„Við erum að taka strákana og móta þá inn í eitthvað sem þeir eru ekki. Inn í eitthvað form sem hentar stelpunum betur. Það verður til þess að þeir mótast ekki inn í það heldur dragast út úr því umhverfi,“ segir Ólafur Árnason sálfræðingur en hann telur mikilvægt fyrir komandi kynslóðir að komið sé móts við drengi innan skólakerfisins. Sömu kennsluaðferðir henti ekki báðum kynjum.
Ummæli Kristínar Ásgeirsdóttur hjá Jafnréttistofu í nýlegu viðtali Morgunblaðsins hafa verið talsvert umdeild. Telur Kristín að slakan árangur drengja í skóla og brotfall þeirra úr skóla megi rekja til þess að þeim dreymir um að verða atvinnumenn í knattspyrnu. Þannig megi útskýra betri árangur stúlkna í skóla.
„Kannski að alla stráka dreymi um að verða atvinnumenn í knattspyrnu og þeir telji sig ekki þurfa á menntun að halda,“sagði Kristín í umræddu viðtali og benti jafnframt á að enn væru konur í minnihluta í tækni og vísindagreinum í háskóla og sæki frekar í heilbrigðisgreinar og kennslu.
Í viðtali við Bítið á Bylgjunni nú á dögunum sagði Ólafur að áherslan í skólakerfinu hérlendis væri að færast hægt og rólega yfir í það að verðlauna börn fyrir að vera stillt og prúð, annað en þegar hann sjálfur var í barnaskóla, en þá hafi ekki verið óalengt „tuskast aðeins“ í frímínútum. Þetta fyrirkomulag hentar drengum illa að hans mati.
„Okkur vantar þennan „balans“: að leyfa þeim að fá útrásina og koma til móts við þá. Strákar læra með því að gera.“
Aðspurður um hvort það sé verið vera að „bæla niður strákinn“ í drengjum í dag svaraði Ólafur játandi.
„Ég held að við séum að fara alltaf lengra og lengra í þá áttina.“
Hann nefndi sem dæmi þá hugsun sem ríkir innan skólanna að enginn eigi að vinna eða tapa, heldur séu allir vinningshafar, hvort sem þeir lendi í 1.sæti eða 34.sæti.
„Hugsunin er falleg, og gott að kenna öllum, en það er alveg jafn mikilvægt að kenna drengjum og stúlkum að bæði vinna og að taka. Af því að einhvern tímann þegar þú kemur út í lífið þá þarftu að takast á við það.“
Þá er það mat Ólafs að þessi þessi þróun innan skólakerfisins bitni á hegðun drengjanna í tímum. Þeir fái ekki þá útrás sem þeir þurfi.
„Auðvitað eru til strákar sem geta setið og stúderað. En yfir höfuð þá hentar þeim betur að vera að gera eitthvað,“
sagði hann og bætti við að það hentaði ekki strákum að „sitja og lesa“, heldur þurfi þeir að læra með því að gera, líkt og taka hluti í sundur og setja þá saman aftur. Það sé ekki í eðli strákanna að sitja saman og ræða málin. „Í eðli strákanna er alltaf meiri keppni.“
„Einhver staðar held ég að við séum farin af leið. Það verður einhvers konar kynjabarátta,“ sagði Ólafur síðan en tók fram að sú barátta væri af hinu góða, enda hvatning fyrir stúlkur og ýtti þeim áfram.
„En við megum ekki setja strákana til hliðar, þjóðfélagið græðir ekkert á því. Ég held við séum að gera það ómeðvitað.“
Ólafur nefndi baráttu kvenna í karllægu þjóðfélagi og spurði sig hvort þjóðfélagið yrði í raun betur sett eftir fimmtán ár ef þróunin héldi svona áfram og karlar yrðu undir í baráttunni. Nefndi hann sem dæmi nýlega ljósmynd þar sem þingflokksformenn eru saman komnir, sex konur og einn karl.
„En það segir enginn neitt um það. Það er í lagi núna. En við þurfum að finna þetta jafnvægi.“