fbpx
Fimmtudagur 22.maí 2025
Fókus

Helena Reynis skilar skömminni: „Mér datt ekki í hug að ég gæti lent í ofbeldissambandi“

Guðrún Ósk Guðjónsdóttir
Fimmtudaginn 22. maí 2025 11:59

Helena Reynisdóttir er gestur vikunnar í Fókus.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Myndlistarkonan Helena Reynisdóttir flutti heim til Íslands frá Berlín eftir um fimm ára dvöl. Flutningurinn markaði ákveðin tímamót í lífi hennar. Þá var hún nýkomin úr fimm ára sambandi þar sem hún var beitt andlegu ofbeldi. Hún ákvað nýlega að stíga fram í myndbandi á TikTok og viðbrögðin létu ekki á sér standa.

Andlegt ofbeldi er gjarnan falið, tabú að tala um og mikil skömm sem getur fylgt því, en þó Helena hafi ekki verið með líkamlega áverka þá var hún undir lok sambandsins búin að missa mikla þyngd, byrjuð að missa hárið og komin með útbrot um líkamann. Orkan nánast engin en erfiðast var að horfast í augu við að hún væri í ofbeldissambandi. Helena hefur alla tíð verið sjálfsörugg og með sterkt bakland og datt því aldrei í hug að hún gæti lent í þessum aðstæðum. En það er einmitt ástæðan fyrir því að hún ákvað að stíga fram og segja sögu sína í Fókus, viðtalsþætti DV. Hún vill vekja athygli á einkennum andlegs ofbeldis og vonandi hjálpa einhverjum í sömu stöðu.

Horfðu á þáttinn hér að neðan eða hlustaðu á Spotify og öllum helstu hlaðvarpsveitum.

video
play-sharp-fill

„Viðbrögðin hafa verið, smá sjokk fyrir mig, á mjög fallegan og jákvæðan hátt. Bæði af því að ég bjóst ekki við að margir myndu sýna mér svona ótrúlega mikla ást, samúð og skilning. Þessi viðbrögð eru búin að vera ótrúleg,“ segir Helena um myndbandið sem hún deildi á TikTok fyrir nokkrum vikum.

„Líka hversu margir höfðu samband við mig og sögðu að þau höfðu sjálf lent í svipuðu og þökkuðu mér fyrir að opna á umræðuna, því það er svo tabú að tala um þetta. Þó að það sé alveg erfitt að tala um þetta, ef þetta hjálpar einhverjum þá gefur þetta mér mikinn styrk að opna mig meira um þetta. Því ég vil ekki finna fyrir skömm að hafa lent í þessu. Ég vil skila skömminni og hvetja aðra til að taka eftir rauðum flöggum og hlusta á innsæið sitt. Svo þau þurfi ekki að ganga í gegnum það sem ég gekk í gegnum.“

Mynd/Instagram @helenareynis

Fór gegn innsæinu

Helena rifjar upp byrjun sambandsins og merkin sem hún hunsaði.

„Maður á að vera svolítið meðvitaður í byrjun, af því að fólk þekkir þetta. Þetta er kallað „The Honeymoon Phase“, og fólk sýnir auðvitað sínar bestu hliðar í byrjun og það er enginn alvondur. Mér finnst það mjög sjaldan að einhver sé alvondur og ef maður endar í einhvers konar sambandi með einhverjum er það því það eru góðar hliðar og það er eitthvað sem maður tengir við,“ segir hún.

„En eins og ég fann alveg frá byrjun, það voru hlutir sem stuðuðu mig sem ég fann að voru að fara virkilega á móti mínu innsæi og voru að fara yfir mín mörk. En af því að það var mikið af jákvæðum hlutum, þá ýtti ég hinu til hliðar.“

„Ég varð eiginlega háð því að vera í kringum hann því ég hafði engan annan.“

COVID, samkomubann og -takmarkanir höfðu einnig áhrif á hversu hratt sambandið þróaðist.

„Við fórum á fyrsta stefnumótið daginn fyrir lockdown í Berlín. Bókstaflega daginn fyrir. Í mínum haus voru þetta bara örlögin […] en þetta var bara eiginlega svona trauma bond.“

Fyrir þetta hafði Helena búið í hálft ár í Berlín, þekkti engan og öll fjölskyldan á Íslandi. Það sem hún hélt að yrði tveir til þrír mánuðir varð að tveimur árum. „Þýskaland tók þetta lockdown… þetta var rosalega intense. Þú máttir bara vera í búbblu með einni manneskju og ég þekkti bara hann í rauninni, og vinkonu mína sem bjó allt annars staðar og maður mátti ekki fara út úr hverfinu sínu,“ segir hún.

„Ég varð eiginlega háð því að vera í kringum hann því ég hafði engan annan.“

@helenareynis Prints will be available soon💓 #art #artist #painting #íslenskt #íslensktiktok #fyrirþig #þínsíða #fyrirþigsíða #exhibition #acrylicpainting #stilllife #kvenleikinnuppmálaður #artistsoftiktok ♬ Just A Girl – No Doubt

Rauð flögg

„Málið er að fólk segir manni mjög oft hver það er, á einn hátt eða annan, og maður á að trúa því. Frekar en að [afsaka það eða telja sér trú um eitthvað annað.] Eins og hann sagði mér að hann hafði engan áhuga á því að vera í lokuðu sambandi, og ég sagðist ekki hafa áhuga á því að vera í opnu sambandi. Hann sagðist þá vilja vera með mér og vera tilbúinn að sleppa því að vera í opnu sambandi. Ég sagði að ég vildi ekki að hann myndi gera eitthvað sem honum þætti óþægilegt en hann sagðist vilja vera með mér,“ segir Helena. Maðurinn hélt framhjá henni en það var gert að hennar vandamáli, ekki hans.

„Svo var það notað gegn mér í gegnum allt sambandið, að ég bara vissi alveg hver hann var í byrjun, þannig þetta var alltaf sett á mig, að ég væri ekki nógu skilningsrík.“

Helena segir að ef þér líður eins og þú sért alltaf ringluð eða ringlaður í sambandi, þá sé það merki um að það sé kannski ekki allt með felldu.

„Ef maður er rosa ringlaður í sambandinu sínu, maður skilur ekki hvað er í gangi […] það er stórt rautt flagg. Maður á ekki að vera svona ringlaður í sambandi.“

Kemur úr sterkri fjölskyldu

Maðurinn sagði Helenu að hann kæmi frá erfiðu heimili og enginn skildi hann. Hún ætlaði að vera manneskjan sem hann gæti treyst, manneskjan sem myndi skilja hann og elska hann.

„Af því að ég hafði aldrei lent í svona ofbeldissambandi, þá datt mér ekki í hug að ég myndi lenda í því. Ég kem úr rosalega sterkri fjölskyldu, með mjög gott bakland og ég hélt einhvern veginn að þetta myndi ekki gerast fyrir fólk með sterkan bakgrunn. En þetta er ekki þannig,“ segir hún.

Helena segir að það hafi verið erfitt að horfast í augu við raunveruleikann. „Af því að ég festist þarna, hafði engan annan, þá var of sárt að trúa því að ég væri í ofbeldissambandi.“

Út á við var fyrrverandi kærasti Helenu mjög sjarmerandi. Alltaf tilbúinn að hjálpa öllum, góður vinur og enginn gat trúað að hann myndi gera neitt illt. En að sögn Helenu hafi hann verið allt annar maður heima á við.

@helenareynis Replying to @helenareynis verð að minna mig á afhverju ég er að segja frá ofbeldissambandinu sem ég lenti í😭 fyrir Helenu í byrjun síðasta árs😭 og fyrir alla sem þurfa hvatningu til að koma sér út🥺 #íslensktiktok ♬ original sound – Poets Society

Var farin að missa hárið

Þolendur andlegs ofbeldis eiga erfitt með að segja frá, og hafa sumir, þar á meðal ljósmyndarinn Helgi Ómarsson, sagt að þeir óskuðu þess stundum að gerandinn myndi leggja hendur á þá, svo að ummerkin væru sýnileg, að það myndi ýta undir að þeim yrði frekar trúað og að þeir gætu farið. Einnig að þá gætu þeir réttlætt það meira fyrir sjálfum sér að fara, en andlegt ofbeldi ruglar í höfðinu á þolendum og býr til efasemdir. Helena segist skilja hvað Helgi átti við.

„Það sást reyndar, þegar ég var búin að vera með honum í fimm ár þá sást á mér að ég hafði verið í ofbeldissambandi. Ég var búin að missa mörg kíló, ég var að missa hárið. Ég var með útbrot um allan líkama og skildi ekki hvað var í gangi. Líkaminn minn var að mótmæla,“ segir Helena.

Hún man eftir að hafa lesið viðtalið við Helga, sem var gestur í Fókus í janúar 2024. Þá var hún enn í sambandi með fyrrverandi.

Sjá einnig: „Ég vildi óska þess að hann hefði buffað mig“

„Ég sá þetta viðtal við Helga og úff, maður vill eiginlega ekki taka þetta til sín. Mér fannst flott hjá honum að segja frá. Svo fer maður auðvitað að pæla: Heyrðu, mér líður svolítið svipað. En nei, það er of sárt. Ég er búin að vera í þessu í fimm ár, ég er búin að eyða fimm árum af lífinu mínu í þetta. Þetta var of sárt.“

Helena og kærasti hennar, Arnar.

Fann ástina

Helena er í dag í heilbrigðu og fallegu sambandi. „Hann er það dásamlegasta í heiminum, hann er alveg eins og ég og ég fæ þúsundfalt til baka það sem ég gef. Það líka vekur aftur upp ákveðið trauma, því þá er ég meira svona vá, ég trúi ekki hvað […] ég leyfði miklu að viðgangast, það er ákveðið trauma og eitthvað sem ég þarf að fyrirgefa mér fyrir,“ segir hún.

„Fólk talar mikið um hvað fer mikil vinna í sambönd, það fer vinna í sambönd. En vinnan sem fer í óheilbrigð sambönd miðað við heilbrigð er ekki sambærileg. Vinnan sem fer í heilbrigð sambönd kemur náttúrlega, skemmtileg vinna sem maður vill gera. Vinnan fer ekki á móti gildunum þínum og fer ekki yfir mörkin þín. Ef makinn er heilbrigður þá vill hann ekki fara yfir mörkin þín.“

Helena ræðir þetta nánar í þættinum sem þú getur horft á hér að ofan eða hlustað á Spotify.

Fylgdu Helenu á Instagram og TikTok.

Andlegt ofbeldi

Á SjúkÁst.is kemur fram: Andlegt ofbeldi felur í sér hótanir, niðurlægingu, óvelkomið og yfirþyrmandi eftirlit svo sem með endalausum skilaboðum, auðmýkingu, ógnun, einangrun og/eða ofsóknum.

Andlegt ofbeldi getur birst á til dæmis eftirfarandi máta:

  • ‍Að uppnefna þig og gera lítið úr þér
  • Að öskra á þig
  • Að niðurlægja þig viljandi fyrir framan aðra
  • Að koma í veg fyrir að þú hittir eða talir við vini þína eða fjölskyldumeðlimi
  • Að segja þér í hverju þú átt að vera eða hvernig þú átt að haga þér
  • Að eyðileggja eigur þínar í bræðiskasti (henda hlutum, kýla í vegg, sparka í hurð o.s.frv.)
  • Að notast við samfélagsmiðla eða síma til að stjórna þér, ógna eða niðurlægja
  • Að nota hegðun þína sem afsökun fyrir ofbeldi eða óheilbrigðri hegðun
  • Að saka þig um framhjáhald og fyllast afbrýðisemi yfir samskiptum þínum við annað fólk
  • Að ofsækja þig
  • Að hóta að fremja sjálfsvíg til að koma í veg fyrir ákveðna hegðun, eins og til dæmis að þú slítir sambandinu
  • Að hóta að skaða þig, gæludýrið þitt eða fólk sem þér er annt um
  • Að láta þig efast um upplifanir þínar og tilfinningar þannig að þú heldur jafnvel að þú sért að ímynda þér ofbeldið sem þú verður fyrir
  • Að þrýsta á þig að taka þátt í kynferðislegum athöfnum með því að láta þig fá samviskubit eða saka þig um barnaskap þegar þú vilt ekki gera eitthvað
  • Að hóta að opinbera einkamál þín, svo sem kynhneigð eða heimilisaðstæður
  • Að hóta að dreifa viðkvæmum myndum af þér á netinu
  • Að dreifa ljótum sögum um þig

Fáðu hjálp

Þolendur geta leitað sér hjálpar og alltaf er betra að segja einhverjum frá og fá hjálp. Ef þú vilt fá aðstoð getur þú haft samband við Bjarkarhlíð í Reykjavík eða Bjarmahlíð á Akureyri sem sérhæfa sig í stuðningi fyrir fullorðin sem hafa orðið fyrir einhvers konar ofbeldi. Það skiptir engu máli hve langt er síðan ofbeldið átti sér stað. Börn og fullorðin geta alltaf talað við einhvern hjá 1717 (hjálparsíma Rauða krossins) eða haft samband við 112 gegnum síma eða netspjall.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Í gær

Þrjú atriði sem þykja eðlileg hér en furðuleg víða annars staðar – Guðni bara Guðni

Þrjú atriði sem þykja eðlileg hér en furðuleg víða annars staðar – Guðni bara Guðni
Fókus
Í gær

„Refsarinn“ lýsir kynlífspartíum Diddy – Leiðbeindi honum hvernig hann átti að bera sig að með Cassie

„Refsarinn“ lýsir kynlífspartíum Diddy – Leiðbeindi honum hvernig hann átti að bera sig að með Cassie
Fókus
Í gær

George Wendt er látinn – Lék Norm í Staupasteini

George Wendt er látinn – Lék Norm í Staupasteini
Fókus
Fyrir 2 dögum

Bjarnheiður svarar Jónasi Sen fullum hálsi og segir hann „baðaðan í snobbi þess, sem telur sig hærra settan“

Bjarnheiður svarar Jónasi Sen fullum hálsi og segir hann „baðaðan í snobbi þess, sem telur sig hærra settan“
Fókus
Fyrir 2 dögum

Rosaleg breyting á Kris Jenner: Virðist hafa yngst um meira en 20 ár

Rosaleg breyting á Kris Jenner: Virðist hafa yngst um meira en 20 ár
Fókus
Fyrir 2 dögum

Nýjar myndir af stjörnunni hneyksla: Aðdáendur í áfalli og vinir hennar sagðir mjög áhyggjufullir

Nýjar myndir af stjörnunni hneyksla: Aðdáendur í áfalli og vinir hennar sagðir mjög áhyggjufullir
Fókus
Fyrir 3 dögum

Afhjúpar 30 ára fjölskylduleyndarmál – Erfitt „að vita að ég hafi lifað í lygi alla mína ævi“

Afhjúpar 30 ára fjölskylduleyndarmál – Erfitt „að vita að ég hafi lifað í lygi alla mína ævi“
Fókus
Fyrir 3 dögum

Jónas hraunar yfir kórtónleika í Hörpu: „Maður gat ekki betur séð en að þetta væru náttbuxur úr Joe Boxer“

Jónas hraunar yfir kórtónleika í Hörpu: „Maður gat ekki betur séð en að þetta væru náttbuxur úr Joe Boxer“
Hide picture