fbpx
Föstudagur 26.apríl 2024
Fókus

Lagði frá sér nautasteikina og tók upp símann – Nokkrum dögum síðar var hann orðinn yfirlæknir á COVID-göngudeild

Tobba Marinósdóttir
Mánudaginn 1. júní 2020 20:34

Ragnar Freyr stendur COVID-vaktina Mynd/Anton Brink

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Ragnar Freyr Ingvarsson, gigtar- og lyflæknir, er mörgum kunnur sem Læknirinn í eldhúsinu. Hann hefur gefið út fjölda matreiðslubóka og stýrt vinsælum matreiðsluþáttum. Lífið er þó ekki eintóm veisla hjá þessum harðduglega lækni, sem fór fyrir COVID-19 teymi Landspítalans í miðjum heimsfaraldri

Meðfylgjandi viðtal birtist í helgarblaði DV 22. maí síðast liðinn

Ragnar er alinn upp í Hlíðunum í Reykjavík. Hann á einn yngri bróður, sem er búsettur í Berlín, og er náinn foreldrum sínum. Aðdáunin skín úr augunum þegar hann talar um fjölskylduna. Pabbi Ragnars er Ingvar Sigurgeirsson, prófessor við Menntavísindasvið Háskóla Íslands, og móðir hans er Lilja María Jónsdóttir, lektor við sama svið. „Mamma lauk doktorsprófi 64 ára fyrir framan fullan sal af fólki og með Vigdísi Finnbogadóttur á fremsta bekk. Hún gerði það með bravör,“ segir Ragnar

Læknir eða lögfræðingur

Ragnar ætlaði sér aldrei neitt sérstaklega að verða læknir. „Ég hefði alveg eins getað orðið kennari eða lögfræðingur. Ég man aldrei eftir að hafa fengið þá hugmynd að verða læknir. Ég man ekki einu sinni eftir að hafa sótt um. Ég hef hreinlega ekki grænan gvend. Mig langaði bara í eitthvert krefjandi nám. Þetta var kannski svona eftir á að hyggja áskorun, að velja erfitt nám og sjá hvort ég myndi ráða við það.

Ég er í dag mjög feginn að hafa ekki orðið lögfræðingur. Ég held að það hefði ekki dregið fram mína bestu mannkosti. Ég sé fyrir mér að ég hefði orðið steríótýpan af erfiðum lögfræðingi sem hefði farið í eitthvert brask, enda er ég áhrifagjarn með eindæmum,“ segir hann og brosir. „Ég get líka verið ansi frekur.“

Ragnar þekkir veikleika sína og getur auðveldlega gert grín að þeim. „Ég er svo hrifnæmur. Ef einhver kemur með einhverja hugmynd til mín, er auðvelt að hrífa mig með og ég verð mjög spenntur. Ætli ég sé ekki stemningsmaður.

Ragnar viðurkennir að þegar kom að bókakaupum fyrir læknanámið hafi hann áttað sig á alvöru lífsins. „Ég hugsaði bara: Hver fjárinn, hvað er ég að gera hérna? Þetta voru þvílíkir doðrantar. Ég endaði á að þurfa að fara í numerus clausus tvisvar (inntökuönn í læknadeild). Ég kunni ekki almennilega að læra á þessum tíma.“

Ragnar þurfti að læra að læra
Mynd /Anton Brink

Notaði sérstaka námstækni

Ragnar gekk í Menntaskólann við Hamrahlíð og þar fékk stemningsmaðurinn að njóta sín. Læknirinn tilvonandi ritstýrði skólablaði MH, var í kór og lagði stund á leiklist. „Þegar ég byrjaði í læknanáminu kunni ég ekki almennilega að læra. Ég þurfti að læra að læra. Ég fór meira að segja og talaði við eiginmann frænku minnar sem hafði gefið út bók um námstækni.

Ég las bókina hans og þar var fullt af aðferðum sem ég tileinkaði mér og hef nýtt mér síðan. Til dæmis hugsa ég öll kaflaheiti og millikafla sem spurningarmerki og les alla kafla með það að leiðarljósi að svara spurningunni. Það bætir minnið við lestur kaflans. Svo eru það „the 4 r’s“, read, review, recite, recall. Það gengur út á að lesa hratt og skima yfir og velja sérstök orð og talar um þau upphátt og á endanum getur þú lært nánast heilu kaflana utan að.“

Eftir þetta gekk Ragnari vel að læra. Fyrstu þrjú árin voru mikið bóknám. „Svo snýst þetta pínulítið um að ljúga að sjálfum sér að manni finnist vefjafræði og líffærafræði skemmtileg. En svo varð þetta rosalega gaman um leið og klínísku fögin komu. Þá áttaði ég mig líka á því að ég vissi ekkert um hvað læknisfræðin snerist. Mín hugmynd um að verða læknir var allt önnur en starfið reyndist vera. Sem betur fer. Ég var ungur og barnalegur og hugsaði í steríótýpum. Ég sá fyrir mér að læknir væri föðurleg, yfirgnæfandi týpa. En svo er þetta alls ekki þannig.

Þetta er auðmjúkt starf þar sem þú reynir að þjónusta fólk úr öllum stigum samfélagsins. Þetta er þjónustustarf þar sem þú reynir að greiða götu fólks. Læknisfræðin er eitt, en svo er það allt annað að geta talað við fólk – blanda af þessu er læknislistin.“

Ragnar segist feginn að starfið sé ekki eins og hann hafði ímyndað sér út frá sjónvarpsþáttum. „Það hefði verið glatað að sitja uppi sem föðurlegur fantur úr Grey’s Anatomy.“

Læknirinn ekki alltaf lausnin

Gigt er flókið fyrirbæri og alls ekki sá sjúkdómur sem virkar hvað mest aðlaðandi fyrir ungan lækni að sérhæfa sig í. „Fólk hugsar bara um göngugrindur og gamalt fólk þegar það er minnst á gigt. Það er þó alls ekki raunin. Stærsti hluti starfs gigtarlæknisins er að fást við sjúklinga sem glíma við liðagigt, hryggikt, sóragigt eða rauða úlfa, til dæmis

Svo eru aðrir sjúkdómar eins og vefjagigt, sem er ekki bólgusjúkdómur heldur verkjaheilkenni. Vefjagigtarsjúklingar vilja oft koma til okkar gigtarlækna og vona að við getum gert eitthvað fyrir þá, en sú meðferð sem þeir þurfa er gjörólík meðferðum sem notaðar eru við bólgusjúkdómum og í raun gera læknar ekki mikið gagn fyrir vefjagigtarsjúklinga, nema kannski að veita góð ráð eða stuðning. Lyfjameðferð er oft bara til vansa.

Heppilegra er að vera hjá góðum og skilningsríkum sjúkraþjálfara og sálfræðingi, sem getur aðstoðað við andlegu hliðina við að vera að þjást af langvinnum verkjum. Læra núvitund og hitta svefnráðgjafa. Meðhöndla þarf alla undirliggjandi geðsjúkdóma og styðja þannig við betri líðan.“

Vill sjá sjálfstætt rekna heilbrigðisþjónustu í bland við ríkisrekna

Aðgengi er stóra málið

Ragnar segir Ísland vera með gott aðgengi að heilsugæslu og sérfræðiþjónustu og þess vegna sé íslenska heilbrigðiskerfið í grunninn gott, þó að við borgum minna fyrir það (sem hlutfall af vergri landsframleiðslu).

„Ástæðan fyrir því að það er gott, er gott aðgengi, sem er lykillinn að góðu kerfi. Ef þú veist að þú kemst fljótt til læknis, að læknirinn talar við þig og passar upp á þig, þá er ekki þetta stressmóment. Ekki þessar vangaveltur um það hvort þú komist til læknis, eða hafir efni á því. Ég held að það sé meðal annars þess vegna sem við komumst upp með að borga 3 prósentum minna af vergri landsframleiðslu í heilbrigðisþjónustu en nágrannaþjóðir okkar í Skandinavíu.“

Ragnar er talsmaður sjálfstætt rekinnar heilbrigðisþjónustu í bland við ríkisrekna. „Þetta er líklega besta fjárfesting sem gerð er á Íslandi. Þjónustan mín á stofunni minni kostar fjórðung af því sem hún kostar í Svíþjóð og þriðjung af því sem hún kostar í Bretlandi. 350 læknar á sjálfstætt starfandi stofum sinna 500.000 þúsund læknisheimsóknum á ári – og kosta ekki nema 7 prósent af útgjöldum til heilbrigðismála. Sjálfstæðu stofurnar eru hagkvæmur kostur og veita afbragðsþjónustu,“ segir hann

Lagði steikinni og tók upp símann

Ragnar sóttist eftir læknisstöðu á gigtlækningadeild Landspítalans þegar hann flutti heim eftir sérnám, en þar var ekki laus staða. Úr varð að honum var boðið starf á lyflækningadeild.

„Sigríður Þórdís Valtýsdóttir vildi fá mig á almennu lyflækningadeildina. Hún er besti yfirlæknir sem ég hef haft. Hún er mögnuð. Hún er rosalegur nagli. Saman erum við búin að gera allan fjárann. Við erum búin að opna bráðalyflækningadeild, setja upp sýklalyfjamóttöku þar sem fólk getur komið við og fengið sýklalyf í æð. Við höfum endurbætt ýmislegt verklag og gert margt ótrúlega spennandi. Þetta hefur verið rosalega gaman.“

Ragnar skiptir tíma sínum á milli Landspítalans og Klíníkurinnar í Ármúla sem hann starfar á, en þar sinnir hann gigtlækningum.

Í byrjun COVID-faraldursins voru Ragnar og fjölskylda sett í sóttkví, þar sem þau höfðu verið í Austurríki á skíðum. „Ég ætlaði að nýta tímann í að skrifa uppskriftir og elda eitthvað gott en þá hringdi Ólafur Guðlaugsson, yfirlæknir sýkingavarnadeildar, og spurði hvort ég væri til í að taka að mér að hringja í sjúklinga sem voru í sóttkví. Ég var á launum og gat ekki sagt nei,“ segir Ragnar léttur, lagði frá sér nautasteikina og tók upp símann. Nokkrum dögum síðar var hann orðinn yfirlæknir á COVID-göngudeild Landspítalans.

„Þetta var 10. mars og það voru kannski 60 veikir og bara örfáir starfsmenn í verkefninu. Þetta er á miðvikudegi. Daginn eftir er talan komin upp í 90 og þar á eftir 120. Þá er ég búinn að hringja í alveg rosalega margt fólk. Það kveikti fjölda hugmynda og ég fór að senda út tölvupósta til formanns farsóttarnefndar, framkvæmdastjóra lækninga og fleiri aðila og við förum að kasta á milli okkar hugmyndum um hvernig væri best að framkvæma þetta.

Við ákváðum þá frá byrjun að gera þetta mjög skipulega. Allir voru strax áhættuflokkaðir, einkennin vigtuð og hannað var staðlað form sem reyndist okkur mjög dýrmætt til að safna miklum upplýsingum.“

Lagði nautasteikinni og tók upp símann
Mynd / Anton Brink

Símtölin voru lykillinn

„Við sáum bara strax að það var þarna gífurlegt tækifæri fólgið í því að hringja í fólk. Þú heyrir þegar því versnar. Þá er nauðsynlegt að gera eitthvað. Við vissum bara ekki hvað þetta „eitthvað“ var.“

Ragnar tekur við COVID-göngudeildinni á sunnudegi. „Á mánudegi er búið að stofna níu manna stýrihóp, það eru 40 hjúkrunarfræðingar mættir til vinnu sem hjálpa okkur að hringja. Við það bætast 30 læknar og á miðvikudeginum er búið að ákveða að búa til nýja göngudeild. Sú deild var standsett á viku í Birkiborg, sem var innréttuð á mettíma af iðnaðarmönnum Landspítala

Þetta var í raun alveg galið. Heil deild var byggð á átta dögum. Símaverið var í gangi á meðan og var opið allan sólarhringinn. Við þróuðum líka snjallforrit sem var tilbúið fyrir páskana, þar sem sjúklingar voru beðnir um að skrá einkenni og fengu einnig leiðbeiningar um hvað ætti að borða, drekka, leiðbeiningar frá sjúkraþjálfara um öndunaræfingar og annað slíkt.“

Ragnar segist ekki vita til þess að slíkt hafi verið gert annars staðar í heiminum. „Allir sem greindust færðust rafrænt inn í COVID-göngudeildina, þar sem hópur lækna og hjúkrunarfræðinga tók á móti þeim. Fólk var litakóðað eftir áhættustigi og þeir sem voru með hátt áhættustig voru kallaðir inn eða fengu símtal á hverjum degi, á meðan aðrir fengu kannski símtal á fjögurra daga fresti.“ Sjúklingarnir gátu alltaf náð í COVIDteymið í gegnum síma eða app.

Frelsi til að gera

„Það hefur enginn núlifandi stjórnandi eða stjórnmálamaður tekist á við slíkan heimsfaraldur. Þarna fengu læknarnir og hjúkrunarfræðingarnir að gera þetta eftir sínu höfði. Ef við stungum upp á því að við þyrftum 60 hjúkrunarfræðinga, þá voru þeir mættir daginn eftir.“

Engin stjórnsýsla hægði á starfi COVID-teymisins, þar sem ákvarðanir voru teknar og þeim hrint í framkvæmd af fagfólkinu sjálfu. Spurður um innri átök segir hann þau hafa verið lítil sem engin.

„Þarna er heimsfaraldur og enginn veit í raun hvað á til bragðs að taka. Upplýsingarnar eru að verða til á hverjum degi og allir eru auðmjúkir fyrir því að við vitum ekki í raun hvað við eigum að gera, en við kunnum þessa stöðluðu læknisfræðilegu nálgun. Aðferðafræðin er 4.000 ára gömul og hún virkar. Þetta var líka ótrúlega góður hópur og það er eiginlega lygilegt, maður þurfti eiginlega aldrei að karpa við neinn.“

Ragnar segir uppskriftina að velgengni í baráttunni við COVID vera einfalda. „Vandamálin væru færri ef fólkið á gólfinu væri bara spurt: Hvernig er nú best að gera þetta? Þekkingin er á staðnum. Það þarf að styðja við hugmyndir starfsfólksins. Það var það sem var gert. Við fengum að stýra ferðinni.“

Vel giftur og sáttur

Færri hjartaáföll

„Landspítalinn er stærsta stofnun Íslands með yfir 6.000 starfsmenn. Það eru gríðarlega mörg síló úti um allt. Það er mikil innri pólitík, en þarna hvarf hún. Það var allt sett til hliðar. Fólk var líka að halda í sér með að koma á bráðavaktina. Þetta er í raun ótrúlegt. Í þrjár vikur fékk fólk færri hjartaáföll. Við vorum einmitt að velta fyrir okkur hvar allir nýrnaog gallsteinarnir væru. Hvar er allt þetta fólk?“ Ragnar segir að þegar faraldurinn fór að dvína hafi fólk mætt aftur á bráðamóttökuna.

„Það biðu mín 160 tilvísanir þegar ég kom til baka á stofuna mína. Ég startaði 20-30 manns á krabbameinslyfjum í síðustu viku. Fólk hefur haldið í sér og ekki kvartað.“ Hann segir erfitt að hugsa til þess að fólk hafi verið sárkvalið heima.

Ragnar er óhræddur við eftirköstin. Hann segir óumflýjanlegt að faraldurinn blossi upp í einhverri mynd aftur. „Það er óumflýjanlegt, en við erum með skothelda uppskrift sem virkar. Það er ekkert sem segir að hún muni ekki virka ef við beitum henni með sama hætti.“

Opna landið þó að enn sé ósamið

Ragnar viðurkennir að sér hafi brugðið við að heyra að landið yrði opnað 15. júní. „Ég sagði að þau tíðindi væru eins og þruma úr heiðskíru lofti, en það er kannski fulldjúpt í árinni tekið. Aðallega var ég undrandi. Mér fannst vera svo varfærnislegur tónn í þríeykinu fram að þessu. En svo er bara 15. júní dagsetningin, og það er bara eftir mánuð.

Ég varð andvaka yfir þessu. Ég velti þá aðallega fyrir mér hvort það hefði ekki verið skynsamlegra að ræða þetta við okkur starfsmennina á spítalanum og í heilsugæslunni, smitsjúkdómalæknana og starfsfólk COVID-deildarinnar áður og velta upp spurningunni: Erum við tilbúin í aðra umferð?“

Ragnar segir að 15. júní sé kannski ekkert verri en 15. ágúst, en það þurfi að undirbúa fólk og taka samtalið. Samskipti og samráð sé lykillinn að breytingastjórnun. „Vara fólk við og hlusta á áhyggjur þess. Það breytir kannski engu um upprunalega áætlun en þeir sem eiga að vinna verkið eru þá tilbúnir.

Svo verður bara að segjast eins og er, það situr í mér að það er enn ósamið við alla. Það er ekki búið að semja við hjúkrunarfræðinga, lækna og lögreglumenn. Það erum við sem stöndum í skotgröfunum.“ Hann segist þó skilja vel að gjaldeyristekjurnar séu að fjármagna þessa starfsemi. „Ég skil þessa dýnamík en það hefði verið auðveldara að fá fólk með sér í lið, hefði verið byrjað á að semja við það.“

Ástin og rjóminn

Ragnar er kvæntur æskuástinni sinni Snædísi og saman eiga þau tvær stelpur og einn dreng. Eftir að Ragnar hafði lokið sérnámi í Lundi í Svíþjóð fluttu þau til Bretlands, þar sem Snædís fór í framhaldsnám í sálfræði. Hann segir að fjölskyldan ætli sér ekki að flytja aftur til útlanda

„Ég hugsa að ég hefði ekki fengið sömu tækifæri í Svíþjóð. Ég vinn á einni öflugustu deild Landspítalans með frábæru fólki. Ég rek mína eigin stofu eins og ég vil. Gleðin og lífshamingjan er í fjölbreytninni og því að geta stjórnað eigin örlögum. Þetta er mitt val. Ég væri líklega ekki með sjónvarpsþætti í Svíþjóð og að skrifa bækur á milli.“

Heimilislífið er á köflum strembið enda Ragnar mikið frá vegna vinnu. „Ég vann mikið með skóla. Við eignuðumst fyrstu dóttur okkar snemma og keyptum okkur íbúð sem þurfti að borga. Ég hef því alltaf unnið mikið, en er heppinn hvað ég er vel giftur.“

Ragnar segir að vinnusemi hafi alltaf fylgt sér og honum verði mikið úr verki, en hann sé ekki á leið í kulnun því jafnvægið sé til staðar. „Ég kann alveg að slaka á. Held matarboð og fer til útlanda. Ég fer í skvass tvisvar, þrisvar í viku og vakna útsofinn. Það er málið.“

Ragnar segir markmið sitt í lífinu vera að stjórna eigin örlögum og hitt sé að gera konuna sína hamingjusama. Spurður hvernig það sé að búa með sálfræðingi og hvort hún sé ekkert að sálgreina hann yfir fiskibollunum svarar hann: „Jújú. Ég er búinn að vera í stanslausri meðferð í 20 ár. Snædís, er ég ekki batnandi?“ kallar hann þá fram til konunnar sinnar sem er að sýsla við kókoskúlur með yngstu dóttur þeirra.

„Jújú. Eins og gott rauðvín,“ segir hún hlæjandi.

„Mér fer fram,“ segir Ragnar Freyr, samningslaus en merkilega brattur eftir orrustu lífs síns

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Í gær

Forsetaframbjóðandinn sem gerðist miðill – Hannes lætur efasemdaraddirnar sem vind um eyru þjóta

Forsetaframbjóðandinn sem gerðist miðill – Hannes lætur efasemdaraddirnar sem vind um eyru þjóta
Fókus
Fyrir 2 dögum

Margrét Friðriks tekur upp nýtt nafn – „Finnst það koma með ferskan blæ inn ì mitt líf“

Margrét Friðriks tekur upp nýtt nafn – „Finnst það koma með ferskan blæ inn ì mitt líf“
Fókus
Fyrir 2 dögum

Kanye West ætlar í klámið

Kanye West ætlar í klámið
Fókus
Fyrir 2 dögum

Leitar sér hjálpar vegna Ozempic notkunar eftir ákall áhyggjufullra aðdáenda

Leitar sér hjálpar vegna Ozempic notkunar eftir ákall áhyggjufullra aðdáenda