fbpx
Sunnudagur 19.maí 2024
Fókus

Fékk opinberun á hallærislegum grámygluðum sunnudegi á tröppunum við Háskóla Íslands og lífið öðlaðist lit

Fókus
Miðvikudaginn 31. janúar 2024 19:44

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Hann venti kvæði sínu í kross eftir að hafa verið í framlínu tölvuleikjaframleiðenda hér á landi árum saman eftir að honum tókst að sleppa taki af biturð og metingi til að finna ró í hjartanu. Í dag sinnir hann verkefnum sem næra sálina og hjálpar öðrum með hið sama. Þorgeir Frímann Óðinsson hefur borið marga hatta í gegnum tíðina. Listamaður, leikmyndahönnuður, framkvæmdastjóri og formaður samtaka tölvuleikjaframleiðenda svo eitthvað sé nefnt. Þorgeir er nýjasti viðmælandi Mumma í Kalda Pottinum.

Þorgeir á stórt og á tíðum erfitt lífshlaup að baki en hann hefur í dag náð þeim merka áfanga að hafa náð sátt við guð og menn, lífið og þá fyrst og fremst sjálfan sig. Þorgeir segir Mumma frá því hvernig barnið sem leið illa varð að manni sem leið illa, hvernig vanlíðanin tók yfir og hvernig opinberun á grámyglulegum sunnudegi varð að getunni til að sjá glasið barmafullt og ótakmarkaðar leiðir til að finna fyrir þakklæti.

Langþreyttur á lífinu

Þorgeir rekur hvernig hann hafi farið í gegnum lífið fullur af biturð, öfund og reiði sem hann kenndi öllum öðrum um en sjálfum sér. Lífið öðlaðist þó nýjan lit eftir að hann ákvað að segja skilið við vímugjafa.

„Ég fer í edrúmennskuna því ég var orðinn langþreyttur á lífinu fyrir einhverjum áratug síðan að verða. Ég var búinn að sigla svolítið lengi á, ég veit ekki hvað ég á að kalla það, miklum vonbrigðum og sársauka. Ég var búinn að vera mikið fórnarlamb og mikið í kringum fórnarlömb og svolítið mikið móðgaður og sár fyrir hönd fólk sem ég þekkti ekki og samfélagsins í heild og var rosalega mikið að horfa í allt sem gæti verið betra, og að hlutirnir væru ekki fullkomnir.

Það fór svolítið í taugarnar á mér að ég væri ekki fullkominn og þú barst ábyrgð á þessu, þáverandi kona mín og foreldrar mínir, sjálfstæðismenn og femínistar og örugglega bara 96 prósent samfélagsins. Ég skrifaði lista sko.“

Lengi hugnaðist Þorgeiri lítið 12 spora kerfið með sinn æðri mátt, enda ljóst að þessi meinti æðri máttur væri meingallaður, væri hann til. Lífið var ófullkomið, enda mat hann það út frá gildum sem hann hafði dregið úr vestrænum bókmenntum sem gjarnan eiga lítið skylt við raunveruleikann. Síðar varð honum ljóst að lífið eitt er kraftaverk sem fyrir honum var næg sönnun. Heimurinn varð til í stóra hvelli og lífið í kjölfarið eftir langa röð af tilviljunum sem enduðu með því að jörðin var nægilega langt frá sólinni til að hér gæti þrifist líf, að hér væri þyngdarkraftur, vatn og svona mætti áfram telja endalaust.

Miklu betra en að vera nakinn úti í kuldanum

Þessi atburðarás varð til þess að í dag getum við hringt og fengið flatböku senda heim að dyrum, við getum sturtað niður klósettum og haldið heimilum okkar heitum með pípulögnum. Svo mikið þurfti að gerast sem er ekki sjálfgefið, svo þetta yrði að veruleika.

„Svo allt í einu rann það upp fyrir mér að rótin að þessu öllu saman var að ég var bara ekkert þakklátur fyrir það að fá að vera til“

Þorgeir segist hafa fundið fyrir ákveðinni lotningu þegar hann hugsar um hvað þetta sé í raun stórkostlegt. Hann hafi kveikt á kalda vatninu og dáðst að þeirri staðreynd að pípulagnir eru hluti af veruleika okkar. Að hann geti með einu símtali fengið til sín mat. Það sé ótrúlegt að tilheyra mannkyni sem eigi alla þessa stórbrotnu sögu að baki, búið til samfélög og náð jafn langt og raun er.

„Nú þegar 4g klikkar í nokkrar mínútur í símanum þá skiptir það engu máli. Þetta er bara svo miklu, miklu betra en að vera nakinn úti í kuldanum að skeina sér með laufi.“

Kunni ekki á lífið lengur

Eftir erfiða æsku fann Þorgeir sig fullorðinn, yfirkominn af sársauka fortíðarinnar og innilokaður í „fílabeinsturni af sjálfsvorkunn“. Með því að vera stöðugt að bera sig saman við aðra var auðvelt að festast í því að finnast maður aldrei hafa nóg, og aldrei geta verið sáttur. Hann leitaði því í áfengi til að deyfa sig, en jafnvel það hætti að virka með tíð og tíma.

Eftir sat þó að Þorgeir kunni ekki lengur á lífið án þess fá sér í glas. Að stofna til vinasambanda og ástarsambanda allsgáður var honum framandi.

„Þetta var orðið bara svo óbærilega leiðinlegt. […] og mér farið að finnast leiðinlegt að vera á Kaffibarnum.“

En hann kunni þó ekki annað svo þegar hann varð einmana þá lá leiðinn á barinn til að finna sér vinkonu. Hins vegar var hann að fiska á miðum sem hann hafði engan áhuga á lengur og því samböndin dæmd til að ganga ekki upp, sem var engum að kenna en honum sjálfum. Hann hafi þurft ást og viðurkenningu frá öðrum til að fá lánaða sjálfsvirðingu en þetta bauð upp á meðvirkni og óheilbrigt samband.

Opinberun í grámyglunni

Fyrir um áratug síðan fékk hann svo nóg og ákvað að leita eftir aðstoð. Nokkru seinna fékk hann opinberun á tröppunum fyrir framan aðalbyggingu Háskóla Íslands.

„Þetta var súrrealískt móment, ég stóð fyrir utan Háskóla Íslands, á tröppunum fyrir framan fallegu stóru steinbygginguna, á svona grámyglulegum haustdegi. Þetta er sunnudagur og ég er að átta mig á því að ég er að fara að skilja og er eiginlega heimilislaus, atvinnulaus og veit ekki hvað snýr upp eða niður og er með ekkert plan – á núllpunkti. Ég horfi þarna yfir túnið og það er svona runni sem er búinn að fella lauf – einhver hrísla og gæsir sem eru að skíta á túnin.“

Þetta hafi verið fullkomlega hallærislegur og ömurlegur íslenskur haustdagur, bæði rakur og grár. Þá áttaði hann sig á því að hvorki gæsirnar né runninn kærðu sig kollótt um það hvort hann myndi ljúka námi, eða hvað hann myndi gera. Þarna birtist honum æðri mátturinn. Það væri undir honum sjálfum komið hvernig hann upplifir lífið og hann gæti gert það bitur og neikvæður eða jákvæður og þakklátur fyrir lífið.

„Nokkrum vikum seinna voru vinur mínir farnir að kvarta undan því að ég væri óþolandi jákvæður. Það væri ekki hægt að tala við mig því ég var alltaf – já en spáðu bara í því hvað það er næs að það sé súrefni.“

Eðluheilinn getur leikið mann grátt

Þorgeir segir að í gegnum hugleiðslu hafi hann lært að vinna með erfiðar tilfinningar. Hann viti t.d. í dag að þrátt fyrir erfiða æsku þá vildi fjölskyldan honum aðeins það besta, þau hafi fengið gefin sín spil og spilað úr þeim sem best þau gátu. Hann finnur bara kærleika til sinna nánustu í dag.

Það sé svo að mannfólk sé með svokallaðan eðluheila sem geti stundum leikið okkur grátt, sent okkur skilaboð um ógn þegar það er engin til staðar og kaffært kerfið okkar af streituhormónum og viðbrögðum sem miða að því að flýja eða berjast við skynjaða hættu. Framheilinn sé í því að leysa þrautir og fer í að reyna að finna ástæðu fyrir þessu viðbragði og getur þar með skrifað söguna fyrir okkur og gert hversdagslegar hugleiðingar að metinni ógn. Hugleiðsla geti hjálpað okkur að endurskrifa þetta prógram.

Þorgeir hefur ekki litið til baka eftir að hann setti tappann í flöskuna og er nú, eins og vinirnir kvörtuðu undan, óþolandi jákvæður. Hann segir þakklætið skipta miklu sem og að hætta að bera sig saman við aðra og hvað þá miða hamingjuna út frá einhverri skáldaðri fantasíu um hvernig lífið gæti verið. Lífið sé fullt af undrum og kraftaverkum og þegar maður horfir á þau, fremur en það sem lífið er ekki, þá skyndilega er glasið orðið hálffullt, en ekki hálftómt.

Hlusta má á viðtalið við Þorgeir og fyrri þætti á tyr.is eða á Spotify.

Kaldi Potturinn er spjallþáttur þar sem Mummi fær til sín á sviðið heima alls konar fólk úr öllum kimum samfélagsins, með fjölbreytta lífsreynslu, djúpa sýn á tilveruna og sterkar skoðanir á lífinu. Fólk sem fer sínar eigin leiðir. Mummi hefur sjálfur sterkar skoðanir og er óhræddur við að tjá sig um hvað sem er, svo allt fær að flakka á sviðinu. Kaldi Potturinn hefur ekkert að fela.

Dagskrárgerð Kalda pottsins er í höndum Mumma og stjórn upptöku er í höndum Gunnars Bjarna en upptökur fara fram á heimili Mumma og eiginkonu hans, Þórunnar Wolfram, á Gömlu Borg í Grímsnesi.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 3 dögum

Fertugsafmælisferð Guðbjargar breyttist í martröð: Kom að kærastanum með annarri konu sem réðst á hana – „Síðan henti hann mér í rúmið og misnotaði mig kynferðislega“

Fertugsafmælisferð Guðbjargar breyttist í martröð: Kom að kærastanum með annarri konu sem réðst á hana – „Síðan henti hann mér í rúmið og misnotaði mig kynferðislega“
Fókus
Fyrir 3 dögum

Vilhjálmur standi í vegi fyrir sáttum og beri nú sjálfur sök á stöðunni

Vilhjálmur standi í vegi fyrir sáttum og beri nú sjálfur sök á stöðunni
Fókus
Fyrir 4 dögum

Fær annað tækifæri til að finna ástina

Fær annað tækifæri til að finna ástina
Fókus
Fyrir 4 dögum

Haukur Morthens 100 ára – Heiðurstónleikar í Hörpu sunnudaginn 26. maí

Haukur Morthens 100 ára – Heiðurstónleikar í Hörpu sunnudaginn 26. maí