fbpx
Sunnudagur 06.júlí 2025
Fókus

Kristján gerir upp málið alræmda – „Það var allt tekið úr samhengi og í raun bara beinlínis logið upp á mig í fjölmiðlum“

Fókus
Mánudaginn 7. nóvember 2022 10:13

Kristján Jóhannsson. Mynd/Stefán Karlsson

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Kristján Jóhannsson, óperusöngvari, er nýjasti gesturinn í podcasti Sölva Tryggvasonar. Kristján lýsir í þættinum tímanum áður en hann fékk stóra tækifærið og segir að það hafi verið mikið hark.

„Auðvitað byrjaði maður á einhverjum punkti að hugsa til þess að fara út og láta reyna á það að verða atvinnusöngvari, en ég var kominn með fjölskyldu ungur og varð að borga reikninga og fékk enga sérmeðferð. Ég var kominn með rekstur á litlu fyrirtæki, sem gekk vel, en það var mikil vinna og ég vann myrkranna á milli. Ég varð í raun að vinna eins og skepna og fylla alla vasa af peningum og hoppa svo í djúpu laugina og panta mér bara flug út aðra leiðina til Ítalíu. Það var svo enginn dans á rósum þegar ég kom þangað, en ég ætlaði bara að meika það og var alveg harður á að koma ekki heim með skottið á milli lappanna. Það var ekkert plan B, það var bara þetta eða kúlan í hausinn!!,“ segir Kristján og heldur áfram:

„Stundum var ég orðinn helvíti blankur og kennararnir voru dýrir, þannig að það kom stundum fyrir að ég þurfti að sleppa því að borða í 1-2 daga til að eiga fyrir tímunum. Það fór allur peningurinn á tveimur árum og ég var skítblankur heillengi. Pabbi átti vini í bændastétt sem sendu mér annað slagið smá pening og þá var ég glaður að eiga fyrir leigu og mat þann mánuðinn. En þetta var mikið hark alveg þangað til að ég náði fyrsta „gigginu.“ Eftir það fór allt af stað.“

Fer yfir málið alræmda

Það gustaði gríðarlega um Kristján árið 2004, þegar öll þjóðin hafði skoðun á honum í kringum umfjöllun fjölmiðla um styrktartónleika fyrir langveik börn. Kristján fer í þættinum yfir málið allt.

„Þetta var ótrúleg atburðarás og það var allt tekið úr samhengi og í raun bara beinlínis logið upp á mig í fjölmiðlum. Ég hef alla tíð verið mjög ötull í að láta gott af mér leiða, ekki síst eftir að ég missti þáverandi konuna mína úr krabbameini fyrir þrítugt. Þess vegna var þetta sérstaklega sárt. Það var mikill fjöldi fólks á sviðinu á þessum tónleikum og það fengu allir borgað fyrir vinnuna sína. Og sumir hafa líklega aldrei verið á hærri launum en þarna. Ljósamenn, hljóðfæraleikarar, hljóðmenn, söngvarar, allir voru á launum. Kaupþing Banki styrkti tónleikana og keypti afraksturinn og setti á plötu. Launin mín komu þess vegna frá Kaupþingi og höfðu ekkert með innkomu tónleikanna að gera. Bankinn keypti tónleikana og borgaði því vinnu allra. En þetta var sett upp eins og að ég hafi einn fengið borgað og tekið launin mín beint frá málefninu sjálfu. DV byrjaði málið og svo tók RÚV það upp og birti sömu lygina og hafði verið í DV. En það spurði mig aldrei neinn út í þetta áður en þetta var birt,“ segir Kristján og heldur svo áfram:

„Ég fékk meira að segja borgað í Evrum frá bankanum, þannig að það að halda því fram að þetta kæmi af ágóða tónleikanna var algjörlega galið. Svo var ég plataður í Kastljósið. Ég mætti þangað til að kynna plötu og vissi ekki að ég væri að fara að tala um þetta mál. En á sama tíma og ég er að undirbúa mig undir að fara í Kastljósið er verið að lesa fréttina um mig hinum megin í húsinu á RÚV. Ég var með plötu í hendinni og hélt að ég væri að fara að tala um tónlistina mína í Kastljósinu. Svo var bara komið í bakið á mér með alls konar spurningar í beinni útsendingu án þess að ég hefði hugmynd um að það væri í vændum. En ég náði nú að hrista þetta frekar fljótt af mér. Shakespeare sagði einhvern tíma: „Fólk er fífl“ og ég hafði það í huga í gegnum þetta ferli. En það er ekkert sem þú getur gert þegar fjölmiðlarnir fara af stað með þessum hætti og hringekjan fer af stað. Þetta var í raun og veru bara eins og árás og það er erfitt að skilja hvernig argasta bull getur náð svona miklu flugi. Það er ekki fyrr en löngu síðar þegar rykið er sest sem hægt er að tala um þetta af einhverju viti.“

Átti kvöldstund með þáverandi forsætisráðherra Ítalíu

Kristján hefur búið mjög lengi á Ítalíu og átti þar meðal annars kvöldstund með þáverandi forsætisráðherra Ítalíu, Sylvio Berlusconi.

„Ég hef auðvitað verið þeirrar gæfu aðnjótandi að fá að hitta alls konar fólk í gegnum vinnuna og öll ferðalögin og ég hitti Berlusconi tvisvar sinnum og mér fannst hann alveg hörkukall. Bráðskemmtilegur og stutt í hlátur og svo er hann líka músíkant og mikill gleðigjafi. Ég fékk að verja kvöldstund með honum og hafði virkilega gaman að því. Ég er alveg sannfærður um að mjög mikið sem er sagt um hann er lygi. Það er búið að hengja slæman stimpil á karlræfilinn, en ég er alveg viss um að það er búið að taka mjög mikið úr samhengi þegar kemur að honum,“ segir hann.

Er hálfgerður Ítali

Kristján er búinn að vera stóran hluta ævinnar á Ítalíu og hann elskar land og þjóð.

„Ítalía er yndisleg og mér finnst ég á einhvern hátt vera hálfgerður Ítali. Þetta er upp til hópa yndislegt fólk, opið og tilfinningaríkt og getur rifist og elskað þig á sama tíma. Stutt í brosið og eldinn. Það er ekkert gaman ef það er ekki smá hiti í hlutunum og líf í fólki. Það er „dead boring“ að vera alltaf sammála öllum og það verður bara flatneskja,” segir Kristján, sem segist ekki hafa tekið það mikið inn á sig að finna öfund frá Íslandi í gegnum árin.

„Það er í raun bara hrós að fá öfund og neikvæðni frá ákveðnum hópi fólks og maður verður að læra að horfa á það þannig. Sveitamennska og baktal verður alltaf til staðar og maður getur ekki breytt því. En allir sem láta eitthvað til sín taka eru á milli tannanna á fólki og það er bara óhjákvæmilegur hluti af þessu öllu saman.“

Kristján segir að lífið hafi kennt sér að eitt það allra mikilvægasta sé umburðarlyndi, kærleikur og fyrirgefning:

„Ítalir segja oft að við séum bara gerð úr kjöti og beinum og eiga þá við að við séum öll bara mannleg. Við gerum öll mistök og verðum að fá að eiga möguleika á að bæta okkur þegar við gerum mistök. Það mikilvægasta er að vera heiðarleg manneskja og að vera heiðarlegur bæði við sjálfan sig og aðra, en við getum misstigið okkur. Guð almáttugur fyrirgaf og Jesú Kristur fyrirgaf og við verðum sjálf að kunna að fyrirgefa. Og fólkið þarna úti þarf að kunna að fyrirgefa mistökin líka, þau eru bara eðlilegur hluti af því að vera mennskur.“

Þáttinn með Kristjáni og alla aðra Podcastþætti Sölva Tryggvasonar má nálgast inni á: https://solvitryggva.is

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Julian McMahon látinn

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Útgáfuteiti á föstudag: Hugmyndir um Ísland og Grænland í gegnum tíðina

Útgáfuteiti á föstudag: Hugmyndir um Ísland og Grænland í gegnum tíðina
Fókus
Fyrir 2 dögum

Síðasti Sjens 2025 – Stórtónleikar Retro Stefson

Síðasti Sjens 2025 – Stórtónleikar Retro Stefson
Fókus
Fyrir 3 dögum

Orlando Bloom birtir óræð skilaboð eftir sambandsslitin

Orlando Bloom birtir óræð skilaboð eftir sambandsslitin
Fókus
Fyrir 3 dögum

Afhjúpar það sem sonur hans sagði við hann rétt áður en hann gekk fram af klettabrúninni

Afhjúpar það sem sonur hans sagði við hann rétt áður en hann gekk fram af klettabrúninni