Á undanförnum árum hefur það færst í aukana að nýstúdentar taki sér frí frá námi um nokkurt skeið áður en haldið er í háskóla. Má meðal annars rekja það til greiðari flugsamgangna en vinsælt er að nýta þennan tíma til þess að ferðast um heiminn og finna sjálfan sig eins og sagt er.
Nýstúdentarnir Eva Bergrún Ólafsdóttir og Birgitta Rós Skarphéðinsdóttir tóku ákvörðun um að fresta háskólanámi til þess að vinna, safna peningum og ferðast um heiminn. Ferðalagið hófst í vikunni sem leið en vinkonurnar tóku stefnuna á Balí þar sem þær ætla að njóta lífsins í heilan mánuð.
„Við kynntumst í Kvennó þar sem við vorum saman í bekk. Við höfum brallað ótrúlega margt saman og lá því beinast við að gera eitthvað skemmtilegt eftir menntaskólann. Það var þó ekki fyrr en um miðjan september sem við ákváðum að skoða ferðir til Balí og kanna hvað þessi eyja hefur upp á að bjóða,“ segir Birgitta aðspurð hvernig það kom til að þær smelltu sér í ferðalag yfir á hinn helming jarðar. Eva bætir við: „Við vildum ferðast um heiminn eftir útskrift en vissum ekki alveg hvað við vildum gera og hvert við vildum fara. Við vorum búnar að skoða allt frá þriggja mánaða heimsreisu, Asíureisu til ferðalags um Bandaríkin, en því miður var tíminn ekki nægur. Út frá því fórum við að skoða mánaðarferð til Balí.“
Blaðamaður nær sambandi við þær stöllur á Keflavíkurflugvelli og spennan leynir sér ekki. En þarf ekki að undirbúa margt þegar ferðast er svona langt?
„Við þurftum í raun og veru ekkert að undirbúa neitt svakalega mikið en það sem var nauðsynlegt fyrir okkur að gera var að fara í bólusetningar sem voru samtals þrjár, fá læknisvottorð fyrir köfunarnámskeiðið sem við stefnum á og athuga með vegabréfsáritun inn í landið. Síðan voru auðvitað þessi helstu atriði; redda okkur alls kyns lyfjum og verkjatöflum m.a. lóritín fyrir moskítóbiti, meltingartöflum og sýklalyfjum, pakka niður sundfötunum og sólarvörninni og svo einhver tölvupóstur til hótelsins til að komast frá flugvellinum að hótelinu á Balí.“
Það er ekki hægt að segja annað en að þessar nýstúdínur séu með hlutina á hreinu og það staðfestist enn frekar þegar þær eru spurðar út í kostnaðinn sem fylgir svona ferðalagi?
„Það kom okkur á óvart að þetta var alls ekkert svo dýr ferð. Flugið var auðvitað dýrt en á móti kemur að allt er ódýrt á Balí, t.d. gisting, matur og fleira. Það kemur í raun og veru niður á sama stað og verslunarferð til London ef við tökum dæmi. Við búumst við því að ferðin muni kosta okkur í heildina 600.000 krónur með öllu. Birgitta hafði fengið gjafabréf upp í ferðalag í útskriftargjöf og áttum við báðar smá sparnað úr sumarstörfum okkar. Það er líka örlítið fyndið að við urðum miklu sparsamari þegar við vorum búnar að ákveða ferðalagið og tókum eins mikla aukavinnu að okkur og við mögulega gátum.“
„Svo hlökkum við auðvitað mikið til að kynnast annarri menningu, smakka nýjan mat og njóta þess að vera í fríi.“
Birgitta Rós og Eva eru miklir fjörkálfar og eru búnar að undirbúa ferðina vel. Þær segja að skipulag skipti miklu máli svo ferðin nýtist sem best og taka líka fram að undirbúningurinn sé hluti af ferðalaginu sem mikilvægt sé að njóta jafn vel og ferðalagsins sjálfs.
„Já, við erum búnar að plana þetta vel. Panta tíma í brimbrettaskóla, köfunarnámskeið og ætlum að æfa crossfit í crossfit-stöð sem er nálægt hótelinu okkar. Við höfum því miklar væntingar. Svo hlökkum við auðvitað mikið til að kynnast annarri menningu, smakka nýjan mat og njóta þess að vera í fríi.“
En hvað tekur svo við þegar þið eruð búnar að njóta þess að liggja á hvítri strönd á meðan við hin sköfum slydduna af bílunum okkar á morgnana? Tekur ekki við harkaleg skammdegisbomba?
„Líklegast mun jólastressið vera í hámarki þar sem við þurfum að kaupa allar jólagjafir svona korter í jól en annars hlökkum við mikið til að koma heim í jólasnjóinn og halda jólin með fjölskyldum okkar.“
Næsta haust stefnir Eva á fótboltastyrk til Bandaríkjanna þar sem hún ætlar að læra sálfræði. Birgitta Rós er frekar óákveðin en finnst líklegt að annaðhvort arkitektúr eða sálfræði verði fyrir valinu. Þær stöllur munu vafalaust renna yfir framtíðarplön sín yfir einum kokkteil á ströndinni á Balí á næstu vikum.