fbpx
Þriðjudagur 03.október 2023
Fókus

Heimilislausa hetjan – Villi á Bensanum fastur í vítahring tæpu ári eftir björgunarafrek sitt

Ágúst Borgþór Sverrisson
Laugardaginn 16. september 2023 09:00

Mynd: DV/KSJ

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Vilhjálmur Sigurðsson, eða Villi á Bensanum, eins og hann er gjarnan kallaður, komst í sviðsljósið í nóvember í fyrra er fjölmiðlar fluttu fregnir af óvæntu og óvenjulegu björgunarafreki hans við Grensásveg. Villi stóð fyrir utan uppáhaldsstaðinn sinn, Benzin Cafe, við Grensásveg, er hann tók eftir því að það var kviknað í strætisvagni við götuna. Villi var með bjórdós í hendi en lagði hana frá sér, rauk inn á staðinn BK Kjúklingur í næsta nágrenni, fékk þar slökkvitæki, rauk með það í strætisvagninn, slökkti eldinn og leiddi farþega út úr vagninum.

Þetta gerði Villi á aðeins þremur mínútum og var sjálfur ekki búinn að jafna sig á nýlegu fótbroti er atvikið átti sér stað. Er hann rifjar upp atvikið með blaðamanni DV tíu mánuðum síðar segir hann: „Í sjálfu sér var þetta ekki hetjuskapur heldur bara eitthvert auto-act sem varð að framkvæma.“ Hann segist hafa hugsað hvern leik fyrirfram mjög hratt.

Í kjölfarið fylgdi mikil fjölmiðlaathygli, Vilhjálmur mætti í viðtal á Stöð 2 þar sem hann fór yfir atburðinn og gert var góðlátlegt grín að öllu saman í Vikunni með Gísla Marteini. Villi lenti síðan í öðru sæti í kosningu hlustenda Bylgjunnar á manni ársins. Um tíma átti hann dálítið erfitt með sig vegna allrar athyglinnar:

„Ég var kominn með hjartsláttinn í 180 og þurfti að spjalla við sjálfan mig. Núna róar þú þig niður, Villi, þetta líður hjá, sagði ég. Út á við sagði ég hins vegar í gríni: Þetta er allt í lagi, ég er hvort eð er athyglissjúkur,“ segir Villi og skellihlær.

DV hafði spurnir af erfiðri lífsbaráttu Villa en hann var nýlega í fréttum vegna annars atviks á Grensásveginum. Þar tók hann sig til og hélt ógnandi manni í skefjum sem hafði í hótunum við starfsfólk sólbaðsstofunnar Smart, sem er við hliðina á Benzin Cafe.

Sjá einnig: Lögregla og sérsveit óðu inn á Benzin Cafe – Villi hélt ógnandi manni í skefjum

Það atvik bar með sér, rétt eins og bruninn í fyrrahaust, að Villi er óhræddur við að grípa inn í aðstæður. En hann býr við erfið lífsskilyrði, meðal annars heimilisleysi. Ævi hans er mörkuð áföllum sem hefur því miður fjölgað í seinni tíð. Villi féllst á að reifa ævihlaup sitt upp með blaðamanni á eftirlætisstaðnum, Benzin Cafe, einn sólbjartan dag núna í september.

Villi býr við aðstæður sem eru í raun engum bjóðandi, og alls ekki til langframa og sú staða þarf að breytast. Hann lýsir erfiðu hlutskipti þess sem þarf að eiga næturstað í gistiskýli og stundum jafnvel á verri stöðum. Áður við komum að því rifjum við örlítið upp æskuárin og einfaldlega biðjum Villa að segja lesendum frá því hver hann er.

Villi, Vilhjálmur Sigurðsson, er fæddur árið 1962. Hann ber aldurinn nokkuð vel, er grannur og snaggaralegur. Hann drekkur daglega, nokkra Bola í dós á Benzin Cafe, en ber þess ekki endilega merki. Það má þó segja að hann sé oftast rallhálfur, vel viðræðuhæfur en sjaldan alveg edrú. Stundum er hann ekki viss hvort hann eigi að líta á sig sem alkóhólista. „Ég skilgreini mig sem bjórdrykkjuáhugamann,“ segir Villi og hlær. Honum er tamt að setja saman smellna frasa. „Hann talar í fyrirsögnum,“ segir barþjónninn á Benzin Cafe , sem hlustar á tal okkar stutta stund. Villi segist yfirleitt aldrei drekka sterkt áfengi en viðurkennir að vissulega renni margir bjórar niður kverkar hans daglega. Hann sér samt ekki tilganginn í því að fara í áfengismeðferð því húsnæðisleysið hans er miklu erfiðara vandamál.

„Ég er bara í bjór og aldrei í sterkum vínum, en smám saman verður maður auðvitað alkóhólisti. Ég var það samt aldrei,“ bætir Villi við en út viðtalið slær hann svolítið í og úr með drykkjuvandamál sitt og ekki liggur alltaf ljóst fyrir hve mikið hann viðurkennir vandann.

„Ég sé ekki alveg tilganginn í því að ég færi í tíu daga meðferð á Vog og kæmi svo til baka í gistiskýlið,“ segir hann.

Mynd: DV/KSJ

Kársnesið og Suðursveit

„Ég er alinn upp í Vesturbænum í Kópavogi. Ég segi oft að þegar Kársnesskóli var rifinn þá hafi öll mín menntun farið fyrir bí,“ segir Villi og slær fram einum af sínum smellnu frösum.

„Ég bjó tveimur húsum ofar. Krakkar lágu ekki í tölvuspilum á þessum tíma heldur léku sér úti allan liðlangan daginn.“ Hann segir að æska sín í Kópavogi hafi verið góð „almennt séð“ en þó fær hann sorgarblik í augun við þau orð. Villi byrjaði snemma að vinna og dró ekkert af sér. Á sumrin var hann í sveit í Suðursveit og sinnti alls konar bústörfum, slætti, heybindingu og mörgu fleiru:

„Þá var maður mikið að vinna á sláttuvélum, taka saman hey og þess háttar. Ég naut sveitavinnunnar og þetta var lífsbjörgin að mörgu  leyti. Þetta var á bæ rétt hjá Hala, þaðan sem Þórbergur Þórðarson rithöfundur er og ég hitti meðal annars bróður hans, Steinþór. Þetta var mikið ævintýri.“

Villi fékkst einnig við sjómennsku á unga aldri og var á togurum en síðan söðlaði hann um og lærði húsasmíði. Hann starfaði sem smiður árum og áratugum saman og það er það starf sem hann hefur helst fengist við.

Hann hóf sambúð með konu, bjó með henni í níu ár og þau eignuðust tvö börn, strák og stelpu. Árið 1994 slitu þau sambúðinni og var það töluvert niðurbrot. „Ég var um þrítugt þegar við skiljum. Já, það var erfitt eins og sennilega fyrir flesta sem lenda í þeim bransa.“ Skömmu eftir sambúðarslitin eignaðist hann síðan dreng með annarri konu en hann hefur ekki haft nein afskipti af honum.

Í kringum áramótin 1994 til 1995 gerði Villi stóra tiltekt í lífi sínu: „Ég fór í áfengismeðferð fyrir jólin, á Vífilsstöðum. Hjá Óttari Guðmunds geðlækni – þó að ég teldi mig ekki vera alkóhólista. Þá hafði ég verið skilinn í hálft ár. Ég var síðan edrú í 14 ár og byrjaði ekki að drekka aftur fyrr en í kreppunni haustið 2008.“

„Það er staður þarna í æskunni sem ég vil helst ekki tala um“

Sem fyrr segir kemur sorgarblik í augu Villa þegar talinu er vikið að æskuárum hans og hann viðurkennir að hann hafi verið að burðast með atvik úr æskunni. „Það er staður þarna í æskunni sem ég vil helst ekki tala um,“ segir hann og gerir sér grein fyrir því að hann hljómar eins og véfrétt. „Ég tek fram að þetta var ekki neitt kynferðislegt. En það gerðist dálítið slæmt, ég vil bara helst ekki ljóstra því upp á meðan foreldrar mínir eru á lífi.“

Villi segist samt hafa unnið úr atvikinu með sjálfum sér. Haustið 2008 lenti hann í miklum hremmingum, þegar sambandið endaði með sambýliskonu númer tvö, þau skildu að skiptum, og hann stóð eftir eignalaus því hún var skráð fyrir íbúðinni sem þau bjuggu í.

„Ég hafði unnið mikið sem húsasmiður fyrir rífandi tekjum en því miður þá fór þetta allt í spilakassa. Þannig að ýmsar fíknir hafa nú fylgt mér.“

Villi segist hafa gert upp atvikið leyndarsdómsfulla úr æsku einn með sjálfum sér. „Það gerðist eitt atvik sem opnaði bernsku mína. Ég mætti sjálfum mér þarna rétt fyrir kreppuna 2008, um það leyti sem ég var að skilja við seinni konuna. Ég missti þarna níu kíló á níu dögum, kíló sem hafa aldrei komið aftur. Ég var grátandi dögum saman og ég bara leyfði mér að vera í þessu ástandi. Smám saman var þungu fargi af mér létt.“

Það skal alveg viðurkennast að sumt sem Villi segir kemur blaðamanni dálítið sérkennilega fyrir sjónir. Til dæmis þetta snögga þyngdartap í tengslum við sálrænt uppgjör í einrúmi. „Það furðulega var að ég missti lítinn styrk við þetta þyngdartap, varð bara kvikari og léttari á mér.“

Hvað sem því líður þá var haustið 2008 erfiður tími í lífi Villa og hann segist hafa misst fótanna.  „Það fraus hér allt í samfélaginu, ég missti vinnuna og það varð allt stopp.“  Undanfarin ár hefur síðan hvert áfallið rekið annað í lífi Villa.

Rúnturinn gistiskýlið – Benzin Cafe

Fáir hafa farið varhluta af erfiðu ástandi á húsnæðismarkaðnum og sumarið 2022 missti Villi leiguhergbergi sem hann bjó í. Síðan þá hefur hann verið húsnæðislaus og sefur flestar næstur í gistiskýlinu á Lindargötu, stundum í gistiskýlinu á Granda og einstaka sinnum á einhverjum enn verri svefnstöðum þegar dyrnar að gistiskýlunum eru lokaðar.

„Ég lifi á Féló og fæ 180 þúsund krónur á mánuði. Ég hef hvergi efni á herbergi á leigu. Ég myndi helst vilja geta leigt herbergi upp á sirka 14 fm með aðgangi að baðherbergi.“

Lágar tekjur og afar lítið framboð af leiguhúsnæði standa honum fyrir þrifum. „Ég hef verið að reyna að byrja að vinna aftur, við smíðar, en það kemur alltaf eitthvað upp á. Ég fótbrotnaði  fyrir þremur árum og síðan aftur fyrir einu og hálfi ári. Það hefur tekið langan tíma að jafna sig.“

Hann varð líka fyrir líkamsárás fyrir utan gistiskýlið á Lindargötu fyrir nokkrum mánuðum, sem hann hefur ekki jafnað sig á. „Ég beið þarna fyrir utan þegar Rússi kom að mér og ákvað að gefa mér „socket punch“. Ég var saumaður bæði fyrir ofan og neðan augnbrún. Sjónin hefur verið öll í skralli síðan. Ég veit ekki hvað manninum gekk til, hvort hann vildi sýna mér hvernig Pútín gerir þetta. Þetta mál er bara í kæruferli, það eru myndir og skýrslur og þessi maður verður dreginn fyrir dóm.“

Villi hefur fengið þær upplýsingar að það muni taka hann langan tíma að jafna sig fyllilega af árásinni. „Augun virka ekki saman, ég verð extra þreyttur í auganu sem varð fyrir áverkanum og sé allt pixlað. Samt er augað ekki skaðað. Þegar ég les á símann verð ég að loka öðru auganu. Samt var þetta bara eitt fokking högg. Tannlæknirinn sagði að það geti tekið tvö ár að jafna sig á svona taugaskaða.“

Áfallasögu undanfarinna mánaða er þó ekki lokið:

„Ég ætlaði að fara að vinna aftur í sumar en þá beit mig brjáluð tík í höndina, hérna fyrir utan á Grensásvegi. Það tók mig meira en mánuð að jafna mig eftir það.“

Hann ætlaði líka að byrja að vinna árið áður rétt fyrir fótbrotið en það slys gerði þau áform að engu.

Mynd: DV/KSJ

Harður heimur gistiskýlisins

„Þetta skýli er hannað til að taka af lífi alkóhólista sem eru komnir yfir sextugt,“ segir Villi og fleygir þar fram einum af sínum hnyttnu frösum, þessi er af naprara taginu. Hann segir að þrír félagar hans á þessum aldri, sem höfðu hvergi annars staðar höfði að halla um nætur, hafi látið lífið undanfarin ár.

„Eitt skrípóið þarna er þessi tilkynningaskylda: Ég þarf að koma þarna klukkan fimm og tilkynna mig. Mamma, ég er kominn heim! Svo er tékkað á því hvort maður hafi skilað sér inn fyrir klukkan ellefu og ef ekki getur maður misst rúmið. Það má ekki tilkynna sig símleiðis. Ég er orðinn svo leiður á þessu kjaftæði. Ef maður  nær ekki rúmi verður maður bara að hreiðra um sig á gólfinu í einhverju skúmaskoti. Ég fæ engan strætóstyrk en þarf stundum að eyða 90 þúsund kalli á mánuði í strætóferðir af mínum 180 þúsund króna tekjum.“

„Svo er það framkoma sumra starfsmannanna, hún er ekkert annað en ofbeldi. Það eru til dæmis þarna ákveðin verkfæri sem þurfa að vera til að halda niðri ofbeldi, en þau eru misnotuð. Til dæmis eru menn settir í kælingu í fjóra tíma ef þeir eru með læti. Mér liggur nokkuð hátt rómur og einu sinni hastaði ég á gaura sem voru að sparka í eitthvert drasl og framleiða hávaða. Þá kemur starfsmaðurinn að mér, skammar mig fyrir að vera með hávaða og rekur mig út í fjögurra tíma kælingu.“

„Einn starfsmaðurinn gerði sér síðan lítið fyrir og spúlaði mig allan hátt og lágt með brunaslöngu. Ég hef ekki hugmynd um hvað vakti fyrir honum, kannski bara fíflagangur, kannski bara heldur hann að hann geti komið fram við okkur eins og hann vill af því við erum í viðkvæmri stöðu. En þetta fór allt á eftirlitsmyndavél og ég kærði hann. Það er búið að setja hann í leyfi og þetta er í kæruferli núna. Flestir starfsmennirnir þarna eru ok en það eru skemmd epli innan um, bara ofbeldismenn.“

Villi er líka ósáttur við að þarna er starfsmaður sem öskrar á vistmenn klukkan tíu á morgnana, að drulla sér út en þeir séu þá kannski á sama tíma í biðröð eftir að komast á salernið. Salernin séu oft teppt á morgnana því þar séu yngri menn að sprauta sig með fíkniefnum. Stundum séu salernin síðan læst nákvæmlega til að koma í veg fyrir það.

Villa finnst rekstur gistiskýlanna um of einkennast af óbilgirni, hörku og virðingarleysi.

Spjallaði við forsætisráðherra í skrúðgöngu

Villi hefur gaman af að gera að gamni sínu og stríða fólki á saklausan hátt. Á sumardaginn fyrsta sveif hann á konu sem var að stýra skrúðgöngu niður Hverfisgötu og sagði við hana: „Veistu, þú gæti verið staðgengill fyrir Kötu Jak í bíómynd.“

Kom á daginn að þetta var í raun og veru Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra. Þau tóku létt spjall saman. Villi minnti hana á að hún og fleiri hefðu verið að spjalla um hann hjá „Gísla Martröð“, eins og hann kallar sjónvarpsmanninn vinsæla, sem stýrir þættinum Vikan á föstudagskvöldum. Þar var fjallað um björgunarafrekið á Grensásvegi og birt brot úr viðtali Stöðvar 2 við Villa þar sem hann líkti sér við Denzel Washington úr myndinni The Equalizer.

„Svo sagði ég við hana að hún væri að taka við 3.500 flóttamönnum frá Úkraínu sem fengju frítt húsnæði og 400 þúsund krónur á mánuði á meðan kall eins og ég væri með 180 þúsund frá Féló og svæfi í gistiskýlinu. Hún var fljót að svara fyrir sig og sagði að þetta væri ríkið en borgin ætti að sjá um okkur. Þá sagði ég við hana: Ég ætla nú ekki að fara að þrasa við þig um pólitík hérna í miðri skrúðgöngu úti á götu.“

Villi hefur spjallað við slatta af frægu fólki í kjölfar björgunarafreksins í fyrra. Meðal þeirra er uppistandarinn Ari Eldjárn sem var að gera sér mat úr málinu í grínskrifum og vildi freista þess að hitta á manninn. Hann þekkti Villa hins vegar ekki í sjón svo þegar grínarinn mætti á Benzin Cafe sveif Villi á hann og sagði: „Ert þú ekki heimsfrægur á Íslandi?“ Ari játaði það og þá sagðist Villi líka vera frægur og minntist á björgunarafrekið. Tókst ágætisspjall með þeim.

Er Villi ekki nógu kvartsár?

Villi áttar sig á því að staða hans sem atvinnulauss og heimilislauss manns sé óviðunandi. Samt er eins og hann sé búinn að laga sig að henni. Blaðamanni finnst honum vera heitara í hamsi þegar hann gagnrýnir aðbúnað í gistiskýlinu en þegar talið berst að heimilisleysi hans.

„Ég er búinn að sækja um félagslegt húsnæði hjá borginni og það er félagsráðgjafi með mitt mál en það gerist ekkert. Ég er ekki mikið að reka á eftir þessu, ég sé ekki hvaða tilgangi það þjónar að vera að hringja í hann einu sinni í viku og grenja og kvarta.“

En blaðamaður segir að mörgum þætti þetta vera algjörlega óviðunandi staða fyrir hann. „Já, en hvers vegna endilega ég? Það eru margir fleiri í þessari stöðu. Á ég að vera fyrstur í biðröðinni? Eftir þetta strætómál voru margir sem sögðu: Nú fer eitthvað að gerast í þessu hjá þér en það gerðist ekki neitt.“

Flestir dagar hefjast á því að hann vaknar í gistiskýlinu á Lindargötu og tekur strætisvagn frá Hverfisgötu upp á Grensásveg. Síðan situr hann að hægu sumbli á Benzin Cafe. „Þetta er svona lokal bar og góður andi hérna,“ segir hann. Þegar kvöldar koma kannski inn 10-20 manns sem hann þekkir alla með nafni.  „Inni á milli eru menn hérna með læti og maður forðast þá, þó kemur fyrir að ég lækki í þeim rostann.“

En er hann í einhverju sambandi við börnin sín og sínar fyrrverandi sambýliskonur?

„Ég er í dálitlu sambandi við fyrri konuna en ekki þá seinni. Ég hjálpaði dóttur minni að leggja parket fyrir þarsíðustu jól en ég er ekki mikið í sambandi við hana, hún er með fjölskyldu, tvö börn, og er doktor í matvælafræði. Ég vil ekki vera að trufla hennar líf. Strákurinn minn kemur stundum hingað á Bensann og dettur í það með mér. Mamma hans keyrir hann hingað og við hittumst einstaka sinnum í kringum það.“

Það er létt yfir Villa en sorgin er skammt undan. Stundum brosir hann með tárin í augunum. Hann er ekki kvartsár, kannski þyrfti hann að vera kvartsárari til að fá viðunandi fyrirgreiðslu. Hann sér það spaugilega í tilverunni og er oftast klár með létt spaugsyrði um aðstæðurnar. „Ung kona sem ég þekki sagði við mig: Þú ert algjör róni og útigangsmaður en ég hef allt til alls. Samt ert þú alltaf miklu ánægðari en ég, þú gantast en ég er í kvíðakasti.“

Villi segist samt átta sig á því að hann getur ekki lifað svona til lengdar. Hann vonar heitt og innilega að hann fái herbergi til leigu innan tíðar og geti þar með eignast fastan samastað og skjól. Það er frumforsenda fyrir því að hann geti byrjað að byggja upp betra líf.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Britney brjáluð út af afskiptum lögreglu af hnífadansinum – „Nú er nóg komið“

Britney brjáluð út af afskiptum lögreglu af hnífadansinum – „Nú er nóg komið“
Fókus
Fyrir 2 dögum

Manstu eftir „fallegustu stúlku veraldar“? – Svona lítur hún út 12 árum seinna

Manstu eftir „fallegustu stúlku veraldar“? – Svona lítur hún út 12 árum seinna
Fókus
Fyrir 3 dögum

Sharon Osbourne viðurkenndi að hafa gengið „of langt“ með megrunarlyfið

Sharon Osbourne viðurkenndi að hafa gengið „of langt“ með megrunarlyfið
Fókus
Fyrir 4 dögum

Þrumuguðinn Þór staddur á landinu – „Lítið íslenskt ævintýri með stelpunni minni“

Þrumuguðinn Þór staddur á landinu – „Lítið íslenskt ævintýri með stelpunni minni“
Fókus
Fyrir 4 dögum

Þórhildur komin í annað samband – Segir að hann og eiginmaðurinn nái vel saman

Þórhildur komin í annað samband – Segir að hann og eiginmaðurinn nái vel saman
Fókus
Fyrir 4 dögum

Myndband Brynhildar um kærastann fengið um 500 þúsund „likes“

Myndband Brynhildar um kærastann fengið um 500 þúsund „likes“