Rapparinn Kanye West þarf að greiða fyrrverandi eiginkonu sinni, raunveruleikastjörnunni Kim Kardashian, 200 þúsund Bandaríkjadali á mánuði í meðlagsgreiðslur, eða um 28,6 milljónir krónur.
Kim og Kanye eiga saman fjögur börn á aldrinum þriggja til níu ára, þau North, Saint, Chicago, og Psalm. Frægu foreldrarnir munu deila forsjá og munu bæði koma að ákvörðunartöku varðandi líf barnanna, en Kim mun hafa þau í sinni umsjón töluvert meira en Kanye. The Guardian skýrir frá þessu.
Raunveruleikastjarnan sótti um skilnað snemma árs 2021 eftir átta ára hjónaband og var skilnaðargögnum loksins skilað inn í gær.
Ferlið hefur ekki gengið áfallalaust fyrir sig en skilnaðurinn og allt dramað í kringum hann hefur verið mjög opinbert af hálfu rapparans sem hefur verið duglegur að tjá sig við fjölmiðla og á samfélagsmiðlum.
Undanfarið hafa stórfyrirtæki á borð við Balenciaga, Gap og Adidas slitið samstarfi við hann vegna hatursfullra ummæla hans um Gyðinga.