Ólafur Skúlason var biskup Íslands frá árinu 1989 til 1997 en þar áður hafði hann verið vígslubiskup í Skálholti, dómprófastur og sóknarprestur í Bústaðakirkju. Þau atvik sem tilkynnt voru árið 1996 komu frá mismunandi tímum á starfsferli hans en hæst fór frásögn Sigrúnar Pálínu Ingvarsdóttur.
Sigrún leitaði til Ólafs í Bústaðakirkju árið 1977 vegna hjónabandserfiðleika. Ólafur fékk hana inn í gluggalaust herbergi, læsti og að sögn Sigrúnar réðst Ólafur á hana og reyndi að nauðga henni. Sigrún leitaði til Sigurbjörns Einarssonar biskups ári síðar og tilkynnti málið. Á sáttafundi neitaði Ólafur og sagðist Sigurbjörn ekkert geta gert í málinu.
Sigrún gekk eyðimerkurgöngu með mál sitt innan kirkjunnar um langt skeið og tóku þeir prestar sem hún leitaði til ekki á því. Árið 1996 kærði hún einn þeirra, séra Vigfús Þór Árnason, og stigu þá tvær konur, Dagbjört Guðmundsdóttir og Stefanía Þorgeirsdóttir, til viðbótar fram og sögðu í DV frá kynferðisbrotum Ólafs, nafnlaust til að byrja með.
Boðað var til sáttafundar en Ólafur neitaði öllu. Þá beittu tveir þjóðkirkjuprestar, séra Karl Sigurbjörnsson og séra Hjálmar Jónsson, konurnar miklum þrýstingi og reyndu að fá þær til að draga frásagnir sínar til baka. Dagbjört gerði það og hinum yfirlýsingunum var breytt að þolendum forspurðum. Í viðtali við DV sagði Dagbjört um fund með Karli: „Þetta var ekki eins og kirkja, þetta var eins og fyrirtæki þar sem hann var forstjórinn. Ef þú vannst ekki eftir aðferðum hans varðstu að passa þig. Ég var hrædd við hann.“
Ólafur stóð fast við sinn keip og sneri vörn í sókn. Hann sagði að konurnar bæru upp á hann tilhæfulausar ásakanir, mögulega fyrir áeggjan séra Flóka Kristinssonar, prests í Langholtskirkju. Málið væri því allt eitt stórt samsæri. Ólafur kærði Sigrúnu og Stefaníu til lögreglunnar fyrir rangar sakargiftir og ærumeiðingar og krafðist opinberrar rannsóknar. Einnig fékk hann stuðning frá valdamesta manni landsins, Davíð Oddssyni forsætisráðherra, sem samkvæmt ævisögu Ólafs sagði honum að þetta væri leikrit og að málið hlyti að ganga yfir. Konurnar, eiginmenn, börn og fjölskyldur urðu einnig fyrir aðkasti í samfélaginu og sumir fjölskyldumeðlimir vitnuðu gegn konunum. Þá fylktu kirkjunnar menn sér dyggilega að baki biskupnum.
Eftir að siðaráð kirkjunnar ályktaði að Ólafur hefði gerst sekur um að hafa njósnað um samskipti Sigrúnar og Flóka var honum ekki lengur stætt á að sitja áfram og tilkynnti hann um afsögn sína um mitt ár 1996. Árið 1997 var Karl kjörinn biskup og lágu mál Ólafs í dvala uns hann lést árið 2008.
Þetta ár, 2008, fundaði Sigrún með Karli biskupi þar sem hann baðst afsökunar ef hann hefði sært hana árið 1996. Þá lýsti Guðrún Ebba Ólafsdóttir, dóttir Ólafs, yfir stuðningi við Sigrúnu og greindi biskupi jafnframt frá misnotkun af hálfu föður síns. Hún óskaði eftir fundi með biskupi en fékk engin svör, sendi hún þá erindi til kirkjuráðs sem ekki hafði tíma til að taka það fyrir. Í ágúst 2010 var mál Guðrúnar komið í fjölmiðla.
Guðrún Ebba greindi frá því að faðir hennar hefði brotið á henni margoft um árabil og um þetta var skrifuð bók, Ekki líta undan. Á heimili þeirra hafi verið einkaklósett sem hann hafi notað til þess að brjóta á Guðrúnu. Hann hafði fullkomið vald yfir henni og þurfti aðeins að nikka til hennar og þá fór hún sjálf á þetta klósett. Einnig braut hann á henni utan heimilisins, í fjölskyldubílnum og í ferðalögum erlendis. Ofbeldið stóð fram á fullorðinsár og til að það kæmist ekki upp laug hann því upp á hana að hún væri geðveik.
Eftir að Guðrún sagði sína sögu stigu fleiri konur fram, sumar undir nafni en aðrar undir nafnleynd. Ljóst er að Ólafur braut kynferðislega á konum um áratuga skeið. Á þessum tímapunkti var komið að þætti Karls Sigurbjörnssonar, bæði vegna „sáttafundanna“ 1996 og tafanna á afgreiðslu máls Guðrúnar Ebbu. Karl reyndi að víkja sér og kirkjunni undan málinu. „Við verðum að muna það og hafa það í huga að enginn mannlegur máttur getur dæmt í þessu máli.“
Mörgum ofbauð hvernig kirkjan tók á Ólafsmálinu og á aðeins tveimur mánuðum árið 2010 sögðu þrjú þúsund manns sig úr Þjóðkirkjunni. Tveimur árum síðar hætti Karl sem biskup.