Ónefndur einstaklingur segir frá því á samfélagsmiðlinum Reddit að hann hafi keypt teppi í verslun á Vestfjörðum. Það væri líklega ekki í frásögur færandi nema af þeim ástæðum að viðkomandi segist hafa verið fullvissaður um að teppið væri úr íslenskri ull og framleitt á Íslandi. Vonbrigðin hafi hins vegar verið töluverð þegar í ljós hafi komið að ullin var ekki íslensk heldur finnsk.
Viðkomandi segist hafa greitt andvirði 175 evra (um 25.000 íslenskar krónur) fyrir teppið en hafi eitthvað fundist undarlegt við þetta og ákveðið að hafa samband við manneskjuna sem hannaði teppið. Hönnuðurinn, sem mun vera Íslendingur, hafi svarað fljótlega og tjáð sér að teppið væri hvorki úr íslenskri ull né framleitt hér á landi. Ullin væri finnsk og teppið væri einnig framleitt þar í landi þar sem enginn framleiðsla á vefnaðarvörum (e. weaving industry) færi fram á Íslandi.
Málshefjandi segist hafa haft samband við verslunina sem hafi boðið honum endurgreiðslu geti hann komið teppinu til skila. Viðkomandi segist hins vegar vera á báðum áttum um hvort hann eigi að skila teppinu það sé vandað og fallegt en það hafi hins vegar skipt hann máli að það væri úr íslenskri ull eins og honum hafi verið sagt. Uppruni teppisins skipti hann líka máli í ljósi þess hversu hátt verðið hafi verið. Málshefjandinn segist alveg meðvitaður um að finnsk ull sé mjög vönduð eins og íslensk ull. Hann virðist þó í ljósi hinna mísvisandi upplýsinga í upphafi ekki vera alveg fullkomlega öruggur um að ullin í teppinu sé raunverulega finnsk:
„Ef þetta er þá virkilega finnsk ull – húrra fyrir ógagnsæi í fataefnaframleiðslu.“
Í athugasemdum er málshefjanda meðal annars bent á að honum hafi greinilega þótt teppið fallegt fyrst hann keypti það. Svarar málshefjandi því að það sé góður punktur.
Í annari athugasemd er bent á að heimurinn sé orðinn hnattvæddur. Þetta sé ekki eina varan þar sem öll þau skref sem þurfi að taka til að búa hana til fari fram í mismunandi löndum. Teppið sé að hluta til íslenskt og að hluta til finnskt.
Í einni athugasemd er fullyrt að það sé vitleysa að enginn framleiðsla á vefnaðarvörum fari fram á Íslandi og bent í því samhengi á fyrirtækið Kidka á Hvammstanga sem framleiðir vörur úr íslenskri ull. Þeirri athugasemd er hins vegar svarað með því að minna á að fyrirtækið prjóni sínar vörur en vefi þær ekki þess vegna sé þessi fullyrðing ekki röng.
Fleiri hvetja í athugasemdum málshefjanda til að skila ekki teppinu ef honum finnist það flott og vandað. Fleiri virðast hafa svipaða sögu að segja og hann við kaup á ullarvörum sem eru ekki alfarið íslenskar:
„Íslenska teppið mitt var framleitt á Nýja-Sjálandi.“
„Ég á tvær „íslenskar“ ullarpeysur sem ég keypti á Íslandi en ég held að hvorug þeirra hafi verið framleidd þar en hönnunin er flott og þær eru hlýjar.“