Söng- og leikkonan Jennifer Lopez segir að henni hafi liðið svo illa þegar hún og Ben Affleck hættu saman árið 2004 að hún hélt hún „myndi deyja“ – sársaukinn var svo mikill.
Stjarnan segir frá þessu í viðtali hjá Apple Music.
Jennifer og Ben byrjuðu saman árið 2002 og í nóvember sama ár fór leikarinn á skeljarnar. Þau ætluðu að giftast 14. september 2003 en fjórum dögum áður hætti Ben við og þau slitu sambandinu nokkrum mánuðum síðar.
Sjá einnig: Brúðkaup Bennifer um helgina
Sautján árum seinna lágu leiðir þeirra aftur saman og gengu þau í það heilaga í júlí 2022. En Jennifer er ekki búin að gleyma sársaukanum sem fylgdi fyrstu sambandsslitum þeirra.
„Það var svo sársaukafullt. Ég var í mestu ástarsorg lífs míns fyrir 20 árum, þegar við hættum við brúðkaupið. Mér leið í alvöru eins og ég myndi deyja,“ sagði hún.
„Næstu átján árin bara náði ég þessu ekki rétt. En núna, 20 árum seinna, þá fékk ég hamingjusaman endi […] Sönn ást er til og sumir hlutir endast að eilífu og það er raunverulegt. Ég vil miðla þeim skilaboðum til heimsins og það þarf að sýna mikinn vanmátt til þess.“