fbpx
Þriðjudagur 05.júlí 2022
Fókus

Eyjólfur: „Versta við þetta var að maður var að svíkja aðra og það situr enn þá í manni“

Kristinn H. Guðnason
Laugardaginn 8. september 2018 20:00

Ljósmynd: DV/Hanna

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Eyjólfur Kristjánsson, eða Eyfi eins og hann er gjarnan kallaður, var ein skærasta tónlistarstjarna Íslands á níunda og tíunda áratugnum þegar hann lék með Bítlavinafélaginu og söng fyrir Íslands hönd í Eurovision. Hann stendur núna á tímamótum og heldur stórtónleika Háskólabíói. Eyjólfur ræddi við DV um ferilinn, dekur í æsku, frægðina sem fór úr böndunum og gjaldþrotið í kjölfar bankahrunsins.

Þetta er brot úr stóru viðtali í helgarblaði DV.

Sveitaböll hjá Framsókn

Eyjólfur komst fyrst í sviðsljósið með hljómsveitinni Bítlavinafélaginu en hún varð til fyrir hálfgerða tilviljun. Jón Ólafsson var að leita að tónlistarmönnum til að spila undir í nemendamóti hjá Verzlunarskólanum og Eyjólfur var einn þeirra sem hann kallaði til. Jón þekkti Eyjólf úr þjóðlagasveitinni Hálft í hvoru sem hann var þá í.

„Við þekktumst ekki neitt. Hann hóaði í Harald Þorsteinsson, bassaleikara úr Brimkló, Rafn Jónsson heitinn úr Grafík, Stefán Hjörleifsson, vin sinn úr Verzlunarskólanum, og mig sem kassagítarleikara. Við hittumst og æfðum sixtíslög fyrir nemendamótið en það átti ekki að verða neitt meira úr þessu. Rétt fyrir mótið hringdi Guffi, Guðvarður Gíslason, sem rak Gauk á Stöng og spurði mig hvort ég væri ekki til í að setja saman John Lennon-dagskrá til að flytja á tónleikum. Ég spurði strákana hvort þeir væru til og þeir voru það en okkur vantaði söngvara. Þá ákváðum við að við Jón myndum skipta þessu á milli okkar því að við vorum skástu söngvararnir. Þetta sló svo í gegn og við ákváðum að halda áfram með þetta.“

Skömmu síðar fór Bítlavinafélagið í hljóðver og tók upp frumsamið lag, Þrisvar í viku, og frægðin fylgdi í kjölfarið. Nú var ekkert annað að gera en að gefa meira út og spila á böllum.

„Við áttum ekkert von á því að Þrisvar í viku yrði svona vinsælt. Ég var búinn að ráða mig upp í Kerlingarfjöll en gat ekki verið þar nema í örfáar vikur því mér var kippt burt og svo var túrað um landið.“

Hvernig kom það til að þið spiluðuð fyrir Framsóknarflokkinn árið 1987?

„Þetta var einhver hugmynd sem að framkvæmdastjóri flokksins fékk og þetta fékk heitið „Denni og Bítlavinafélagið.“ Steingrímur Hermannsson var kallaður Denni,“ segir Eyjólfur og hlær. „Ég man ekki hvort það voru margir Framsóknarmenn í Bítlavinafélaginu en þetta var tilboð sem við fengum og við slógum til og þetta var fjör. Steingrímur sjálfur var hrikalega skemmtilegur maður. Hann var settur í rúllukragapeysu eins og Bítlarnir og það voru teknar myndir af okkur saman. Það var kosningabarátta í gangi og við spiluðum á sveitaböllum þar sem Framsóknarflokkurinn var með framboðsfundi en auðvitað voru allir velkomnir, ekki bara Framsóknarmenn. Í eitt skiptið kom Denni upp á svið og tók lagið. Steingrímur gat alveg sungið og var oft uppi í Kerlingarfjöllum.“

Eftir þessar miklu vinsældir tók Bítlavinafélagið frí í næstum því heilt ár og Eyjólfur var þá farinn að huga að sólóferli. Árið 1988 var stórt á ferli hans en þá komu út tvær vinsælar plötur, 12 íslensk bítlalög með Bítlavinafélaginu og Dagar með honum sem sólólistamanni. Þetta sama ár var ekki síður viðburðaríkt á ferli annarra meðlima Bítlavinafélagsins því það ár stofnuðu þeir hljómsveitina Sálina hans Jóns míns. „Það var eins og við gætum ekki gert neitt rangt,“ segir Eyfi.

Sér eftir kvennafarinu

Á þessum tíma voru Íslendingar nýbyrjaðir að taka þátt í Eurovision og flestir lagahöfundar sendu inn lög á hverju ári. Eyjólfur lét ekki sitt eftir liggja og sendi inn, bæði í Söngvakeppni Sjónvarpsins og Landslagið, keppni sem Stöð 2 og Bylgjan stóðu fyrir. Mörg af þekktustu lögum Eyjólfs voru framlög í þessar keppnir eins og til dæmis lagið Álfheiður Björk sem sigraði í Landslaginu árið 1990. Eyjólfur segist vera mikill keppnismaður en ferillinn hafi þó ekki snúist um þessar keppnir. Þetta var eitthvað sem allir gerðu til að koma sér á framfæri. Árið 1990 hætti Bítlavinafélagið, um sama leyti og frægð Eyjólfs var sem mest.

Hvernig átti frægðin við þig?

„Þetta var skrýtið til að byrja með, að eiga lög sem verða vinsæl og vera sífellt í sjónvarpinu. Ég átti mjög erfitt með það þegar stelpur voru farnar að koma upp að mér úti á götu og biðja um eiginhandaráritanir. Ég hef alltaf verið frekar alþýðlegur maður og var ekki að meðtaka þetta. En þetta steig mér líka til höfuðs og ég fór út af þessum gullna meðalvegi. Ég kom ekki vel fram við alla og gerði hluti sem ég sá síðar eftir.“

Hvernig þá?

„Ég var aldrei fyllibytta eða dópisti eða neitt svoleiðis en ég var allt of mikill kvennabósi og það finnst mér alveg skelfilega leiðinlegt að hugsa um í dag. Þá hélt ég að þetta líf ætti að vera svona.“

Misstir þú tökin?

„Svona hálfpartinn. Það versta við þetta var að maður var að svíkja aðra og það situr enn þá í manni.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 3 dögum

Sumir sjúskaðir en aðrir svalari – Frægir í fangelsi

Sumir sjúskaðir en aðrir svalari – Frægir í fangelsi
Fókus
Fyrir 3 dögum

„Ég treysti mér ekki í kringum nýja samstarfsmanninn“

„Ég treysti mér ekki í kringum nýja samstarfsmanninn“
Fókus
Fyrir 3 dögum

Kostir hláturs – Flissaðu heilsuna í lag

Kostir hláturs – Flissaðu heilsuna í lag
Fókus
Fyrir 3 dögum

George var aðeins fjórtán ára – Átakanleg saga barnsins í rafmagnsstólnum

George var aðeins fjórtán ára – Átakanleg saga barnsins í rafmagnsstólnum