

Bókin Undrarútan fjallar um Takú og vini hans sem smíða risavaxna rútu og ferðast með henni til hamingjulandsins Balanka til að bjarga lífi Tímós litla. Tíminn stendur í stað á þessari hættuför og ótal persónur koma við sögu, en áhrifamesta aðalsöguhetjan er Undrarútan sjálf, meistaralega teiknuð brunar hún, höktir, skröltir og glamrar á vegunum þar til hún tekst loks á loft.
Bókin eftir hinn danska Jakob Martin Strid er stórvirki hvernig sem á er litið. Strid var 15 ár að skrifa og teikna bókina, en uppskar veglega þar sem bókin hlaut Bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs 2024.

Bókin er stór, þung og vegleg og ég hélt þegar pakkinn barst að hann geymdi sex skáldsögur en ekki eina barnabók. Barnið innra með mér skríkti svo af gleði þegar ég opnaði pakkann og opnaði bókina og við blöstu litríkar myndasíður á hverri opnu. Hér er margt að skoða og lesa á hverri blaðsíðu og geta lesendur á öllum aldri unað sér við að fletta bókinni. Það er kannski eini galli bókarinnar, ef galla skal kalla, hversu þung hún er, ung börn geta ekki borið hana um og flett henni hvar sem er eins og gott er að geta gert með barnabækur. Það er heldur ekki hægt að liggja upp í rúmi eða sófa og lesa bókina. En þessi bók er þá bara bókin þar sem börnin sitja við borð með bókina fyrir framan sig og fletta.
Undrarútan er heillandi saga um vináttu, samkennd og samvinnu og fjallar um ferðalag hóps dýra í átt til betri heimkynna, þar sem þau flýja það illa og leita þess góða. Ferðalagsævintýri eins og kynnast má í mörgum öðrum sögum líkt og Föruneyti hringsins (e. Lord of the rings) svo aðeins ein sé nefnd.
Undrarútan er einstaklega vegleg og skemmtileg bók fyrir börn á öllum æviskeiðum til að njóta og lesa.