86 fögur fljóð víðs vegar að úr heiminum keppa nú um titilinn Miss Universe 2017 á Manila í Filippseyjum. Í gær gengu stúlkurnar um sviðið í bikiníum, síðkjólum og þjóðbúningum síns heimalands. Þjóðbúningaþemað var þó mjög frjálslegt og má sem dæmi nefna að Ungfrú Svíþjóð kom fram í gervi Línu Langsokks með hestinn útbúinn úr pappa og ungfrú Frakkland kom fram klæðlítil líkt og hún hefði verið að stíga af sviði Rauðu Myllunnar (Moulin Rouge).
Fulltrúi Íslands, Hildur María Leifsdóttir, var glæsileg í alla staði. Þjóðbúningurinn sem samanstóð af heilgalla og skikkju í íslensku fánalitunum, táknaði andstæður heimalandsins, eld og ís.
Manuela Ósk Harðardóttir, eigandi Miss Universe Ísland og fyrrum Ungfrú Ísland er Hildi Maríu til halds og trausts og segir hana standa sig afskaplega vel.
„Hún er að standa sig svakalega vel,“ sagði Manuela Ósk í gærkvöldi við blaðamann DV. „Hildur María negldi dómaraviðtalið alveg 100% og var geggjuð í gær á sviðinu.“
Manuela Ósk þekkir keppnina af eigin raun, en hún tók þátt í Miss Universe árið 2003, en varð að hætta keppni sökum veikinda.
Myndband frá kvöldinu í gær má sjá hér fyrir neðan, en Hildi Maríu bregður fyrir á mínútum 18, 43 og 85.
[youtube https://www.youtube.com/watch?v=t9Kk_obFRhI&w=640&h=360]
Dagarnir í Manila eru langir og strangir, þrír dagar sem samanstanda af viðtölum við dómara keppninnar og fyrrnefndu kynningarkvöldi, þar sem stúlkurnar gengu um í síðkjólum, bikiníum og þjóðbúningum. Úr þeim hópi verða valdar stúlkur sem keppa munu til úrslita sunnudagskvöldið næstkomandi 29. janúar.
Annað árið í röð geta aðdáendur haft áhrif og valið sína uppáhalds stúlku, en 12 stúlkur munu keppa til úrslita á sunnudagskvöld.
Hægt er að kjósa Hildi Maríu hér og má gefa henni 10 atkvæði hvorn dag, en atkvæðagreiðsla er opin í dag og á morgun, laugardag.
[youtube https://www.youtube.com/watch?v=Ed37n-gSFc8&w=640&h=360]