fbpx
Miðvikudagur 12.nóvember 2025
Fókus

Líf – Fantagóð frumraun sem gefur lesandanum engin grið

Ragna Gestsdóttir
Miðvikudaginn 12. nóvember 2025 12:21

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Fjölskyldufaðir finnst látinn á heimili sínu í Grafarholti og virðist hafa fallið fyrir eigin hendi. En við krufningu kemur í ljós örlítið frávik. Smávægilegt ósamræmi sem breytir öllu.

Guðrún Ýr Ingimarsdóttir rannsóknarlögreglumaður fær málið í sínar hendur. Hún er eldskörp og hröð í hugsun, en líka þrjósk og rekst gjarnan á veggi innan kerfisins.

Í ljós kemur að þetta mál er aðeins upphafið að miklu stærri ráðgátu. Þræðirnir liggja inn í heim valda, spillingar og leyndarmála sem einhver er tilbúinn að verja með blóði. Í skuggunum bíður sá sem skilgreinir morð ekki sem glæp, heldur list.

Líf er ófyrirsjáanlegur sálfræðitryllir sem kafar djúpt í myrkustu afkima mannlegs eðlis. Reynir Finndal Grétarsson leiðir lesandann inn í hugarheim þar sem sannleikurinn er aldrei einfaldur og siðferði er afstætt. Lesandinn er orðlaus að lestri loknum.

Glæpasagan Líf sem kom út undir lok október er sú fyrsta úr smiðju Reynis sem sléttum tveimur mánuðum áður gaf út sjálfsævisögu sína Fjórar árstíðir. Í útgáfupartýi Líf sagðist Reynir hafa þurft að öskra eftir skrifin á sjálfsævisögunni og það gerir hann svo sannarlega á síðum Líf.

Sagan gefur lesandanum engin grið með hörðum og hröðum stíl Reynis, grófu ofbeldi og kynlífi. Ofbeldi hafa lesendur glæpasagna ítrekað fengið að kynnast í íslenskum glæpasögum, minna hefur verið um kynlífið. Sem dæmi um hraðan stil má nefna að engu plássi er eytt í gæsalappir í samtölum persóna og einni setningu eða tveimur í að lýsa köldu, gráu, drungalegu og grenjandi veðri og landslagi, sem í norrænum glæpasögum er oft ein aðalpersónan svo mikið pláss sem veðrið fær til að ýta undir og lýsa drunga, deyfð og dapurleika viðfangsefnis slíkra bókmennta.

Bókin hefst á játningu gerandans: „Ég er fjöldamorðingi.“ Ekki sá eini eða fyrsti hérlendis, en vissulega sá afkastamesti í sögu Reynis, fjöldamorðingi sem hefur komist upp með ódæðisverk sín í áratugi hérlendis og erlendis. Axlar-Björn má eiginlega bara skammast sín fyrir letina í voðaverkum sínum.

Aðalsögupersóna bókarinnar Guðrún Ýr fær það stóra verkefni í hendurnar að leysa málið og koma morðingjanum undir hendur réttvísinnar. Guðrún Ýr minnti mig á Stellu Blómkvist sem heillað hefur lesendur glæpasagna í yfir tvo áratugi, einfari og sterk kvenímynd sem storkar áliti annarra. Líklega eru þær bara náskyldar frænkur.

Í Líf berst sagan víða, meðal annars á æskuslóðir Reynis á Blönduósi, og einnig til Bandaríkjanna, Rússlands og Úkraínu. Fjöldi persóna kemur við sögu, bæði í sögusviði rannsóknarinnar og í endurliti og baksögu margra persóna. Ofbeldi, mansal, eiturlyf, morð og mistök koma fyrir í mörgum þráðum sögunnar, sem auðvelt væri að týna niður eða flækja óþarflega, en Reynir nær að flétta saman með óvæntum söguþræði og endi.

Það er óhætt að segja að fjölmargir frábærir glæpasöguhöfundar landsins geti þjappað sér saman á bekknum og búið til pláss fyrir Reyni, hann sýnir og sannar með Líf að hann er kominn til að vera kjósi hann að halda sig við glæpasöguskrifin.

Einnig er vert að minnast á kápumynd Snorra Björnssonar, sem er ekki öll þar sem hún er séð. Þar leynist margt ef vel er að gáð.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Varð vitni að ömurlegu atviki í Bónus og kennir móðurinni um: „Drengurinn gekk brotinn í burtu“

Varð vitni að ömurlegu atviki í Bónus og kennir móðurinni um: „Drengurinn gekk brotinn í burtu“
Fókus
Fyrir 2 dögum

Vikan á Instagram – Ísgæinn klæddi sig í jakkaföt en konan í rauða kjólnum var ekki hrifin

Vikan á Instagram – Ísgæinn klæddi sig í jakkaföt en konan í rauða kjólnum var ekki hrifin
Fókus
Fyrir 3 dögum

Segist hafa séð flygildi fyrir ofan hús Þorgríms Þráinssonar

Segist hafa séð flygildi fyrir ofan hús Þorgríms Þráinssonar
Fókus
Fyrir 3 dögum

Þetta er síðasta myndin af henni á lífi – Hélt hún væri að fara á stefnumót

Þetta er síðasta myndin af henni á lífi – Hélt hún væri að fara á stefnumót
Fókus
Fyrir 4 dögum

Gunnar segir að íslensk kona hafi verið numin á brott af geimverum: „Hún er mjög hátt sett bara í sínu starfi og enginn rugludallur“

Gunnar segir að íslensk kona hafi verið numin á brott af geimverum: „Hún er mjög hátt sett bara í sínu starfi og enginn rugludallur“
Fókus
Fyrir 4 dögum

Líf stjörnunnar orðið að algjöru helvíti í fangelsinu – Trúði því aldrei að hans fyrrverandi gæti verið svona grimm

Líf stjörnunnar orðið að algjöru helvíti í fangelsinu – Trúði því aldrei að hans fyrrverandi gæti verið svona grimm