Fyrrverandi kærasta gólfgoðsagnarinnar Tiger Woods telur að Tiger skuldi sér um 4,3 milljarða.
Erica Herman og Tiger Woods hófu að stinga saman nefjum árið 2017. Svo virðist sem að strax þá hafi kylfingurinn látið Ericu skrifa undir þagnarsamning, eða svonefndan NDA-samning.
Erica Herman hefur farið fram á dómstólar ógildi þennan samning með vísan til ákvæðis sem kveður á um að slíka samninga megi ógilda til að vernda þolendur kynferðisbrota.
Nú hefur People undir höndunum skjöl sem lögð voru fram fyrir dómi eftir sambandsslit þeirra Tigers og Ericu í október. Þar heldur Erica því fram að hún hafi gert munnlegt samkomulag við kylfinginn um að hún mætti ibúa á heimili hans í fimm ár. Lögmenn Tiger hafa bent á að það samkomulag hafi bara átt við á meðan á sambandi þeirra stóð.
Um er að ræða heimilið sem Tiger Woods býr í með börnum sínum tveimur.
Erica heldur því fram að hún hafi verið neydd til að flytja út eftir að Tiger sagði henni upp í október.
„Fröken Herman brást við sambandsslitunum með því að leggja fram þessa stefnu,“ segja lögmennirnir. Erica heldur því fram að hún eigi inni 4,3 milljarða þar sem munnlegt samkomulagið hafi verið virt að vettugi og hún læst úti frá heimili sínu. Eigur hennar hafi verið fjarlægðar úr húsnæðinu og henni tilkynnt að hún væri þar óvelkomin.
Lögmenn Woods hafa bent á að samkvæmt áðurnefndum NDA-samningi hafi Erica skuldbundið sig til að útkljá allar deilur við Tiger í gegnum sáttamiðlun sem væri bundin trúnaði. Með því að lögsækja sjóð sem Tiger Woods stýrir, Jupiter Island Irrevocable Homstead sjóðnum, frekar en kylfingnum sjálfum sé Erica viljandi að reyna að reka málið fyrir augum almennings.
Tiger Woods fer fram á að sáttamiðlari taki við málinu og vonast hann til að þar verði skýrt tekið fram að ekkert munnlegt samkomulag hafi verið til staðar og hann sé ekki skaðabótaskyldur gagnvart henni.
Lögmenn sjóðsins hafa líka lagt fram kröfu um að meðferð málsins verði frestað þar til búið er að leysa úr sáttamiðlunar kröfunni.
Eins og áður segir hefur Erica haldið því fram að NDA-samningurinn sé ógildanlegur með vísan til lagaákvæðis sem verndar þolendur kynferðisbrota. Hún hefur þó ekki lagt neinar slíkar ásakanir fram gegn Tiger Woods en segir í áðurnefndum skjölum að hún sé óviss um hvaða upplýsingar um eigið líf hún gæti ákveðið að ræða um og við hvern.