fbpx
Laugardagur 26.september 2020
Fókus

Margrét Erla Maack: Mesta pönkið að vera sáttur við sjálfan sig

Erla Hlynsdóttir
Laugardaginn 8. ágúst 2020 07:00

Margrét Erla Maack Mynd/Ernir

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Margrét Erla Maack upplifði fæðingardepurð eftir að hún eignaðist dóttur sína og er fyrst nú að verða aftur hún sjálf. Hún segir skemmtilegast að kenna „burlesque“ þar sem konur vilja eiga samtal við sjálfa sig og hvar þær standa í sínum þokka. 

Þetta forsíðuviðtal við Margréti Erlu birtist fyrst í helgarblaði DV 31. júlí.

Portið fyrir framan Kramhúsið er umvafið byggingum og þegar það er gott veður þá er hvergi betra að vera en einmitt í þessu porti. Þar er algjört logn og sjóðandi heitt. Það var á einmitt þannig degi sem ég hafði mælt mér mót við Margréti Erlu Maack í einmitt þessu porti. Þegar ég kem auga á hana sé ég að hún er bara á brjóstahaldaranum en ekki nóg með það heldur er hún að klæða sig úr gallabuxunum. „Ég bara get ekki verið í fötum í þessum hita,“ segir hún. Ég er sammála, finnst hitinn þrúgandi en ákveð þó að halda mig í fötunum. Ég er jú í vinnunni. Út af COVID-19 tökumst við auðvitað ekkert í hendur þó við séum að hittast í fyrsta skipti. Keyrum þetta bara í gang.

Margrét Erla Maack er svo ótrúlega margt. Hún er vinsæll plötusnúður, veislustjóri, dansari, danskennari og spurningahöfundur. Hún stýrði „burlesque“sýningunni Reykjavík Kabarett þar sem gestir ýmist hlæja sig máttlausa eða roðna niður í tær og nú kabarettsýningunum Búkalú sem eru stranglega bannaðar innan 20 ára og „hentar ekki þeim sem hræðast undur mannslíkamans“ eins og segir í auglýsingu. Þá kennir hún í sérsniðnum hópatímum í Kramhúsinu þar sem gæsa- og steggjaveislur njóta sérstakra vinsælda en hefur raunar verið aflýst að sinni vegna faraldursins. Listinn er endalaus.

Mynd/Ernir

Síðustu níu mánuði hefur hún síðan sinnt glænýju hlutverki, móðurhlutverkinu. „Ég ætlaði alltaf að verða mamma. Ég átti bara erfitt með að finna rétta manninn til að koma í þetta með mér. Ég ætlaði alltaf að eignast fullt af börnum en stundum hugsa ég að þetta sé kannski bara komið gott. Stelpan mín er svakalega hress og þá meina ég svakalega hress. Hún er mjög skemmtilegur krakki en það er ekkert til hjá henni sem heitir slökun,“ segir hún.

Barnsfaðir Margrétar Erlu heitir Tómas Steindórsson og dóttir þeirra ber nafn móður Margrétar Erlu og svo móður Tómasar – Ragnheiður Nína. „Þetta er smá púsl hjá okkur núna því pabbi hennar er í fullri vinnu en ég í hálfri vinnu. Það er samt eiginlega slegist um að fá að passa hana sem er mjög jákvætt. Það er eru ekki allir sem búa við þann lúxus að hafa bakland hjá báðum foreldrum og að það fólk sé til í að hjálpa.“

Fjárhagsáhyggjur í fæðingarorlofi

Í hugum margra er Margrét Erla einhvers konar ímynd gleðinnar. Í raun er hún hins vegar núna að verða aftur hún sjálf eftir barnsburðinn. „Ég fór ofboðslega langt niður eftir fæðinguna. Í ungbarnaeftirlitinu spurðu þær mig mikið um líðan mína. Ef ég hefði fengið tíu stig á spurningaskalanum sem var lagður fyrir mig hefði ég verið send til sálfræðings en ég fékk bara níu stig. Mér finnst mjög merkilegt að ég gerði mér ekki grein fyrir því á sínum tíma hvað ég fór langt niður. Það er bara núna sem ég er að koma aftur sem ég átta mig á því. Þetta var í raun klassísk fæðingardepurð og ég held að margt hafi spilað þar inn í,“ segir hún. Dóttirin fæddist í október sem er einmitt á þeim tíma sem mörg fyrirtæki eru að bóka veislustjóra og skemmtikrafta fyrir árshátíð. „Ég þurfti að segja nei við svo marga sem dró mig niður og ég hafði áhyggjur af því að síminn myndi hreinlega hætta að hringja. Þarna spila fjárhagsáhyggjur auðvitað inn í.“

Margrét Erla er almennt sjálfstætt starfandi og þegar hún var ólétt komst hún að því að hún ætti afar lítil réttindi inni hjá Fæðingarorlofssjóði. Hún greip því til þess ráðs að hefja hópfjármögnun til að eiga fyrir fæðingarorlofinu og þeir sem hétu á hana gátu meðal annars keypt danstíma, námskeið í veislustjórn eða miða á Búkalú. „Þetta tókst vel og það var gaman að finna þennan mikla meðbyr. Það skipti mig líka máli að heyra frá mörgum sem sögðust hafa verið í sömu stöðu. Þetta voru ekki bara sjálfstætt starfandi listamenn, listamannaafæturnar, heldur líka mikið af fólki í frumkvöðlastarfsemi. Mjög margir höfðu lent í því að eiga von á barni einmitt eftir árið þar sem fólk var að færa fórnir til framtíðar í sinni nýsköpun.“ Þó söfnunin hafi gengið vel logaði hins vegar athugasemdakerfi fjölmiðla.

Ekkert bara „kík-í-píkí”

„Mér finnst allt í lagi að vera illa gefinn en það er annað að vera illa innrættur. Ég las alls konar athugasemdir um mig sem ég tók mjög inn á mig. Þarna var fólk sem sagði að ég ætti nú bara að borga mína skatta. Ég hef hins vegar alltaf borgað mína skatta. Um ári áður en ég varð ólétt átti ég ágætan varasjóð og ákvað að taka þátt í uppsetningu Borgarleikhússins á Rocky Horror sem mér fannst skemmtilegt verkefni. Fæðingarorlofssjóður miðar við tekjur árið áður en þú eignast barnið og það kom aldeilis í bakið á mér. Mér finnst leitt að það fari eftir starfsstéttum hvort fólk hafi efni á að eignast slysabarn og mér finnst tvöfalt siðgæði fólgið í því,“ segir Margrét Erla en bætir við: „Hún var slysabarn en auðvitað veit ég hvernig börnin verða til. Ég bara bjóst við því að það tæki lengri tíma fyrir mig að verða ólétt, komin á þennan aldur og svona. En þetta gerðist líklega bara í fyrsta skoti. Maðurinn minn er auðvitað svo ungur,“ segir hún og hlær.

Hún er 36 ára en Tómas er 29 ára. Áður en hún komst að því að hún væri ólétt sagði nákomin kona henni frá því að hún væri með öll helstu einkenni PCOS, fjölblöðrueggjastokkaheilkennis, sem hefur áhrif á frjósemi. „Ég fór því til læknis til að láta athuga þetta. Arnar Hauksson kvensjúkdómalæknis sagði þá að það væri enginn frjósemisvandi að hrjá mig því ég væri komin 8 vikur á leið. Ég hef líklega orðið ólétt um það leyti sem ég tók síðustu pilluna.“

Mynd/Ernir

Hér grípur blaðamaður inní til að lýsa yfir ánægju sinni með læknisheimsóknir til Arnars sem er orðinn goðsögn í bransanum. Margrét Erla tekur undir. „Ég elska hann. Hjá kvensjúkdómalæknum hugsar maður oft bara „Plís, kláraðu þetta.“ Arnar Hauksson er hins vegar maður sem ég hlakka til að fara til. Það er ekkert bara „kík-í-píkí“ heldur veitir hann manni sálgæslu. Arnar er einstakur maður.“

Dansbröltið er vinnan mín

Margrét Erla og Tómas kynntust á Tinder. Hann sendi henni þá skilaboðin: „Þú varst að „matcha“ við þinn stærsta aðdáanda í Útsvarinu.“ Hún hafði þá verið keppandi í þættinum fyrir hönd Reykjavíkur. Margrét Erla kunni vitanlega vel að meta þessi orð Tómasar. „Mér fannst bæði fyndið ef hann væri að meina þetta en líka fyndið ef hann væri að grínast. Síðan var hann að meina þetta, sagði að honum hefði fundist ég svo fyndin og klár í Útsvari. Á okkar fyrsta stefnumóti kom hann heim til mín með kíló af nammi af nammibarnum í Hagkaup og við horfðum á nokkra þætti af Útsvari. Ég held að það geti alveg verið varhugavert að fá fólk heim til sín á fyrsta stefnumóti en þetta gekk upp og hann fór eiginlega ekki eftir þetta.“

Hún segir tilhugalífið með Tómasi hafa verið öðruvísi en hún átti að venjast. „Hann er svo heill og sannur, hefur ekkert að fela. Hann er sveitastrákur og ég held að það skipti máli að hann er ekki með neina komplexa. Hann er stór og sterkur og þarf ekkert að púffa sig upp til að þykjast vera annað en hann er. Hann á líka fallegt samband við fjölskylduna sína sem skiptir mig máli. Hann var líka til í að segja: „Margrét, láttu ekki svona!“ Það hafði enginn talað þannig við mig. Hann mætir mér líka alltaf sem jafningja.“

Mynd/Ernir

Þangað til hún kynntist Tómasi höfðu sambönd oft strandað á stöðum sem komu henni mjög á óvart. „Ég kannski byrjaði með einhverjum sem hafði heillast af því að ég var DJ eða með „burlesque“ sýningar. Nokkrum mánuðum seinna fóru þeir svo að spyrja hvenær ég ætlaði nú að hætta þessu dansbrölti. Þetta dansbrölt var hins vegar vinnan mín. Ég upplifði að þeim fyndist ég mega sýna á meðan ég var einhleyp en þegar við værum komin í samband væri ég orðin þeirra eign. Tómas hefur aldrei sýnt mér svona viðhorf. Hann hefur alltaf sýnt mér og starfinu mínu virðingu og finnst bara geggjað það sem ég er að gera.“

Tekur kommentin inn á sig

Margrét Erla viðurkennir að í gegnum árin hafi athugasemdakerfi fjölmiðla tekið á taugarnar. Áður en þetta viðtal er tekið tilkynnir blaðamaður henni að það sé ekkert mál að loka athugasemdakerfinu á dv.is þar sem viðtalið birtist á endanum. „Mér finnst svo þreytandi hversu margir eru tilbúnir til að segja að ég sé athyglissjúk tussa þegar fjallað er um mig í fjölmiðlum. Ég man eftir því þegar ég var í atvinnuleit og setti inn frumlega færslu um það á Facebook sem blaðamaður vildi síðan birta því honum fannst þetta skemmtileg leið til að leita að vinnu. Kommentakerfið fylltist þá af athugasemdum frá fólki sem sagðist nú eiga frænda sem væri líka að leita að vinnu en það hefði enginn skrifað frétt um það. Auðvitað á maður ekki að taka þetta inn á sig en maður gerir það samt. Dropinn holar steininn. Það kemur mér alltaf jafn mikið á óvart hvað fólk getur verið illa innrætt.“

Hér skal tekið fram að DV hafði samband við Margréti Erlu að fyrra bragði og óskaði eftir viðtali við hana. „Þegar á hólminn er komið myndi ekkert af þessu fólki tala svona við mann persónulega. En þegar valdamesti maður í heimi talar eins og hann talar þá er búið að gefa ákveðið leyfi fyrir því að segja hluti sem samræmast ekki almennri kurteisi. Ég held að fólk sem segir þessa ljótu hluti á netinu sé að leita að mannlegum samskiptum og sé hreinlega komið á þann stað að það vill óheilbrigð samskipti frekar en engin. Auðvitað hafa þessar neikvæðu athugasemdir áhrif á mig þrátt fyrir að þau jákvæðu séu alltaf miklu fleiri. Röksemdafærslan um að ég hafi nú farið í þetta viðtal og geti því átt von á þessu slá mig samt bara eins og að ég hafi nú bara verið að bjóða upp á ýmislegt því ég var í of stuttu pilsi.“

Hér er komið að játningu hjá blaðamanni: „Ég hef aldrei áður tekið viðtal við neinn sem fækkar fötum.“ Margrét Erla spyr hvort ég sé þá að tala um í viðtalinu sjálfu eða almennt. Blaðamaður: „Allavega ekki í viðtalinu sjálfu.“

Útrás og spenna

Það var árið 2007 sem hún datt inn í kabarett-senuna í New York. „Þá byrjaði þetta allt. Í sömu vikunni hætti kærastinn með mér og ég vann milljón í Happdrætti Háskólans. Ég ákvað þá að fara til New York og læra dans.“ Hún hafði raunar lært dans frá unga aldri og meðal annars verið í ballettskóla. Í gegnum vini vina kynntist hún „burlesque“ heiminum þarna úti og þegar hún kom aftur heim saknaði hún þess að hér væri engin slík menning. Hún sá þó auglýsingu í Kramhúsinu um ókeypis sirkustíma og lét slag standa.

Mynd/Ernir

„Hér í Kramhúsinu er mikil gróðrarstía ýmissa listahópa. Þessir tímar eru það sem síðan varð að Sirkus Íslands og stofnandi sirkussins borgaði salarleiguna með því að mála þakið.“ Margrét Erla segist á þessum tíma ekki síst hafa heillast af áherslu á jákvæða líkamsímynd. „Mig langaði að tala um þessi mál og vekja athygli á því að ef ég væri að sýna á sviði þá væru svo margar konur sem ættu ekki að óttast að mæta í sundklefann. Þetta veitti mér líka ákveðna útrás og stundum hugsaði ég um fyndin atriði sem væru enn fyndnari ef ég myndi sýna þau í engum buxum. Ég er líka alltaf þakklát fyrir það fólk sem tekur þátt í sýningunum með mér. Við erum allskonar og það er ekkert skemmtilegt ef allir fara úr fötunum og gaman að vita aldrei hvað gerist næst.“

Þrátt fyrir gríðarlega fjölbreytt starf er hún ekki í neinum vandræðum með að nefna hvað er skemmtilegast. „Að kenna burlesque og kabarett. Á námskeiðin koma konur sem vilja eiga samtal við sjálfa sig og hvar þær standa í sínum þokka. Oft koma konur eftir barnsburð sem eru í sömu glímu og ég núna. Hver á þennan líkama? Líkaminn er þá orðinn matarbú fyrir nýja manneskju og það sem við sjáum í speglinum er ekki endilega það sem við tengjum við. Mér finnst líka alltaf gaman að fá konur á námskeið sem segja í lokin, eins og þær séu hissa: „Ég var nú bara svolítið flott.“

Margrét Erla segir það skipta sig miklu að veita nýja sýn á kvenmannslíkamann. „Oft hugsa konur bara: Er ég sæt núna? En núna? Ég vil sýna kvenmannslíkamann sem sterkann, fyndinn og skrýtinn Að á bak við kroppinn sé manneskja með kímnigáfu, væntingar og þrár.“

Svo „flott kona”

Hún vakti mikla athygli á sínum tíma þegar hún leysti Ragnhildi Steinunni Jónsdóttur af í Kastljósinu en fékk skilaboð sem henni fundust misvísandi. „Fólk sendi mér skilaboð um að það væri svo hressandi að sjá „svona konu“ á skjánum. Fólk fór endalaust í kring um þessi einföldu skilaboð: „Þú ert feit.“ Málið er að ég var ekki einu sinni feit á þessum tíma heldur í stærð 12-14. Ég fékk líka oft að heyra að ég væri svo „flott kona“. Ef einhver segir konu vera „flotta“ þýðir það í mínum huga að hún sé aðeins of feit, aðeins of gömul eða aðeins of gráhærð. Fyrir mig þýðir „flott kona“ að hún passi ekki inn í þennan hefðbundna fegurðarstaðal. Mér þykir reyndar alltaf vænt um þessi skilaboð því þau koma frá fallegum stað. Á sínum tíma fannst mér „feit“ vera neikvætt orð en núna upplifi ég það einfaldlega sem lýsingu á fólki. Að vera feitur þýðir ekki að vera ljótur.“

Mynd/Ernir

Skilaboðin sem hún fékk sem dagskrárgerðarkona í Kastljósi sneru síðan minnst að eiginlegu starfi hennar heldur frekar að því hvar hún hefði fengið hin og þessi föt. „Ég fæ oft skilaboð frá konum um að þær vildu óska að þær elskuðu líkama sinn eins og ég ég elski líkama minn. Ég elska hann ekki. Mér er sama. Sú staðreynd að mér er sama er svo miklu meiri ást en það hatur sem okkur er kennt að upplifa í garð líkama okkar. Mér er sama þó það sjáist í nærbuxnafar. Mér er sama þó ég sé núna með stærri maga en venjulega. Ég hef sparað mér svo mikinn tíma, fyrirhöfn og leiðindi með því að vera sama,“ segir hún í kæfandi hitanum í portinu við Kramhúsið, klædd nærbuxum, sokkum og brjóstahaldara.

„Þegar ég varð 35 ára fór ég að sjá svo miklu meira af megrunarauglýsingum á Facebook. Markaðurinn segir að þegar þú ert kona yfir 35 ára þá áttu að hata þig mjög mikið. Það hefur áður verið sagt að kapítalisminn myndi falla um sjálfan sig ef við myndum öll vakna á morgun, vera ánægð með líkama okkar og hugsa: „Djöfull er ég sæt í dag.“ Heilu fyrirtækin eru rekin á þeim grundvelli að fólk hati líkama sinn og þurfi að breyta honum, bæði konur og karlar. Mesta pönkið núna er að vera ánægður með sjálfan sig, vera sáttur. Mér finnst það fallegt orð. Vera sáttur við sjálfan sig.“

Lokað er fyrir athugasemdir
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Handritshöfundur Ráðherrans um fyrstu viðbrögð landsmanna – „Ekki dulinn vilji að cancela VG“

Handritshöfundur Ráðherrans um fyrstu viðbrögð landsmanna – „Ekki dulinn vilji að cancela VG“
Fókus
Fyrir 2 dögum

Sjáðu myndbandið: Dúa og Lance höfðu ekki hitt hvort annað mánuðum saman – „Ég er svo stressuð“

Sjáðu myndbandið: Dúa og Lance höfðu ekki hitt hvort annað mánuðum saman – „Ég er svo stressuð“
Fókus
Fyrir 3 dögum

Faðir Aðalsteins svipti sig lífi – „Ég hugsa nánast um þetta á hverjum einasta degi“

Faðir Aðalsteins svipti sig lífi – „Ég hugsa nánast um þetta á hverjum einasta degi“
Fókus
Fyrir 4 dögum

Tíu skipti þar sem Ellen DeGeneres fór yfir strikið.

Tíu skipti þar sem Ellen DeGeneres fór yfir strikið.
Fókus
Fyrir 4 dögum

Getur þú fundið hringina á sjónhverfingunni á innan við 10 sekúndum?

Getur þú fundið hringina á sjónhverfingunni á innan við 10 sekúndum?
Fókus
Fyrir 4 dögum

„Á hinsegin nótum“ í Hörpu – Tónlist hinsegin listamanna spiluð og gerð skil

„Á hinsegin nótum“ í Hörpu – Tónlist hinsegin listamanna spiluð og gerð skil