Föstudagur 26.febrúar 2021
Fókus

Hvernig gerum við gott hjónaband betra?

Ritstjórn DV
Sunnudaginn 24. janúar 2021 21:00

Mynd/Getty

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Kristín Tómasdóttir hjónabandsráðgjafi svarar spurningum lesenda um málefni er varða fjölskylduna, börnin og ástina í Fjölskylduhorni DV. Að þessu sinni svarar Kristín spurningu lesanda sem vill gera gott hjónaband enn betra.

Kristín Tómasdóttir

Sæl, Kristín.

Ég hef verið að lesa pistlana þína og fengið út úr þeim ábendingar sem við hjónin höfum getað nýtt okkur til að gera sambandið betra. Við eigum ekki við neinn sérstakan vanda að stríða en mér finnst mikilvægt að hlúa vel að okkur og muna eftir hjónabandinu í amstri dagsins. Þess vegna langar mig til þess að fá hjá þér hugmyndir að því hvernig við getum sett okkur markmið og verkefni fyrir árið sem stuðla að enn betra og heilbrigðara sambandi.

Bestu kveðjur úr góðu hjónabandi.

Hamingja og vinátta

Já, góðan daginn og gleðilegt ár, kæra góða hjónaband!

Ef allir væru svona forsjálir þá væru mörg sambönd í betri málum. Ég hef stundum sagt í gríni að einhleypt fólk og pör á sínum allra fyrstu stigum í sambandi ættu að standa í biðröð eftir hjónbandsráðgjöf enda eru þá mestar líkur á því að hægt sé að fyrirbyggja vanda í framtíðinni. Og öllu gríni fylgir einhver alvara.

Það getur reynst vel að skoða parsambönd út frá fjórum mikilvægum stoðum, það er vináttu, ástríðu, lífsskoðunum og þekkingu. Allir þessir þættir stuðla að jákvæðum áhrifum í parsambandi og í vinnu minni með pörum nota ég þá oft til þess að greina hvað er gott og hvar þarf að styðja betur við.

Vinátta og þekking

Ef þú spyrð hamingjusöm pör hvers vegna þau séu svona hamingjusöm þá er tíðasta svarið „vinátta“. Þessi breyta endurspeglar ótrúlega margt, það er að segja traust, virðingu, að njóta félagsskapar hvort annars, stuðning og allt það sem annars felst í góðum vinatengslum. Eruð þið hjónin vinir? Njótið þið þess að hanga saman? Leitið þið í stuðning hvort hjá öðru? Ef ekki, þá gætuð þið sett ykkur markmið um að stuðla að meiri vináttu á árinu 2021.

Þekking er sá þáttur sem margir telja sig búa yfir (sérstaklega eftir langt samband) en það þarf ekki að boða gott. Ef við teljum okkur þekkja maka okkar þannig að við þurfum ekki að viða að okkur nýrri þekkingu um viðkomandi, þá er hætta á ferð. Uppáhaldsmaturinn þinn er ekki sá sami og hann var fyrir 15 árum. Við erum stöðugt að breytast og því þarf stöðugt að vera á tánum og kynnast upp á nýtt. Ég mæli með appi sem heitir Card deck, það er sérhannað til þess að stuðla að meiri þekkingu milli maka og skapa dýpri samtöl um efni sem stundum gleymast.

Setja sér ástríðumarkmið

Ástríða er atriði sem margir nota sem mælistiku á ást. Ef þú finnur fiðrildi í maganum, spennu, losta og þrá, þá gera margir ráð fyrir því að það sé skýrt merki um að vera ástfangin. Aftur á móti gætir stundum nokkurs misskilnings þar vegna þess að við getum fundið fyrir ástríðu en skort vináttu og virðingu. Einnig er hægt að vera mjög ástfangin án þess að sambandið sé gríðarlega ástríðufullt. Hvort heldur sem er, þá skemmir held ég aldrei fyrir að auka nánd, spennu og þrá í parsambandi. Það gæti verið hjálplegt að setja sér einhver ástríðumarkmið, til dæmis að skrifa hvort öðru ástarbréf, knúsast á hverjum morgni, stunda kynlíf með öðrum hætti en oft áður (oftar, lengur, á öðrum stöðum o.s.frv.) eða sofa hvort í sínu herberginu einu sinni í viku (það er gott að sakna).

Þegar talað er um lífsskoðanir þá er átt við gildi og hugmyndir fólks um lífið. Ef lífsskoðanir fólks eru líkar þá eru minni líkur á að par deili um minnstu smáatriði og ákvarðanir. En ef annar aðilinn er hægrisinnaður og hinn vinstrisinnaður, annar er kaþólikki og hinn trúleysingi, annar vegan og hinn kjötæta, þá geta skapast vandamál út frá hinum minnstu áskorunum. Við breytum ekki lífsskoðunum annarra svo glatt, en við getum lært að bera virðingu fyrir þeim, vera sammála um að vera ósammála eða mætast á miðri leið. Getur verið að lífsskoðanir ykkar séu ólíkar að einhverju leyti? Er það eitthvað sem væri gott að skoða, kryfja og ræða við upphaf nýja ársins? Mögulega getur slík umræða fært ykkur nær hvort öðru og varpað skýrara ljósi á sýn ykkar sem einstaklinga í parsambandinu.

Tengsl lykilatriði

Að lokum finnst mér alltaf gott að vitna í langtímarannsókn sem er enn í framkvæmd við Harvardháskóla um hamingju og heilbrigði karlmanna. Rannsóknin hófst fyrir rúmum 70 árum og var ætlað að skoða hvað það væri sem gerði 750 karlmenn hamingjusama og heilbrigða. Í dag eru 60 þeirra enn á lífi, þeir hafa sætt reglulegum, ítarlegum rannsóknum meirihluta ævi sinnar og niðurstöðurnar eru skýrar. Sú breyta sem hafði mest áhrif á það hvort þessir 750 karlmenn voru líkamlega og andlega heilbrigðir heitir tengsl!

Tengsl við maka, vini, systkini eða vinnufélaga, tengslin þurftu ekki að vera mörg en því sterkari, því betra. Lokasvar mitt til þín er því að með því að styrkja tengslin ykkar á milli, verja tíma saman, ræða saman og hlúa hvort að öðru, þá eruð þið að auka líkurnar á því að þið bæði verðið hamingjusamari og heilbrigðari og sambandið verði sterkara og betra. Njótið þess.

Við hvetjum lesendur til að senda spurningar og vangaveltur sínar til Kristínar í tölvupósti á: hjonabandssaela@gmail.com.

Spurningunum verður svo svarað hér í Fjölskylduhorninu, að sjálfsögðu nafnlaust og í fullum trúnaði.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Í gær

Himinlifandi með „nýju píkuna“ og getur ekki beðið eftir því að stunda kynlíf

Himinlifandi með „nýju píkuna“ og getur ekki beðið eftir því að stunda kynlíf
Fókus
Í gær

56 ára og stundar kynlíf oft á dag með manni sem er 20 árum yngri – Segir þetta vera lykilinn að betra kynlífi

56 ára og stundar kynlíf oft á dag með manni sem er 20 árum yngri – Segir þetta vera lykilinn að betra kynlífi
Fókus
Fyrir 2 dögum

Bólulæknirinn með enn eina negluna – „Hann fær þetta frá mömmu sinni“

Bólulæknirinn með enn eina negluna – „Hann fær þetta frá mömmu sinni“
FókusNeytendur
Fyrir 2 dögum

Ert þú lúxuspési? – Taktu könnunina

Ert þú lúxuspési? – Taktu könnunina
Fókus
Fyrir 3 dögum

„Ég sagði þeim upp á spítala að það væri stærsta aukaverkunin af lyfinu – þessi andlegi léttir og að losna við þennan gamla draug“

„Ég sagði þeim upp á spítala að það væri stærsta aukaverkunin af lyfinu – þessi andlegi léttir og að losna við þennan gamla draug“
Fókus
Fyrir 3 dögum

Drew Barrymore opnar sig um dvöl sína á geðdeild – Læst inni í herbergi með hendur bundnar fyrir aftan bak

Drew Barrymore opnar sig um dvöl sína á geðdeild – Læst inni í herbergi með hendur bundnar fyrir aftan bak