Bókin Hyldýpi er fjórða bók rithöfundarins og lögmannsins Kára Valtýssonar.
Bókin fjallar um Dögg Marteinsdóttur, ungan lækni sem starfar hjá Læknum án landamæra í Súdan. Hún verður náin Sarah, samstarfskonu sinni og kofafélaga, sem er ungur og frakkur læknir frá Brooklyn í New York, og takast þær á við hörmungarnar í flóttamannabúðunum þar sem þær starfa. Dögg kynnist og verður ástfangin af yfirlækni á svæðinu sem heitir Omar Mohammed. Dag einn fara Omar, Sarah og Dögg í sendiför til borgarinnar Nyala, en sú för endar með skelfilegum hætti.
Kristján tók af skarið og sagði upp traustu starfi á lögmannsstofu til að stofna sína eigin. Verkefnin láta þó á sér standa, þó hann segi eiginkonunni reglulega að allt sé í himnalagi.
Mitt í hringiðu afkomuótta og kvíðakasta fær Kristján í hendurnar tvö athyglisverð mál. Annars vegar mál fylgdarlauss drengs frá Súdan og hins vegar líkamsárásarmál ungs Pólverja sem heitir Pawel Nowak, sem er í sambúð með íslenskri kærustu og eiga þau von á sínu fyrsta barni.
Pawel á vægast sagt vafasama fortíð frá heimalandinu og eitt örlagaríkt kvöld eltir fortíð Pawels hann uppi. Uppgjör við fortíðina og meðlimi harðsvíraðra glæpasamtaka dregur dilk á eftir sér fyrir Pawel.
Líf þessara þriggja ólíku einstaklinga, Daggar, Kristjáns og Pawel,fléttast saman með afdrifaríkum afleiðingum fyrir þau öll.
Bókin hefst í Súdan árið 2005 þar sem Dögg, ung og full af eldmóði um að láta gott af sér leiða tekst á við ómannúðlegar aðstæður í flóttamannabúðum Súdan. Hryllingur er daglegt brauð, en starfsfólkið tekst á við ömurðina með því að detta í það reglulega, stunda kynlíf og hugsa að starfið sé gott fyrir ferilskrána.
Lýsingar fyrsta hluta bókarinnar eru óhugnanlegar og mögulega ekki fyrir hvern sem er að lesa, veruleiki sem Íslendingar þekkja einungis af fréttalestri, það er þeir sem enn lesa fréttir.
Í öðrum hluta bókarinnar erum við komin til nútímans, ársins 2023, þar sem við kynnumst þeim Kristjáni og Pawel. Báðir eiga sameiginlegt að vilja betra líf fyrir sig og fjölskyldu sína, Kristján fyrir þrjú ung börn sín og Pawel fyrir barnið sem von er á í heiminn. Dögg kemur aftur við sögu og líf þeirra þriggja blandast saman.
Hér skal ósagt frekar frá söguþræði Hyldýpi. Bókin er eftir lestur fyrsta hluta algjör þeysireið og lesandinn getur ekki beðið eftir að komast að því hvernig sögupersónunum þremur vegnar og hver örlög þeirra verða. Að minnsta hafði bókin af mér smávegis af nætursvefni. Að mínu mati ber Íslandshluti bókarinnar hana uppi, frekar en hlutinn sem gerist í Súdan, sem er þó nauðsynlegur undanfari sögunnar. Íslandshlutann má frekar tengja við auknum fjölda hælisleitenda og sívaxandi ítökum erlendra glæpagengja í undirheimum hér á landi. Hyldýpi kafar djúpt í myrkur mannheima, grimmdina sem mannskepnan er fær um og djöflana sem innra með okkur búa og bíða eftir að heltaka okkur ef við gerumst værukær á vaktinni. Inn í fléttast þó allt það góða, vinátta, ást, draumar um betra líf, von og lítið líf sem verður til.