fbpx
Sunnudagur 14.september 2025
Fókus

„Nú bíð ég spennt eftir jólabókaflóðinu“

Ragna Gestsdóttir
Sunnudaginn 14. september 2025 11:30

Sólveig Pálsdóttir. Mynd: Jónatan Grétarsson.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Sólveig Pálsdóttir, rithöfundur og leikkona, er lesandi DV. Fyrsta bók Sólveigar kom út árið 2012, þegar hún var 52 ára. Bækurnar eru orðnar átta, þar af sjö glæpasögur. Níunda bókin, glæpasagan Ísbirnir, kemur út í lok október hjá Sölku.

Sólveig hlaut Blóðdropann, glæpasagnaverðlaun Hins íslenska glæpafélags, árið 2020 fyrir Fjötra. Nokkrar bóka hennar hafa komið út í erlendum þýðingum.

Sólveig lauk leiklistarnámi frá Leiklistarskóla Íslands 1982 og starfaði sem leikkona um árabil, auk vinnu við dagskrárgerð hjá RÚV þar sem hún stýrði barna-, unglinga- og viðtalsþáttum. Árið 1996 lauk Sólveig BA-gráðu í almennri bókmenntafræði frá Háskóla Íslands. Sólveig er einnig með kennsluréttindi og starfaði sem íslensku-, tjáningar- og leiklistarkennari við Hringsjá, náms-og starfsþjálfun, í 17 ár.

Sólveig var formaður menningarnefndar Seltjarnarness í átta ár. Árið 2019 var hún valin bæjarlistamaður Seltjarnarness.

Sólveig er gift og á þrjú uppkomin börn.  

Hvaða bók/bækur ertu að lesa núna?

Ég er svo undarlega gerð að þegar ég er að skrifa eigin bækur á ég erfitt með að lesa annarra skáldverk. Meðan á skriftarferlinu stendur les ég helst ljóð eða örsögur. En nú get ég sökkt mér á kaf í lestur því nýja bókin mín, Ísbirnir, er á leið í prentun og kemur út í lok október. Ég er nýbyrjuð á Grænmetisætan eftir suður- kóreska skáldið Han Kang sem fékk Nóbelsverðlaunin í bókmenntum 2024. Það er Ingunn Snædal sem þýðir verkið og fyrsta setningin er svona: „Áður en konan mín gerðist grænmetisæta hafði mér alltaf fundist hún algjörlega óáhugaverð að öllu leyti.” Mér finnst þetta frábær upphafssetning og ég gleypti í mig næstu blaðsíður! Aðrar bækur sem bíða á náttborðinu mínu eru Í landi annarra og Sjáið okkur dansa eftir marokkóska skáldið Leila Slimani í þýðingu Friðriks Rafnssonar.

Hvaða bók/bækur laukstu við síðast og hvernig fannst þér hún/þær?

Áður en ég tók lokatörnina við Ísbirni las ég nokkrar bækur sem ég hreifst af og ætla að nefna nokkrar. Eldri konur eftir Evu Rún Snorradóttur er vel skrifuð og sterk bók sem situr lengi í minninu að lestri loknum. Hún lýsir skelfilegri vanrækslu og afleiðingum hennar en líka styrk og leiðinni til betra lífs. Mig langar líka til að nefna Ég verð aldrei ungfrú meðfærileg, saga Guðrúnar Jónsdóttur eftir Ingibjörgu Dögg Kjartansdóttur en Guðrún lést skömmu eftir útgáfu bókarinnar. Ég fyllist þakklæti fyrir að þær tvær skyldu ná að vinna bókina því þessi saga er stórmerkileg heimild um kvennabaráttuna og andrúmsloftið á seinni hluta síðustu aldar. Bókin ætti eiginlega að vera skyldulesning í framhaldsskólum. Mig langar líka til að nefna bók sem ég las fyrir nokkrum árum en stemningin í henni situr enn í mér. Hún heitir Um endalok einsemdarinnar og er eftir Benedict Wells og það eru allnokkur ár síðan að hún kom út í íslenskri þýðingu Elísu Bjargar Þorsteinsdóttur. Ég las þessa bók tvisvar sinnum með nokkurra vikna millibili en slíkt gerist sjaldan. Þetta er ákaflega þroskað verk og frásagnarhátturinn er dáleiðandi en Benedict Wells er svissnesskt-þýskur og fæddur 1984.

Hvaðabók/bækur hafa haft mest áhrif á þig og hvers vegna?

Ég kann ekki frönsku en hef lesið fjórar bækur eftir Annie Ernaux, Nóbelsverðlaunahafann í bókmenntum 2022, í þýðingu Rutar Ingólfsdóttur. Sú fyrsta sem ég las var Staðurinn og hún rótaði upp í huga mínum. Ég varð pirruð, fannst frásagnarhátturinn kaldur og fráhrindandi en samt sótti bókin ákaft á mig og ég þurfti mikið að ræða hana. Síðast las ég Atburðurinn og það sama gerðist, ég get ekki hætt að hugsa um hana. Sumar bækur Auðar Övu hafa haft þessi áhrif á mig þótt frásagnarhátturinn sé mun hlýrri og ljóðrænni en hjá Annie Ernaux sem skrifar næstum því í skýrsluformi. Síðasta vetur las ég einnig bækur hinnar írsku Claire Keegan. Stíllinn hennar er einnig ákaflega knappur og hún tekur á viðkvæmum málefnum. Keegan hefur ekki náð að heilla mig jafn mikið og þær Ernaux og Auður Ava.

Ég náði að lesa eina spennubók í vor á milli skriftartarna. Það var Bylur eftir Írisi Ösp Ingjaldsdóttur. Ég var ekki svikin af henni frekar en fyrri bók hennar Röskun.

Er einhver bók/bækur sem þú getur ekki beðið eftir að lesa?

Að lokum langar mig til að nefna nýútkomna bók eftir systurdóttur mína, Björgu Thorhallsdóttur sem heitir Gleði. Hún er kærleiksrík og hvetjandi, einstaklega fallega myndskreytt af höfundi. Björg er íslensk en alin upp í Noregi og er meðal þekktustu listamanna þar. Hér á Íslandi er hún einkum þekkt fyrir Tíminn minn sem er ákaflega falleg dagatalsbók sem kemur árlega út. Nú bíð ég spennt eftir jólabókaflóðinu og get ekki beðið eftir því að koma höndum yfir ný verk af öllu tagi frá okkar góðu rithöfundum.

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Jóhannes Valgeir látinn

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Mætti með 19 árum yngri kærustuna upp á arminn

Mætti með 19 árum yngri kærustuna upp á arminn
Fókus
Fyrir 2 dögum

Birti óræð skilaboðum nokkrum dögum fyrir sambandsslitin

Birti óræð skilaboðum nokkrum dögum fyrir sambandsslitin
Fókus
Fyrir 3 dögum

Rifjar upp þegar hún smurði samlokur fyrir vændiskonur Charlie Sheen

Rifjar upp þegar hún smurði samlokur fyrir vændiskonur Charlie Sheen
Fókus
Fyrir 3 dögum

Kristbjörg: „Að heyra í sprengjunum var óraunverulegt og skelfilegt“

Kristbjörg: „Að heyra í sprengjunum var óraunverulegt og skelfilegt“
Fókus
Fyrir 4 dögum

Heimspekingur fullyrðir að það sé vissulega líf eftir dauðann og rekur ferðalagið sem bíður okkar

Heimspekingur fullyrðir að það sé vissulega líf eftir dauðann og rekur ferðalagið sem bíður okkar
Fókus
Fyrir 4 dögum

Leikarinn fór í fitusog eftir að vændiskona særði tilfinningar hans með einu orði

Leikarinn fór í fitusog eftir að vændiskona særði tilfinningar hans með einu orði