Nýjasti viðmælandinn í hlaðvarpinu Það er von er Kara Guðmundsdóttir. Kara er Hnefaleikakona ársins, fyrrum meðlimur í kokkalandsliði Íslands, sálfræðinemi og hefur verið í bata frá fíknisjúkdómi í rúm sex ár.
Kara segir frá því að hún hafi byrjað ung í neyslu hugbreytandi efna og tók hún pönkið alla leið. Aðspurð segist Kara vera nýbúin í sjálfsvinnu sem snýr að því hvað varð til þess að hún hafi leitað í neyslu á sínum tíma.
„Ég á tvö yngri systkini og foreldrar mínir voru ekki saman, ég upplifði mig alltaf útundan þó það væri ekki þannig,“ segir Kara.
Hún útskýrir hvernig hún átti ekki samleið með samnemendum sínum og jafnöldrum í grunnskóla enda farin að nota hugbreytandi efni og mikill pönkari með stóra og litríka hanakamba.
„Ég byrjaði að hanga á Hlemmi og eignaðist þar félagsskap þar sem ég var samþykkt. Ég tók strætó þangað og hitti þar nýju familíuna mína,“ segir Kara og talar um að hafa verið yngst í þeim hópi og þar tilheyrði hún hópi fólks sem bjó á götunni. Neyslan þróaðist hratt á þessum tíma. „Ég man allt í tímabilum en man ekki röðina. Það er erfitt að tala um þetta en ég fór í sprautuneyslu.“
Pabbi Köru gerði henni tilboð um tvítugt, bauð henni á námskeið til Amsterdam, hún þurfti aðeins að gefa námskeiðinu séns í einn dag og ef það væri ömurlegt mætti hún gera það sem hún vildi restina af ferðinni. Kara segir að það hafi vaknað einhver von hjá henni í þessari ferð og tengingin við pabba hennar hafi verið góð.
„Ég næ að tengjast pabba, ekki bara hann að skamma mig eða leita að mér,“ segir Kara en eftir þetta hóf hún nýja vegferð, byrjaði í kokkanámi og reyndi að vera edrú. Fyrsta árið gekk illa en eftir það sneri hún blaðinu við, hefur náð ótrúlegum árangri og unnið mörg verðlaun á stórmótum.
Þegar Kara ákvað að verða edrú lét hún sig hverfa úr neysluheiminum og flutti til mömmu sinnar.
„Ég vann, svaf og æfði box. Ég hitti stelpu sem var með mér í neyslu þremur árum seinna og hún sagði mér að fólk hafi haldið að ég hefði bara dáið, það segir ýmislegt um það hvernig staðan var,“ segir Kara.
Hún talar um að neysla sé aldrei ævintýri, undirheimarnir séu ljótir, hún hafi upplifað mörg áföll og sé enn að vinna mikla sjálfsvinnu sem hvergi nærri sé lokið. „Ég fór mína leið í þessu og ef ég hefði ekki haft boxið væri ég líklega ekki hér í dag.“
Umræðan fer út í tilfinningar Köru, hún talar um mikla reiði og skömm og á hún enn þann dag í dag erfitt með að opna á þetta og finnst erfitt að skilja hvernig foreldrar hennar tóku henni án allra skilyrða þegar hún ákvað að verða edrú.
„Slæmar upplifanir eða áföll þurfa ekki bara að vera slæmar ef maður tekur atvikin og vinnur úr þeim á heilbrigðan hátt og heldur svo áfram með lífið. Maður getur notað það til góðs og byggt upp karakter,“ segir Kara.
Hægt er að hlusta á þáttinn í heild sinni hér fyrir neðan.