fbpx
Sunnudagur 24.ágúst 2025
Fókus

„Mig langar til að eiga þúsund líf“

Þuríður Blær Jóhannsdóttir verður Salka Valka – Farin í frí frá Reykjavíkurdætrum

Björn Þorfinnsson
Laugardaginn 26. nóvember 2016 09:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Fjölskylduaðstæður mínar voru kannski ekki alltaf hefðbundnar og það hafði örugglega mikil áhrif á mig. Kannski var það veganesti inn í leiklistina því stundum fann maður sér annan heim og ímyndunaraflið fékk lausan tauminn.“

Milli jóla og nýárs mun Borgarleikhúsið frumsýna Sölku Völku í nýrri leikgerð hinnar litháísku Yönu Ross. Þar mun leikkonan Þuríður Blær Jóhannsdóttir leika burðarhlutverkið, sem er hennar stærsta til þessa. Blær, eins og hún er alltaf kölluð, settist niður með blaðamanni DV og sagði frá leiklistarbakteríunni sem byrjaði í leikskóla, upplifuninni af leikhúsinu, þátttökunni í Reykjavíkurdætrum og síðast en ekki síst hvernig Nóbelsskáldið ber ábyrgð á nafni hennar.

Fékk hugljómun við lestur Brekkukotsannáls

Við mælum okkur mót á Kringlukránni, sem hentar vel enda eru bæði Borgarleikhúsið og DV staðsett í verslunarmiðstöðinni sem veitingastaðurinn dregur nafn sitt af. Blaðamaður hafði fram til þessa ávarpað leikkonuna sem Þuríði en var snarlega bent á að hún kysi að vera kölluð Blær. „Mér þykir vænt um Þuríðar nafnið en ég hef alltaf verið kölluð Blær. Þegar mamma gekk með mig þá las hún Brekkukotsannál og fékk hugljómun þegar hún sá nafnið Blær. Hún ákvað þá að hún myndi láta skíra mig þessu nafni og því má segja að Halldór Laxness beri ábyrgð á nafninu mínu. Akkúrat um sama leyti þá var sett bann við nafninu á stúlkur og því mátti ég ekki heita þessu nafni. Amma mín, Þuríður, féll síðan frá þegar ég var nýfædd og þá varð úr að ég var skírð í höfuðið á henni. Í Þjóðskrá hét ég því Þuríður Jóhannsdóttir en var alltaf kölluð Blær,“ segir hún og brosir. Það var ekki fyrr en í lok janúar 2013, að loknu dómsmáli sem nafna hennar Blær Bjarkadóttir háði og vann, sem mannanafnanefnd úrskurðaði að stúlkur mættu heita Blær. Þá bætti Þuríður Jóhannsdóttir því snarlega við nafnið sitt í Þjóðskrá.

Stefnt á leiklist frá fyrstu tíð

Strax í barnæsku ákvað hún að verða leikkona og hefur hvergi hvikað frá þeirri stefnu. „Ég sagðist ætla að verða leikkona strax í leikskóla. Líklega gera það margir en síðan rjátlaðist það aldrei af mér. Ég held að rótin sé sú að mig langaði til þessa að prófa allt, eiga þúsund líf og upplifa alls konar hluti. Það er að einhverju leyti hægt sem leikari. Ég held að þessi þrá mín til að leika og þá helst sem fjölbreyttust hlutverk, gæti jafnvel tengst einhverri dauðahræðslu,“ segir Blær sposk.

Óhefðbundnar fjölskylduaðstæður

Hún er einkabarn foreldra sinna, Ilmar Árnadóttur og Jóhanns V. Gunnarssonar. „Ég hef heyrt að einkabörn og yngstu börn verði oft leikarar. Ég held að það sé af því að við lærum að nota sjarmann sem eins konar verkfæri til þess að ná okkar fram,“ segir hún. Foreldrar hennar skildu að skiptum þegar Blær var ung að árum og hún var alin upp af móður sinni með dyggri hjálparhönd foreldra hennar. „Fjölskylduaðstæður mínar voru kannski ekki alltaf hefðbundnar og það hafði örugglega mikil áhrif á mig. Kannski var það veganesti inn í leiklistina því stundum fann maður sér annan heim og ímyndunaraflið fékk lausan tauminn. Ég tengi sterkt við Sölku Völku að því leyti að ég hef verið í aðstæðum sem eru öðruvísi, utanveltu hvað varðar sambýlismunstur og í skóla. En að sama skapi hef ég aldrei látið það stöðva mig. Ég hef sett mér markmið og fylgt þeim eftir,“ segir Blær og leggur áherslu á orð sín.

„Fjölskylduaðstæður mínar voru kannski ekki alltaf hefðbundnar og það hafði örugglega mikil áhrif á mig. Kannski var það veganesti inn í leiklistina því stundum fann maður sér annan heim og ímyndunaraflið fékk lausan tauminn,“ segir Blær.
Lætur ekkert stöðva sig „Fjölskylduaðstæður mínar voru kannski ekki alltaf hefðbundnar og það hafði örugglega mikil áhrif á mig. Kannski var það veganesti inn í leiklistina því stundum fann maður sér annan heim og ímyndunaraflið fékk lausan tauminn,“ segir Blær.

Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

Fyrstu skrefin

Hún fékk smjörþefinn af leiklistinni í grunnskóla þegar hún tók þátt í hæfileikakeppninni Skrekk með Austurbæjarskóla og eftir það heltók leiklistarbakterían hana. „Ég áttaði mig á því að ég gæti þetta alveg, að þetta lægi ef til vill fyrir mér. Eftir Skrekk fór ég að taka leiklistina af meiri alvöru og verja tíma í hana. Ég fór síðan í MH að stórum hluta út af því að ég hafði þá ímynd í huganum að þetta væri leiklistarskóli,“ segir Blær. Ástæðuna má rekja til þess að Tyrfingur Tyrfingsson, sem þá var í námi í MH, hafði leikstýrt áðurnefndri Skrekkssýningu. Tyrfingur, sem í dag er leikskáld Borgarleikhússins, varð eins konar mentor Blævar þessi fyrstu skref hennar í leiklistinni. „Ég var síðan í leikfélagi MH í tvö ár og síðan stofnuðum við nokkur sjálfstæðan leikhóp. Þetta var mjög kraftmikið ungt fólk sem veitti mér mikinn innblástur,“ segir hún.

Þurfti tvær tilraunir til

Rétt fyrir stúdentsprófið fór hún síðan inntökupróf fyrir leiklistardeild Listaháskólans en komst ekki inn í fyrstu tilraun. „Ég komst í lokahópinn en var síðan ekki valin inn. Eftir á að hyggja gerði ég kannski smá mistök að segjast ætla að koma strax aftur í prufur þegar ég var spurð hvað ég myndi gera ef ég kæmist ekki inn [hlær]. En eftir á að hyggja var þetta mjög gott og í raun og veru léttir. Ég fann strax að ég passaði á þessum tíma ekkert inn í hópinn sem síðan komst inn,“ segir Blær. Tvö ár voru í næsta inntökupróf og Blær notaði tímann vel.

„Ég fór aðeins að vinna og safna peningum, til dæmis við uppvask á veitingastað. Þar vann ég eiginlega bara með útlendingum og á staðnum var farið illa með starfsfólk. En fyrir mig var þetta áhugaverð reynsla sem ég bý að. Síðan ferðaðist ég til Grikklands á leiklistarnámskeið en aðallega til að læra að vera ,,kona“ og síðan fór ég í japönsku í háskólanum“ segir Blær. Þar fann hún sig svo um munar. „Ég hafði mikinn áhuga á manga-teiknimyndum og þaðan kom áhuginn á japönskunni. Þetta var ótrúlega skemmtilegt nám og ég hafði lokið einu ári þegar ég fór aftur í inntökupróf fyrir LHÍ,“ segir Blær. Áhugi hennar á japönskunni gerði að verkum að hún fór afslöppuð í prufurnar. Hún var með aðra áætlun ef ekki gengi sem skyldi. Japönskunámið verður þó að bíða því Blær flaug í gegnum síuna og hóf nám í LHÍ veturinn 2012.

Náin fjölskylda

„Árin í LHÍ voru stórkostlegur en á sama tíma krefjandi tími. Þetta nám tekur rosalega á og áður en ég byrjaði hafði ég heyrt talað um að nemendurnir þyrftu nánast að kveðja fjölskyldu sína og vini því ekkert annað kæmist að. Ég hélt að það gæti ekki verið en svo var það að einhverju leyti rétt! Dagarnir voru mjög langir en þannig er lífið í leikhúsinu líka og því var þetta frábær undirbúningur,“ segir Blær. Árgangarnir í leiklistardeild LHÍ eru fámennir, aðeins 10 nemendur, sem gerir að verkum að þeir verða oft mjög samrýmdir. „Okkar hópur small strax saman og við urðum strax eins og lítil fjölskylda, með öllum þeim kostum og göllum sem því fylgir. Til dæmis fórum við í útskriftarferð seinasta árið og reyndum að skemmta okkur eins og ungu fólki sæmir en þess í stað fórum við bara að rífast um pólitík allan tímann eins og í leiðinlegu fjölskylduboði,“ segir Blær hlæjandi. Auðsýnt er að henni þykir afar vænt um skólafélaga sína.

Reykjavíkurdætur spretta fram

Blær er ekki einhöm þegar kemur að listinni. Í öllu annríkinu í LHÍ tókst henni að stofna rapphljómsveit, nánast óvart, með vinkonum sínum. Frá fyrstu tíð hefur Blær verið einn af burðarásunum í Reykjavíkurdætrum, rappsveitinni umdeildu sem sífellt tekur ný skref fram á við. Hljómsveitin myndaðist út frá rappkonukvöldi árið 2013 þar sem allar sem hljóðnema gátu valdið voru hvattar til þess að láta í sér heyra. Strax frá byrjun vakti sveitin, eða öllu heldur hópurinn, mikla athygli fyrir ögrandi textasmíðar sem voru þó í raun aðeins á svipuðum nótum og karlkyns rapparar höfðu látið gamminn geisa um lengi.

Farin í frí

„Ég get í raun ekki sagt þér hvað við erum margar. Þetta er ótrúlega öflugur hópur og þær eru margar dæturnar sem eru í einhvers konar listnámi og munu láta mikið að sér kveða á næstu árum, ég er sannfærð um það,“ segir Blær. Þessir bakgrunnur margra í sviðslistum nýtist svo sannarlega sveitinni því það eru ekki síst tónleikar sveitarinnar sem að hafa vakið athygli og umtal, sérstaklega að utan. Á nýafstaðinni Airwaves-hátíð voru atriði Reykjavíkurdætra þau umtöluðustu og á teikniborðinu er tónleikaferð til útlanda, sem er að frumkvæði erlendra skipuleggjenda. Blær ætlar hins vegar að taka sér hlé frá sveitinni: „Það er leiðinlegt því ég myndi gjarnan vilja taka þátt í þessu ævintýri. Það er hins vegar svo mikið að gera í leikhúsinu að ég þarf að einbeita mér að því. Leiklistin tekur alla mína skapandi orku. Kannski get ég verið með endurkomu þegar um hægist hjá mér en ég geng ekki að því vísu. Ég myndi í raun og veru ekki vilja það nema ég hefði eitthvað fram að færa til sveitarinnar. Ég vil bæta lit í þennan regnboga en ekki bara teika lestina,“ segir hún.

Komin með þykkan skráp

Að hennar sögn þá hefur þátttaka hennar í Reykjavíkurdætrum hjálpað henni varðandi fyrstu skrefin í leiklistinni. „Við vöktum mikla athygli og umtal sem var ekki allt jákvætt. Margir voru hrifnir en svo voru aðrir sem létu fúkyrðunum rigna yfir okkur. Það má því segja að við séum allar komnar með þykkan skráp varðandi gagnrýni. Það eina sem er öðruvísi að þeir sem gagnrýndu okkur hvað harðast gátu ekki fyrir sitt litla líf nefnt eina Reykjavíkurdóttur á nafn. Gagnrýnin beindist því að hópnum en ekki gegn manni persónulega. Maður er því aðeins berskjaldaðri í leikhúsinu hvað það varðar,“ segir hún.

Gríðarleg samkeppni

Samkeppnin getur verið mikil í lífi leikarans og Blævi verður tíðrætt um einskonar„survival mode“ . Hugarástand sem hún komst í þegar markið blasti við og spurning hvort að hún næði í gegn. Það var allsráðandi í inntökuprófum fyrir LHÍ en einnig á síðasta árinu þegar leiklistarnemarnir eru farnir að huga að næsta skrefum. „Maður var mikið að spá í hver væri að koma á sýningarnar okkar og hvort að leikhússtjóri yrði í salnum. Baltasar Kormákur kom til dæmis á allar sýningarnar okkar, hann er pabbi bekkjarbróður míns sem var mjög spennandi. Hann var auðvitað að koma að sjá son sinn en engu að síður spennandi fyrir okkur hin. Á þessum tíma líður manni eins og það að komast á samning strax sé aðalmálið, eins og maður sé ruðningskappi í bíómynd og það eru útsendarar komnir í salinn til að ákvarða örlög þín. Það gæti auðvitað ekki verið fjarri lagi, leikarar eins og allir aðrir listamann þurfa allir að kunna að skapa sér atvinnu sjálfir og bara mismunandi eftir árum hvort þú ert inní atvinnuleikhúsunum eða ekki,“ segir Blær.

Hún var í hópi þeirra sem fengu samningstilboð strax eftir skólann og það frá Borgarleikhúsinu. Gleðifréttirnar bárust henni skömmu fyrir útskrift við heldur kómískar aðstæður. „Ég vaknaði heima hjá strák, daginn eftir djamm og fékk lánaða tölvuna hans til þessa að skoða Facebook. Þar biðu mín skilaboð frá Kristínu Eysteinsdóttur, leikshússtýru Borgarleikhússins, um að hún vildi endilega heyra í mér. Það táknaði bara eitt og ég gjörsamlega fríkaði út, hágrét og skellihló til skipti. Blessaður maðurinn horfði á mig eins og ég væri klikkuð,“ segir Blær og hlær.

Kynjastefna skapar öryggi

Draumur hennar rættist en baráttan hélt áfram. „Fyrsta árið vill maður ólmur sanna sig, sýna fram á að maður eigi heima þarna innandyra. Það gekk ágætlega og á þessu öðru leikári þá er ég öruggari með mig. Borgarleikhúsið er líka svo frábær, samheldinn og fjölskylduvænn vinnustaður. Börn starfsmanna eru reglulega gestir á æfingum og sýningum. Þá er kynjastefna í gangi innan leikhússins þar sem reynt er eftir fremsta megni að hafa kynjahlutfallið jafnt í hverri sýningu. Þegar það er skapað jafn mikið rými fyrir konur sem karla á sviðinu, finnur maður virkilega fyrir því hvernig maður hefur verið að keppa um 10 prósent af kökunni við kynsystur sínar áður fyrr í samfélaginu. Það er magnað að sjá allt í einu alla kökuna. Hún er öll í boði og maður þarf ekki að vera í samkeppni því við keigum inni svo miklu meira pláss en okkur er úthlutað. Enda eru allir hér í samvinnu ekki samkeppni. Það skapar öryggi sem gott er að finna fyrir,“ segir Blær.

Elskaði, hataði og vorkenndi

Æfingar fyrir Sölku Völku hófust skömmu eftir kosningar. Að sögn Blævar hafa þær reynt á en að sama skapi fyllt hana innblæstri. „Það eru æfingar yfir daginn og síðan sýningar á kvöldin. Þetta getur verið erfitt en er alltaf skemmtilegt. Ég hafði ekki lesið Sölku Völku en dreif í því þegar þetta hlutverk lá fyrir. Ég varð gjörsamlega ástfangin af þessari bók og hágrét á sumum stöðum. Ég tengi svo sterkt við Sölku, Arnald og sérstaklega Sigurlínu, móður hennar. Ég elskaði hana, hataði hana en á sama tíma vorkenndi ég henni. Það eru örugglega margir sem eiga slíkt samband við móður sína,“ segir Blær.

„Ég held að rótin sé sú að mig langaði til þessa að prófa allt, eiga þúsund líf og upplifa alls konar hluti,“ segir Blær.
Um leikaradrauminn „Ég held að rótin sé sú að mig langaði til þessa að prófa allt, eiga þúsund líf og upplifa alls konar hluti,“ segir Blær.

Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

Óvægin sýn á söguna og Ísland

Leikstjóri Sölku Völku, Yana Ross, er þekkt fyrir að setja á svið klassísk verk með nýstárlegu sniði. Hún leikstýrði Mávinum á síðasta leikári Borgarleikhússins, sem var einmitt fyrsta verkefni Blævar í atvinnumannaleikhúsi. Sú sýning vakti mikið umtal og kepptust áhorfendur við að lofa verkið eða lasta. „Það var frábært að taka þátt í Mávinum og það verður spennandi að takast á við Sölku Völku. Á sínum tíma var bókin mjög ögrandi og þjóðin hefur tekið ástfóstri við þessa sögu. Það verður því fróðlegt að sjá hverjar viðtökurnar verða því þarna munum við sjá óvægna sýn útlendings á söguna og Ísland. Ég er viss um að Salka Valka verður enn á ný ögrandi,“ segir Blær.

Sem dæmi nefnir hún að leikstjórinn hafi á fyrstu æfingu rætt um þá staðreynd að Ísland væri í raun nýlenda en Íslendingar vildu ógjarnan horfast í augu við það. „Þetta fannst mér áhugaverð sýn sem ég hafði aldrei velt fyrir mér. Mörgum finnst hreinlega óþægilegt að heyra þetta og kannski er þetta ástæðan fyrir minnimáttarkennd Íslendinga, hvernig við þurfum sífellt að reyna að sanna okkur í augum annarra,“ segir hún.

Barnalán leikkvenna

Að svo stöddu getur Blær lítið sagt um áherslur verksins en hún er greinilega spennt. Talið berst að dularfullum álögum sem virðast loða við hlutverk helstu kvenpersóna verksins. „Það virðast fylgja þau álög á uppsetningu Sölku Völku að leikkonurnar í helstu hlutverkum verða yfirleitt óléttar. Þannig varð Guðrún Gísladóttir, sem lék Sölku Völku í uppsetningu verksins á níunda áratugnum, ólétt um það leyti sem sýningar stóðu yfir. Ilmur Kristjánsdóttir lék síðan Sölku Völku fyrir rúmum áratug og varð ólétt sem og Halldóra Geirharðsdóttir, sem lék Sigurlínu, móður Sölku í verkinu. Álögin hafa þegar látið á sér kræla á fyrirhugaðri sýningu verksins því Unnur Ösp Stefánsdóttir átti að fara með hlutverk Sigurlínu en nýlega var greint frá því að hún og eiginmaður hennar, Björn Thors, eigi von á litlum erfingja. „Ég túlka það sem svo að Unnur Ösp hafi tekið af mér ómakið og séð um þetta fyrir mig,“ segir Blær kímin.

Svo skemmtilega vill til að Halldóra Geirharðsdóttir mun taka að sér hlutverk Sigurlínu og þá mun dóttir hennar, sú sem kom undir þegar Salka Valka var síðast sett á svið, leika lítið hlutverk aðalsöguhetjunnar á barnsaldri.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Lína Birgitta borðar alltaf það sama í morgunmat – „Ástæðan er mjög einföld“

Lína Birgitta borðar alltaf það sama í morgunmat – „Ástæðan er mjög einföld“
Fókus
Fyrir 2 dögum

Það sem Brynjar hélt að væru bilaðar lagnir var í raun listaverk í miðbænum

Það sem Brynjar hélt að væru bilaðar lagnir var í raun listaverk í miðbænum
Fókus
Fyrir 3 dögum

„Ég hef verið kölluð barnaníðingur því kærasta mín lítur út eins og 13 ára drengur“

„Ég hef verið kölluð barnaníðingur því kærasta mín lítur út eins og 13 ára drengur“
Fókus
Fyrir 3 dögum

Dramatíska þyngdartapið sem vakti óhug og varð til þess að þjálfari hætti

Dramatíska þyngdartapið sem vakti óhug og varð til þess að þjálfari hætti
Fókus
Fyrir 4 dögum

Hjálmar Örn játaði 40 ára gamalt bernskubrek – „Síðasti þáttur fyrir sumarfrí kom á DV með rúðurnar og löggumálið“

Hjálmar Örn játaði 40 ára gamalt bernskubrek – „Síðasti þáttur fyrir sumarfrí kom á DV með rúðurnar og löggumálið“
Fókus
Fyrir 4 dögum

Svona lítur barnastjarnan út 10 árum eftir að hann sló í gegn

Svona lítur barnastjarnan út 10 árum eftir að hann sló í gegn
Fókus
Fyrir 5 dögum

Var rukkuð 44 þúsund krónur á hárgreiðslustofunni – „Verðlag á Íslandi er orðið eitthvað illa skakkt“

Var rukkuð 44 þúsund krónur á hárgreiðslustofunni – „Verðlag á Íslandi er orðið eitthvað illa skakkt“
Fókus
Fyrir 5 dögum

Léttist um tæp 60 kíló í Biggest Loser en það átti eftir að kosta hann mikið

Léttist um tæp 60 kíló í Biggest Loser en það átti eftir að kosta hann mikið