fbpx
Laugardagur 02.mars 2024
Fókus

Sonur Evu Daggar afplánar dóm – „Það að eiga barn í neyslu er sorgarferli“

Ragna Gestsdóttir
Föstudaginn 9. febrúar 2024 11:30

Eva Dögg Sigurgeirsdóttir Mynd: Valli

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Ég er sorgmædd að þetta hafi farið svona. Af hverju er þetta svona? Af hverju fékk hann ekki stuðninginn sem hann þurfti? Ég er sannfærð um að hann nái sér og geti komist á réttan kjöl og nýti sér þetta til góðs en það er erfitt að horfa upp á barnið sitt í neyslu. Fíknisjúkdómurinn er flókinn geðsjúkdómur og það getur enginn sett sig í spor aðstandenda nema hafa verið þar. Ég vona innilega að hann komi til baka,“ segir Eva Dögg Sigurgeirsdóttir, viðskipta- og markaðsfræðingur um son sinn sem afplánar dóm á Litla Hrauni. 

Syninum hafnað af kerfinu

Í viðtali í blaði Smartlands sem kom út í dag segist Eva Dögg hafa upplifað mikið úrræðaleysi þegar sonur hennar var í gagnfræðaskóla og finnst henni að syni hennar hafi verið hafnað af kerfinu. Segir hún son sinn og vini hans aldrei hafa átt séns og telur að þeir væru allir á lífi og á öðrum stað ef það hefði verið stutt við þá. 

„Sonur minn og vinir hans voru fyrir í kerfinu. Þeim var ýtt út í horn. Þeir komu allir frá góðum heimilum og með sterkt bakland. Af þessum fjórum vinum hafa tveir látist af völdum ofneyslu og einn fyrirfór sér. Sonur minn er sá eini sem er enn á lífi.“

Sálfræðingur sagði soninn enda í fangelsi

Rifjar Eva meðal annars upp fund sem hún átti með þáverandi skólastjóra Norðlingaskóla og sálfræðingi sem þá var yfir sálfræðiþjónustu Árbæjar. „Hann sagði við mig að svona strákar eins og sonur minn færu oftast út í neyslu og enduðu svo í fangelsi. Svo endar hann þannig.“

Sonur Evu Daggar á að baki langa neyslusögu en hefur náð góðum bata inni á milli. Hann  var orðinn 18 ára þegar hún áttaði sig á að hann var farinn að nota fíkniefni og samkvæmt ráði Foreldrahúss rak hún hann að heiman. „Ég gat ekki haft hann á heimilinu þegar hann var í neyslu. Hann átti húsaskjól hjá pabba sínum og ömmu sinni. Ég á fleiri börn og gat ekki látið neysluna stjórna heimilinu. Hann vissi að honum var velkomið að búa heima þegar hann var edrú en ekki þegar hann var í neyslu. Margir dæma það en ég stend með þeirri ákvörðun. Það skemmir fyrir öllu fjölskyldulífinu og lífi yngri systkina að hafa fólk í neyslu á heimilinu. Þetta fór með taugakerfið hjá mér og öllum hinum líka. Ég veit að þetta er sjúkdómur en þú getur ekki verið að hjúkra sjúklingi sem er á þessum stað. Þarna þarf kerfið að grípa inn í, sem það gerði alls ekki, og skólakerfið klikkaði algjörlega á þessum tíma. Ég verð svo miður mín að hugsa um þetta,“ segir Eva Dögg.

„Í mörg ár var það innbyggt í mig að kíkja á símann um leið og ég vaknaði til að athuga hvort lögreglan væri búin að hringja í mig og segja mér að hann væri dáinn úr ofneyslu. Það að eiga barn í neyslu er sorgarferli. En svo birtir til inni á milli. Hann náði sér á strik um tíma og var edrú í fimm ár. Það reyndi líka á, því þá þurfti ég að kynnast honum upp á nýtt. Þegar hann var í neyslunni lokaði ég á tilfinningar til hans. Þegar hann var svo orðinn edrú vissi ég ekki hvernig ég ætti að vera því ég var búin að aftengja mig. Þá var mér ráðlagt að finna gamlar myndir af honum síðan hann var lítill til að athuga hvort ég fyndi ekki gamlar tilfinningar. Með því að skoða gamlar myndir fann ég þennan streng. Hann slitnar ekki neitt, enda sonur minn, flottur strákur og með mikla hæfileika. Ég er óendanlega þakklát að hann sé á lífi,“ segir Eva Dögg.

Sonurinn féll þegar afi hans lést

Að sögn Evu Daggar féll sonur hennar þegar afi hans lést í júlí 2020.

„Þegar pabbi dó hvarf sonur minn aftur inn í heim fíknarinnar. Þeir voru svo miklir vinir og pabbi var svo mikill stuðningsmaður hans í edrúmennskunni. Hann flutti inn á pabba þegar hann var edrú. Það var því mikið áfall fyrir hann þegar pabbi var ekki til staðar fyrir hann lengur,“ segir Eva Dögg.

„Fíkn er sjúkdómur sem hefur áhrif á alla sem elska og eru í kringum viðkomandi. Þessi efni sem eru í gangi í dag eru ekki sambærileg því sem var í gangi fyrir 10 árum. Við erum að missa allt of marga sem þjást af þessum sjúkdómi,“ segir Eva Dögg sem segist hafa ákveðið að láta neyslu sonarins ekki yfirtaka eigið líf, en ávallt vera til staðar þegar hann er í bata. 

Viðtalið má lesa í heild sinni í blaði Smartlands.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Í gær

Hafdís og Kleini um pásuna: Stofna fyrirtæki og gera samninga erlendis – „Við erum búin að læra að virða sambandið okkar“

Hafdís og Kleini um pásuna: Stofna fyrirtæki og gera samninga erlendis – „Við erum búin að læra að virða sambandið okkar“
Fókus
Í gær

Manst þú eftir kyntröllinu úr Desperate Housewives? – Svona lítur hann út í dag

Manst þú eftir kyntröllinu úr Desperate Housewives? – Svona lítur hann út í dag