fbpx
Föstudagur 04.október 2024
Fókus

Ferðahjónin Rún og Trausti fá stundum hnút í magann – „Við áttum okkur á því að þetta verkefni er risastórt“

Fókus
Laugardaginn 7. september 2024 15:00

Rún og Trausti. Myndir með greininni eru aðsendar.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Ferðahjónin Rún Kormáksdóttir og Trausti Hafsteinsson ríghalda í bjartsýnina á milli þess sem þau spyrja sig útí hvað þau séu eiginlega búin að koma sér út í. Ástæðan er sú að þau tóku nýverið stórt stökk og opnuðu sína eigin ferðaskrifstofu, Tíu þúsund fet, þar sem þau bjóða íslenskum ferðalöngum upp á ævintýraleg ferðalög víða um veröld.

 Rún og Trausti hafa starfað bak í bak sem fararstjórar á erlendri grundu í rúma tvo áratugi. Þau eru bæði kennarar að mennt og hafa komið víða við í hinum ýmsu störfum, m.a. gefið út borðspil, kennt í grunnskólum og unnið við blaðamennsku. Fararstjórn þeirra hjóna hófst árið 1999 hjá Samvinnuferðum-Landsýn og síðan þá hafa þau ekki náð að hrista af sér ferðabakteríuna. Á fyrstu árunum sá Rún um dætur þeirra tvær og kenndi á Íslandi á veturna.

„Við höfum aldrei sett það fyrir okkur að taka stelpurnar með á þetta flakk og teljum að þetta hafi bæði styrkt fjölskylduböndin og gert þær víðsýnni og sjálfstæðari,“ segir Rún og bætir við:

„Þær eru líka altalandi á spænsku, sem hefur komið sér vel fyrir þær báðar, önnur útskrifaðist sem leikkona úr spænskum listaháskóla í Barcelona og hin er að hefja annað árið sitt í fiðlunámi við tónlistarháskólann Oberlin og þar hefur hún kynnst ógrynni af nemendum frá bæði S-Ameríku og eins Spáni.“

Það þarf hugrekki til

Á árunum 2008 til 2020 bjó fjölskyldan litla á Tenerife, þar sem hjónin störfuðu sem fararstjórar en þau hafa einnig tekið að sér ýmsar sérferðir til landa eins og Tyrklands, Marokkó, Egyptalands, Gambíu, Ítalíu, Spánar, Grikklands, Tyrklands og Tékklands. Síðla árs í fyrra flugu báðar dæturnar úr hreiðrinu og á sama tíma ákváðu ferðahjónin að þá væri rétti tíminn til að láta gamlan draum rætast: Að stofna sína eigin ferðaskrifstofu.

„Við sjáum ekki eftir því, þar sem það hefur verið einstaklega gaman að koma eigin skrifstofu á fót og viðtökurnar hafa verið framar vonum í byrjun. Við vitum hins vegar að þetta er þolinmæðisverk og þurfum að halda vel í bjartsýnina. Það er okkar einlæga von að hin mikla reynsla okkar og hin persónulega þjónusta sem við veitum, skili sér til farþega okkar sem láti orðið berast um ferðaskrifstofuna Tíu þúsund fet,“ segir Trausti og útskýrir nánar hið hugrakka stökk hjónanna:

„Við höfum starfað sem fararstjórar í áratugi og ávallt haft mjög gaman af að skipuleggja skoðunarferðir á nýjar slóðir. Við höfum líka ferðast víða um heim meðal annars á framandi slóðir og höfum við oft velt því fyrir okkur, af hverju ekki að stofna okkar eigin ferðaskrifstofu og gera þetta sjálf og fara með okkar eigin farþega frá Íslandi á þessa skemmtilegu staði sem við höfum upplifað. Við höfum unnið með farþegum á öllum aldri og getum sinnt allra þörfum og sérsniðið ferðir fyrir t.d. íþróttahópa, starfsfólk grunnskóla, hreyfihópa, eldri borgara, kvenfélög, útskriftarhópa og fyrirtæki.“

Trausti og Rún hafa tekið að sér margar sérferðir til hinna ýmsu landa. Hér eru þau stödd við eitt af sjö undrum veraldar, pýramídana í Egyptalandi.

Allt á flug eftir faraldurinn

Eftir heimsfaraldurinn fór allt á flug hjá Rún og Trausta. En hvernig hefur það gengið að opna sína eigin ferðaskrifstofu?

„Það gekk vel en var gríðarlega mikil vinna, sem stendur enn yfir. Við byrjuðum á að teikna upp allt sem þurfti að gera og ákváðum við að gefa okkur góðan tíma í það verkefni, í frið og ró, á okkar uppáhalds stað, Borgarfirði eystri, þar sem við fengum algjört næði til að hella okkur út í hugflæði,“ segir Rún og Trausti tekur við:

„Eftir það byrjuðum við að búa til heimasíðuna okkar og var sú vinna mun meiri en við áttuðum okkur á í upphafi. En við vildum hafa heimasíðuna okkar ítarlega og þannig að áhugasamir gætu fengið allar upplýsingar um ferðirnar á einu bretti og við sjáum ekki eftir því, enda höfum við fengið mikið hrós fyrir vefsíðuna okkar 10000.is. Þegar heimasíðan var farin í loftið, héldum við að allt myndi seljast upp á einni nóttu, enda allt saman frábærar ferðir en sem betur fer hvíslaði lítill fugl í eyrað á okkur, að svona verkefni gætu tekið nokkur ár, áður en verkefnið tekur almennilega við sér, ef það yfir höfuð gerist hjá okkur. Við ákváðum því að stilla kröfum okkar í hóf og vera þolinmóð.“

Sjálf hafa hjónin ferðast mikið og eru iðulega spurð hvaða staðir það séu sem standi upp úr. Aðspurð nefna þau Brasilíu, Argentínu, Bólivíu, Perú, Kúbu, Alaska, San Francisco, Las Vegas, Utah, Arizona, Indland, Egyptaland og Tyrkland sem dæmi. Ferðahjónin elska bæði alla útiveru og finnst einstaklega gaman að fara á skíði og stunda fjallgöngur. Rún svarar þeirri spurningu til að fætur í Perú, húsbíll í Alaska, vespur á Ítalíu, hjól á saltsléttum Bólivíu, kanó í Brasilíu og kajak í Púertó Ríkó séu skemmtilegustu ferðamátarnir og Trausti er þar sammála og bætir við: „Ég elska að ferðast um á vespum og mótorhjólum þegar ég er í útlöndum. Þá hafði ég mjög gaman af húsbílaferðalaginu í Alaska, mjög skemmtilegur ferðamáti. Annars hef ég oftast mjög gaman af því að ferðast um í útlöndum á tveimur jafnfljótum um óbyggðir og fagra náttúru.“

Stundum hrædd og kvíðin

Ferðalögum geta hins vegar líka fylgt erfiðleikar og áskoranir. Undir það tekur Rún heilshugar. ,,Já, í borginni Salvador í Brasilíu var ég hrædd, þar sem strætóbílstjóri bjargaði hugsanlega lífi okkar, en við vorum stödd á hættulegum slóðum án þess að átta okkur á því. Strætisvagnabílstjóri stöðvaði með öðrum orðum vagninn við gangstétt þar sem við vorum á rölti um fáfarna götu og skipaði okkur að fara upp í vagninn og hleypti okkur ekki út fyrr en hann taldi svæðið óhætt ferðamönnum,” segir Rún og bætir við:

„Mér fannst erfiðast að horfa upp á fátækt í löndum eins og Brasilíu, Dóminíska lýðveldinu, Indlandi og Egyptalandi. Eins tók heimsókn í Alcatraz fangelsið í San Francisco og fangabúðirnar í Auschwitz og Birkenau verulega á. Ég þarf líka alltaf að hafa mig alla við þegar ég fer í hellaheimsóknir. Einu sinni fylgdu fætur ekki huga og þá lét ég nægja að horfa á eftir fjölskyldunni fara niður um 8 hæðir ofan í þorp grafið niður í jörðu í Tyrklandi.“

Það sem kemur fyrst upp í huga Trausta er þegar hann fór til austurstrandar Grænlands og upplifði vonleysið í samfélaginu. Hvergi sá hann neista í augum barnanna og vandamálin blöstu við í þorpunum. Þá brá honum að ferðast um í mannhafi Indlands og ekki síður að koma úr þeirri ferð og fara þá með stelpurnar þeirra beint í hina furðulegu veröld Euro Disney í Frakklandi. „Ég man líka eftir því að hafa orðið hræddur þegar við vorum með stelpurnar okkar í Cappadocia í Tyrklandi og fórum þar í gönguferð eftir fallegu gili. Allt í einu sjáum við úlf koma hlaupandi niður hlíðina í áttina að okkur og ég held að fjölskyldan hafi aldrei hlaupið eins hratt, hvorki fyrr né síðar, en á flóttanum undan dýrinu. Talandi um dýr, þá var ég líka skelkaður þegar ég strauk risastórum krókódílum í Gambíu,“ segir Trausti og heldur áfram:

„Ég finn sjaldan til kvíða á ferðalögum en viðurkenni þó að hafa alls ekki staðið á sama þegar við hjónin fórum í kanó-siglingu að kvöldlagi í miðjum Amazon-skógi til þess að ná í caiman (litla krókódíla) til að fá fræðslu um þessi mögnuðu dýr, þá var ég pínu kvíðinn yfir því að þurfa að japla á öllum kókalaufunum sem honum var boðið upp á í gönguferð okkar til Machu Picchu.“

Kjúklingaréttur mallar yfir opnum eldi í Amazon-skógunum í Brasilíu. Ævintýralegt ferðalag, sem mun aldrei gleymast!

Nóg um að vera

Rún upplifir stundum kvíða á ferðalögum, en sem betur fer ekki oft, hún rifjar t.d. upp þegar fjölskyldan ákvað að fara með Cessna-vél á bjarnarslóðir í Alaska. Þá flugu þau í mikilli ókyrrð sem endaði með því að flugstjórinn treysti sér ekki til að lenda vélinni.  „Við þurfum því að fara aftur einhvern tímann seinna og auðvitað er ég strax komin með kvíðahnút yfir því, þ.e. flugferðinni! Ég viðurkenni einnig að hafa verið með smá kvíðahnút í skógargöngu með fjölskyldunni í Alaska, þar sem við vorum með bjarnarsprey eitt að vopni og vorum ósköp fegin að mæta ekki birni í þeirri ferð.“

Hvað er svo framundan hjá ferðahjónunum? Rún segir margar spennandi ferðir framundan á næsta ári: Gönguferð á Tenerife, Afríkuævintýri í S-Afríku, Gambíu og Senegal, skíðaferðir í frönsku og ítölsku Ölpunum, sigling um Suðurskautslandið og Argentínu, Grænlandsferð, hinir stórkostlegu þjóðgarðar N-Ameríku og sannkallað ævintýri í Brasilíu. „Þá erum við með á teikniborðinu geggjaða ferð til Asíu sem á eftir að vekja mikla athygli en enn sem komið er ríkir leynd yfir þeirri ferð. Við höfum fengið mjög góð viðbrögð frá almenningi, mikla hvatningu og fólk hefur sýnt mörgum ferðum okkar mikinn áhuga. Heimssiglingin, Grænland og Brasilía hafa samt líklega fengið mestu athyglina. Við erum að nálgast það að ná góðum hópi, sem ætlar með í heimssiglinguna í byrjun árs 2026, enda um geggjaða ferð að ræða, þar sem við heimsækjum tæplega fimmtíu áfangastaði í sex heimsálfum,“ segir Rún brosandi.

Neglur nagaðar

Aðspurður svarar Trausti því til að kvíðinn geti alveg komið aftan að honum með tilheyrandi andvökunóttum með hugsunum um allt sem þarf að muna. Hann segir það vissulega heilmikla fjárhagslega áhættu að stofna sína eigin ferðaskrifstofu í miklu samkeppnisumhverfi og því séu neglurnar stundum nagaðar.

„Við áttum okkur á að þetta verkefni er risastórt, enda hafa ferðavenjur fólks breyst mikið. Margir vilja sjá um þetta sjálfir og þeir sem vilja njóta þjónustu, eru stundum lengi að ákveða sig og vilja ekki bóka langt fram í tímann. Þetta getur verið erfitt fyrir lítil og ný fyrirtæki eins og okkar,“ segir Trausti.

Rún lofar farþegum því að hjá Tíu þúsund fetum fái þeir persónulega þjónustu og fræðslu þaulreyndra fararstjóra á velvöldum og fallegum slóðum víða um heim. „Við viljum líka opna þann möguleika á að fara í ferðir til allra heimsálfa, þar sem fólk þarf helst ekki að taka upp veskið. Vera með ferðir þar sem séð er um farþega frá A-Ö. Stundum áttar fólk sig ekki á, þegar það sér auglýstar ferðir, að það eigi jafnvel eftir að borga hundruð þúsunda ofan á verð ferðarinnar. Kostnað sem felst m.a. í skoðunarferðum, aðgöngumiðum í þjóðgarða, rútuferðum, mat og drykk,“ bendir Rún á.

„Þetta er eitt af því sem farþegar okkar þurfa ekki að upplifa hjá okkur. Við leggjum líka mikið upp úr því að styrkja heimamenn í hverju landi fyrir sig, þannig að þeir njóti ágóðans af heimsókn okkar. Þá viljum við leggja okkar að mörkum við að jafna út kolefnissporið sem við skiljum eftir en með hverjum farþega sem bókar ferð hjá okkur, rennur hluti af verði ferðarinnar til Skógræktarinnar, sem sjá um að planta trjám fyrir okkur. Núna bíðum við spennt eftir því að fólk fari inn á 10000.is til að panta sér ævintýri hjá okkur!“

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Í gær

Viktor og Geiri lentu í hremmingum í Taílandi – „Þau vildu fá 120 þúsund krónur fyrir þetta“

Viktor og Geiri lentu í hremmingum í Taílandi – „Þau vildu fá 120 þúsund krónur fyrir þetta“
Fókus
Í gær

Móeiður tók ákvörðun um að eignast ekki börn – „Ég hef ekki fengið þessa tilfinningu en það er rosa pressa frá samfélaginu“

Móeiður tók ákvörðun um að eignast ekki börn – „Ég hef ekki fengið þessa tilfinningu en það er rosa pressa frá samfélaginu“
Fókus
Í gær

Hætt með unga kærastanum – Gott kynlíf ekki nóg til að láta samband ganga

Hætt með unga kærastanum – Gott kynlíf ekki nóg til að láta samband ganga
Fókus
Í gær

„Þetta er mjög hættulegt og fyrir ungar stelpur er þetta enn hættulegra“

„Þetta er mjög hættulegt og fyrir ungar stelpur er þetta enn hættulegra“
Fókus
Fyrir 2 dögum

,,Þessi atburður var ísköld tuska beint framan í andlitið á okkur”

,,Þessi atburður var ísköld tuska beint framan í andlitið á okkur”
Fókus
Fyrir 2 dögum

Sigmar og Sandra fóru nakin í heita pottinn með vinum og það varð ekki aftur snúið

Sigmar og Sandra fóru nakin í heita pottinn með vinum og það varð ekki aftur snúið
Fókus
Fyrir 3 dögum

Klaufaskapur Ólafs á íslenskri bryggju vekur athygli hjá milljónum manna

Klaufaskapur Ólafs á íslenskri bryggju vekur athygli hjá milljónum manna
Fókus
Fyrir 3 dögum

Aðdáendur Christinu Aguilera áhyggjufullir eftir að þessar myndir birtust

Aðdáendur Christinu Aguilera áhyggjufullir eftir að þessar myndir birtust