fbpx
Mánudagur 06.júlí 2020
Fókus

„Mér finnst eins og við séum allt í einu hætt að vera par og frekar bara bestu vinir“

Fókus
Sunnudaginn 24. maí 2020 22:00

Kristín Tómasdóttir, hjónaráðgjafi

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Kristín Tómasdóttir, hjónabandsráðgjafi með meiru, svarar spurningum lesenda um málefni er varða fjölskylduna, börnin og ástina í Fjölskylduhorni DV. Að þessu sinni svarar Kristín spurningu lesanda sem heldur að ástríðan í hjónabandinu sé dauð.

_ _ _ _ _ _ _ _ _ _ _

 

Góðan daginn. Mitt vandamál er kannski ekki alveg vandamál. En ég hef verið í sambandi í þónokkurn tíma og það er eins og neistinn sé alveg farinn. Við erum dásamlegir vinir. Eigum góðar og innihaldsríkar samræður, sinnum sameiginlegum áhugamálum og eyðum miklum tíma saman. Engin rifrildi, ekkert vesen. En mér finnst eins og við séum allt í einu hætt að vera par og frekar bara bestu vinir, ef það meikar eitthvað sense. Það er eins og ástríðan hafi bara farið og við gefum okkur sjaldan, eiginlega aldrei, tíma til að stunda kynlíf og þegar það gerist þá er meira eins og það sé af skyldurækni og ekkert mikil rómantík í því.

Ég veit ekki hvað ég á að gera. Ef ég sting upp á skilnaði þá er ég búin að missa hann frá mér sem besta vin sem ég vil alls ekki, en hins vegar er frekar leiðinlegt að ástalífið sé bara alveg dautt. Ég er bara hreinlega of ung til að sætta mig við slíkt. Er hægt að endurvekja blossann eða þýðir þetta að við séum kannski betur stödd sem vinir?

_ _ _ _ _ _ _ _

Takk innilega fyrir góða spurningu sem ég leyfi mér að fullyrða að margir kannist við.

Það er aldrei allt dans á rósum

Ástarsamband er alltaf að þróast og breytast, enda minnsta eining fjölskyldunnar og á þessari einingu byggir vellíðan og velgengni í tengslum við svo margt. Þá á ég við börnin, álagstoppa og áföll, sem og hversdagslega viðburði eins og að sjóða ýsu og sækja í leikskólann.

Það er aldrei allt dans á rósum hjá neinum, en það virðist sem pör þurfi að hafa mismikið fyrir því að njóta þess að vera saman. Helst viljum við að ástarsambandið sé ekkert rosalega mikil vinna, heldur að það gangi nokkuð smurt og að grunnstoðirnar séu í lagi.

Aftur á móti eru til leiðir til þess að bæta ástarsambönd og endurvekja blossann, eins og þú orðar það. Ef það væri ekki satt þá myndi ég ekki nenna að sinna mínu starfi, trúðu mér, ég sé fullt af árangri þar sem fólk vinnur mikið þrekvirki og finnur þráðinn á ný.

Ekki tala heldur skynja

Ég hnýt aðeins um það að þú stillir þessu upp hlið við hlið, það er að það sé lítil ástríða í sambandinu og hvort það þýði að þið þurfið að skilja. Ég velti fyrir mér hvort það gæti ekki verið ráð að reyna að endurvekja ástríðuna áður en þið farið að ræða skilnað? Hvað hafið þið reynt í þeim efnum?

Það gæti reynst vel að taka frá tíma í slíka vinnu, eiga „fundi“ þar sem þið gerið æfingar, eigið samtöl eða gerið eitthvað saman sem vinnur með ykkur. Ekki stefnumót með flugeldasýningu heldur hitting þar sem þið gefið hvort öðru tíma til ástríðu.

Það hefur sýnt sig að til dæmis núvitundaræfingar líkt og að tengjast í gegnum skynfærin, það er finna lyktina, horfast í augu og snerta hvort annað varlega, getur styrkt ósýnileg tengsl. Ekki tala heldur skynja.

Þá er alltaf gaman að rifja upp hvað það var sem fékk ykkur til að fella hugi saman. Hvernig var þetta þegar þið voruð að byrja saman? Hvað var þá sem ekki er núna? Er hægt að ná í það aftur?

Við þráum það sem við fáum ekki

Vinátta er algjör grundvallarstoð í góðum ástarsamböndum. Þú nefnir að þið búið yfir henni, frábært, þrjú stig! Ofan á vináttu er hægt að byggja svo margt en þegar þú nefnir ástríðu þá vantar mig ítarlegri skilgreiningu. Í ástríðu felst ýmislegt, ekki bara kynlíf heldur líka þrá, væntingar, hlýja, nánd og fantasíur.

Þrá mótast í æsku, af uppeldi og umhverfi. Við lærum hvað er æskilegt að þrá og hvað ekki. Meðal annars þess vegna er þrá oft á skjön við lífsskoðanir fólks. Þarna getur til dæmis skipt máli að það hafi hvílt skömm yfir kynferðislegri þrá á uppeldisárunum, eða verið talið óæskilegt að til dæmis konur mættu yfir höfuð þrá eitthvað í karlmanni.

Sennilega er þetta efni í heila bók, en í ykkar samhengi gæti verið fróðlegt að ræða hvað þið þráið og hvað ykkur vantar í tengslum við það. Mundu að við þráum það sem við fáum ekki, svo mögulega er það einmitt það hversu góð þið eruð saman, hvað þið eruð aðgengileg hvort öðru, sem er að vinna gegn ykkur.

Gefið ykkur tíma og leikið ykkur

Stundum er talað um að skylduræknikynlíf (eins og þú kallar það) geti hleypt af stað meiri nánd, það er að rífa plásturinn af ef langt er liðið frá síðasta skipti. Það gæti þó verið hjálplegt fyrir ykkur að skoða hvort skylduræknikynlífið sé einmitt að hamla ykkur. Er það að koma í veg fyrir að þið leyfið ykkur að hafa væntingar um eitthvað meira eða öðruvísi? Hafið þið prófað að skapa ástríðu án þess að kynlíf fái að taka þar pláss?

Mig langar einlæglega að skapa hjá ykkur von og trú á að vinna til þess að auka ástríðu geti skilað góðum árangri og þurfi alls ekki að vera leiðinleg, síður en svo. Ræðið saman, gefið ykkur tíma og leikið ykkur. Góða skemmtun

_ _ _ _ _ _ _ _ _ _

Við hvetjum lesendur til að senda spurningar og vangaveltur sínar til Kristínar í tölvupósti á: hjonabandssaela@gmail.com. Spurningunum verður svo svarað hér í Fjölskylduhorninu, að sjálfsögðu nafnlaust og í fullum trúnaði.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af

Fókus
Fyrir 6 dögum

Vikan á Instagram: „Erfitt að vera Kim Kardashian fjölskyldunnar“

Vikan á Instagram: „Erfitt að vera Kim Kardashian fjölskyldunnar“
Fókus
Fyrir 1 viku

„Þá byrjar einhver atburðarás sem líkist martröð“

„Þá byrjar einhver atburðarás sem líkist martröð“
Fókus
Fyrir 1 viku

Jóhannes Kr. og Sölvi um símtölin eftir að dóttir Jóhannesar dó

Jóhannes Kr. og Sölvi um símtölin eftir að dóttir Jóhannesar dó
Fókus
Fyrir 1 viku

Jói Haukur um Eurovision-myndina – „Þetta er meistaraverk“

Jói Haukur um Eurovision-myndina – „Þetta er meistaraverk“