fbpx
Þriðjudagur 22.júní 2021
Fókus

Arna Vilhjálms hamingjusamari og öruggari en nokkurn tíma áður – „Ég er stærri, ég er feitari og ég er að margra mati búin að „eyðileggja allt““

Guðrún Ósk Guðjónsdóttir
Fimmtudaginn 10. júní 2021 20:00

T.v.: Arna í dag. T.h.: Arna fyrir þremur árum.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Arna Vilhjálmsdóttir stóð uppi sem sigurvegari Biggest Loser Ísland árið 2017. Í dag er hún þjálfari og nýtur mikilla vinsælda á Instagram. Þó svo að Arna hafi staðið uppi sem sigurvegari eftir keppnina þá lifði hún í stöðugum ótta um að þyngjast aftur og voru aðrir duglegir að minna hana á að hún þyrfti að passa sig því annars færi hún í sama farið.

Í dag er Arna þyngri en hamingjusamari. Það hefur tekið mikla sjálfsvinnu að komast á þennan stað. Í dag horfir Arna í augun á fólki, eitthvað sem hún gerði ekki áður.

Í gegnum árin hefur það tíðkast að fólk greini frá árangri sínum með „fyrir og eftir“ myndum. Árangurinn er þá þyngdartap og er gjarnan sett samansemmerki á milli hamingju og grennri líkama. En Arna er lifandi sönnun þess að hamingja helst ekki í hendur við minni líkama og varpaði hún þeirri kenningu á brott í færslu á Instagram á dögunum.

Hún birti tvær myndir af sér. Sama manneskjan en þrjú ár á milli mynda.

T.v.: Arna í dag. T.h.: Arna fyrir þremur árum.

„Ég er stærri, ég er feitari og ég er að margra mati búin að „eyðileggja allt,““ segir Arna.

„Arna á fyrri myndinni er með MIKLU meira sjálfstraust. Arna á fyrri myndinni er MIKLU rólegri í sálinni. MIKLU öruggari. MIKLU meira í takt við sjálfa sig. MIKLU kurteisari við annað fólk. MIKLU vingjarnlegri við sjálfa sig. Eyðileggja hvað? Mér finnst ég bara miklu betri manneskja því ég þekki mig betur. Líkaminn minn er bara geymsluhýsi fyrir mig. Þó hann breytist eyðilagði ég ekki neitt. Lífið er EKKI bein lína.“

Við heyrðum í Örnu um myndirnar sem hún birti og skilaboðin sem hún er að senda með þeim.

Hamingja helst ekki í hendur við minni líkama

„Þetta er tvennt ólíkt. Hamingjan felst í því hvernig þú berð þig, hvernig persóna þú ert, hvernig sambönd þú átt við aðra, hvers konar fólk þú umkringir þig með, hvað þú tekur þér fyrir hendur. Ekki það hvernig þú lítur út. Það gerir þig ekki hamingjusama,“ segir Arna.

„Ég er ekki að tala um ef þú ert að stefna að einhverju sérstöku sem getur veitt þér skammvinna gleði. En fyrir venjulega manneskju hefur útlit ekkert með það að gera hversu hamingjusöm þú ert. Þegar upp er staðið er líkaminn bara umbúðir. Ég gæti verið allt önnur manneskja en samt litið svona út. Myndi það breyta einhverju? Ég veit það ekki.“

Arna tók þátt í Biggest Loser Ísland árið 2017 og missti um sextíu kíló. En þegar þyngdartapið er svona mikið á stuttum tíma er mjög erfitt að viðhalda því. Í færslunni segir Arna að að mati margra sé hún „búin að eyðileggja allt.“

„Það varð einhvern veginn kúltúrinn í kringum þetta þegar maður var í Biggest Loser og beint á eftir,“ segir hún. „Maður fékk að heyra að maður þyrfti að halda sér við, passa sig,“ segir Arna og viðurkennir að hún hafi verið mjög smeyk að þyngjast eftir Biggest Loser, að allt færi fyrir bí og hún myndi fara aftur á byrjunarreit.

Arna er þjálfari hjá Kvennastyrk. Mynd/Instagram

Líkamlegi hlutinn aðeins brot af árangrinum

Það tók smá tíma fyrir Örnu að átta sig á því að líkamlegi hlutinn var aðeins 30 prósent af allri vinnunni sem hún vann í Biggest Loser. Mikil andleg sjálfsvinna átti sér stað.

„Öll breytingin á hugarfarinu mínu og hvernig persónuleikinn minn kom fram og hvernig ég hætti að fela mig. En það var miklu meira einblínt á kílóafjöldann og að ef ég myndi missa það þá væri ég búin að eyðileggja allt,“ segir hún.

Áður fyrr átti Arna erfitt með að horfa í augun á fólki. Hún læddist með fram veggjum og fékk oft samviskubit yfir að sitja með vinum sínum því þeir „þurftu“ að sjást með henni. Viðhorf hennar til hennar sjálfrar hefur tekið ótrúlegum breytingum og er það árangurinn sem skiptir máli. Það er afrakstur mikillar sjálfsvinnu sem kemur þyngd ekkert við og hefur allt með andlegt heilbrigði að gera.

Fólk felur sig gjarnan á bak við fitufordóma með því að segjast hafa „áhyggjur af heilbrigði“ annarra. En það sem augað sér ekki er að andlegt heilbrigði og andlegt heilbrigði Örnu var í molum. Nú í stærri líkama er hún sterkari en nokkurn tíma áður. Hún er einnig líkamlega heilbrigð, hreyfir sig reglulega og starfar sem þjálfari hjá Kvennastyrk. En það sem skiptir meira máli er að henni líður vel. Henni líður ekki lengur að þannig að hana langi til að hverfa af yfirborði jarðar.

Arna er öflug á assault bike. Mynd/Instagram

„Það var enginn að spá í því hvernig mér liði. Ég lét eins og allt væri í góðu lagi en grét á kvöldin. Það var mjög erfitt að segja upphátt að þegar ég var ein þá var það eina sem ég gat hugsað að mig langaði ekki að vera hérna lengur,“ segir Arna.

„Það eina sem ég hugsaði eftir að ég var búin í Biggest Loser var: „Ekki þyngjast, ekki eyðileggja allt.“ Og núna, róin sem ég finn vitandi að ég er að hreyfa mig fyrir lífsgæði. Ég hreyfi mig til að geta sagt já ef vinkonur mínar bjóða mér í fjallgöngu. Ég hreyfi mig til þess að geta gengið á milli staða ef bíllinn minn bilar. Ég er ekki í þessu til að vera með útlitslegar kröfur. Þú sérð ekki utan á neinum hversu góðu formi hann er í. Þú sérð það á því hvernig manneskjunni gengur að jafna sig eftir æfingu, hversu fljótur púlsinn er að fara aftur niður. Það er mælingin á því hversu góðu formi þú ert í. Mér er nákvæmlega sama hvað fólk hugsar þegar það horfir á mig, ef það heldur að ég sé ekki í góðu formi. Það ætti að prófa að hjóla með mér á Assault Bike,“ segir hún og hlær.

„Útlit er ekki fókusinn minn og ekki heldur þegar ég er að þjálfa.“

Fylgstu með Örnu á Instagram @arnavilhjalms

Íþyngjandi að setja upp leikrit

Aðspurð hvað hún gerði til að koma sér á þennan stað segist Arna hafa byrjað smátt.

„Það fyrsta sem ég gerði var bara að hætta að spá í því sem ég væri búin að gera og því sem ég átti eftir að gera. Ég tók bara einn dag í einu. Ég hugsaði hvað væri jákvætt við daginn, eins og ég hefði farið á æfingu eða ég hefði eldað kvöldmat sem ég var aldrei vön að gefa mér tíma í. Ég fór að hægja á mér. Ég var alltaf að spá hvað ég væri að gera vitlaust. Ég hætti að spá í því sem ég var ekki að gera og mér byrjaði að vera pínulítið alveg sama. Um væntingar annarra til mín og væntingarnar sem ég hafði til mín.“

Arna viðurkennir að það hefði verið mikill léttir. „Það var mesta þyngdartapið, að losna við allar þessar áhyggjur. Það var svo íþyngjandi að vera alltaf að setja upp eitthvert leikrit.“

Hún einbeitti sér frekar að því að vera kurteis. „Ég var alltaf að passa að allir væru svo góðir þannig að fólkið næst mér fékk að finna fyrir því þegar pirringurinn kom út. Ég ákvað að vera bara ótrúlega góð og hlusta á fólkið í kringum mig frekar en að vera pirruð yfir því að vera ekki týpan sem ég hélt ég „ætti að vera“,“ segir hún.

Neikvæðu hugsanirnar eru eins og lest

Arna byrjaði að tileinka sér jákvæða eiginleika, eins og að vera kurteis, tillitssöm, skilningsrík og vera góð vinkona. „Þannig byrjaði ég líka að vera góð vinkona við mig sjálfa. Því ég vildi koma fram við mig eins og ég var að koma fram við aðra,“ segir hún.

Þó svo að Arna hafi unnið hörðum höndum í sjálfri sér koma auðvitað dagar eða augnablik þar sem hún upplifir neikvæðar tilfinningar í eigin garð, en hún segir að það sem er öðruvísi í dag sé hvernig hún bregst við þeim.

„Gurrý, þjálfari minn í Biggest Loser, sagði einu sinni við okkur að neikvæðar hugsanir séu eins og lest. Þú sérð hana koma og veist af henni, ætlarðu að hoppa um borð og fara með henni eða ætlarðu að leyfa henni að fara framhjá? Ég nota það ótrúlega mikið og það er dæmi um andlega styrkingu sem ég lærði í Biggest Loser sem ég horfði á sínum tíma ekki á sem árangur en er örugglega minn stærsti árangur frá þessu tímabili,“ segir hún.

Fylgstu með Örnu á Instagram.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Í gær

Fyrrverandi meðlimur Quarashi og annálaður fagurkeri selja slotið

Fyrrverandi meðlimur Quarashi og annálaður fagurkeri selja slotið
Fókus
Í gær

Rödd Kötlu – Eldfjallið Katla hefur nú rödd þar sem virknigögnum hennar hefur verið breytt yfir í tónverk af Högna Egilssyni og Netflix

Rödd Kötlu – Eldfjallið Katla hefur nú rödd þar sem virknigögnum hennar hefur verið breytt yfir í tónverk af Högna Egilssyni og Netflix