Vinkonurnar Lína Birgitta Sigurðardóttir, athafnakona og áhrifavaldur, Gurrý Jónsdóttir, snyrtifræðingur og áhrifavaldur, og Sólrún Diego, áhrifavaldur og skipulags- og þrifsérfræðingur, halda úti hlaðvarpinu Spjallið.
Í nýjasta þættinum opnar Sólrún sig og greinir frá því að hún gat ekki borðað fyrir framan fólk í nokkur ár þegar hún var á unglingsaldri. Vinkonurnar spyrja hana nánar út í vandamálið og rifjar þrifsérfræðingurinn upp eitt atvik sem situr enn fast í henni.
Játningin er hluti af nýjum lið í hlaðvarpsþættinum sem kallast „Vissuð þið.“
„Vissuð þið að ég gat ekki borðað fyrir framan fólk í mjög mörg ár, þegar ég var unglingur […] Pælið samt í því að líða þannig, ég bara réði ekki við þetta,“ segir Sólrún Diego.
„Ég hef oft sagt að ég var sjúklega feimin. Það er aðeins búið að eldast af mér, enda kemst ég ekki upp með annað verandi á samfélagsmiðlum. Málið er að mér fannst það sjúklega óþægilegt, ég var ógeðslega svona félagsfælin. Ég var ekki beint með félagskvíða, bara mjög félagsfælin og vildi ekki að fólk væri að horfa á mig borða. Mér fannst það bara ógeðslega óþægilegt.“
„Ég gat alveg verið með vinkonu minni eða fjölskyldu og borðað, en gat ekki borðað fyrir framan eitthvað „random“ fólk,“ segir hún.
Sólrún rifjar upp eitt atvik sem hún segir enn sitja fast í sér, en þetta matarvandamál hennar var mjög slæmt frá sjöunda til níunda bekk.
„Þegar maður var á þessum aldri þá var maður svo mikið að hanga í Kringlunni og ég bjó í Laugardalnum þannig það var ekki langt að fara […] Það var McDonalds á Stjörnutorgi og maður var mikið þar á þessum árum,“ segir hún.
Sólrún segir að þær hefðu yfirleitt verið þrjár vinkonurnar saman. „Þær borðuðu matinn sinn á Stjörnutorgi og svo tók ég matinn minn niður og þær voru með mér í bílakjallaranum á meðan ég borðaði matinn minn og fórum svo aftur inn í Kringluna þegar ég var búin,“ segir hún og bætir við:
„Pælið í því það setti enginn neitt út á þetta.“
Sólrún getur í dag borðað fyrir framan fólk en verður alltaf að vera með bréf.
„Þið hafið tekið eftir því að þegar ég borða er ég alltaf með bréf í hendinni. Því ég get ekki fengið eitthvað subbulegt á hendurnar og það fríkaði mig út […] Ég get misst matarlystina ef ég er að borða og er ekki með bréf. Það er eitthvað að,“ segir Sólrún og veltir fyrir sér af hverju foreldrar hennar gerðu aldrei athugasemd við þessa hegðun hennar.
Þú getur hlustað á þáttinn í heild sinni hér að neðan.