fbpx
Laugardagur 06.september 2025
Fókus

„Ég píndi krakkana mína til að lesa Laxness“

Ragna Gestsdóttir
Laugardaginn 6. september 2025 13:30

Steingerður Steinarsdóttir. Mynd: Ragnhildur Aðalsteinsdóttir.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Steingerður Steinarsdóttir, ritstjóri Lifðu núna, og rit- og kynningarstjóri Samhjálpar, stígur á stokk sem fyrsti lesandi DV í vetur. Steingerður er mikill bókaelskandi og lestrarhestur, og hefur í mörg ár skrifað um bækur, rithöfunda og sögupersónur í störfum sínum sem blaðamaður og ritstjóri. 

Steingerður er með BA-próf í ensku og fjölmiðlafræði, diplóma i hagnýtri fjölmiðlun og diplóma í kennsluréttindum, auk þess að vera lærður leiðsögumaður.  Steingerður á að baki áratuga starfsferil á fjölmiðlum, sem hófst á Þjóðviljanum. Fljótlega fór hún að vinna á tímaritum og var lengst af á Vikunni, fyrst sem blaðamaður og svo ritstjóri frá 2012 til 2022.

Steingerður er gift Guðmundi Bárðarsyni skipstjóra, þau eiga tvö börn, tengdabörn og tvö barnabörn.

Hvaða bók/bækur ertu að lesa núna?

„Ég er að lesa í annað sinn, Atvik – á ferð um ævina, eftir Njörð P. Njarðvík. Þetta eru stuttar frásagnir af ýmsum atvikum úr lífi höfundar, eins og titillinn ber raunar með sér. Þetta er svo einstaklega vel skrifað, af svo miklum skilningi og mannlegri hlýju að mér finnst svo notalegt að taka þessa bók fram af og til og rifja upp sögurnar.  Á náttborðinu mínu er líka alltaf ljóðabækurnar Eina hverfula stund eftir Njörð, Blóðhófnir og Urta eftir Gerði Kristnýju og Hauströkkrið yfir mér eftir Snorra Hjartarson. Þessar bækur eiga sérstakan sess í huga mér og ég þarf að lesa þær mér til sáluhjálpar af og til.“

Hvaða bók/bækur laukstu við síðast og hvernig fannst þér hún/þær?

„Tímaráðuneytið eftir Kaliane Bradley var sú bók sem ég lauk við síðast og hún er mjög athyglisverð. Það er svolítið erfitt að setja fingur á hvers konar bók þetta er, blanda af vísindaskáldsögu, sakamálasögu eða njósnasögu og ástarsögu. En það þarf svo sem ekkert að skilgreina hana því hún er spennandi og fyndin en skilur mann eftir með áhugaverð íhugunarefni.“

Hefurðu nýlega gefist upp á að lesa einhverja bók eða hefurðu lesið einhverja bók nýlega sem stóðst ekki væntingar?

„Já, ég las tvo reyfara á ensku í sumarfríinu og báðir voru leiðinlegir. Annar heitir, Famous Last Words, langdregin saga og endirinn fremur langsóttur. Hinn heitir The Night We Lost Him, sérlega fyrirsjáanleg sakamálasaga og ég hef þá trú að enginn lesandi lesi hana til enda án þess að vita nákvæmlega hver lausnin er.“

Hvar finnst þér best að lesa og er einhver tími dags betri en annar?

„Nei, ef ég hef tíma les ég hvenær sem er dagsins en ég verð hins vegar að gefa mér tíma til að lesa á hverju kvöldi áður en ég slekk ljósið og fer að sofa. Það róar mig og hjálpar mér að slaka á að hverfa um stund inn í heim bókarinnar sem ég er að lesa hverju sinni.“

Manstu eftir hvaða bók var lesin fyrst fyrir þig sem barn og/eða sem þú last sjálf sem barn?

„Mamma las mjög mikið fyrir okkur þegar ég var barn og ég man vel þegar hún las fyrir okkur Bláskjá því ég grét og grét yfir örlögum litla munaðarleysingjans og mamma varð að lesa bókina til enda því annars var ég óhuggandi. Ég las gríðarlega mikið þegar ég var barn og á dásamlegar minningar um mjög margar þeirra bóka. Nefni Hildu á Hóli, Fimm-bækurnar, Ævintýra-bækurnar, Dularfullu-bækurnar, Kári litli og Lappi, Dóru-bækurnar eftir Ragnheiði Jónsdóttur og svo ótal margar fleiri.“

Er einhver bók/bækur sem þú getur ekki beðið eftir að lesa?

„Ég er búin að forpanta nýju bókina um The Thursday Murder Club eftir Richard Osman og er mjög spennt fyrir að fá hana. Horfði reyndar á kvikmyndina á Netflix um daginn og varð mjög svekkt yfir því að höfundar myndarinnar viku í veigamiklu atriði frá söguþræði bókarinnar og mér finnst það skemma algjörlega söguþráðinn og ég skil ekki í raun hvernig þeir ætla að halda áfram að kvikmynda bækurnar eftir að hafa farið svona illa að ráði sínu.“

Áttu þér uppáhaldsbók/bækur sem þú jafnvel lest aftur og aftur?

„Ég á fjölmargar uppáhaldsbækur og bækur sem ég gríp alltaf í af og til. Það má nefna Íslandsklukkuna, Sjálfstætt fólk og Heimsljós eftir Laxness, Njálu, Skálholt Guðmundar Kamban, Ból Steinunnar Sigurðardóttur, Völskuna eftir Nönnu Rögnvaldardóttur og bækurnar hennar Bennýjar Sifjar Ísleifsdóttur um Hansdætur. Nú og svo allar ljóðabækurnar, maður minn fyrir utan þær sem ég hef þegar nefnt er Blástjarna efans eftir Valdimar Tómasson, Í myrkrinu fór ég til Maríu eftir Sonju B. Jónsdóttur og fjölmargar aðrar sem ég gríp alltaf af og til úr hillunni.“

Áttu þér uppáhalds höfund/a?

„Í gegnum tíðina hef ég átt mér marga uppáhaldshöfunda og þá les ég gjarnan allt sem ég kemst yfir eftir þá. John Steinbeck er einn slíkur, Charles Dickens, Mark Twain, John Irving, Margaret Atwood, Halldór Laxness, Þórdís Gísladóttir, Benný Sif Ísleifsdóttir, Gerður Kristný og svo margir fleiri að það er eiginlega ekki hægt að telja þá alla upp.“

Hvaða bók/bækur hafa haft mest áhrif á þig og hvers vegna?

„Mjög margar bækur hafa hreinlega breytt hugsanagangi mínum, skilið mig eftir svo hugsandi og hrærða að ég hef þurft marga daga til að vinna úr áhrifunum en ef ég á nefna nýlegar bækur sem hafa hreyft svo rækilega við mér eru það Blóðhófnir, Drápa og Urta eftir Gerði Kristnýju.“

Hvaða bók/bækur ættu allir að lesa (bók/bækur sem þú mælir alltaf með)?

„Það er eiginlega sama sagan hér og með höfundana. Svo ótalmargar yndislegar og góðar bækur hafa verið skrifaðar að ég á erfitt með að gera upp á milli og mæla með einhverri einni. En ég get nefnt að ég píndi krakkana mína til að lesa Laxness og held að þeim ljóðabókum hvenær sem ég get. Það hefur oft borið árangur og sonur minn er aðdáandi Kurt Vonnegut og Murakamis en þeim kynntist hann báðum hjá mér. Dóttir mín er hins vegar mikil alæta á bókmenntir og hún er farin að benda mér á bækur sem mér hafði ekki dottið í hug að lesa.“

(Þess má geta að fyrstu þrjár bækur Richard Osman um Fimmtudagsmorðklúbbinn eru komnar út í íslenskri þýðingu hjá bókaútgáfunni Drápu: Fimmtudagsmorðklúbburinn, Maðurinn sem dó tvisvar og Skotið sem geigaði. Bækurnar eru orðnar fjórar og sú fimmta er væntanleg á ensku nú í september).

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Ragnhildur með neglu í umræðu vikunnar – „Gagnkynhneigða tussan þín, af hverju ertu hérna“

Ragnhildur með neglu í umræðu vikunnar – „Gagnkynhneigða tussan þín, af hverju ertu hérna“
Fókus
Fyrir 2 dögum

Steffý Þórólfs: Hafði áhyggjur að áreitið myndi hafa áhrif á ófæddan soninn

Steffý Þórólfs: Hafði áhyggjur að áreitið myndi hafa áhrif á ófæddan soninn