„Enn þann dag í dag er ég þó titluð sem „fegurðardrottning“ í fjölmiðlum,“ skrifar Linda Pétursdóttir á Facebook. Hún bendir þar á að 28 ár séu frá því hún var kjörin Miss World. Þá hafi hún verið 18 ára gömul. Þetta skrifar hún vegna fréttar á Vísi undir fyrirsögninni „Forsetinn og fegurðardrottningin veittu viðurkenningar“.
Linda er vildarvinur og fyrrverandi verndari samtakanna. Hún bendir á að ef samræma ætti titlana skyldi Guðni Th. Jóhannesson forseti kallaður sagnfræðinemi. „Ég hef gert ýmislegt annað sl. tæp þrjátíu ár, eins og til dæmis rekið fyrirtæki í tvo áratugi en í dag er ég reyndar nemi í heimspeki, hagfræði og stjórnmálafræði.“