fbpx
Miðvikudagur 08.febrúar 2023
Fókus

„Við verðum líka að muna að þessir strákar sem eru mættir þarna til að spila fótbolta hafa ekkert gert af sér“

Fókus
Miðvikudaginn 30. nóvember 2022 09:30

Einar Kárason. Skjáskot/YouTube

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Einar Kárason rithöfundur segir það enga lausn að sniðganga lönd og að við höfum gengið of langt í því að banna alls kyns hluti. Einar, sem er nýjasti gesturinn í Podcasti Sölva Tryggvasonar, segir ömurlegt að sjá allar tegundir af kvenfyrirlitningu og mismunun á fólki, en segist ekki hrifinn af þeirri þróun að ætla að halda stórviðburði eingöngu í löndum sem okkur á vesturlöndum séu þóknanleg.

„Þessi ömurlega kvenfyrirlitning á þessum slóðum og umburðarleysi gagnvart öllum frávikum er ekkert annað en viðbjóður. En þessir hlutir hafa ekki orðið verri við að halda mótið í Qatar og meira að segja hefur mögulega eitthvað skánað. Það hafa verið haldin heimsmeistaramót í Argentínu þegar þar var ömurleg herforingjastjórn og líka mótið í Rússlandi og Ólympíuleikar í Kína, þar sem mannréttindabrot eru mjög algeng. Ef við myndum bara sætta okkur við að stórmót sem þetta væri haldið í löndum sem falla að okkar hugmyndum um lýðræði og kerfi eins og við viljum hafa það, væri ansi lítið eftir. Það að sniðganga alveg lönd er ekki nein lausn í mínum huga,” segir Einar og heldur áfram.

„Við verðum líka að muna að þessir strákar sem eru mættir þarna til að spila fótbolta hafa ekkert gert af sér og virka nú bara upp til hópa góðir drengir. Við höfum séð það sem Íranarnir gerðu til að mótmæla ástandinu heima fyrir og aðrir hafa virst allir af vilja gerðir til að sýna hinsegin samfélaginu stuðning. En þeir eru búnir að undirbúa sig undir þetta mót í áraraðir og eiga ekki skilið neina fyrirlitningu eða leiðindi.“

Hann segir þetta áhugaverða siðferðilega umræðu og segist til dæmis sjálfur í þeirri stöðu að bækur hans séu gefnar út í löndum þar sem honum mislíkar stjórnarfarið.

„Ég skrifa og gef út bækur sem hafa verið gefnar út víða um lönd og þá kemur upp spurningin hvort ég eigi að skoða mannréttindamál í öllum löndum sem vilja gefa út bækur eftir mig áður en ég ákveð hvort það megi gefa hana út. Það er líklega fólk sem vill lesa bækurnar mínar í þessum löndum sem er ekki endilega hrifið af eigin stjórnvöldum. Bókin mín, Stormfuglar var til dæmis gefin út á arabísku og hebresku, en það þýðir ekki að ég sé að leggja blessun mína yfir meðferð Ísraela á Palestínu eða meðferð á konum í Mið-Austurlöndum. Maður er ekki að leggja blessun sína yfir mannréttindamál í Kína þó að bókin mín sé gefin út þar. Á endanum verðum við að spyrja okkur hvert það leiðir okkur að slíta öll tengsl við ákveðin lönd.“

Gagnrýndur fyrir að verja J.K Rowling

Einar fékk sjálfur yfir sig holskeflu af reiði eftir að hafa tekið upp hanskann fyrir J.K Rowling, höfund Harry Potter bókanna.

„Mér finnst það í stuttu máli algjörlega ömurleg þróun sem hefur verið í gangi, þar sem fólk er farið að taka bæði nútímalistaverk og klassísk listaverk og ráðast gegn þeim, útbreiðslu þeirra, sölu og útgáfu. Þetta er herfileg þróun. Það merkilega er að það eru vissir hópar sem standa fyrir því að vilja banna hluti sem eru mjög ólíkir innbyrðis. Fyrsta bylgjan kom frá kristnum strangrúarmönnum í Bandaríkjunum sem vildu láta banna allan fjandann, af því að það væri ekki nægur kristilegur andi í verkum eða andkristilegur andi. Síðan koma ofurfrjálslyndir og fólk af vinstri kantinum, orðið „woke“ nær að einhverju leyti yfir þetta. Það fer að gera aðsúg að bókum og listaverkum af því að því líkar ekki eitthvað í titlinum eða frásögninni. Ég held að það hafi verið teknar nærri 3 þúsund bækur af markaði í Bandaríkjunum í fyrra vegna þrýstings frá ólíkum hópum og þessi frjálslyndi og víðsýni hópur er í raun orðinn afkastameiri í þessu. Svo eru útgefendur mjög viðkvæmir fyrir árásum frá hópum af þessu tagi, af því að það gengur allt út á ímyndina,“ segir Einar og heldur áfram:

„Eitt er þegar verið er að gera aðsúg að styttum, sem manni finnst reyndar líka gengið út í öfgar, en svo er þetta farið að ná yfir í tónlist, ljóðlist og bókmenntir frá mönnum sem höfðu vitlausa afstöðu fyrir mörg hundruð árum. Þetta er algjörlega ömurleg þróun af því að listir eiga að vera vettvangur frjálsrar hugsunar. Þetta er farið að ganga gegn því dýrmætasta í okkar menningararfi eins og Passíusálmunum.“

„Ég ætla nú ekki að fara mikið út í þetta með J.K Rowling þegar ég tók upp hanskann fyrir hana, en til að byrja með var upphafpunkturinn að konur ættu ekki að þurfa að koma inn í sturtuklefa þar sem einhver væri með slátrið milli fótanna. En svo fór hún á Twitter og sagði hluti sem ég er ekki endilega sammála. En þetta er einn af mikilvægustu rithöfundum okkar samtíma. Það eru heilu kynslóðirnar sem eru orðnar að bókafólki út af Harry Potter bókunum. Það var mjög skrýtið fyrir mig að átta mig á því að það væri upp til hópa fólk úr mínum eigin flokki, Samfylkingunni og fólk úr rithöfundasambandinu sem var að ráðast á það sem ég sagði. Ef að eitthvað á að vera múrbrjótur á móti fasisma og miðaldahugsun, þá eru það frjálslyndar stjórnmálahreyfingar og höfundasambönd.“

Ákvað snemma að verða rithöfundur

Einar fer í þættinum yfir ferilinn og segir að hann hafi ákveðið að verða rithöfundur strax sem barn:

„Ég ákvað 9 ára að verða rithöfundur og þetta var alltaf það sem ég vildi gera. Þegar ég var krakki var ég að skrifa sögur um Tarzan og fleira, meðal annars af því að ég vildi lesa fleiri sögur um ákveðna karaktera og varð þá bara að skrifa þær sjálfur. Fyrst þegar ég byrjaði að skrifa bækur var ég oft mjög óviss um það sem ég var að gera, en svo byrjar maður að treysta ferlinu með reynslunni. Rétt eins og múrari eða pípari sem kann sitt fag, þá veit maður hvað maður er að gera þegar maður er búinn að vera lengi í faginu og veit hvernig bækur maður vill skrifa. Oft seljast alveg frábærar bækur með mikið bókmenntagildi ekkert sérstaklega vel, þannig að maður lærir líka að það er ekki samasemmerki á milli sölu og gæða. Bækur eftir Sjón og Gyrði Elíasson eiga ekki séns í spennusögur svo dæmi sé tekið.“

Byggð á sönnum atburðum

Nýjasta skáldsaga Einars, Opið Hafi, byggir á sönnum atburðum eins og tvö síðustu verk hans. Bókin fjallar um eitt rosalegasta afrek Íslandssögunnar, þegar Guðlaugur Friðþórsson synti alla leið til lands eftir að hafa farið í sjóinn sjö kílómetra fyrir austan Vestmannaeyjar.

„Þetta hefur leitað á mig alveg frá því að ég heyrði þetta fyrst, enda rosalegur atburður. Ég hafði hugsað um þetta í 30 ár, en fannst ég ekki geta troðið á einkalífi Guðlaugs. En svo gerist það fyrir algjöra tilviljun að hann bætir mér sem vini á Facebook og var mjög sammála einhverju sem ég hafði skrifað. Ég  sendi honum þá strax línu og sagði honum að ég væri búinn að hugsa um þetta allan þennan tíma en hafi ekki viljað snerta á því nema með samþykki hans. Hann sagðist hafa hugsað mikið um þetta og sagðist hafa hugsað mig sem þann sem ætti að skrifa þetta ef einhver myndi gera þetta. Þannig að það var eiginlega eins og þetta hafi verið skrifað í skýin. Þetta varð mér mikil uppörvun og ég hófst bara handa við að skrifa.“

Þáttinn með Einari og alla aðra Podcastþætti Sölva Tryggvasonar má nálgast inni á: https://solvitryggva.is

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Í gær

Eign dagsins – Endurnýjuð útsýnisíbúð í hjarta borgarinnar

Eign dagsins – Endurnýjuð útsýnisíbúð í hjarta borgarinnar
Fókus
Í gær

Tómas náði tindinum – „Gefandi að geta sem læknir komið svo mörgum til hjálpar á fjallinu“

Tómas náði tindinum – „Gefandi að geta sem læknir komið svo mörgum til hjálpar á fjallinu“
Fókus
Fyrir 4 dögum

Einbýlishús með verðlaunagarði

Einbýlishús með verðlaunagarði
Fókus
Fyrir 4 dögum

„Nei, ég er ekki að verða pabbi. Ég er líka að verða móðir í annað sinn“

„Nei, ég er ekki að verða pabbi. Ég er líka að verða móðir í annað sinn“