Rosaleg tíðindi bárust frá Hollywood í gærkvöldi þegar ETonline greindi frá því að tónlistarkonan Taylor Swift og kærasti hennar til sex ára, leikarinn Joe Alwyn, hefðu ákveðið að halda í sitt hvora áttina.
Samkvæmt heimildum miðilsins voru sambandsslitin vilji beggja , um enga dramatík var að ræða og slitu þau sambandinu í sátt og samlyndi. Margir gætu velt fyrir sér hvers vegna þau hættu saman en að sögn ETonline mun ástæðan vera frekar einföld – sambandið hafði hreinlega runnið sitt skeið.
Þetta sé ástæðan fyrir því að Joe hafi ekki fylgt Taylor eftir á tónleikaferðalaginu sem hún er á um þessar mundir, en þau munu hafa hætt saman fyrir nokkrum vikum síðan.
Taylor og Joe byrjuðu að stinga saman nefjum seint á árinu 2016 og hefur sambandið gengið mjög vel og orðið innblásturinn af þó nokkrum Taylor Swift lögum sem fjalla um hvað hún sé ástfangin og hamingjusöm. Ólíkt fyrri samböndum sínum, sem voru mjög opinber, ákvað Taylor að halda Joe út af fyrir sig og lögðu þau mikið á sig til að fá að vera í friði frá slúðurpressunni og ágengum ljósmyndurum.
En nú er víst úti ástarævintýri. Þá er bara að vona að þessi sambandsslit muni vera innblástur fyrir Taylor til að semja nýja tónlist.