fbpx
Þriðjudagur 09.desember 2025
Fókus

„Vildi sýna að það þarf ekki að vera framið subbulegt morð til að lífið sé spennandi“

Ragna Gestsdóttir
Mánudaginn 8. desember 2025 19:30

Sif Sigmarsdóttir. Mynd: Anton Brink.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Sif Sigmarsdóttir er löngu landsþekkt fyrir pistla sína, fyrst í Fréttablaðinu, síðar í Heimildinni og á Vísi. Fyrir nokkrum árum fór Sif að skrifa ungmennabækur, bæði á ensku og í íslensku, en nú í jólabókaflóðinu kom út fyrsta skáldsaga hennar fyrir fullorðna: Allt sem við hefðum getað orðið. Bókin hefur fengið fínar viðtökur og ummæli og er uppseld hjá útgefanda. 

Í viðtali við DV segir Sif okkur frá bókinni sem er lengsta meðgangan hennar, en bókin var yfir áratug í smíðum, mikilvægi varðveislu íslenskunnar og hverdagslífinu í London sem hún segir alls ólíkt túristayfirbragði stórborgarinnar.

Byrjum á nýju bókinni, hvað varð til þess að Sif ákvað að skrifa þessa bók en ekki einhverja aðra sögu?

„Þetta blundaði alltaf í mér að skrifa skáldsögur, ég les sjálf mikið af fagurfræði og vill maður ekki alltaf gera það sem manni finnst sjálfum skemmtilegt að neyta? Ég ætlaði að vera búin að þessu fyrir langa löngu, ég var svona 10 ár að skrifa þessa bók. Aðdragandinn er langur, hún er búin að vera í vinnslu mun lengur en áratug, hugmyndin að henni kviknaði þegar ég var í háskólanum. Það sem mig langaði að gera er að blanda saman fagurfræði og það sem kallað er á slæmri íslensku pageturners. Þó að bókin sé skáldsaga af fagurfræðiskólanum þá vil ég samt meina að þetta sé spennusaga. Samt ekki eins og hefðbundnu glæpasögurnar sem virðast vinsælastar um þessar mundir. En í þessari bók eru framdir hverdagsglæpir. Ég vildi gera hverdagslífið okkar að spennusögu, þá erum við að tala um hver raðar í uppþvottavélina, það er svo mikið drama í hversdagslífinu. Ég vildi sýna að það þarf ekki að vera framið subbulegt morð til að lífið sé spennandi.“

Eru draumar forréttindi hinna ungu?

Sif segir okkur þurfa að vera með fjölbreyttar bækur svo fólk lesi sem mest. Henni finnist bók sín fjalla um okkur öll.

„Bókin fjallar um þrjár konur á mismunandi aldri sem berjast við að halda deyjandi draumum sínum á lífi og afleiðingar þess, við eigum okkur öll drauma og áttum okkur sérstaklega drauma þegar við vorum ung. En stundum er eins og það fylgi því ákveðin skömm að eiga sér drauma þegar maður er kominn yfir ákveðinn aldur. Eins og leitin að hamingjunni og lífsfyllingunni sé einhvers konar forréttindi hina ungu, og þegar maður er orðinn miðaldra þá er maður bara að fórna sér fyrir æskuna og eldri kynslóðina og samfélagið. Mér finnst eins og fólki finnist sjálfselska felast í því að óska sér einhvers meira en að halda heimilinu hreinu og standa sig vel í vinnunni, eins og ef maður vill gefandi starfsferill, velgengni eða frægð og frama. Ef þú nærð því ekki fyrir 40 ára þá hefurðu fyrirgert rétti þínum að fá það. Ég vildi tækla þetta, draumana sem við eigum okkur og sem við áttum okkur, hvað varð um þá og hvað gerist þegar við reynum að endurvekja þá.“

Oft engin glansmynd bak við þjóðargersemar

Sif segir konurnar í bók sinni reyna að halda draumunum á lífi þrátt fyrir fyrirstöður hverdagsleikans. Það er oft hægar sagt en gert og stundum er fórnarkostnaðurinn við það ansi hár. Bókin fjallar líka um skuggahliðar listarinnar.

„Ein persóna bókarinnar er dóttir stórskálds, Sigríðar Uglu, sem hlaut Bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs og hún er kölluð þjóðskáld og landsmenn elska þessa konu og líta upp til hennar. En svo er þessi kona skoðuð út frá sjónarhóli dótturinnar og kemur í ljós að þessi kona á kannski ekki alla þessa aðdáun skilið. Þessi söguþráður er byggður á alvöru rithöfundum. Það eru svo margir rithöfundar og listamenn þar sem bak við ákveðna glansímynd þá leynast skelfilegir hlutir. Í gegnum listasöguna sér maður oft þannig karaktera eins til dæmis Enid Blyton sem skrifaði fyrir börn. Hún átti að hafa dýrkað börn og börn hana, en hún átti tvær dætur og sagan segir að hún hafi ekki komið ofsalega vel fram við þær. Önnur skrifaði bók um það hve móðir hennar kom illa fram við hana. Það er áhugaverð saga þegar BBC hélt einhverja keppni fyrir börn og í vinning var teboð með Enid Blyton. Þá komu börnin heim til hennar í voða fínt teboð, börnin voru hress og voða gaman, nema að frammi á gangi voru dætur hennar og horfðu inn og þeim var ekki boðið.

Á þrettán ára afmælisdaginn sinn átti Jill Faulkner, dóttir Nóbelsverðlaunahafans William Faulkner, sér aðeins eina ósk. Hún fór til föður síns og bað hann um að láta vera að drekka áfengi í afmælinu sínu. Faulkner brást ókvæða við og hreytti í hana þessum ógleymanlegu orðum: „Nobody remembers Shakespeare’s children“, enginn man eftir börnum Shakespeare.

Þessi dæmi fanga kannski sjálfselskan listamann. Þetta er svona gegnumgangandi þema í listasögunni. Svo á þetta kannski ekkert bara við listamenn.“

Enid Blyton skrifa hina geysivinsælu bókaflokka: Fimmbækur, Dularfullubækurnar, Ævintýrabækurnar og sögurnar um Dodda.

Ertu gott foreldri og maki þegar þú æfir fyrir maraþon?

Sif rifjar upp í framhaldinu umræðu sem hún hlustaði á í breska ríkisútvarpinu BBC þar sem rætt var hvort þú getir verið gott foreldri og maki á sama tíma og þú ert að þjálfa fyrir maraþon, og fólki fannst það ekki fara saman.

„Þegar þú þarft að gefa þig allan í eitthvað þá felst í því ákveðin sjálfselska. Þú ert að vanrækja eitthvað á sama tíma. En svo vill ég samt meina til varnar miðaldra fólki þá finnst mér oft talað um það af vanvirðingu, eins og miðaldra krísa, það er talað háðslega um miðaldra fólk sem á sér drauma, er eitthvað að því að eiga sér drauma þó þú sért kominn yfir ákveðinn aldur?“

Byrjuð á næstu bók og segir bannað að stoppa

Aðspurð um hvort Sif sé byrjuð á næstu bók segist hún þegar komin með nokkur orð í þá næstu.

„Maður má ekki stoppa af því þá er maður bara eins og fiskur sem sekkur niður á botn. En það er erfitt að halda áfram í jólabókaflóðinu af því þá er maður með hugann við bókina sem maður er búinn að skrifa. En ég reyni að pína mig til að horfa fram á veginn og byrja á nýrri. Og svo 1. janúar þarf maður bara að massa þetta. Ég ætla klárlega að fylgja Allt sem við hefðum getað orðið eftir og skrifa nýja bók. Eg vona bara að hún taki ekki líka tíu ár. Hún myndi vera á svipuðum slóðum, skáldsaga fyrir fullorðna.“

Saga íslenskra kvenfanga áhugaverð

Og viðfangsefni næstu skáldsögu Sifjar er mögulega í hverfinu hennar.

„Ég bý í Norður London og nálægt mér er frægt hús sem var kvennafangelsi, Holloway Prison. Ég komst að því nýlega að íslenskar konur voru fangar í þessu fangelsi í seinni heimsstyrjöldinni. Þær voru sakaðar um að hafa aðstoðað nasista á flótta á Íslandi og þá voru þær ferjaðar hingað og lokaðar inni i þessu fangelsi. Mér fannst þetta svo áhugavert og ég þarf að skoða þessa sögu betur. Ég þarf að sjá hvort ég get ekki gert eitthvað við þetta. Sagan er nefnilega svo spennandi, það er svo mikið af efnivið í sögunni sem er gaman að vinna meira úr.“

Sif segist aðspurð alls ekki undir pressu að skila bók af sér fyrir næstu jól. „Mér fyndist æðislegt að vera höfundur sem er með bók í hverju jólabókaflóði, en ég skrifa svo helvíti hægt. Ég setti mér markmið að vera með bók í þarnæsta flóði, en ég get ekki lofað neinu.“

Hooloway Prison

Sagnfræðin skrýtið fag en skemmtilegt og alls ekki praktískt

Sif er lærður sagnfræðingur og bókmenntafræðingur.

„Þegar ég skráði mig í háskólann þá spurði pabbi mig hvort ég vildi ekki frekar skrá mig í lögfræði, hann er lögfræðingur, en ég fór gegn þeirri ósk. Stundum lít ég til baka; Hefði ég átt að hlusta á pabba? Þegar maður velur þessa braut þarf maður svolítið að finna sjálfur hvað ætla ég að gera við þessa þekkingu. Þegar ég skráði mig í sagnfræðina þá hafði ég það bak við eyrað að mig langaði að verða blaðamaður. Ég held að ég hafi séð námið sem ákveðna leið að blaðamennsku. Ég valdi sagnfræðina bara af því mér fannst hún svo skemmtileg. Og þegar maður er ungur heldur maður að það sé nóg að velja bara það sem manni finnst skemmtilegt, mig langaði að verða blaðamaður og rithöfundur, og leyfði mér að velja þetta ópraktíska fag. Sagnfræðin var skemmtileg og mér finnst hún gagnleg til að skilja heiminn, hvaðan við komum til að vita hvert við erum að fara. Það er oft sagt að við megum ekki gleyma, mér líður eins og sagnfræðingur geti verið ofurhetja, gleymskubaninn, við erum að gæta þess að mannkynið gleymi ekki voðaverkum fortíðar og það er okkar starf að minna á það.“

Sif segir sagnfræðina skrýtið fag, það sé erfitt að útskrifast og vinna við sagnfræði, það séu fáir sem gera það, kenna við háskóla og stunda rannsóknir.

„En ég myndi segja að sagnfræðin nýtist á mörgum sviðum og sú aðferðafræði sem lærist þar, þannig að ég vil meina að ég byggi mjög mikið á því námi sem ég lærði í sagnfræðinni. Þegar ég skrifa pistla, hvernig ég stunda rannsóknir og hvernig ég nálgast hlutina kemur voða mikið þaðan. Þó ég hafi ekki unnið við sagnfræðina með beinum hætti, nema bókin núna sem sprettur úr lokaritgerð minni í sagnfræði. Hún fjallaði um samskipti tónskáldsins Jóns Leifs og Páls Ísólfssonar, þegar ég var að grúska í skjölum á Landsbókasafninu þá sá ég alltaf þessa konu sniglast í bakgrunninum og mér fannst hún svo heillandi og hún var einhvern veginn allt í öllu í lífi Jóns og ég íhugaði að skrifa sagnfræðibók um hana eina. En eins og oft er með kvennasögu þá er svo mikill skortur á heimildum og ég velti þessu lengi fyrir mér og ég ákvað að gera henni skil og koma henni á spjöld sögunnar með því að fjalla um hana í skáldskap. Hluti bókarinnar fjallar um Annie Leifs þriðju konu Jón Leifs. Hún er konan á bak við manninn, konan sem fórnaði öllu fyrir merkasta tónskáld Íslendinga en fékk ekki mikið í staðinn. Hún dagaði uppi bláfátæk á Íslandi þar sem hún bjó í kjallaraíbúð á Nýlendugötu 22 og svona þráði alltaf þennan mann sem hafði losað sig við hana. Þó þau væru skilin þá var hún alltaf að berjast fyrir honum og hans tónlist og koma honum á framfæri og hún trúði á hann alla sína tíð.“

Jón lagði snöru fyrir framtíðarsagnfræðinga meðan Annie var klippt út

Sif bendir á að við viljum koma konum á spjöld sögunnar, en það sé erfitt vegna skorts á heimildum og þá sé ákveðin leið að blanda saman skáldskap og sagnfræði. Þannig hafi eiginkona rithöfundarins George Orwell, Sonina Orwell, sem og eiginkonur rithöfundarins Ernest Hemingway, fengið um sig skáldaðar skáldsögur. Hemingway var fjórgiftur; Hadley Richardson, Pauline Pfeiffer, Martha Gellhorn og Mary Welsh Hemingway.

„Þetta hefur ekki verið mikið gert á Íslandi og mér fannst þetta skemmtileg leið til að festa þessa konu í sessi og sýna henni þá virðingu sem hún á skilið með því að koma henni á spjöld sögunnar í gegnum skáldskap,“ segir Sif um Annie Leifs.

„Í tilfelli Anniear er þetta sjokkerandi, þau passa vel upp á allar heimildir um Jón. Það er eins og hann sé að leggja snöru fyrir sagnfræðinga framtíðarinnar, hann ætlar að passa að þeir hafi nóg efni. En þegar kemur að Annie henda þau öllu. Mér finnst ein heimild á Landsbókasafninu svo sláandi, þar er blaðagrein sem þau hafa passað upp á sem fjallar um tónleika Jóns, Annie leikur á píanó á tónleikunum. Þau geyma umfjöllun um tónleikana nema hvað það er búið að klippa burt allt sem fjallar um leik Anniear en öllu haldið sem fjallar um tónlist Jóns. Það er mikil fyrirhöfn til að klippa konuna úr sögunni, það hefði tekið styttri tíma að geyma greinina í heild. En svo fór ég að velta fyrir mér hver hélt á skærunum af því Annie sá um að passa upp á allt svona, hún var eins og ritari Jóns og svo hugsaði ég; Var það kannski bara hún sem klippti sjálfa sig út? Mér finnst það sjokkerandi: Klipptum við okkur sjálfar út úr sögunni?“

Finnst praktísk hlið viðskiptarekstrar ekki heillandi

Sif á einnig reynslu að baki í blaðamennsku, en hún byrjaði sem sumarstarfsmaður á Morgunblaðinu árið 2000. Segir hún að það vilji svo skemmtilega til að ein persóna bókarinnar var einnig sumarstarfsmaður á Mogganum.

„Ég hugsa alltaf hlýlega til Morgunblaðsins og tíma míns þar. Ég flutti svo út í nám og var að skrifa fyrir Morgunblaðið frá Bretlandi í einhvern tíma, fyrstu pistlarnir mínir fjölluðu ekki um pólitík eða samfélagsmál eins og þeir gera í dag, heldur voru pistlar um viðskipti. Ég var með skemmtipistla í viðskiptablaði Morgunblaðsins um hvernig væri að reka fyrirtæki. Ég rak bókaútgáfu í einhvern tíma sem var mikið ævintýri. Það gekk mjög vel og var útgáfan keypt af Forlaginu, en ég komst að því að þó maður hafi gaman af einhverju þá þýðir það ekki endilega að maður vilji reka fyrirtæki í kringum það.  Varan sem ég var að selja var mjög skemmtileg, en praktíska hliðin á viðskiptarekstri heillaði mig ekki. Ég gaf út þýddar skáldsögur eftir konur alls staðar að úr heiminum af því ég hafði komist að því að það var rosaleg kynjaskekkja í í útgáfu á þýddum skáldsögum, megnið var eftir karlmenn en konur eru mun stærri lesendahópur þannig að mér fannst þessi skekkja óeðlileg og svo sá ég viðskiptatækifæri  í þessari skekkju og það reyndist klárlega markaður fyrir það. Það var mjög gaman.“

Útgáfan sem Sif rak hét Stílbrot og gaf hún út Handtöskuseríuna, þýddar skáldsögur eftir konur.

„Er fólk hætt að lesa? Ég veit ekki, hvað segir þú?“ spyr Sif blaðamann og við ræðum að hvorugar erum við hættar að lesa. „Maður hefur auðvitað áhyggjur af því, maður er að skrifa bækur og vonast til að þær séu lesnar. Maður veltir fyrir sér hvort maður er í deyjandi bransa og sama gildir um blaðamennsku. Það er alltaf verið að hóta því að gervigreind leysi okkur af hólmi. Bókin gerist að hluta til á dagblaði og ég er að skrifa þessa bók og er að vinna sem pistlahöfundur hjá Fréttablaðinu og ákveð að nefna blaðið í bókinni Fréttablaðið og meðan ég er að skrifa bókina fer Fréttablaðið á hausinn. Og mér finnst þetta táknrænt, ég er að skrifa um krísu blaðakonu og hún er ákveðinn tákngervingur bransans sem er í svo mikilli krísu og er hverfandi bransi.“

Sif Sigmarsdóttir. Mynd: Anton Brink.

TúristaLondon ekki sama og London

Eftir sagnfræðina fór Sif árið 2022 í framhaldsnám til Bretlands, í bókmenntafræði. Þáverandi kærasti hennar, sem nú er orðinn eiginmaður flutti með henni.

„Mér fannst skemmtilegt að lesa bækur og skráði mig í framhaldsnám í bókmenntun. Ég er að reyna að gera það sem mér finnst gaman að gera og það hefur yfirleitt verið mjög gaman en hvort þetta sé skynsamlegasta leiðin í lífinu veit ég ekki. Dóttir mín kom til mín um daginn og sagði: „Ég ætla að gerast rithöfundur eins og þú.“ Og ég hugsaði: „Nei hver andskotinn.“ Mig langaði svo að banna henni að gera það af því þetta er ekki beinasta brautin, en þetta hefur verð skemmtileg braut. Bara mæta í vinnunna og hlakka til, ég held að það séu forréttindi. Ég er að skrifa bækur og skrifa pistla, svo tek ég að mér alls konar verkefni þannig að þetta er mikið pússluspil.“

Sif segir þau aldrei hafa flutt til baka og hún hafi verið að uppgötva að hún er búin að vera hálfa ævina í Bretlandi.

„Sem mér finnst skrýtið af því ég er svo mikill Íslendingur. Fólk var mikið að spyrja: Ætlið þið ekki að flytja heim með börnin? Okkur finnst bara gaman að búa í London og létum aldrei til skarar skríða og svo finnst mér hálfpartinn að það sé að verða of seint, þau eru 12, níu og fimm ára. Á einhverjum tímapunkti er maður orðinn of seinn að rífa alla upp, láta þau kveðja vini sína og allt sem þau þekkja.“

Aðspurð um hvort það sé erfitt að ala börn upp í stórborginni London svarar Sif neitandi.

„Það er alls ekkert púl. Fólk heldur oft að það sé ekki barnvænt að vera með börn í stórborg, en mér finnst það gott. Hverfi í London er eins og lítill smábær, hér er allt í göngufæri, við eigum ekki bíl, löbbum með börnin í skólann, allar verslanir, alla þjónustu. Það er allt svo nálægt okkur, við erum ekki neinu skutli eins og við heyrum af heima. Þó þetta sé stór borg þá er hún lítil frá okkar sjónarhorni séð. Ég er bara í mínu hverfi, póstburðarmaðurinn býður þér góðan daginn, þetta er eins og í krúttlegum Morse þætti. Fólk þekkist og heilsast á götu. Ég get skotist niður í bæ í leikhús á 20 mínútum. London er ekki sama og London, túristaLondon er allt annar staður. Ég fer ekki oft að versla á Oxford-stræti. Ferðamenn fá aðra sýn á borgina en þeir sem búa hérna,“ segir Sif og heldur áfram.

„Sem dæmi í Islington þá er skemmtilegt leikhús. Ástæðan fyrir að ég endaði hér er að uppáhaldsleikhúsið mitt er hér. Þegar túristar fara í leikhús fara þeir á West End, stór stykki og fræg og söngleikir, en í hverfisleikhúsunum, og hvert hverfi er með leikhús, þar finnurðu nútímaverk, verk sem eru ádeila a samtímann, ungu leikskáldin, oft rosa flottir leikarar og þau leikrit sem ganga vel í hverfisleikhúsinum þau enda á West End.“

Íslenskur jóladiskur vekur alls staðar kátínu

Sif og fjölskylda hennar hafa einnig haft áhrif á nærumhverfi sitt eins og eftirfarandi dæmi sanna:

„Íslenskari en Ora baunir, við Íslendingarnir í London eru miklir Íslendingar. Við erum stundum dálítið eins og fjölskyldan í My Big Fat Greek Wedding, íslenskari en dós af grænum Ora baunum. Við dreifum íslenskum áhrifum víða, stundum alveg óvart. Þegar fyrsta barn mitt hóf leikskólagöngu fyrir meira en tíu árum í London þar sem ég bý var ég spurð að því hverju fjölskyldan fagnaði. Ég sagði það fyrsta sem mér datt í hug: „17. júní og Júróvisjón.“ Án þess að blikna skrifaði leikskólastýran svarið niður. Það var ekki fyrr en löngu síðar að ég áttaði mig á að spurningin var líklega leið hinna ofur kurteisu og menningarlega nærgætnu Breta til að falast eftir því hverrar trúar við værum. En í tíu ár var 17. júní og Júróvisjón fagnað í breskum leikskóla með íslenska fánanum, pylsum og íslenskri skúffuköku. Það var magnað að sækja krakkana í leikskólann á 17. júní og sjá öll bresku börnin streyma út með íslenska fánann málaðan á kinnina,“ segir Sif og hlær.

Þar sem nú er aðventa þá er tilvalið að deila einnig skemmtilegri sögu af breskri aðventu:

„Sumir kveikja á kertum á aðventunni. Hér í London eigum við fjölskyldan hins vegar þann aðventusið að setja geisladiskinn Pottþétt jól 3 á fóninn, sem er af einhverjum ástæðum eini jóladiskurinn sem ég á. Breskir vinir mínir elska diskinn og veltast um af hlátri þegar hann er spilaður því þar fá þeir að heyra jólalög sem mörg hver eru alþjóðleg flutt á hinni fögru íslensku tungu. Þar tekur Helga Möller til að mynda slagarann „Jólin þín og mín“ sem hjartaknúsarinn Cliff Richard er þekktur fyrir að syngja hér í Bretlandi og Kristján Jóhannsson syngur klassíkerinn „Heims um ból“. Sumir vinanna hafa meira að segja fengið að afrita þennan stórgóða disk til að spila í eigin jólaveislum og vekur hann alls staðar jafnmikla kátínu.“

Heiður að fá listamannalaun – Segir mikilvægt að varðveita íslenskuna

Sif fékk úthlutað listamannalaunum nýverið fyrir árið 2026, alls sex mánuðir.

„Ég hlýt að þurfa að setjast niður og byrja á nýrri bók strax 1. janúar, það er bara þannig. Maður verður að vinna fyrir þessum launum. Það er mikill heiður að fá listamannalaun og ég held að flestir sem fá þau vilji skila sínu, það er engan veginn sjálfsagt að fá þennan styrk. Listamannalaunin fara mikið fyrir brjóstið á mörgum og ég skil það vel, það er mikilvægt að stjórnvöld fari vel með skattfé. Fólk má skoða vel hverjir fá styrki og að fólk skili sínu, ég mun allavega gera mitt besta til að skila af mér. Þetta er sérstaklega mikilvægt núna þegar við erum á góðri leið með að glata tungumálinu, við verðum að fjárfesta í tungumálinu til að það lifi af, við megum ekki missa rithöfunda, við megum ekki missa bókabransann og við megum ekki missa fjölmiðla. Það er svo mikilvægt að fólk hafi íslenska fjölmiðla til að lesa, og fjölmiðlar eru mikilvægt aðhald upp á lýðræði að gera og til að halda lífi í íslenskri tungu. Það er mikilvægt að við getum lesið háfleygar fréttaskýringar á íslensku en líka slúður, bara um rassinn á Kim Kardashian á íslensku. Það er mikilvægt að fólk fái að lesa þetta á íslensku.“

Kim Kardashian

Tengir sjálf við eigin sögupersónu

Við endum spjallið aftur á bókinni Allt sem við hefðum getað orðið.

„Ég tengi sérstaklega sterkt við eina persónu bókarinnar. Sú er blaðakona sem á sér draum og ætlar sér stóra hluti. Við ætlum okkur öll stóra hluti þegar við erum ung. En skyndilega er hún umkringd blaðabörnum sem eru svo ung að þau halda að Helmut Kohl sé nýjasti rakspírinn frá Prada og Nirvana sé hugarástand sem fólk öðlast eftir jóga tíma yfir súrdeigsbrauði með avocado. Innan um jafnaldra sína líður henni hins vegar eins og unglingi, fólk sem er búið að uppskera raðhús, golf í Flórída, Louis Vuitton töskur, fimleikanámskeið fyrir börnin og bestu sætin í Hörpu. Og hún hugsar: Gerði ég mistök þegar ég valdi þá braut sem ég er á. Veltum við því ekki öll fyrir okkur annað slagið? Titill bókarinnar, Allt sem við hefðum getað orðið, er vísun í alla draumana og er innblásinn af ljóðlínu eftir Emily Dickinson. Hún kvað: I dwell in possibility. Ég dvel í möguleikanum. Þegar við erum ung dveljum við í möguleikanum. Okkur standa allar dyr opnar. En það segir okkur enginn að þegar við veljum einar dyr lokast aðrar!“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 3 dögum

Elvis heimsmeistari snýr aftur til Íslands

Elvis heimsmeistari snýr aftur til Íslands
Fókus
Fyrir 3 dögum

Allt sem við vitum um brúðkaupsplön stjörnuparsins

Allt sem við vitum um brúðkaupsplön stjörnuparsins
Fókus
Fyrir 4 dögum

Hefur ekki rifist við eiginkonuna í tíu ár

Hefur ekki rifist við eiginkonuna í tíu ár
Fókus
Fyrir 4 dögum

Kötturinn og ég – Falleg og persónuleg þroskasaga

Kötturinn og ég – Falleg og persónuleg þroskasaga