fbpx
Laugardagur 24.júlí 2021
Fókus

Silla móðir Birnu: „Ég naut þess að vera með þessu fallega ljósi“

Foreldrar og vinir: Þetta er Birna. Munið hana svona – Góðhjörtuð, traust, fyndin, sterk og stóð með sínum

Kristjón Kormákur Guðjónsson
Föstudaginn 27. janúar 2017 09:12

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Birna var alltaf að koma mér á óvart. Hvernig hún hugsaði og sá veröldina. Ég stóð mig oft að því að hugsa um og dást að því hvernig hún lifði lífinu, en ég þurfti stundum tíma til að venjast því. Hún var skemmtilegasta manneskja sem ég hef kynnst, alveg frá því að hún fæddist, algerlega að bróður hennar ólöstuðum.“

Þetta segir Sigurlaug Hreinsdóttir, móðir Birnu Brjánsdóttur. Íslenska þjóðin hefur syrgt Birnu en minning um unga og bjarta stúlku mun ætíð lifa með íslenskri þjóð, líkt og Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, komst að orði. Sigurlaug, eða Silla eins og hún er gjarnan kölluð, á þá ósk heitasta að við Íslendingar minnumst Birnu sem yndislegrar, ungrar konu, sem var heilsteypt, gefandi, hugmyndarík og lifði skemmtilegu lífi. Ekki sem stúlkan sem hlaut ömurleg örlög líkt og ítrekað hefur verið fjallað um í fjölmiðlum, bæði hér heima og erlendis. Undir þetta tekur faðir hennar, Brjánn Guðjónsson, og vinir Birnu.

„Ég þekkti ekki Birnu Brjánsdóttur. Ég vissi ekki einu sinni að hún væri til. Undanfarna daga finnst mér samt ég hafa kynnst henni svo vel,“ sagði Illugi Jökulsson í pistli á Stundinni og bætti við að nú þegar þjóðin hefði fylgt Birnu hennar hinstu gönguferð, þá sé tóm í lífi Íslendinga.

Birna sameinaði íslenska þjóð og munu örlög hennar líklega verða til þess að Grænlendingar taki á þöggun um ofbeldi og misnotkun. En orð fá ekki linað þjáningar foreldra og vina, sagði Guðni Th. Jóhannesson. Það hvernig við Íslendingar höldum minningu Birnu á lofti, því Birna mun ávallt fylgja okkur, hjálpar foreldrum og vinum að kljást við og lifa með sorginni. Birna var falleg, hæfileikarík og góðhjörtuð. Hún var húmoristi. Stóð með vinum sínum. Var sjálfstæð. Og elskaði lífið. Þetta er Birna. Munið hana svona.

Átti auðvelt með að læra

Birna Brjánsdóttir fæddist þann 28. nóvember árið 1996 á Landspítalanum í Reykjavík. Ljósmóðirin sagði glettin að hún teldi jafnvel að Birna ætlaði að setjast upp á fyrsta klukkutímanum, svo ákveðin var hún. Það einkenni átti eftir að vera eitt af hennar helstu persónueinkennum. Silla sagði eitt sinn:

,,Birna var fyrsta vinkona mín á Íslandi,“ segir Helen.
Birna og Helen Xinwei Chen ,,Birna var fyrsta vinkona mín á Íslandi,“ segir Helen.

„Hún er svo sjálfstæð að Ingólfur Arnarson bliknaði við hliðina á henni.“

Birna gekk í Álftamýrarskóla sem nú heitir Háaleitisskóli. Silla kveðst hafa full aðdáunar fylgst með henni útfæra alls konar hugmyndir en skólinn hafi þó ekki verið í mestu uppáhaldi.

„Hún var ekkert mjög upptekin af framtíðinni og lifði mest í núinu. Hún hafði ekki gaman af því að vera í skóla, sitja kyrr og lesa. Hún átti engu að síður auðvelt með að læra og var gríðarlega skapandi,“ segir Silla. „Það sem mér fannst skemmtilegast við hana var að hún var endalaust að koma mér og öðrum á óvart.“

Foreldrar og vinir eru á einu máli um að Birna var einstaklega fylgin sér. Frasi sem hún hafi tileinkað sér snemma var: „Mamma, ég veit þú meinar vel en …“ og var þá tilgangslaust að reyna að fá Birnu til að skipta um skoðun. Ákvörðun hafði verið tekin. Vinir Birnu segja að hún hafi kennt þeim að sjá lífið í skemmtilegu ljósi og undir það tekur Silla, sem segir ánægjulegasta verkefni lífsins hafi verið að ala Birnu upp. Þegar Silla sendi Birnu afmæliskveðju á Facebook skrifaði hún:

„Þegar ég hugsa til hennar frá því hún var lítil þá fer ég alltaf að brosa innra með mér og jafnvel að hlæja upphátt. Hún stendur í hárinu á hverjum sem er og veit hvað hún vill – það er ekki hægt að biðja um meira.“

[youtube https://www.youtube.com/watch?v=FK8Qrre0xx4&w=640&h=360]

Prakkarinn Birna

Prakkarasvipur á Birnu.
Prakkarinn Prakkarasvipur á Birnu.

Birna var uppátækjasöm sem barn en Silla minnist þess með hlýju þegar hún fékk upphringingar vegna kvartana. Þegar Silla settist niður til að ræða yfir hausamótunum á dóttur sinni átti hún erfitt með að halda aftur af hlátrinum.

„Yfirleitt var hún með svo góð rök fyrir því sem hún var að gera og það var svo skemmtilegt að tala við hana. Hún var heldur ekki að meiða neinn. Þetta voru lítil og saklaus prakkarastrik, sem dæmi um það þá stálust hún og vinkona hennar eitt sinn inn í nærliggjandi matvöruverslun. Þegar loks var hringt í okkur foreldrana þá voru þær búnar að fylla körfu af matvörum í leik.“

„Ég er Birnupabbi“

Birna var mjög náin föður sínum og bróður.
Faðir Birnu og bróðir Birna var mjög náin föður sínum og bróður.

„Ég sá hana alltaf fyrir mér komandi að knúsa mig og sú hugsun tárar mig alltaf“

Síðustu tvö ár bjó Birna hjá föður sínum, Brjáni Guðjónssyni. Feðginin voru afar náin. Brjánn sagði í samtali við DV þegar lýst var eftir Birnu:

„Hún flutti til mín þegar hún varð sjálfráða og við búum hérna saman, við tvö og kötturinn. Við erum rosalega náin og sambúðin er frábær. Hún er pabbastelpa og ég er Birnupabbi.“

Birna lærði á píanó í nokkur ár og hafði gaman af því að syngja líkt og sjá má á myndskeiðum sem fylgja netumfjöllun DV. Þá hafði hún einnig gaman af því að lesa og púsla. Hún átti auðvelt með að vera ein og dunda sér.

Brjánn skrifaði á bloggsíðu sína fyrir nokkrum árum:

Dreki var í miklu uppáhaldi hjá Birnu og voru þau mestu mátar.
Birna með kettinum Dreka Dreki var í miklu uppáhaldi hjá Birnu og voru þau mestu mátar.

„Ég elska hana óendanlega. Hún Birna mín er rosalegur knúsari og fátt jafn yndislegt eins og faðmlagið hennar, enda var hún mér ofarlega í huga þegar ég samdi lagið „Minning“ – ég sá hana alltaf fyrir mér komandi að knúsa mig og sú hugsun tárar mig alltaf.“

Birna var mikill dýravinur. Þegar hún bjó hjá föður sínum átti hún kött sem hún nefndi Dreka. Þá var hún vegan og grænmetisæta til skiptis síðustu þrjú, fjögur árin vegna ást á dýrum sem hún hafði mikla samúð með. Silla segir að Brjánn hafi kvartað nokkuð undan Dreka sem var árásargjarn og átti það til að ráðast á gesti úr launsátri og gera þeim bylt við.

„Birna stóð alltaf með Dreka og sagði pabba sínum að hann yrði að breyta framkomu sinni gagnvart kettinum en Brjánn er mikill kattavinur, svo það komi fram,“ segir Silla.

Lét ekki stjórnast af skoðunum annarra

„Það var enginn að fara að stjórna henni og hún stóð með sínu fólki, alltaf“

Þegar rætt er við vini og fjölskyldu eru þeir sammála um að Birnu hafi verið sama um hvaða skoðun aðrir höfðu á henni. Það hvarflaði ekki að henni að velta því fyrir sér hvaða hugmynd aðrir höfðu um hana. Hún var bara Birna og kom til dyranna eins og hún var klædd.

„Hún gat alltaf rökstutt sitt val og ákvarðanir. Þær breyttust ekki. Á endanum lærði ég að henni yrði ekki haggað og samþykkti það sem hún sagði án frekari málalenginga,“ segir Silla.

[youtube https://www.youtube.com/watch?v=v1Rz-l97sj0&w=640&h=360]

Birna var nægjusöm og keypti föt sín í búðum sem seldu notuð föt. Var það gert af hugsjón, ekki af fjárhagsvandræðum. Áður hefur komið fram að Birna var með svartan húmor. Hún hafði gaman af að kynnast fólki frá öllum heimshornum.

Náin bróður sínum og afa og ömmu

Náin systkini
Logi Fannar og Birna Náin systkini

Birna og bróðir hennar, Logi Fannar Brjánsson, voru afar náin og miklir vinir. Þau gátu talað um allt milli himins og jarðar og ófá hlátursköst sem þau áttu saman. Þá stóðu þau oft saman gegn foreldrum sínum ef þeir stungu upp á hugmyndum sem öðru þeirra hugnaðist ekki.

„Þá mátti ég vanda mig ef ég ætlaði að ná árangri,“ segir Silla.

Logi Fannar sótti Birnu yfirleitt í vinnuna, og hafði unun af því. Logi saknar mest litlu hlutanna, til dæmis að Birna komi ekki lengur inn og spjallar við köttinn Dreka.

„Hann gerði allt fyrir hana og hún kenndi honum mjög fljótt að mæta tímanlega. Hún var ekki týpan sem beið úti í kuldanum. Hann mætti alltaf á slaginu eftir að hún hafði gert honum grein fyrir því.“

Verið að skíra systkinin í Sjávarborgarkirkju á Sauðárkróki.
Fyrir utan Sjávarborgarkirkju Verið að skíra systkinin í Sjávarborgarkirkju á Sauðárkróki.

„Hún var líka góður vinur foreldra minna, ömmu sinnar og afa, en hún sagði þeim til frá unga aldri. Það gerðist bara núna síðast um jólin að hún bað afa sinn um að kaupa sér dekkri skyrtu, af því ömmu hennar fannst hann svo sætur í dekkri skyrtu.“

Vinirnir

Viðmælendur DV segja að Birna hafi ekki þola drama og forðaðist rifrildi og ósætti. Vinir hennar hafi verið fljótir að kynnast innbyrðis. Vinirnir voru fjölbreyttir og af báðum kynjum.

,,Birna var fyrsta vinkona mín á Íslandi,“ segir Helen.
Birna og Helen Xinwei Chen ,,Birna var fyrsta vinkona mín á Íslandi,“ segir Helen.

„Ég er mjög þakklát fyrir okkar vinskap.“ Þetta segir Helen Xinwei Chen, sem var fyrsta vinkona Birnu. Þær kynntust á leikskólanum Álfaborg árið 2000, þremur mánuðum eftir að Helen flutti frá Kína til Íslands. Þá voru þær Birna þriggja ára.

„Það er eiginlega merkilegt hvað við urðum strax góðar vinkonur þar sem ég sagði ekki stakt orð fyrstu vikurnar eftir að ég byrjaði á leikskólanum,“ segir Helen og bætir við:

„Ég skildi aldrei hvað hún nennti að hanga með stelpu sem sagði ekki orð.“ Helen er handviss um að vinátta Birnu hafi hjálpað henni að komast yfir feimnina og byrja að tala. Eftir leikskóla fóru vinkonurnar saman í Álftamýrarskóla.

„Það var alltaf gaman að leika við hana. Hvort sem er í frímínútum eða eftir skóla. Birna var alltaf í góðu skapi. Aldrei neitt drama eða vesen í kringum hana, heldur bara gleði.“

Matthildur Soffía Jónsdóttir og Birna voru mjög nánar vinkonur.
Birna og besta vinkonan Matthildur Soffía Jónsdóttir og Birna voru mjög nánar vinkonur.

Eftir að grunnskólagöngunni lauk skildu leiðir Helenar og Birnu. Þrátt fyrir það áttu þær stórt pláss í hjarta hvor annarrar.

Matthildur Soffía Jónsdóttir er ein besta vinkona Birnu í seinni tíð. Hún sagði í samtali við DV að Birna hefði aldrei verið í neinu rugli eða snert eiturlyf. Matthildur sagði í samtali við Vísi um vináttu þeirra:

„Hún er yndisleg vinkona. Hún er alltaf til staðar og hún leysir mál fljótt og ekkert drama. Örugglega ein besta vinkona sem ég hef eignast á ævi minni. Ég treysti henni fyrir öllu og ég elska hana. Hún er svo klár. Hún er ekki í neinu rugli. Hef sagt þetta áður, hún reykir ekki einu sinni gras. Hún er eldklár og stendur föst á sínu.“

[youtube https://www.youtube.com/watch?v=UgTftrbh2RU&w=640&h=360]

Kennarinn talar

„Birna var góður námsmaður, hún dansaði á böllum og tók virkan þátt í félagsstarfi“

„Birna var góður námsmaður, hún dansaði á böllum og tók virkan þátt í félagsstarfi.“

Þetta segir Guðrún Jóna Valgeirsdóttir, sem kenndi Birnu á unglingastigi í Álftamýrarskóla. Síðustu daga hafa kerti logað á kennarastofunni við mynd af Birnu sem var vel metin af kennurum sem og öðru starfsfólki Álftamýrarskóla. Þar stundaði Birna nám frá því hún var sex ára og þar til hún útskrifaðist úr grunnskóla vorið 2012.

„Birna hafði svo hlýlega nærveru, var hæversk og það var svo margt skemmtilegt við hana,“ segir Guðrún og rifjar upp hvað Birna var með útpældan húmor og hnyttin tilsvör, bæði í kennslustofunni sem og í öðrum samskiptum. Guðrún sér fyrir sér að Birna hefði í framtíðinni starfað við eitthvað sem tengdist fólki.

„Hún hefði til dæmis ekki orðið endurskoðandi. Birna átti svo auðvelt með að ná til fólks og var algjör félagsvera,“ segir Guðrún.

[youtube https://www.youtube.com/watch?v=PVPcGQrmICo&w=640&h=360]

Treysti heiminum – Þetta er Birna

Birna tók fólki eins og það var, dæmdi það ekki, en viðmælendur DV eru sammála um að fólk hafi sjálfkrafa orðið afslappað í kringum hana, liðið vel og komist í gott skap. Hún óttaðist ekki viðbrögð fólks og sagði alltaf hug sinn en gætti þess að vera nærgætin og hlý. Hún gat verið ögrandi í framkomu en það snerist þó um að leyfa sér að vera hún sjálf. Hún var ekki vísvitandi að reyna að ögra fólki. Sjálfstæði hennar gat birst á þann hátt og hún setti fólki skýr mörk og lét það vita hvað henni fannst.

„Hún treysti heiminum og treysti lífinu, hún var áhyggjulaus og áræðin“

„Það var enginn að fara að stjórna henni og hún stóð með sínu fólki, alltaf. Hún sat ekki hjá aðgerðarlaus ef henni fannst að sínum veitt,“ segir Silla. „Hún treysti heiminum og treysti lífinu, hún var áhyggjulaus og áræðin. Hún var líka svo góð og passaði upp á tilfinningar annarra.“

Ein af uppáhaldsstundum Sillu og Birnu var að snæða saman á veitingastöðum. Þá sagði Birna endalausar glettnar sögur úr lífi sínu. „Hún var svo góður sögumaður og sögurnar voru svo fyndnar. Ég ýki ekki þegar ég segi að ég get enn hlegið að þeim. Þá sungum við oft í bílnum og dönsuðum.“

Þessi mynd er mjög lýsandi fyrir Birnu, segir Silla.
Þessi mynd er mjög lýsandi fyrir Birnu, segir Silla.

Silla vill að Íslendingar muni á þennan hátt eftir Birnu. Fallegum, hæfileikaríkum og góðhjörtuðum húmorista. Stúlku sem þorði að standa á sínu og vildi öllum vel og elskaði heiminn. Þetta er Birna. Munið hana svona.

„Ég elskaði hana svo ótrúlega, ótrúlega mikið. Það sem ég er þakklátust fyrir er að ég var meðvituð um það alveg frá því að hún fæddist,“ segir Silla, móðir Birnu.

„Það er ekkert sem ég gleymdi að taka eftir á meðan hún óx úr grasi. Ég naut þess að vera með þessu fallega ljósi.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 4 dögum

Piers Morgan lætur Harry heyra það – „Þú hlýtur að vera að fokking djóka?????“

Piers Morgan lætur Harry heyra það – „Þú hlýtur að vera að fokking djóka?????“
Fókus
Fyrir 4 dögum

Sjáðu myndina: Kim Kardashian „óþekkjanleg“ eftir útlitsbreytinguna

Sjáðu myndina: Kim Kardashian „óþekkjanleg“ eftir útlitsbreytinguna
Fókus
Fyrir 5 dögum

„Þegar ég var lítill lék ég mér með hvítt efni í poka, ég ætlaði að verða eiturlyfjasali þegar ég yrði stór“

„Þegar ég var lítill lék ég mér með hvítt efni í poka, ég ætlaði að verða eiturlyfjasali þegar ég yrði stór“
Fókus
Fyrir 5 dögum

Adele sögð vera komin með nýjan kærasta

Adele sögð vera komin með nýjan kærasta
Fókus
Fyrir 6 dögum

Fjölkær eiginmaður sakaður um að hafa heilaþvegið eiginkonurnar – „Föstudag fram á sunnudag skiptumst við á“

Fjölkær eiginmaður sakaður um að hafa heilaþvegið eiginkonurnar – „Föstudag fram á sunnudag skiptumst við á“
Fókus
Fyrir 6 dögum

Gifti sig og fékk holskeflu ljótra athugasemda – „Af hverju í andskotanum myndirðu giftast einhverri eins og henni?“

Gifti sig og fékk holskeflu ljótra athugasemda – „Af hverju í andskotanum myndirðu giftast einhverri eins og henni?“