fbpx
Föstudagur 02.júní 2023
Fókus

„Allt skapar þetta stór sár á sál þessara barna sem munu fylgja þeim út ævina“

Ragna Gestsdóttir
Fimmtudaginn 30. mars 2023 14:00

Bjarni Snæbjörnsson Mynd: Gunnlöð

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Mest gefandi hefur verið að hitta hinsegin ungmennin um allt land. Eftir næstum hverja sýningu nálguðust einn eða fleiri nemendur sviðið varfærnislega til að leita eftir tengingu við okkur. Sum hafa beðið um knús. Sum hafa grátið í fanginu á okkur. Sum hafa bara staðið berskjölduð og falleg og beðið um ráð varðandi hvernig væri best að koma út úr skápnum gagnvart fjölskyldunni sinni. Í hvert einasta sinn stækkaði hjartað mitt. Ég fann áþreifanlega fyrir vanmætti þeirra og togstreitu. Hvernig þau áttu í innri baráttu við sitt eigið sjálf.

Í hvert einasta sinn passaði ég mig að segja þeim að þau eru fullkomin eins og þau eru. Að það er allt í lagi með þau. Að skömmin sem þau eru að finna fyrir er aldrei, aldrei, aldrei þeim að kenna. Að þau sjálf hafi fullt vald yfir eigin lífsvegferð. Að þeirra kjarnasjálf er bara alveg fullkomið nákvæmlega eins og það er,“ segir leikarinn Bjarni Snæbjörnsson sem á föstudaginn síðastliðinn lauk síðari leikferð sinni með leikhópnum Stertabendu um landið.

Hópurinn hefur sýnt leikverkið Góðan daginn, faggi í samstarfi við Þjóðleikhúsið og eftir sýningar í Þjóðleikhúsinu hefur hópurinn síðustu tvo vetur sýnt fyrir samtals 10.000 ungmenni á aldrinum 14-19 ára í efstu bekkjum grunnskóla og framhaldsskólum, samtals 56 sýningar um allt land.

Einstakt tækifæri til að hitta ungmenni landsins

Bjarni segir hjarta sitt stútfullt af þakklæti fyrir þetta einstaka tækifæri að fá að hitta ungmenni landsins og starfsfólk skólanna og eiga með þeim leikhússtund. Móttökur hjá skólastjórnendum, húsvörðum, kennurum og öðrum starfsmönnum allra skóla hafi verið framúrskarandi. 

„Við höfum fundið fyrir augljósu þakklæti þeirra fyrir að tala um hinseginleikann og að nefna upphátt hversu flókið það er oft að vera manneskja. Nemendur hafa líka verið alveg frábærir og við elskuðum að eiga stund með þeim í umræðum eftir hverja sýningu þar sem þau komu oft með djúpvitrar spurningar og gáfu okkur fallega speglun á verkið okkar,“ segir Bjarni, sem segir stundum hafa grátið eftir að ungmennin kvöddu.

„Ég grét yfir samkennd því ég man eftir þessum viðkvæma stað frá því ég var ungur maður í tilvistarkreppu. Ég grét líka af sorg yfir því að hinseginleikinn skuli ennþá skapa svona mikla vanlíðan og togstreitu innra með unga fólkinu okkar. Að sum þeirra eru ennþá að lenda í mikilli áreitni frá samfélaginu. Sum þeirra verða fyrir því að gelt er að þeim í skólanum á hverjum degi. Sum þeirra sögðu mér frá því hvernig fjölskyldan þeirra samþykkir þau ekki. Sum áreitnin er lúmskari þar sem aldrei er gert ráð fyrir hinseginleika þeirra. Allt skapar þetta stór sár á sál þessara barna sem munu fylgja þeim út ævina,“ segir Bjarni sem segir ferðalagið hafa kennt honum að við megum ekki sýna skeytingarleysi gagnvart þessu.

Segir Bjarni að bakslagið í hinsegin málefnum á Íslandi í dag sé tilkomið af því við sofnuðum á verðinum. „Að klappa okkur á bakið sem samfélag fyrir hversu framarlega við stöndum og láta þar við sitja er stórhættulegt. Það er líka stórhættulegt að taka því ekki alvarlega þegar unga hinsegin fólkið okkar segir okkur frá andlegu eða líkamlegu ofbeldi, áreitni og einelti sem það verður fyrir á hverjum degi.

Af því að unga hinsegin fólkið okkar er ennþá að taka sín eigin líf þegar áreitnin og álagið verður of mikið.“

Fundu líka fyrir eitraðri og fordómafullri stemningu

Segist Bjarna hafa síðustu vikur fylgst með fréttum frá Bandaríkjunum þar sem hvert suðurríkið á fætur öðru keppist við að setja lög þar sem gerð er tilraun til að eyða hinseginleikanum. Dragsýningar eru bannaðar, réttindi transbarna til að fá læknisaðstoð tekin frá þeim  og í Flórída er búið að banna bækur sem hafa eitthvað með hinseginleikann að gera. 

„Allt þetta er gert til að „vernda börnin.“ Það eina sem þetta gerir er að skaða börnin, sérstaklega þau sem eru trans og kynsegin. Þetta er farið að minna óþægilega mikið á uppgang nasismans á síðustu öld þar sem bókabrennur voru daglegt brauð og einn þjóðfélagshópur var settur ofar öðrum. Hitler tókst á endanum að afmennska gyðinga, hinseginfólk og fleiri. Og við vitum alveg hvernig það endaði,“  segir Bjarni.

Hann segist í ljósi alls þessa hafa fyllst gríðarlegu þakklæti í hvert sinn sem hann steig á svið til að sýna Góðan daginn, faggi fyrir ungmennin. 

„Ég þakkaði fyrir forréttindi mín að hér á landi bý ég við þau forréttindi að fá að mæta með mig og allan minn hinseginleika á svið og segja söguna mína óafsakandi og hispurslaust innan skólakerfisins. Að í hverjum einasta skóla var tekið svo fallega á móti okkar og við fundum áþreifanlega fyrir þakklæti viðstaddra og við töluðum saman í kærleika og samkennd. Það eru ekki mörg lönd í heiminum þar sem ferðalag í skólakerfi landsins með hinsegin leiksýningu væri mögulegt. Að hafa fæðst þar sem fjölbreytileikanum er fagnað á þennan hátt eru mikil forréttindi og fyrir það er ég þakklátur,“ segir Bjarni.

„En blæjan er þunn. Við fundum alveg líka fyrir eitraðri og fordómafullri stemningu undir niðri. Sumir nemendur höndluðu það illa að á sviði stæði samkynhneigður maður sem talaði óafsakandi um tilfinningar sínar og hinseginleika. Það gerðist tvisvar að það heyrðist gelt úti í sal. Það gerðist einu sinni að það heyrðist enska orðið „faggot“  í niðurlægjandi merkingu. Því var beint að okkur.“

Gaf drauminn upp á bátinn

Bjarni rifjar upp að nýlega hafi hann hitt ungan gagnkynhneigðan sis karlmann, fótboltamann, sem Bjarni kenndi leiklist fyrir mörgum árum þegar hann var unglingur. Segist Bjarni hafa munað vel eftir honum því hann var frábær leikari. 

„Hann sagði mér að við að sjá sýninguna okkar þá skildi hann hvernig hann hafði verið fórnarlamb öráreitni í sinni æsku. Hann vildi ekkert meira en að halda áfram í leiklist sem unglingur. Hann langaði að læra dans, söng og leiklist og hann dreymdi um að sækja um leikaranámið í LHÍ. En hann þorði það ekki vegna þess að hann vissi að ef hann færi í dans, leiklist eða söng þá myndi hann verða fyrir svo mikilli áreitni og einelti frá fótboltafélögum sínum. Hann yrði kallaður faggi og hommi út af þessu „hommalega“ áhugamáli,“ segir Bjarni.

„Þannig að hann gerði ekkert. Hann gaf drauminn sinn upp á bátinn. Hann yfirgaf þennan fallega listræna hluta af sér því samfélagið sem hann tilheyrði hefði ekki leyft honum það. Hann treysti sér ekki til að stíga út úr boxinu sem aðrir höfðu sett hann í. Það er fátt sorglegra en það þegar unga fólkið okkar svíkur sig sjálft til að reyna að samlagast utanaðkomandi væntingum. Hvernig þau yfirgefa sig til að þurfa ekki að lenda í mótstöðu. Þetta er ekki aðeins sorglegt fyrir þennan unga mann heldur líka fyrir okkur sem samfélag. Kannski misstum við þarna af nýja magnaða unga leikaranum okkar.“ 

Fjölbreytileikinn okkar sterkasti ofurkraftur

Bjarni segir okkur líða betur þegar við hlúum að jaðarhópunum okkar. „Þegar við ákveðum að vinna að því að fjölbreytileikinn sé okkar sterkasti ofurkraftur og hornsteinn samfélagsgerðar okkar þá upplifum við öll meira frelsi til að vera við sjálf. Þá fáum við öll hugrekki til að sprengja boxin okkar og vera á því ferðalagi sem hvert og eitt okkar þráir og vill,“ segir Bjarni.

„Málefni hinsegin fólks snýst nefnilega ekki bara um okkur hinsegin fólkið. Því þegar við eflum jaðarhópana og setjum orku og fókus á fjölbreytileikann, jafnrétti og fræðslu, þá græðum við öll.

Við höfum gert margt vel. En það eru blikur á lofti. Við þurfum að vara okkur á skeytingarleysinu og pólaríseringunni. Við megum ekki sofna á verðinum.

Í stað þess að hreykja okkur af víðsýni okkar skulum við hlusta betur og vera enn meira forvitin. Veljum að fræðast og opna hjartað fyrir sögum af reynslu annarra. Veljum að búa til samfélag sem byggir á fjölbreytileika og sýnileika allra hópa með samkennd og kærleikann að vopni.“ 

Sýningin Góðan daginn faggi er sköpuð og framleidd af leikhópnum Stertabendu í samstarfi við Þjóðleikhúsið. Lokasýning verksins verður sérstök viðhafnarsýning á stóra sviði Þjóðleikhússins 28. apríl.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Í gær

Afrekskonurnar Lukka Mörk og Ronja í nýrri auglýsingu Vinnupalla

Afrekskonurnar Lukka Mörk og Ronja í nýrri auglýsingu Vinnupalla
Fókus
Í gær

Sögulegir munir úr starfi íslenskrar nasistahreyfingar til sýnis

Sögulegir munir úr starfi íslenskrar nasistahreyfingar til sýnis
Fókus
Fyrir 2 dögum

Al Pacino á von á barni – Kærastan 53 árum yngri

Al Pacino á von á barni – Kærastan 53 árum yngri
Fókus
Fyrir 2 dögum

Atvinnuleysi, slys, fíkniefni og morð – Bölvun Ofurmennisins

Atvinnuleysi, slys, fíkniefni og morð – Bölvun Ofurmennisins
Fókus
Fyrir 2 dögum

Stimpingar í streymisheimum – Stranger Things-stjarna sökuð um að vera meðalmanneskja sem slær undir beltisstað í deilum

Stimpingar í streymisheimum – Stranger Things-stjarna sökuð um að vera meðalmanneskja sem slær undir beltisstað í deilum
Fókus
Fyrir 3 dögum

Raunverulega eiginkonan Lisa Rinna varpar skuggalegu ljósi á brotthvarf sitt

Raunverulega eiginkonan Lisa Rinna varpar skuggalegu ljósi á brotthvarf sitt
Fókus
Fyrir 3 dögum

Ólafur ákvað að nýta sanngirnisbætur eftir slæma meðferð og ofbeldi í Landakotsskóla til góðra verka

Ólafur ákvað að nýta sanngirnisbætur eftir slæma meðferð og ofbeldi í Landakotsskóla til góðra verka