fbpx
Fimmtudagur 16.maí 2024
Fókus

Robbi Kronik fékk veitingabakteríuna: ,,Maður þarf að hjóla sjálfur í hlutina“

Guðrún Gyða Eyþórs Árnadóttir
Sunnudaginn 6. mars 2022 09:00

Róbert Aron Magnússon, Mynd/Ernir Eyjólfsson.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Margir þekkja Róbert Aron Magnússon betur undir nafninu Robba Kronik frá samnefndum þætti á útvarpsstöðinni X-inu. Kronik fór í loftið 1993 og vann sér til frægðar að vera fyrsti útvarpsþátturinná Íslandi sem aðeins spilaði rapp. Robbi var plötusnúður og útvarpssmaður næstu fimmtán árin, spilaði á fjölda veitingastaða og hélt tónleika auk þess að vinna með Iceland Airwaves.

Í dag stefnir Robbi aftur á móti í borgarpólítíkina og sækist eftir sjötta sæti í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins.

Svitnaði kjöti

,,Mig hafði lengi langað að fara út í nám og við ákváðum að flytja til London árið 2005 þar sem ég fór í mastersnám i Business Management. Ég kláraði árið 2008 og þá er aftur á móti komið bankahrun.” Robba fannst lítið vit í að fara heim og ílengtist í London. ,,Við héldum þarna London Airwaves sem var með svipuðu sniði og heima, fullt af tónleikastöðum með bæði íslenskum og erlendum listamönnnum og bara svaka stemning. Ég var einmitt á kafi í tónleikamálum árið 2012 þegar ég fékk símtal og var spurður að hvort ég væri ekki tilbúin að opna Hamborgarabúllunna hans Tomma í London.

Fyrsti ,,pop-up“ Búllustaðurinn í London.

Ég var algjörlega til í það og nokkrum dögum síðan var ég búinn að mappa upp 25 hamborgarastaði og hverfi sem ég vildi skoða. Ég hóaði í Búllugengið út og við borðuðum 25 hamborgara á tveimur dögum. Þar er örugglega versta upplifun ævi minnar, ég svitnaði kjöti í marga daga á eftir.”

Robbi hafði verið alinn upp við ferðalög og heimsótt fjölda veitingastaða í gegnum tíðina. ,,Það hefur alltaf eitthvað verið í mér sem hefur gaman af að njóta þess að borða góðan mat í skemmtilegur andrúmslofti, að upplifa konseptið. Og ég hef mjög sterkar skoðanir á hvað mér finnst gott, skemmilegt og spennandi.”

Búllan var sprengja

Búllan sló í gegn í London.

Búlluverkefnið var fyrsta verkefni Robba í veitingageiranum, honum fannst það afar skemmtilegt og fékk veitingabakteríuna. ,,Við fundum húsnæði sem við máttum hafa í eitt og hálft ár, eiginlega frítt,  með því skilyrði að gera það upp. Það varð algjör sprengja og eigandinn bauð okkar annað húsnæði varanlega. Við opnuðum fjóra staði í London og þá upplifði hvernig Bretarnir gera þetta. Ég lærði allt um fjölbreytileikann og stemninguna við og í kringum mat, hvað skiptir máli, og sökk mér bókstaflega á kaf í þetta. Við megum ekki gleyma að London er risaborg en henni er skipt í hverfi og sum eru ekkert stærri en vesturbærinn. Í hverfunum er öll nærþjónustan, kaupmaðurinn á horninu, skemmtilegur pöbb, veitingastaðir og fólk þarf ekkert endilega að fara svo mikið út úr sínu hverfi.”

HA!!! HVAÐ?

Robbi fór að spá í af hverju ekki væri meira gert af slíku í Reykjavík, af hverju hlutirnir væru ekki einfaldaðir með þvi að gera skemmtilega hluti í nærumhverfi fólks. ,,Þegar ég flyt heim 2016 er ég uppfullur af hugmyndum og sé tækifæri út um allt.  En það er ekki nóg að hafa hugmyndirnar, maður þarf að framkvæma og láta á þær reyna.”

Robbi stofnaði Götubitann – Reykjavík Street Food og tilkynnti borgaryfirvöldum að hann myndi staðsetja sig á bílaplaninu í Skeifunni. ,,Þú getur rétt ímyndað þér hvort ég hafi ekki verið klappaður upp af innviðum borgarinnar þegar ég fór að sækja um leyfi. HA! Ætlarðu að selja mat í gám!? Hvernig er þrifum háttað á bílastæðaplan?! Hvað er starfsmannaaðstaða!? Auðvitað eru reglugerðir en þetta var algjört kúltúrsjokk, kerfið var ekki að höndla nýja hugmynd eins og þessa.”

Mynd/Ernir Eyjólfsson

Robbi hafði leyfamálin þó í gegn og Matarmarkaðurinn með 10 veitingaaðilum, Box í Skeifunni  sló í gegn. ,,Þetta var reyndar rigningarsumarið mikla, ég held það hafi verið tveir sólardagar. En þetta sýndi og sannaði að þetta var eitthvað sem ég vildi keyra á.  Árið 2019 vildi ég breyta til, gera stærri hluti og fór af stað með götubitahátíð á Miðbakka. Ég var búin að grandskoða veðrið og finna út hvaða helgi í júlí væri með besta veðrið og það gekk eftir. Það komu 30 til 40 þúsund manns og þetta var einfaldlega geggjað.”

Gera þarf betur fyrir úthverfin

Leikurinn var endurtekinn á Menningarnótt og Robbi fór að prófa sig áfram með ,,pop-up” staði og vann nokkur rými, meðal annars jólabar á Hafnartorgi við miklar vinsældir. ,,Svo kom Covid og enginn fór lengur út. Ég heyrði í félögum mínum í matarvögnunum og stakk upp á að við gerðum eins konar mathöll á hjólum þar sem fólk gæti keyrt upp að lúgunum að vögnunum.

Það var bullandi stemning í sólinni á Miðbakkanum.

Þetta sló í gegn og það voru allt að 60 bílar í röð við vagnana. Ég er nokkuð viss um að það hafi ekki aðrir verið með þetta sama konsept. Þetta þróaðist í það að við fórum að heimsækja hverfin, enda fundum við þörfina, og þegar upp var staðið höfðum við heimsótt hverfin 200 sinnum. Þessar heimsóknir staðfestu þörfina fyrir bætta þjónustu við hverfin í borginni og ég lærði að gera þarf mun betur fyrir úthverfin.“

Robba bauðst annað tækifæri með gamla skelfiskmarkaðnum sem stóð auður í Covid fárinu. ,,Þarna var upplagt að vera með pop-up markað svo við skiptum húsnæðinu upp í nokkur konsept og þrátt fyrir Covid náðist upp mjög skemmtileg stemning. Við voru þar til loka febrúar 2021.”

Hokinn af reynslu

Matarvagnarnir komu með nýja vídd í íslenskan matarkúltúr.

Eðli málsins samkvæmt var Robbi orðinn hokinn af reynslu að eiga við innviði borgarinnar hvað varðaði leyfamál í veitingageiranum og þekkti málaflokkinn út og inn. ,,Ég var spurður að því hvort ég vildi ekki bara sjálfur fara út í pólitík en ég hafði aldrei haft áhuga á því. En svo fór ég að hugsa málið og áttaði mig á því að ef ég sæti alltaf við borðið sem veitingamaður í stað þess að reyna að hafa áhrif myndi ekkert gerast. Maður þarf að hjóla sjálfur í hlutina. Ég er með reynsluna og þekkinguna eftir að hafa margfarið í gegnum þetta og með fullt af hugmyndum um hvernig má aðlaga kerfið til að gera borgina okkar skemmtilegri. Borgin er jú búin að gera fullt af frábærum hlutum en mig langar að koma að því sem ekki er búið að gera. Og þaðan kemur yfirskriftin mín, Búum til stemningu í borginni. Fólk þarf ekki að vera sífellt hoppandi og hlæjandi, það þarf bara að vinna saman. Það má alltaf gera betur til að allir njóti góðs af, borgarbúar, atvinnurekendur og starfsmenn borgarinnar.

Ný og fersk sýn

Robbi fékk áhuga á borgarmálum í London og er hrifin af hvernig Bretar standa að málum varðandi uppbyggingu hverfa með íbúana í huga. ,,Sumt er afskaplega hægt í London, það getur til dæmis tekið fleiri vikur að stofna bankareikning eða panta internet. En það er himinn og haf á milli þess hvað það er auðvelt að fara í gegnum leyfaferlið þar miðað við hér þar sem þetta er frumskógur. Ég lít einnig á það sem kost að hafa búið úti þetta lengi því það er mikilvægt að fá fólk að borðum sem er með nýja og ferska sýn á hvernig hlutirnir eru gerðir annars staðar.”

Fjölbreytnin er skemmtileg

Robbi er mjög bjartsýnn á framtíð veitingageirans hér á landi, sé rétt að málum staðið. ,,Við vorum 15 árum á eftir nágrannalöndunum en í dag erum við komin ansi nálægt þeim. Fólk vill fjölbreytni í mat og fjölbreytnin er svo skemmtileg.” Robbi tekur sem dæmi innflytjendur og flóttafólk. ,,Þau koma með sína matarmenningu og margir vilja opna eigið veitingahús. En það er sko hreint ekki auðvelt að útskýra það blessaða ferli fyrir fólki. Áður en Covid skall á ákváðum við að setja upp smá kynningu fyrir þennan hóp og það mættu 150 manns á fyrsta fundinn. Við náðum aðeins að halda nokkra fyrir Covid en mig langar að sjá þetta starf eflt.  Við sækjum í fjölbreytnina erlendis, af hverju ekki að gera það sama heima?

Við þurfum líf í borgina okkar og lykillinn er samvinna og stuðningur við góðar hugmyndir,” segir Róbert Aron Magnússon.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt