Sjúkdómurinn virðist vera farinn að hafa talsverð áhrif á líf leikarans og sást hann til dæmis í hjólastól á flugvellinum í Toronto á dögunum.
Dane hefur talað opinskátt um sjúkdómsgreininguna og lýsti hann því í viðtali við Diane Sawyer í Good Morning America í sumar að fyrstu einkenni sjúkdómsins hafi komið fram sem vægt máttleysi í hægri hönd.
„Ég hélt að ég hefði verið búinn að senda of mörg skilaboð eða nota símann minn of mikið. En nokkrum vikum síðar tók ég eftir að þetta hafði versnað,“ sagði leikarinn.
ALS, sem er algengasta tegundin af MND, einkennist af minnkandi styrk vöðva og rýrnun þeirra.
Samkvæmt heimildum Page Six hefur leikarinn tileinkað sér jákvætt hugarfar í veikindunum og er hann sagður sannfærður um að láta veikindin ekki draga úr lífsgleðinni.
„Hann vill njóta þess sem hann hefur núna, því hann veit í hjarta sínu að morgundagurinn er engum tryggður,“ sagði ónafngreindur vinur leikarans. „Hann vill ekki að fólk syrgi hann eða vorkenni honum, hann vill einfaldlega umkringja sig fólki sem er til staðar, lifa í núinu og finna fyrir jákvæðni,“ bætti vinurinn við.
Sjúkdómurinn ágerist með tímanum en á vef MND-félagsins kemur fram að ferlið sé mismunandi á milli einstaklinga. Milli 15 og 20% MND/ALS sjúklinga eru enn á lífi 10 árum eftir að þeir urðu fyrst varir við einkennin.