fbpx
Laugardagur 20.september 2025
Fókus

„Þetta þjónar allt þeim tilgangi að þjálfa tilfinningalífið á öruggan hátt“

Ragna Gestsdóttir
Laugardaginn 20. september 2025 11:00

Lilja Sigurðardóttir. Mynd: Aðsend.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Lilja Sigurðardóttir rithöfundur sendir sína tólftu bók, ∀lfa, frá sér þann 16. október. Með bókinni kveður við nýjan tón, þar sem Lilja er þekkt fyrir glæpasögur sínar, og sú nýjasta er glæpasaga sem fyrr en að þessu sinni gerist hún í nálægri framtíð og myndi flokkast sem ,,grounded Sci—fi” (jarðbundinn vísindaskáldskapur).

Kvikmyndaréttur að þríleik Lilju, Gildran, Netið og Búrið, hefur verið seldur. Fyrir Búrið og Svik hlaut Lilja íslensku glæpasagnaverðlaunin Blóðdropann og tilnefningu til norræna Glerlykilsins tvö ár í röð. Netið, Náhvít Jörð og Drepsvart hraun hlutu tilnefningu til Blóðdropans. Gildran hlaut árið 2018 tilnefningu til Gullna rýtingsins (CWA International Dagger) virtra verðlauna samtaka breskra glæpasagnahöfunda.

Lilja hefur auk þess unnið mikið að handritaskrifum fyrir sjónvarpsþætti og samið leikrit. Verk hennar Stóru börnin var sviðsett af leikfélaginu Lab-Loki og hlaut Grímuverðlaunin sem leikrit ársins 2014.

Lilja var bæjarlistamaður Kópavogs 2023-2024. Hún er með BA-próf í uppeldis og menntunarfræði frá Háskóla Íslands. Lilja býr ásamt Margréti Pálu Ólafsdóttur, konu sinni, í Vatnsendahverfi í Kópavogi, þar sem þær njóta sín í sveit í borg, með hund og hænur.

Lilja er lesandi DV.

Hvaða bók/bækur ertu að lesa núna?

Ég er að lesa bók sem sem er ekki komin út ennþá heldur er í próförk og ég var beðin um meðmæli sem mætti setja á kápuna. Hún heitir Scars of Silence eftir fransk-sænskan höfund sem heitir Johana Gustawson. Þetta er glæpasaga sem gerist í sænska skerjagarðinum og í París. Hún fer vel af stað svo ég mun að öllum líkindum mæla með henni.

Hvaða bók/bækur laukstu við síðast og hvernig fannst þér hún/þær?

Síðasta bók sem ég kláraði var endurminningabók Nicolu Sturgeon Frankly. Mér fannst hún mjög áhugaverð því ég hef fylgst með skoskri pólitík lengi og það er gaman að fá innsýn bakdyramegin á stóra viðburði. Mér fannst henni takast vel til og bókin virkar á mig sem heiðarlegt uppgjör. Held samt að hún sé aðeins of gagnrýnin á sjálfa sig og dæmi sig of hart fyrir það sem hún náði ekki að gera eða for úrskeiðis.

Hefurðu nýlega gefist upp á að lesa einhverja bók eða hefurðu lesið einhverja bók nýlega sem stóðst ekki væntingar?

Já. Ég er alveg hætt að klára bækur sem mér finnast leiðinlegar. Tíminn er of dýrmætur til þess að setja hann í það. Ég ætla ekki að nefna neinar bækur sem ég hef ekki nennt að klára, það sem mér finnst ekkert gaman að vera leiðinleg við höfunda. Það að mér þyki bók ekki áhugaverð þýðir ekki endilega að bókin sé vond, heldur bara að ég hafi ekki smekk fyrir henni.

Hvar finnst þér best að lesa og er einhver tími dags betri en annar?

Pappírsbækur les ég helst liggjandi í rúminu eða í sófa. En hljóðbækur finnst mér geggjað að hlusta á á í bílnum eða í rúminu. Ég á það reyndar til að sofna yfir hljóðbókum ef ég er að hlusta á þær í rúminu, það er svo notalegt að láta lesa sig í svefn eins og krakka. Annars les ég miklu minna en ég gerði á árum áður. Meira úrval af sjónvarpsefni hefur að stórum hluta komið í staðinn.

Manstu eftir hvaða bók var lesin fyrst fyrir þig sem barn og/eða sem þú last sjálf sem barn?

Nei, ég man það ekki en ég var alltaf vel sett með bækur sem barn og unglingur. Mama og pabbi sáu til þess að við hefðum alltaf nóg að lesa. Ég man eftir að mamma las Bróðir minn Ljónshjarta fyrir mig áður en ég fór að lesa sjálf og ég grét yfir henni. Svo sótti ég talsvert í hrylling á borð við Dverginn Rauðgrana og Dísu Ljósálf. Þó ég væri svo hrædd við myndirnar að ég gat varla horft á þær. En þetta þjónar allt þeim tilgangi að þjálfa tilfinningalífið á öruggan hátt.

Er einhver bók/bækur sem þú getur ekki beðið eftir að lesa?

Ég hlakka alltaf til jólabókaflóðsins og að sjá hvað kemur að landi með því. Það eru alltaf nokkrar bækur sem fara á óskalistann á hverju ári. Svo hlakka ég til að sjá mína eigin koma úr prenti í næsta mánuði! Það er alltaf léttir þegar bókin kemur vel útlítandi og ekki með prentvillu á fyrstu síðu.

Áttu þér uppáhaldsbók/bækur sem þú jafnvel lest aftur og aftur?

Já, nokkrar bækur eftir Laxness, Hemingway, Pearl S. Buck, Graham Greene, Patriciu Highsmith, Vigdísi Gríms, Sjón og Snora Sturluson.

Áttu þér uppáhalds höfund/a?

Já. Ég á marga uppáhalds höfunda. Í glæpasögugeiranum eru nokkrir höfundar sem ég fylgist alltaf með og gleypi í mig nýjustu bækurnar um leið og þær koma út. Svo er ég alltaf að uppgötva nýja höfunda sem ég fæ áhuga á og það er gaman.

Hvaða bók/bækur hafa haft mest áhrif á þig og hvers vegna?

Þær eru allmargar en ég held að þær bækur sem hafa haft mest áhrif á mig voru bækur sem ég las vel fyrir tvítugt, þegar heilinn var enn mjúkur og ekki orðinn harðsoðinn af magninu. Á unglingsárunum er hver bók svo stórt hlutfall af því sem maður hefur lesið að hún hefur meiri áhrif. En góðar bækur eru alltaf áhrifamiklar. Ég las Hálfgul sól eftir Chimamanda Ngozi Adichie aftur á dögunum og hún hafði jafnvel meiri áhrif á mig en fyrst þegar ég las hana.

Hvaða bók/bækur ættu allir að lesa (bók/bækur sem þú mælir alltaf með)?

Sjálfstætt fólk og Snorra Edda eru bækur sem allir íslendingar ættu að lesa.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Í gær

Mun Adele syngja í hálfleikssýningu Super Bowl?

Mun Adele syngja í hálfleikssýningu Super Bowl?
Fókus
Í gær

Kom að eiginmanninum með hálfbróður sínum

Kom að eiginmanninum með hálfbróður sínum
Fókus
Í gær

Sprenghlægileg viðbrögð Jennifer Aniston við raunverulegu nafni Reese Witherspoon

Sprenghlægileg viðbrögð Jennifer Aniston við raunverulegu nafni Reese Witherspoon
Fókus
Fyrir 2 dögum

Guðrún Sørtveit: „Það hefur alltaf verið rosalega sterkt í mér að verða mamma“

Guðrún Sørtveit: „Það hefur alltaf verið rosalega sterkt í mér að verða mamma“
Fókus
Fyrir 3 dögum

Eva Margrét og Ómar nutu í botn á Ítalíu

Eva Margrét og Ómar nutu í botn á Ítalíu
Fókus
Fyrir 3 dögum

Hitti Drake eftir að hún gaf honum brjóstahaldarann sinn: „Ég held ég segi ekki meira en það“

Hitti Drake eftir að hún gaf honum brjóstahaldarann sinn: „Ég held ég segi ekki meira en það“