og þá var rekinn þar dansskóli sem Leopold Bloom heimsækir á sínu flandri. Það var ljóst að það yrði dýrt að koma húsinu í stand, en það tókst með styrkjum frá Unesco og fleiri aðilum og það var gaman að koma þarna aftur nú á dögunum og skoða þessa glæsilegu og merkilegu menningarmiðstöð. Og yfirleitt að heimsækja þessa skemmtilegu borg og hennar innbyggjara. Ég var nú á stuttri lystireisu með eiginkonunni, við þvældumst um bæinn eins og túristar gera, skoðuðu merkustu staði eins og Trinity-College og auðvitað göngugöturnar og pöbbana, sem frú Hildur tók eftir að væru reyndar mikil kallaathvörf; konur mjög í minnihluta. En þar svífur eigi að síður yfir vötnum elskusemi og húmor, sem er einkennandi fyrir þessa frændþjóð okkar.

Hvert brunnlok á sínum stað

Í skáldsögunni Ulysses, eða Ódysseifi, er öllum staðháttum í Dublin lýst af mikilli nákvæmni; öll brunnlok eru nákvæmlega á sínum stað, en höfundurinn Joyce fékk fólk sem hann þekkti til mæla slíkt upp fyrir sig, og sömuleiðis skrefafjölda milli húsa, og þar fram eftir götunum. Sjálfur gat hann ekki kynnt sér málin af eigin raun því hann var í sjálfskipaðri útlegð frá heimalandinu áratugum saman, meðal annars allan þann langa tíma sem hinn mikli ópus, og óður til heimaborgarinnar, var í smíðum. Varla hefur nokkur höfundur lýst jafn glæsilega sinni fæðingarborg og hann gerði, ekki bara í Ódysseifi, heldur einnig til dæmis í smásagnasafninu Dubliners, sem Sigurður A. hefur sömuleiðis snarað: Í Dyflinni. Þetta rímar á sinn hátt við þá staðreynd sem við þekkjum úr rómantískri hérlendri ljóðlist að hvergi elskum við Ísland meir en þegar við dveljumst í Danmörku.

Ódysseifur Joyce er að sönnu módernísk skáldsaga, um margt óhefðbundin í formi, og ég veit það hefur fælt marga frá að leggja í doðrantinn, menn halda sumir að þetta sé eitthvert flókið torf. En það er hinsvegar fyllsta ástæða til að hvetja alla þá til að láta samt slag standa; það þarf að sýna þolinmæði fyrstu síðurnar eða kaflana, en svo fer samt fyrir flestum að frásögnin grípur þá, enda bókin full af frábærum stílgaldri, mannlýsingum og sérkennilegri gamansemi; lesendur slást ósjálfrátt í för með Bloom og Dedalus og öllum hinum þvers og kruss um þessa merkilegu borg. Ulysses er latneska versjónin af nafni Ódysseifskviðu, og að formi til sækir Joyce margt til þeirrar gömlu kviðu, til dæmis í uppbyggingu verksins, og sömuleiðis eiga helstu persónur samsvaranir við persónur kviðunnar; Leopold Bloom er þannig Ódysseifur á leið heim til sinnar Penelópu, Mollý Bloom, og fylgdarmaður hans, Stefán Dedalus, samsvarar Telemakkusi. Svona löguðu hafa bókmenntafræðingar gaman af að pæla í, og sumir halda fyrir vikið að þetta sé svona bók fyrir eina saman fræðimenn og nörda. En svo er ekki, það breytir engu fyrir lestraránægjuna hvort menn hafa þessar samsvaranir í huga, þetta er fyrst og fremst mögnuð saga um skemmtilegt fólk í áhugaverðri borg.

Þýðingarafrek

Ég gat þess hér í byrjun að ég var fyrst í Dublin þegar íslensk þýðing á Ulysses var í undirbúningi. Og það er skemmst frá því að segja að hún kom svo út í tveimur bindum árin 1992 og 1993, næstum átta hundruð stórar og þéttar síður samtals. Forystumenn Máls og menningar eiga mikinn heiður skilinn fyrir að hafa látið ráðast í þetta verk; þetta er stórt og dýrt fyrirtæki og ekki líklegt til að gefa skyndigróða eins og krimmi eða bestseller. En hinsvegar er hér um að ræða eitt af þeim bókmenntaverkum sem hreinlega þarf að vera til á tungum menningarþjóða.

Og svo er það íslenskun Sigurðar A. Magnússonar, en frá hans hendi heitir hún Ódysseifur, eins og þegar hefur verið nefnt. Og því er við að bæta fyrir þá sem ekki vita að þýðing SAM er hreint snilldar- og afreksverk; hann fylgir margbrotnum stíl bókarinnar af mikilli list. Þetta er þýðingarafrek sem jafnast á við önnur þau mestu í íslenskri bókmenntasögu, og frægð þess verður lengi uppi.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Stöð 2 lækkar verð
Fréttir
Í gær

Segist enga tengingu hafa við heimalandið en verður samt að sitja í fangelsi þar

Segist enga tengingu hafa við heimalandið en verður samt að sitja í fangelsi þar
Fréttir
Í gær

Kíghósti greinist hjá nokkrum ótengdum einstaklingum á höfuðborgarsvæðinu

Kíghósti greinist hjá nokkrum ótengdum einstaklingum á höfuðborgarsvæðinu