

Tónlistarmaðurinn Michael Jackson var elskaður og dáður, þar til hann var það ekki lengur. Undanfarin ár hefur nafn hans einkum verið tengt við ásakanir í hans garð um barnaníð, þrátt fyrir að tónlistarmaðurinn hafi farið fyrir dóm og verið þar sýknaður árið 2005. Eftir að hann lét lífið árið 2009 hafa þessar ásakanir aftur farið á mikið flug, en þeir Wade Robson og James Safechuck stefndu dánarbúi Jackson og héldu því fram að tónlistarmaðurinn hefði misnotað þá á barnsaldri. Máli beggja var vísað frá dómi en fjallað var um þau í heimildarmyndinni Leaving Neverland árið 2019, sem vakti mikla athygli.
En hvað ef Jackson var saklaus? Þetta er spurning sem sumir hafa velt fyrir sér, fæstir þó opinberlega enda hefur lenskan undanfarin ár verið sú að trúa beri þolendum. Félagarnir í hlaðvarpinu Álhatturinn eru sérhæfðir í samsærum. Þeir velta því í nýjasta þættinum fyrir sér hvort mögulega sé um samsæri að ræða í máli tónlistarmannsins. Það gera þeir hvorki til að hreinsa nafn Jackson né til að fella nokkra dóma heldur til hreinlega til að skoða hvað bendir til sektar tónlistarmannsins en eins hvað geti bent til sakleysis, og hvers vegna einhver gæti haft hag af því að bera hann röngum sökum.
Við gefum Álhöttum orðið:
Michael Jackson þarf vart að kynna fyrir nokkrum. Barnastjarnan úr Jackson 5 sem skein, líkt og Betlehemstjarnan, skærast allra stjarna. Hann skaust fram á sjónarsviðið eins og eldibrandur á barnsaldri og heillaði heimsbyggðina með bræðrum sínum og systrum. En þó að Jackson 5 nyti hylli almennings þá var það ætíð Michael sem lýsti upp stjörnuhiminn og þaut um himinskautin líkt og halastjarna.
Hann tók að endingu alfarið yfir sviðið og varð að stærstu poppstjörnu allra tíma, sannkallaður og óumdeildur konungur poppsins. Thriller, Bad og Dangerous seldust í bílförmum og ruku út alls staðar eins og heitar lummur. Tónlistarmyndböndin voru stórfengleg og íburðamikil líkt og Óskarsverðlaunamyndir og einstakur dansstíllinn mótaði heila kynslóð.
Líklega besti söngvari og dansari síns tíma, ef ekki allra tíma. Á sama tíma fjarlægðist hann sífellt hið hefðbundna líf, breyttist gífurlega í útliti og dvaldist sífellt meira í lokuðum heimi aðdáenda, öryggisvarða og ráðgjafa. Michael Jackson varð að einhvers konar flókinni blöndu af barnastjörnu, ofurviðkvæmum listamanni og sérlunduðum og mislyndum furðufugli, sem virtist ekki finna sinn stað í heimi fullorðinna.
Tónlistarmaðurinn talaði opinberlega af einlægni um harðræði föður síns í æsku, einmanaleika og þá upplifun að hafa aldrei fengið að njóta þess að vera barn. Hann byggði búgarðinn Neverland, risastórt sveitasetur með skemmtigarði og dýragarði. Þar tók hann á móti börnum, fjölskyldum og sérstaklega vel á móti langveikum börnum. Hann lýsti sér sem hálfgerðum Pétri Pan, sem vildi bara umgangast börn og fá að vera barn, horfa á teiknimyndir, flýja veruleikann og njóta þess að vera til.
Það eru einmitt þessi atriði gerðu hann að skotspón sem var stöðugt á milli tannanna á fólki. Kjarni og kveikja umræðunnar. Fullorðinn karlmaður sem af einhverjum ástæðum hélt náttfataveislur og gistipartý með barnungum drengjum, á aldrinum sjö til fjórtán ára, hvar hann deildi jafnvel með þeim rúmi. Hann lét setja upp viðvörunarkerfi við svefnherbergið og sagðist engu að síður bara vera barn í húsi fullorðins manns.
Eru þetta merki um alvarlega misnotkun og grooming eða sorglega misheppnuð tilraun til að búa sér til ævintýraheim þar sem hann sleppur við ábyrgð og mörk? Var barnið Michael Jackson, sem aldrei fékk að njóta sín, kannski bara að reyna að brjótast fram?
Á móti komu grófar og alvarlegar ásakanirnar þar sem Jackson fékk hlutverk geranda. Chandler-fjölskyldan sem lýsti kynferðislegri misnotkun, fór fyrst allra til lögfræðings og ræddi þar um bótafjárhæðir áður en lögregla eða barnavernd komu að borðinu. Jason Francia lýsti óviðeigandi snertingum á einkasvæðum utanklæða og Arvizo-fjölskyldan sakaði Michael um grófa misnotkun á Neverland.
Síðar, eftir andlát Jacksons, stigu Wade Robson og James Safechuck fram með ítarlegar lýsingar á margra ára viðurstyggilegri misnotkun, eftir að hafa áður komið Michael opinberlega til varna, eiðsvarnir í dómsal. Hvað breyttist skyndilega? Skutu bældar minningar skyndilega upp kollinum eða fengu þeir kannski bara peningaglampa í augun eftir að jakkafatakakkalakkar náðu til þeirra?
Á öllum stigum málsins eru til skjöl, dómar, skýrslur og heimildarmyndir sem draga upp gjörólíkar myndir. Sýna okkur tvo gjörólíka heima. Tvær gjörólíkar sögur. Tvö gjörólík sjónarmið. Eins og einhvers konar hliðstæðir veruleikar eða víddir. Í borgaralegu einkamáli Chandler-fjölskyldunnar er gengið til dómssátta með tugmilljóna skaðabótum, án þess þó að Michael játi beint sök.
Í sakamálinu 2005 er Jackson ákærður fyrir fjölda brota en sýknaður af öllum liðum í kviðdómi. Ítrekaðar húsleitir og rannsóknir yfirvalda finna ekkert barnaklám eða nokkuð ólöglegt á heimilum hans. Ekki einu sinni á Neverland þar sem meint misnotkun átti að hafa átt sér stað. Ekki arða af sönnunum eða tangar né tetur af lífsýnum úr Michael.
En eftir stendur að hegðun Michel er vægast sagt óvenjuleg og mörgum finnst hún einfaldlega óásættanleg eða í það minnsta óþægileg, jafnvel þótt ekki liggi fyrir óyggjandi sönnun um brot af neinu tagi.
Að sama skapi má velta því fyrir sér hverjir hafi fjárhagslega og starfstengda hagsmuni af því að ýkja eða viðhalda ásökunum. Fjölskyldurnar sem fengu milljónir í sáttagreiðslur og skaðabætur. Lögmenn sem sérhæfa sig í stórum skaðabótamálum og lifa í vellystingum. Heimildarmyndagerðarmenn og fjölmiðlar sem maka krókinn og hagnast gífurlega á allri umfjölluninni, en byggja umfjöllun sína á dramatískum frásögnum sem vekja mikla athygli. Smellibrellur fyrir tíma samfélagsmiðla. Allt til að selja blöð og tímarit. Plötufyrirtæki og útgáfurisar sem sitja á útgáfurétti, master-upptökum og framtíðartekjum.
Spurningin verður því ekki aðeins hvort Jackson framdi hin meintu brot heldur líka hvernig peningaflæðið og hagsmunirnir þekja og lita alla frásögnina.
Síðan er hitt sjónarhornið sem lítur á ásakanirnar sem raunverulegan harmleik barna og fjölskyldna sem leiðast inn í heim frægðar, aðgangs að stjörnum og fjárhagstækifærum. Þar er spurt hvort Jackson hafi nýtt sér valdastöðu sína, aðdáun og traust drengjanna sem dáðu hann til að brjóta gegn börnum sem treystu honum eða hvort peningar, málsóknir og óreiða í fjölskyldum hafi síðar skekkt frásagnir, minni og viðbrögð fórnarlamba. Í þeirri mynd eru lögfræðingar, fjölmiðlar og plötufyrirtæki aðeins hliðarleikarar í stærri sögu um misnotkun, skömm og þöggun.
Líkt og oft áður í Álhattinum eru álitamálin mörg. Var Michael Jackson að reyna að hjálpa veikburða börnum eða skapa umhverfi þar sem enginn þorði að spyrja gagnrýninna spurninga? Voru Chandler, Francia, Arvizo, Robson og Safechuck ranglega að sverta nafn hans til að græða eða voru þeir bara að reyna að ná fram réttlæti í kerfi sem setur fræga og auðuga í sérstöðu? Hvers vegna skiptast vitnin á milli þess að verja hann og ásaka, og hvað segir það um falsminningar, þrýsting, fjölskyldudeilur og áhrif lagabreytinga á fyrningarfrest?
Þetta og svo margt fleira bæði óhugnanlegt og áhugavert í þessum þætti af Álhattinum, þar sem góðu vinirnir Guðjón Heiðar og Haukur Ísbjörn aka fyrir þá fullyrðingu að Michael Jackson hafi verið saklaus af ásökunum um barnaníð. Þeir fara vandlega yfir feril hans, persónuleika, Neverland og ásakanirnar sem komu fram á mismunandi tímum, skoða sögurnar frá sjónarhorni meintra fórnarlamba, frá sjónarhorni varnaraðila, lögreglu, fjölmiðla og plötu iðnaðarins. Þeir spyrja líkt og alltaf áður hverjir séu að gera hvað, hvernig og hvers vegna, og velta vandlega fyrir sér hvað það sé sem styður við sakleysi og hvað styður sekt, án þess að fella endanlegan dóm.
Markmið Álhattsins er ekki að hreinsa nafn eða hengja mann, heldur að rýna í öll helstu gögn málsins og draga þau fram í dagsljósið því Álhatturinn er alltaf leitandi og alltaf spyrjandi en Álhatturinn fellir aldrei endanlegan dóm.“